Hoppa yfir valmynd
25. júní 1996 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reglur nr. 351/1996, um form ráðningarsamninga og um skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör

1. gr.
Gildissvið

Reglur þessar gilda um þá starfsmenn ríkisins sem falla undir skilgreiningu 1. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og teljast ekki embættismenn skv. 22. gr. sömu laga.

2. gr.
Lágmarksákvæði um ráðningarkjör

Skriflegur ráðningarsamningur skal gerður við starfsmann við upphaf ráðningar. Í honum skal a.m.k. eftirfarandi koma fram:

 1. Deili á aðilum.
  1. Nafn, heimilisfang og kennitala stofnunar.
  2. Nafn, heimilisfang og kennitala starfsmanns.
 2. Vinnustaður. Sé ekki um fastan vinnustað að ræða, eða stað þar sem vinnan fer jafnaðarlega fram, skal koma fram að starfsmaður sé ráðinn á mismunandi vinnustöðum og skulu þeir þá tilgreindir sérstaklega.
 3. Eðli starfs: Starfsheiti skv. kjarasamningi og tegund starfs sem starfsmaður er ráðinn í eða stutt útlistun eða lýsing á starfinu.
 4. Vinnutímaskipulag, þ.e. dagvinna, vaktavinna eða annað fyrirkomulag og þá hvers konar. Starfshlutfall og dagleg og/eða mánaðarleg vinnuskylda.
 5. Ráðning, þ.e. hvort ráðning er ótímabundin eða tímabundin.
 6. Upphafsdagur ráðningar.
 7. Starfslokadagur ef ráðning er tímabundin.
 8. Lífeyrissjóður.
 9. Stéttarfélag.
 10. Mánaðarlaun, t.d. með tilvísun til launataxta og aðrar greiðslur.
 11. Greiðslutímabil launa.
 12. Orlofsréttur.
 13. Uppsagnarfrestur af hálfu vinnuveitanda og starfsmanns.
 14. Réttur til launa í barnsburðarleyfi.
 15. Réttur til launa í veikindum.

Upplýsingar skv. 11.- 15. tl. er heimilt veita með tilvísun til laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða kjarasamninga.

3. gr.
Störf erlendis

Sé starfsmanni ríkisins, öðrum en starfsmanni utanríkisþjónustu, falið að starfa í öðru landi í einn mánuð eða lengur, skal hann fyrir brottför fá skriflega staðfestingu á eftirfarandi ráðningarkjörum:

 1. Áætlaður starfstími erlendis.
 2. Í hvaða gjaldmiðli laun eru greidd.
 3. Uppbætur eða hlunnindi sem tengjast starfi erlendis.
 4. Eftir atvikum skilyrði þess að starfsmaður geti snúið aftur til heimalandsins.

Upplýsingar skv. 2. og 3. tl. má gefa með tilvísun til laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða kjarasamninga.

4. gr.
Afmarkaðar breytingar á ráðningarkjörum

Verði breytingar á ráðningarkjörum, skv. 2. og 3. gr., umfram það sem leiðir af lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða kjarasamningum, skal stofnun staðfesta breytingarnar með skriflegum hætti.

5. gr.
Sérákvæði varðandi fyrri ráðningar

Óski starfsmaður, sem ekki hefur ráðningarsamning sem uppfyllir skilyrði 2. gr. og ráðinn var fyrir gildistöku laga nr. 70/1996, skriflegrar staðfestingar ráðningar í samræmi við reglur þessar, skal stofnun láta honum í té slíka staðfestingu innan tveggja mánaða frá því beiðnin er fram komin.

6. gr.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 1. mgr. 8.gr. og 42. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, öðlast gildi 1. júlí 1996.


Fjármálaráðuneytinu 25. júní 1996

Friðrik Sophusson
_______________
Magnús Pétursson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira