Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna

Frá fyrsta fundi stýrihópsins, 22. janúar 2019 - mynd

Hinn 15. janúar 2019 var formlega skipaður stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna sem verður undir stjórn félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einar Daðasonar. Fyrsti fundur stýrihópsins var í dag, 22. janúar. Hlutverk stýrihópsins er að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta og móta stefnu Íslands, framtíðarsýn og markmið í málefnum barna og kemur í kjölfar þess að í september sl. rituðu fimm ráðherrar sem fara með málefni barna, þ.e. félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, auk  Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir viljayfirlýsingu þess efnis að auka ætti samstarf milli málefnasviða sem undir hvern og einn aðila heyrði og varðaði velferð barna.

Ráðherra og stýrihópnum til ráðgjafar verður sérstakt ráð með fulltrúum stofnana, félagasamtaka og fleiri aðilum samfélagsins, þar sem börn munu fá beina aðkomu og stuðning við að tjá afstöðu sína. 

Ásmundur Einar fagnar þessum vettvangi sem hann telur eigi eftir að styrkja verulega stöðu barna á Íslandi: „Það er greinilegur vilji í samfélaginu til þess að huga að velferð barna og ungmenna og í ráðuneytum stjórnarráðsins fer fram margskonar mikilvæg vinna í þá veru. Ég vonast til þess að með stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna getum við náð betri heildarsýn á málaflokkinn, öll róið í sömu átt og sameinað krafta okkar í þágu barna.”

Stýrihópurinn mun styðja við og starfa með nefnd þingmanna um málefni barna skipuðum af félags- og barnamálaráðherra, með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, sem vinnur nú að heildarendurskoðun á þjónustu við börn hér á landi.

Stýrihópinn skipa

  • Erna Kristín Blöndal, án tilnefningar, formaður
  • Guðni Olgeirsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra
  • Ingibjörg Sveinsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðherra
  • Elísabet Gísladóttir, tilnefnd af dómsmálaráðherra
  • Gústav Aron Gústavsson, tilnefndur af samgöngu- og sveitastjórnarráðherra
  • Fanney Karlsdóttir, tilnefnd af forsætisráðherra
  • Þór G. Þórarinsson, tilnefndur af félags- og barnamálaráðherra

- Sjá frétt um viljayfirlýsinguna
- Viljayfirlýsingin

  • Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í Ráðherrabústaðnum, 7. september 2018 - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum