Hoppa yfir valmynd
7. maí 2019 Matvælaráðuneytið

Tillögum að innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila skilað til ráðherra

Brynja Laxdal formaður starfshópsins afhendir Kristjáni Þór Júlíussyni skýrsluna - mynd

Starfshópur um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila hefur lokið störfum og afhent Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skýrsluna.

Ríkið kaupir matvæli fyrir um 3 milljarða króna á ári og ljóst er að stórkaupandi eins og ríkið getur haft víðtæk áhrif á eftirspurn matvæla og eflingu nýsköpunar. Það er vilji stjórnvalda að ganga á undan með góðu fordæmi og stuðla að því að innkaup ríkisaðila á matvælum byggi á raunhæfum úrbótum í samvinnu við hagaðila og verði fyrirmynd annarra opinberra aðila eins og sveitarfélaga.

Stefnan tekur mið af því að opinber innkaup matvæla fyrir ríkisaðila stuðli að jákvæðum umhverfisáhrifum við framleiðslu, flutninga og umsýslu matvæla. Lögð er áhersla á að máltíðir í mötuneytum séu í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis um hollt mataræði og að neytendur séu upplýstir um uppruna og næringargildi matarins. Í stefnunni eru þrjú meginmarkmið og aðgerðir til að ná þeim.

Í stefnunni er m.a. fjallað um umhverfisáhrif, matarsóun, matvælamerkingar, rekjanleika, reiknilíkan fyrir kolefnisspor, næringarútreikninga, innkaupaferla, eftirfylgni, fræðslu og viðurkenningu á góðum starfsháttum.

Sú stefna að hækkandi hlutfall matvæla uppfylli vistvæn skilyrði í opinberum innkaupum verður aðeins innleidd yfir nokkurra ára tímabil með sífelldu samráði við fulltrúa hagaðila og með aðkomu ráðuneyta eins og fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Markmiðið er að framleiðendur, birgjar/bjóðendur og innkaupastjórar matvæla hafi tíma til að aðlagast eftirspurn og kröfum sem settar eru fram í innkaupastefnunni. Það er ekki óeðlilegt að innkaupastefna matvæla sé í sífelldri mótun vegna ytri aðstæðna, tæknivæðingar og markaðsumhverfis.

Drög að innkaupastefnunni lágu fyrir í samráðsgátt í 14 daga og er búið að taka tillit til þeirra umsagna sem bárust eftir því sem tilefni var til.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum