Hoppa yfir valmynd
25. mars 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nauðsynlegt að taka á skyndilánum

Umboðsmaður skuldara og Samtök fjármálafyrirtækja stóðu fyrir opinni ráðstefnu um ungt fólk og lánamarkaðinn í morgun. Þar var lögð megináhersla á fólk á aldrinum 18 til 29 ára sem hefur verið að taka smálán eða skyndilán, eins og umboðsmaður skuldara nefnir þau. Markmiðið var að opna umræðuna á meðal fagfólks en ekki síður að auka vitund neytenda um breytt landslag í lánamálum.

Ráðstefnunni var einnig ætlað að vekja athygli á vaxandi fjölda ungs fólks sem tekur skyndilán  í gegnum vefsíður eða með smáforritun í gegnum farsíma en þessi lán eiga það sameiginlegt að einfalt er að sækja um þau. Þau eru jafnframt afgreidd á mjög skömmum tíma.

Markaðssetningu þessara lána hefur einkum verið beint að ungu fólki með afar beinskeyttum hætti. Tryggja þarf að einstaklingar, og þá sérstaklega ungt fólk, hafi forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir og því þykir lykilatriði að samræmd fjármálafræðsla sé í boði sem víðast.

Á ráðstefnunni voru meðal annars kynntar helstu tillögur starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja. Þá fór Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, yfir stöðuna eins og hún blasir við hjá þeim sem leita til embættisins vegna greiðsluerfiðleika sem stafa af nýjum lánamöguleikum. Í máli hennar kom fram að 79 prósent umsækjenda um greiðsluaðlögun á aldrinum 18-29 voru með skyndilán árið 2018. Voru skyndilán um 22 prósent af heildarskuldum umsækjanda á sama aldursbili.

Skyndilán sem fela í sér kostnað langt umfram lögbundið hámark hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni undanfarin misseri. Ljóst er að fólk tekur almennt ekki lán á kjörum þar sem árleg hlutfallstala kostnaðar mælist í hundruðum eða þúsundum prósenta nema af illri nauðsyn. Því er nauðsynlegt að lagaramminn sé skýr og úrræði eftirlitsaðila gagnvart þessari þjónustu sé til staðar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, flutti ávarp og sagði meðal annars: „Ungt fólk er viðkvæmur hópur sem halda þarf vel utan um. Freistingarnar eru við hvert fótmál. Lánsfé er að því er virðist auðfengið og lítil þörf á umhugsunarfresti áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar í fjármálum. Áhrif smálána á greiðsluvanda þeirra sem leita til umboðsmanns skuldara hafa aukist umtalsvert. Hér þarf að bregðast við. Nærtækast er að líta til þeirra lausna sem leitað hefur verið hjá nágrannaþjóðum okkar.“

Ásmundur nefndi að í Noregi hefur til dæmis verið sett bann við því að setja fram upplýsingar um hversu hratt er hægt að fá lán afgreitt og hversu hratt megi búast við að fá svar við fyrirspurn um lán. Eins hefur verið lagt bann við því að taka fram að lágur þröskuldur sé fyrir lánveitingu, að umsóknarferli sé einfalt eða að lánið sé auðveldlega aðgengilegt með öðrum hætti. Í Svíþjóð hafa verið settar reglur um að lánveitanda beri að veita sérstakar upplýsingar um áhættuna sem fylgir því að taka lán af þessu tagi og upplýsingar um hvert neytandi geti leitað í skuldavanda.

Ásmundur sagði mikilvægt að tryggja börnum og ungmennum samræmda fræðslu um fjármál og gera þeim þannig kleift að taka upplýstar ákvarðanir í eigin fjármálum. „Sameiginlegt markmið ætti að vera að ungt fólk hefji ekki sitt fjárhagslega sjálfstæði með skuldir í farteskinu,“ sagði Ásmundur Einar.

  •  Ráðstefnan var haldin á vegum umboðsmanns skuldara og samtaka fjármálafyrirtækja. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum