Hoppa yfir valmynd
7. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur skipaður til að skoða heimilið á Hjalteyri

Vigdís Häsler Sveinsdóttir - mynd

Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra, hefur skipað þriggja manna starfshóp undir forystu Vigdísar Häsler Sveinsdóttur, lögfræðings, til að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga um starfsemi heimilisins á Hjalteyri svo unnt sé að taka ákvarðanir um hvort og með hvaða hætti starfsemin verði tekin til frekari rannsóknar og þá hver aðkoma viðkomandi sveitarfélaga skuli vera.

Aðrir í starfshópnum eru Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson, lögmaður, og Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta. Starfsmaður hópsins er Ingibjörg Gyða Guðrúnardóttir, tengiliður sanngirnisbóta.

Löggjöfin sem gilti um starfsemi vistheimilanefndar, lög nr. 26/2007 um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, hefur verið felld úr gildi þar sem ekki var talin þörf á frekari könnunum vistheimilanefndar til að ljúka uppgjöri sanngirnisbóta.

Verkefni hins nýstofnaða starfshóps munu ná til þess að lýsa tildrögum að starfsemi heimilisins, lýsa því hvernig opinberu eftirliti var háttað og skila tillögum til stjórnvalda um frekari viðbrögð og afmörkun verkefnisins. Hópurinn á að lokum að lýsa þeim lagahindrunum sem eru fyrir frekari rannsókn málsins og eftir atvikum að leggja fram tillögu að því hvort niðurstöður starfshópsins kalli á lagabreytingar. Miðað er við að starfshópurinn taki meðal annars til nánari skoðunar rannsóknir og skýrslur vistheimildanefndar.

Starfshópurinn hefur þegar tekið starfa.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira