Hoppa yfir valmynd
7. júlí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi - framkv.áætlun til aldamóta

Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi
- framkvæmdaáætlun til aldamóta

Efnisyfirlit


Formáli umhverfisráðherra

1. Inngangur

2. Ástand umhverfismála á Íslandi
2.1 Umhverfisvöktun
2.2 Land, jarðvegur og gróður
2.3 Hafið: lifandi auðlindir og mengun
2.4 Andrúmsloftið: loftmengun og orkugjafar
2.5 Náttúruvernd
2.6 Alþjóðlegar skuldbindingar
2.7 Álag og aðsteðjandi ógnir

3. Markmið og leiðir
3.1 Grundvallarreglur umhverfisréttar
3.2 Tæki til að ná markmiðum
3.3 Tillögur um markmið og framkvæmdir:
1) Landbúnaður
2) Sjávarútvegur
3) Orka og iðnaður
4) Nytjavatn og jarðefni
5) Samgöngu- og ferðamál
6) Meðferð úrgangs
7) Byggðaþróun
8) Umhverfisfræðsla
Formáli Guðmundar Bjarnasonar
umhverfisráðherra


Ör tækniþróun og vaxandi borgarmenning leiðir til þess að fólk ver æ meiri tíma í manngerðu umhverfi og tengslin við náttúruna minnka að sama skapi. Eftir sem áður byggir tilvera okkar á gæðum náttúrunnar. Öll okkar næring er sprottin úr mold jarðar eða heimt úr hafdjúpunum. Við þurfum að geta andað að okkur hreinu lofti og drukkið hreint vatn. Hráefni til bygginga og véla eru numin úr jörðu og orkan sem við notum er einnig fengin úr jörðu eða með því að beisla orku vatnsfalla, jarðvarma eða sólar.

Tæknin hefur búið okkur lengra og betra líf en forfeður okkar gátu vænst. Hún hefur líka gert okkur kleift að ofnýta auðlindir og spilla grunngæðum jarðar. Mannkynið er jafnvel farið að hafa veruleg áhrif á veðurfar og ósonlagið í háloftunum með umsvifum sínum. Sama tækni og hefur auðgað líf mannkynsins hingað til getur kippt grundvellinum undan velferð okkar, jafnvel tilveru, ef ekki er farið með gát.

Ég hef trú á því að það sé mögulegt að sameina áframhaldandi vöxt auðs og velferðar annars vegar og verndun gæða jarðar hins vegar. Ríki heims hafa tekið höndum saman til að svo megi verða undir merkjum sjálfbærrar þróunar. Íslendingar taka þátt í því alþjóðlega átaki, en við verðum líka að horfa í eigin barm, koma á sjálfbærri þróun í atvinnuvegum okkar og samfélagi.

Það verkefni verður ekki leyst eingöngu með atbeina umhverfisráðuneytis og stofnana þess, heldur verður að koma til sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja og samtaka - já, raunar allra Íslendinga. Þessi framkvæmdaáætlun er unnin með þetta í huga. Hún er ekki verkefnaskrá umhverfisráðuneytisins, heldur tillögur breiðs hóps manna úr flestum geirum samfélagsins. Á annað hundrað manns komu að smíði draga að framkvæmdaáætluninni og þau voru síðan lögð fyrir umhverfisþing, hið fyrsta sinnar tegundar, er ég boðaði til í nóvember 1996. Þingið breytti ýmsu til batnaðar og í því formi var framkvæmdaáætlunin samþykkt í ríkisstjórn.

Því fer fjarri að þessi framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að koma á sjálfbærri þróun sé tæmandi listi um fyrirhugaðar framkvæmdir á sviði umhverfismála á næstu árum. Hún hefur hins vegar að geyma yfirlit yfir aðgerðir sem ætla má að víðtæk samstaða ríki um að hrinda í framkvæmd og hún er að mínu mati þýðingarmikið skref í átt til sjálfbærrar samfélagsþróunar á Íslandi í byrjun nýrrar aldar.
1. Inngangur

Framkvæmdaáætlun þessi á sér forsögu, sem rekja má aftur til Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992. Í framhaldi af henni voru skipaðar sjö nefndir, sem fengu það hlutverk að gera tillögur um aðgerðir sem miðuðu að sjálfbærri þróun í íslensku atvinnulífi og þjóðfélagi. Sérstakur vinnuhópur gerði síðan útdrátt úr skýrslunum sjö og lagði hann fram sem drög að framkvæmdaáætlun fyrir umhverfisþing, hið fyrsta sinnar tegundar, sem haldið var í nóvember 1996. Þingið gerði nokkrar breytingar á drögunum og voru þau samþykkt af ríkisstjórninni í kjölfarið. Hér að neðan verður fjallað nákvæmar um forsögu framkvæmdaáætlunarinnar.

Ríó-ráðstefnan og Dagskrá 21

Ríó-ráðstefnan markaði tímamót í alþjóðlegri samvinnu og viðhorfum til umhverfismála. Þar var m.a. samþykkt ítarleg framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum fyrir heimsbyggðina, sem hlaut nafnið Dagskrá 21 (Agenda 21). Segja má að Dagskrá 21 sé sá grunnur sem einstök ríki byggja á í viðleitni sinni til að koma á sjálfbærri þróun á nýrri öld.
Í Dagskrá 21 er fjallað nokkuð um ábyrgð og skyldur ríkisstjórna til að hrinda henni í framkvæmd. Þar segir m.a. í formála: "Framkvæmd Dagskrár 21 er fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórna. Stefnumótun og áætlanagerð í einstökum ríkjum gegna lykilhlutverki við að ná settu marki. Alþjóðleg samvinna ætti að styðja við slíka viðleitni einstakra ríkja." Ennfremur segir í kafla 8: "Ríkisstjórnir, í samvinnu við alþjóðastofnanir þar sem það á við, skulu gera sér áætlun um sjálfbæra þróun viðkomandi ríkis, sem byggð sé á, ásamt öðru, ákvörðunum ráðstefnunnar og þá sérstaklega með tilliti til Dagskrár 21."
Þessi framkvæmdaáætlun í umhverfismálum tekur í veigamiklum þáttum mið af niðurstöðum Ríó-ráðstefnunnar og Dagskrá 21, þar sem reynt er að skilgreina hvaða leiðir skuli fara til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar.

Vinna 7 starfshópa

Í mars 1993 kom út skýrsla undir heitinu "Á leið til sjálfbærrar þróunar", sem samþykkt var sem stefnu- og framkvæmdaáætlun þáverandi ríkisstjórnar og byggði að verulegu leyti á niðurstöðum Ríó-ráðstefnunnar. Sú skýrsla verður að teljast fyrsta heildstæða stefnumótun í umhverfismálum á Íslandi. Í formála hennar sagði m.a.: "Hér er um að ræða grunn sem lagður verður til grundvallar við gerð ítarlegrar framkvæmdaáætlunar í umhverfis- og þróunarmálum sem taka mun til allra þátta íslensks samfélags."
Sú vinna hófst í september 1993, en þá skipaði þáverandi umhverfisráðherra sjö starfshópa til að vinna að gerð framkvæmdaáætlunar til næstu aldamóta, sem hefði sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Hóparnir fjölluðu um eftirfarandi málaflokka:
• umhverfismál og landbúnað,
• umhverfismál og sjávarútveg,
• umhverfismál, iðnþróun og orkumál,
• umhverfismál, ferða- og samgöngumál,
• úrgangsmyndun, sorphirðu og meðferð á spilliefnum,
• umhverfismál og byggðaþróun og
• umhverfisfræðslu.
Í vinnu starfshópanna tóku alls þátt 124 einstaklingar, sem tilnefndir voru af ýmsum aðilum í þjóðfélaginu, þ. á m. þingflokkum, sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, ýmsum stofnunum og áhugamanna- og umhverfisverndarsamtökum.
Hópunum var falið að skilgreina sjálfbæra þróun í viðkomandi málaflokkum og setja markmið til skemmri og lengri tíma, auk þess að gera tillögur um aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Hóparnir skiluðu skýrslum á árunum 1994-1995.
Í lok árs 1995 setti Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra á fót starfshóp sem fékk það verkefni að setja saman drög að framkvæmdaáætlun, sem samþykkt yrði af ríkisstjórninni og yrði byggð á skýrslum hópanna sjö. Formenn hópanna, eða staðgenglar þeirra hjá viðkomandi ráðuneytum, voru fengnir í starfshópinn til að aðstoða umhverfisráðuneytið við þá vinnu, en auk þess voru ráðuneytinu til ráðgjafar fulltrúar frá forsætis- og fjármálaráðuneytinu, auk fulltrúa þingflokka ríkisstjórnarflokkanna. Hugmyndin með þessum þætti vinnunnar við framkvæmdaáætlunina var sú að færa hana í búning sem gerði ríkisstjórninni kleift að samþykkja hana og auka vægi hennar þar með. Kaflaskipting framkvæmdaáætlunarinnar fylgir heitum skýrslanna sjö, utan að efni einnar skýrslunnar hefur verið skipt í tvo kafla (orka og iðnaður; nytjavatn og jarðefni).
Skýrslur hópanna sjö eru náma af upplýsingum um ástand í viðkomandi málaflokkum og sem slíkar hafa þær mikið sjálfstætt gildi, en ekki aðeins sem grunnurinn að meðfylgjandi framkvæmdaáætlun.

Umhverfisþing

Samhliða þeirri ákvörðun umhverfisráðherra að láta vinna framkvæmdaáætlun upp úr skýrslum hópanna sjö ákvað hann að boða til umhverfisþings - fyrstu samkomu sinnar tegundar hér á landi - þar sem lögð yrðu fram drög að framkvæmdaáætluninni. Hugmyndin að baki umhverfisþinginu var sú að ná sem víðtækastri samstöðu í þjóðfélaginu um metnaðarfulla framkvæmdaáætlun í umhverfismálum.
Umhverfisþing var haldið 8.-9. nóvember 1996. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra bauð tugum samtaka og stofnana að senda fulltrúa á þingið, þ. á m. öllum þeim aðilum sem áttu fulltrúa í starfshópunum sjö. Tóku rúmlega 200 manns þátt í störfum þingsins.
Þingið fjallaði m.a. um drög að meðfylgjandi riti. Farið var yfir einstaka kafla plaggsins í fjórum starfshópum eftir almennar umræður á þinginu og fjölmargar tillögur gerðar þar um endurbætur á texta þess. Umhverfisráðherra lagði síðan breytta útgáfu framkvæmdaáætlunar, að teknu tilliti til athugasemda umhverfisþings, fyrir ríkisstjórn og var hún samþykkt þar í febrúar 1997. Umhverfisráðuneytið mun fylgjast með framkvæmdinni og óska eftir skýrslum þeirra aðila sem framkvæmd einstkra aðila hvílir á.

Endurskoðun framkvæmdaáætlunar

Framkvæmdaáætlunin verður endurskoðuð af sérstakri nefnd sem umhverfisráðherra mun skipa. Í þeirri endurskoðun verður farið yfir tillögurnar og metið hvernig miðað hefur með framkvæmdina og eftir atvikum gerðar tillögur um frekari aðgerðir til umhverfisráðherra.

2. Ástand umhverfismála á Íslandi

Sú lýsing sem hér er á ástandi umhverfismála er hvergi nærri tæmandi, enda er ekki tilgangurinn með þessu riti að gefa ítarlegt yfirlit yfir ástand umhverfisins á Íslandi, heldur einungis að skýra betur ástæðurnar að baki þeim tillögum til úrbóta, sem hér liggja fyrir. Nákvæmari ástandslýsingu er t.d. að finna í skýrslum hópanna sjö, sem framkvæmdaáætlunin er byggð á.

2.1. Umhverfisvöktun

Umhverfisvöktun er fólgin í kerfisbundinni og síendurtekinni skráningu einstakra breytilegra þátta í náttúrunni. Slíkar breytingar geta átt sér náttúrulegar orsakir eða verið af manna völdum. Vöktun leiðir til aukins skilnings á náttúrunni og breytingar á henni.
Vöktun íslenskrar náttúru er margbrotin og nær allt frá mælingum á lofthjúpnum til eftirlits með hreyfingum í iðrum jarðar. Yfirlitið hér er vart tæmandi, en gefur þó mynd af því margbrotna starfi sem vöktun íslenskrar náttúru er.
Veðurstofa Íslands vaktar breytingar í lofthjúpi jarðar og safnar upplýsingum um allt land og á hafinu í kringum landið. Þessi gögn eru m.a. notuð til að spá fyrir veðri.
Vöktun lífríkis á landi, í vötnum og í sjó er í höndum fjölmargra aðila. Má þar nefna Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn, Líffræðistofnun Háskólans, Veiðimálastofnun, Skógrækt ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Hafrannsóknastofnun. Með slíkri vöktun fást m.a. gögn um skammtíma- og langtímabreytingar í lífríkinu þannig að hægt er að grípa til viðeigandi ráðstafana ef þurfa þykir.
Hafrannsóknastofnunin vaktar eðlis- og efnafræðilega þætti sjávar í tengslum við vöktun nytjastofna sjávardýra.
Vöktun á rennsli fallvatna og afkomu jökla er í höndum Vatnsorkudeildar Orkustofnunar og hefur sú starfsemi þróast í tengslum við virkjun fallvatna til raforkuframleiðslu.
Á vegum Veðurstofu Íslands og Raunvísindastofnunar Háskólans er jarðskorpan vöktuð m.a. með neti síritandi jarðskjálftamæla sem staðsettir eru víða um land. Slík vöktun hefur gert mönnum kleift í sumum tilvikum að segja fyrir um eldgos og hugsanlega verður í náinni framtíð hægt að segja fyrir um jarðskjálfta.
Hollustuvernd ríkisins vaktar mengun í umhverfinu en þörfin á þessum þætti vöktunar hefur farið stigvaxandi. Geislavarnir ríkisins vakta geislavirkni í umhverfi.
Engin heildarlöggjöf hefur enn verið sett um umhverfisvöktun hér á landi fremur en í nágrannalöndunum, en að því hlýtur að koma í árdaga nýrrar aldar.
2.2. Land, jarðvegur og gróður

Landnýting

Fram um miðja 20. öld voru landnot að mestu fólgin í beit, skógarhöggi og hrísrifi og öðru er tengist landbúnaði. Á seinni öldum var umferð um afrétti og almenninga að mestu tengd smölun búfjár. Síðan hafa landnot stöðugt orðið fjölbreyttari og umferð aukist ár frá ári í byggð og um óbyggð svæði.
Ferðaþjónusta er talin nýta mestallt landið, þó að erfitt sé að meta það nákvæmlega. Að henni sennilega frátalinni nýtir landbúnaðurinn stærstan hluta landsins, eða um 19% skv. tölum Hagstofu Íslands, en þar er miðað við akurlendi og beitilönd. Aðeins um 1.365 km2 (eða um 1,3% landsins) eru ræktaðir. Skóg- og kjarrlendi er talið þekja 1.445 km2 og landgræðslusvæði um 3.000 km2. Land undir byggingar og annað er snertir búsetu telst ná yfir 1.353 km2, eða nánast sama hlutfall og ræktað land. Þar af teljast samgöngumannvirki (vegir og flugvellir) ná yfir 587 km2, þ.e. 0,6%, en undir orkuframleiðslu og -dreifingu fara 523 km2, eða 0,5% landsins. Á sl. 20 árum hefur aukið land verið lagt undir þjóðgarða og friðlönd.

Gróður og jarðvegur

Frá upphafi byggðar á Íslandi hefur mikil gróður- og jarðvegseyðing átt sér stað. Rannsóknarstofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins hafa kortlagt jarðvegsrof á landinu öllu og samkvæmt yfirliti þeirra telst mikið rof vera á um 22% landsins. Gróðurkort er til af 2/3 hlutum landsins, en auk þess hefur verið gerð gróðurmynd af Íslandi sem byggð er á gervihnattargögnum.
Skógur þekur nú aðeins rúmt 1% af landinu, en talið er að um fjórðungur landsins hafi verið þakinn birkiskógi við landnám. Ræktað land er aðeins um 1,3% af heildarstærð landsins og um 90% þess eru tún.
Líklegt er að meira en helmingur votlendis hér á landi hafi tekið breytingum vegna framræslu á síðustu 50 árum. Í þéttbýlum sveitum, svo sem í lágsveitum Suðurlands, finnst vart votlendi, sem er ósnortið af framræslu. Árið 1975 var áætlað að 1200–1500 km2 mýrum hefðu verið ræstar fram, en síðan þá hefur framræslan mjög dregist saman og ætla má að hún hafi að einhverju leyti gengið til baka þar sem skurðum og ræsum hefur ekki verið haldið við.
Skipulögð landgræðslustarfsemi á Íslandi hófst árið 1907, en það ár voru sett lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands, sem líklega eru elstu lög sinnar tegundar í heiminum. Síðan þá hefur hættulegasti foksandurinn víðast verið heftur og tekist hefur að klæða mikil landflæmi gróðri að nýju auk þess sem meðferð beitilanda hefur batnað víða um land. Fjöldi tegunda plantna hefur verið fluttur til landsins á þessarri öld til notkunar í túnrækt, garðrækt, skógrækt og landgræðslu. Talið er að innfluttar tegundir hafi valdið lítilli röskun á íslenskum gróðurlendum, en dæmi eru um að slíkar tegundir séu að breiðast út.

Beitarnytjar

Beit er án efa sá þáttur íslensks landbúnaðar sem haft hefur hvað mest áhrif á umhverfið og breytt ásýnd landsins. Mjög hefur dregið úr álagi vegna sauðfjárbeitar samfara samdrætti í framleiðslu á undanförnum fimmtán árum. Á sama tíma hefur hrossum fjölgað og beitarálag af þeirra völdum vaxið. Hin alvarlegu vandamál í tengslum við núverandi beitarfyrirkomulag eru að verulegu leyti staðbundin og þau má leysa með beitarstjórnun, landbótum og aðlögun landbúnaðar að landgæðum á hverri jörð.
Fækkun sauðfjár hefur víða leitt til þess að gróður hefur styrkst. Bændur hafa þegar orðið varir við aukningu í afurðum þar sem færra er nú í högum. Þótt mikið hafi dregið úr sauðfjárfjölda hefur fækkuninni lítið sem ekki verið stýrt með tilliti til landkosta.
Beit á ræktað land er stjórnað og hún skipulögð fyrirfram. Í vaxandi mæli er reynt að stjórna beit á útjörð og afrétti þannig að miðað sé við ástand gróðurs hverju sinni.

Veiðinytjar

Á Íslandi eru 33 tegundir fugla sem heimilt er að veiða hluta úr ári eða allt árið. Að auki er heimilt, að uppfylltum vissum skilyrðum, að nytja dún, egg og/eða unga nokkurra fuglategunda sem annars eru friðaðar að hluta eða öllu leyti. Þá eru á Íslandi þrjár tegundir landspendýra (auk nagdýra) sem allar er heimilt að veiða og við strendur landsins eru tvær tegundir sela sem báðar er heimilt að veiða auk farsela.
Heildarveiði á flestum tegundum er ekki nægilega vel þekkt. Undantekningar eru refur, minkur og hreindýr þar sem árleg veiði er vel þekkt enda skylt að halda saman upplýsingum um veiði. Allgóðar upplýsingar eru einnig fyrir hendi um veiðar á útsel og landsel. Búast má við að þekking á ástandi ýmissa veiðistofna batni í kjölfar upptöku veiðikorta árið 1995 og skýrslugerðar og rannsókna sem fylgja veiðikortakerfinu.
Á Íslandi er mikill fjöldi áa og vatna og er fiskur í langflestum þeirra. Hér á landi hafa verið fimm tegundir ferskvatnsfiska frá alda öðli. Mikilvægastar eru lax, urriði, bleikja og áll, en einnig finnst hornsíli mjög víða. Ástand lax- og silungsstofna hér á landi er yfirleitt gott og erfðafræðirannsóknir hafa leitt í ljóst að laxastofnar eru í góðu jafnvægi. Mannvirkjagerð, m.a. virkjanir, kann að hafa haft neikvæð áhrif á viðgang fiskistofna. Efnistaka, vegagerð og aðrar framkvæmdir í og við ár geta og hafa valdið spjöllum á lífríki ánna.


2.3. Hafið: lifandi auðlindir, mengun

Ástand fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins

Afli á Íslandsmiðum hefur að jafnaði verið um 1,5 milljónir tonna á ári. Stjórnun veiða hefur leitt til þess að ástand þeirra tegunda sem mest eru nýttar er betra en víða annars staðar í heiminum. Þó hefur nýliðun í sumum mikilvægustu fiskistofnunum verið lítil nokkur undanfarin ár. Hér á eftir verður gerð grein fyrir ástandi nokkurra helstu fiskistofna, auk sjávarspendýra og mikilvægra hryggleysingja.

Þorskur. Veiðanlegur stofn (fiskur 4 ára og eldri) er áætlaður um 675.000 tonn árið 1996 og hrygningarstofninn um 380.000 tonn. Síðan 1985 eða í áratug hafa allir árgangar í þorskstofninum reynst undir meðallagi. Léleg nýliðun í áratug getur bent til að stærð hrygningarstofns sé óviðunandi. Samkvæmt veiðireglu sem tekin var upp árið 1995 skal hámarksafli á hverju ári takmarkaður við 25% af stærð veiðistofns þorsks, en fari þó ekki niður fyrir 155 þúsund tonn. Miðað við beitingu þessarar veiðireglu eru líkur á stofnhruni taldar litlar, eða vel innan við 1%.

Ýsa. Í ársbyrjun 1996 var veiðanlegur stofn (fiskur 3 ára og eldri) talinn um 155.000 tonn og hrygningarstofn um 95.000 tonn. Talið er að stofninn stækki verulega á næstu árum, þar sem von er á stórum nýliðunarárgangi.

Ufsi. Ufsastofninn minnkaði úr u.þ.b. 700.000 tonnum 1970 í innan við 300.000 tonn 1978, en hefur haldist nokkuð stöðugur síðan. Veiðistofn ufsa var metinn um 260.000 tonn í ársbyrjun 1996 og hrygningarstofn um 145.000 tonn. Veruleg óvissa ríkir um stærð uppvaxandi árganga.

Karfi. Gullkarfastofninn hefur minnkað mikið sl. áratug og er nú í mikilli lægð. Afli á sóknareiningu á djúpkarfa hefur farið minnkandi undanfarin ár samhliða aukningu í afla og sókn. Árið 1989 byrjuðu Íslendingar að veiða úthafskarfa. Bergmálsmælingar benda til að stofnstærð hans sé um 2,2 milljónir tonna.

Síld. Ofveiði og breytt lífsskilyrði í hafinu á sjöunda áratugnum ollu hruni hinna þriggja síldarstofna við Ísland: íslensku vorgotssíldarinnar, íslensku sumargotssíldarinnar, og norsk-íslensku síldarinnar. Íslenska sumargotssíldin var eini síldarstofninn við landið í 20 ár. Reglum um veiðar hennar hefur yfirleitt verið fylgt síðustu tvo áratugi og hrygningarstofninn hefur vaxið úr 10.000 tonnum árið 1972 í um 480.000 tonn 1996. Árið 1994 veiddu Íslendingar úr norsk-íslenska síldarstofninum í fyrsta sinn í 27 ár, en þá hafði tekist að byggja hrygningarstofninn upp í 2,5 milljónir tonna eftir hrunið á 7. áratugnum.

Loðna. Miklar sveiflur eru í stofnstærð loðnu frá náttúrunnar hendi. Veiðar hafa verið háðar kvótareglum síðan á vertíðinni 1979–1980, með það í huga að hrygningarstofninn sé a.m.k. 400.000 lestir. Það markmið hefur náðst með nokkrum undantekningum.

Hrognkelsi. Miklar sveiflur í hrognkelsaveiði virðast ekki standa í neinu sambandi við sókn því þær koma fram jafnt þar sem mikið er veitt og lítið.

Hryggleysingjar. Aflamagn innfjarðarækju hefur oftast verið nálægt því sem Hafrannsóknastofnun mælir með. Reglur um hámarksafla á úthafsrækju voru settar 1988 og eftir það hafa veiðar á henni verið nokkurn veginn í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar. Talið er að hörpudiskstofninn í Breiðafirði hafi minnkað um 30% frá árinu 1982. Humarstofninn virðist nú vera í nokkurri lægð. Ígulkerjaveiðar hafa verið stundaðar í umtalsverðum mæli frá 1992 og telur Hafrannsóknastofnun nú að fara beri varlega við nýtingu stofnsins.

Sjávarspendýr. Stórhvalaveiðar voru stundaðar með hléum frá landstöðvum við Ísland í liðlega eina öld, þar til að tímabundið bann Alþjóðahvalveiðráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni gekk í gildi árið 1986 og takmörkuðum veiðum í rannsóknaskyni lauk árið 1989. Talningar sýna að ástand langreyðarstofnsins er gott og er talið að hann þoli veiðar á 100-200 dýrum á ári. Einnig er talið að sandreyðarstofninn þoli svipaðar veiðar og á árum áður, eða um 70 dýr á ári. Ástand hrefnustofnsins er einnig talið gott, en um 28.000 hrefnur eru taldar á Mið-Atlantshafssvæðinu, þar af nær helmingur á íslenska strandsvæðinu. Talið er öruggt að stofninn þoli veiðar á 200 dýrum á ári, eins og veitt var á árunum 1977-1985. Hnýðingur og hnísa eru svo þúsundum eða tugþúsundum skiptir á íslensku hafsvæði. Búrhvalir eru að minnsta kosti nokkur þúsund, andarnefjur eru hugsanlega 10.000–20.000 og háhyrningar yfir 5.000. Grindhvalastofninn við Færeyjar, Ísland og Austur-Grænland 1987 telur um 50.000 til 100.000 dýr. Hnúfubakar við Ísland eru taldir vera innan við 2000 og fjöldi steypireyða eitthvað minni.
Árið 1995 veiddust um 2.200 selir við Ísland (1.327 útselir, 864 landselir og 7 farselir). Snöggur samdráttur hefur orðið í veiðunum síðari árin, en um 6.000–7.000 selir hafa verið veiddir á ári megnið af þessari öld. Áætlað er að útselsstofninn telji nú um 8.000 dýr, en landselsstofninn um 19.000 dýr. Landselsstofninn hefur minnkað verulega frá árinu 1980, en talið er að hnignun hans sé að litlu leyti vegna veiða.

Mengun hafsins

Talið er að um 80% af mengun sjávar sé til komin vegna starfsemi á landi en um fimmtungur vegna úrgangs sem varpað er í hafið og vegna skipaumferðar. Vegna fámennis og takmarkaðrar iðnaðarstarfsemi á Íslandi auk mikillar fjarlægðar frá iðnsvæðum Evrópu og N-Ameríku gætir mengandi efna oft í minna mæli hér en annarsstaðar. Þetta er þó ekki algilt. Þannig benda rannsóknir m.a. til þess að ýmis rokgjörn efni safnist fyrir á köldum svæðum í nágrenni heimskautanna. Vegna efnahagslegs mikilvægis sjávarafurða er brýnt fyrir Íslendinga að fylgjast náið með mengun á íslenska hafsvæðinu.
Niðurstöður umfangsmikilla mengunarmælinga í sjó við Ísland, sem lauk árið 1994, gefa til kynna að mengun sé lítil á helstu fiskimiðum við landið. Styrkur geislavirkra efna er mjög lítill hér við land og sá lægsti sem mælist á hafsvæðum Norður-Atlantshafsins. Magn þungmálma í fiski, ef undan er skilinn kadmíum, er í flestum tilvikum nokkuð undir viðmiðunarmörkum þeim sem Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur lagt til grundvallar við mat á mengun í sjó í fyrri athugunum sem fram hafa farið á hafsvæði Oslóar- og Parísarsamninganna. Því má ætla að magn þessara þungmálma í fiski hér við land stafi fyrst og fremst af náttúrulegum orsökum og sé því ekki vísbending um mengun af mannavöldum.
Öðru máli gegnir um svonefnd þrávirk lífræn efni, sem eru öll komin í náttúruna af mannavöldum. Lífræn tributýltin-sambönd (tbt), sem notuð eru í botnmálningu skipa, hafa skaðvænleg áhrif á lífríkið. Rannsóknir Líffræðistofnunar Háskólans hafa leitt í ljós tbt-mengun við sunnanverðan Faxaflóa, en mengunin lýsir sér m.a. í vansköpun hjá nákuðungum frá Álftanesi að Hofsvík á Kjalarnesi. Rannsóknum þessum er enn ekki lokið því kanna þarf betur útbreiðslu mengunarinnar og áhrif á aðrar lífverur. Notkun á tbt-málningu á skip og báta sem eru styttri en 25 m að lengd hefur verið bönnuð hér við land síðan 1990. Öll skipamálning sem framleidd er hérlendis er án tbt.
Mjög hefur dregið úr losun úrgangs frá skipum í hafið á undanförnum árum. Hins vegar liggja ekki fyrir haldbær gögn um hversu miklu er tekið á móti eða hvers konar aðstaða er fyrir hendi í hinum ýmsu höfnum landsins. Bannað er að sökkva skipum.

Fráveitur

Í úttekt sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytis gerði á ástandi fráveitumála árið 1994 kom í ljós, að fáar fráveitur uppfylla kröfur gildandi mengunarvarnareglugerðar. Skólpi er yfirleitt veitt án meðhöndlunar beint í sjó og víðast er um margar útrásir að ræða frá hverjum byggðakjarna.
Víða er verið að vinna stórátak í fráveitumálum og er t.d. gert ráð fyrir að heildarkostnaður við fráveituframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu verði um fimm milljarðar króna. Kostnaðarsöm verkefni bíða úrlausnar við uppbyggingu fráveitukerfa fyrir skólp víðsvegar um landið. Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu samþykktu íslensk stjórnvöld að ljúka úrbótum á fráveitum sveitarfélaga á tímabilinu 2000-2005. Þessi ákvæði er að finna í gildandi mengunarvarnareglugerð. Árið 1995 voru samþykkt lög um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Samkvæmt ákvæðum þeirra geta framkvæmdir sem unnar eru á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005 notið styrks úr ríkissjóði, allt að 200 milljónum króna á ári, en þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 20% af staðfestum kostnaði styrkhæfra framkvæmda.
2.4. Loftmengun og orkugjafar

Loftmengun

Vegna fámennis, tiltölulega lítils mengandi iðnaðar í landinu og mikillar fjarlægðar til annarra landa er mengun í andrúmslofti yfir Íslandi lítil. Viðmiðunarmörk sem sett hafa verið hérlendis um loftgæði eru jafnströng eða strangari en þekkist í nágrannalöndum okkar. Allnokkur mengun stafar af starfsemi innanlands, en í sumum tifellum er meirihluti mengunarefna kominn langt að frá öðrum löndum.
Niðurstöður mælinga Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Hollustuverndar ríkisins benda til að loftmengun á höfuðborgarsvæðinu sé almennt vel undir viðmiðunarmörkum. Þó getur loftmengun á einstökum stöðum, t.d. við miklar umferðaræðar, orðið sambærileg við það sem gerist víða erlendis, einkum í stillum á köldum vetrardögum þegar jörð er auð. Má þar nefna þætti eins og svifryk, óson, kolmónoxíð og köfnunarefnisoxíð. Loftmengun utan höfuðborgarsvæðisins er minni. Þannig hefur meðalstyrkur svifryks í dreifbýli miðað við heilt ár verið mældur um 7–8 µg/m3 samanborið við hæsta ársmeðaltal 35 µg/m3 við Miklatorg í Reykjavík. Blýmengun er hverfandi eftir að notkun blýbensíns minnkaði og var hætt árið 1996.
Frá stóriðjuverunum berast ýmis loftmengunarefni, t.d. ryk, sem í flestum tilvikum hefur verið í viðunandi horfi, brennisteinsdíoxíð, sem stjórnast af brennisteinsmagni í hráefnum, og köfnunarefnisoxíð kemur frá Áburðarverksmiðjunni hf. og Kísiliðjunni hf. við Mývatn. Þessi mengun er tiltölulega lítil miðað við þá mengun sem kemur frá bruna eldsneytis. Nokkur flúormengun er frá álverinu í Straumsvík en hún hefur farið minnkandi á síðustu árum og er það í samræmi við samkomulag Íslenska álfélagsins hf. við stjórnvöld um hreinsun á útblæstri frá 1992 og starfsleyfi sem gefið var út haustið 1995. Undanfarin fjögur ár hefur flúor í gróðri mælst svipaður og hann var áður en rekstur álversins hófst.

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda

Heildarútstreymi koltvíoxíðs af manna völdum á Íslandi árið 1994 var um 2265 þúsund tonn, borið saman við 2147 þúsund tonn árið 1990. Þar af komu 66% frá fiskiskipum og samgöngum, og 18% frá iðnaðarframleiðslu. Afgangurinn, um 16% kom frá eldsneytisnotkun í iðnaði og húshitun, frá jarðvarmavirkjunum o.fl.
Heildarútstreymi metans árið 1993 hefur verið áætlað um 21,3 þúsund tonn. Helstu uppsprettur árið 1993 voru sorphaugar með um 9,8 þúsund tonn og húsdýr og húsdýraáburður með h.u.b. 11,3 þúsund tonn. Aðrar uppsprettur voru með samtals um 0,2 þúsund tonn.
Samanlagt útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs 1993 hefur verið áætlað um 0,5 þúsund tonn. Helsta uppsprettan var notkun köfnunarefnisáburðar, með rúmlega 80% af heildarlosuninni. Önnur helsta uppsprettan var eldsneytisnotkun.
Talið er að nokkurt magn rokgjarnra flúorkolefna hafi losnað út í loftið frá álverinu í Straumsvík og hefur magnið verið áætlað um 31 tonn fyrir 1990.
Gert er ráð fyrir að útstreymi koltvíoxíðs af manna völdum muni aukast að óbreyttu um 14% frá 1990 til ársins 2000, en þetta samsvarar aukningu upp á nær 310 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að útstreymi metans muni dragast lítið eitt saman til aldamóta vegna fækkunar húsdýra og minni urðunar sorps. Gert er ráð fyrir að útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs verði svipað um aldamót og það var árið 1990. Útstreymi flúorkolefna hefur minnkað verulega frá 1990 til 1993, og er ekki gert ráð fyrir teljandi breytingu á útstreyminu til aldamóta. Þegar útstreymi gróðurhúsalofttegunda (CO2, N2O, CH4, HFC og PFC) á Íslandi er umreiknað yfir í koltvíoxíðsígildi kemur í ljós að samanlögð áhrif þeirra verði um 100 þúsund tonnum meiri um aldamótin en árið 1990 og er þar reiknað með áhrifum stækkunar álversins í Straumsvík.
Mikil óvissa ríkir um þær breytingar sem vænta má á Íslandi í kjölfar aukinna gróðurhúsaáhrifa. Landið liggur á mótum kaldra og hlýrra haf- og loftstrauma, og hugsanlegar breytingar á straumakerfum og algengustu lægðabrautum samfara almennri hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa gætu því haft afdrifarík áhrif. Að svo stöddu er talið líklegast að um nokkra, og jafnvel umtalsverða hlýnun verði að ræða á landinu á næstu öld, þó að einnig sé hugsanlegt að kólnun verði hér á landi ef hafstraumar breytast. Talið er að hlýnun gæti að mörgu leyti haft jákvæð áhrif á landi, m.a. fyrir landbúnaðinn, en óvissa ríkir um áhrif breytinganna á mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, þ.e.a.s. sjávarútveginn. Niðurstöður rannsókna á áhrifum hlýnunar á vatnsorkubúskap landsins næstu áratugi benda til þess að hún hefði fremur jákvæð áhrif á hann, einkum vegna aukinnar bráðnunar jökla og aukins rennslis í jökulám. Hækkun sjávarborðs mun auka flóðahættu víða á landinu og kalla á hækkun hafnar- og flóðvarnagarða. Einnig er hugsanlegt að landbrot aukist á nokkrum stöðum vegna aukins ágangs sjávar með hærri sjávarstöðu, einkum á Suðurlandi.

Þynning ósonlagsins

Reglubundnar mælingar á heildarmagni ósons í andrúmslofti hafa farið fram á Veðurstofu Íslands frá árinu 1957. Er þetta með lengri mælingaröðum sem til eru í heiminum á ósoni í andrúmslofti og hefur því mikla þýðingu í rannsóknum á hugsanlegum orsökum ósonþynningar. Meginniðurstöður eru þær að ósonlagið yfir Íslandi hefur þynnst um 0,5% á ári að meðaltali sumarmánuðina 1977–90. Á öðrum tímum árs gætti ekki þynningar á sama árabili. Rétt er að taka fram að þetta er minni þynning en almennt hefur orðið á norðurhveli jarðar á þessu tímabili.

Nýting hreinna orkulinda

Notkun hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa nemur um 2/3 af orkunotkun Íslendinga, sem er hærra hlutfall en hjá nokkru öðru ríkja OECD. Þetta er ánægjuleg staða þegar haft er í huga að orkuframleiðsla heimsins á stærstan þátt í svonefndum gróðurhúsaáhrifum. Með hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum er átt við orku vatnsfalla, sem framleiðir um 93% af þeirri raforku sem Íslendingar nota, og jarðhita, sem notaður er við hitun um 86% húsa á Íslandi og stendur undir um 7% raforkuframleiðslunnar.
Nýting hreinna innlendra orkulinda hefur haft ómæld áhrif til farsældar fyrir Íslendinga, bæði efnahagslega og með tilliti til umhverfismála. Má þar nefna að mengun vegna kolareyks var útrýmt í Reykjavík með tilkomu hitaveitu og að Íslendingar væru líklega hlutfallslega mestu "framleiðendur" gróðurhúsalofttegunda í heimi ef innlendu orkugjafanna nyti ekki við. Nýting innlendra orkugjafa hefur margvísleg áhrif á umhverfi, eins og lýst er hér að neðan, en hún er þó mun betri kostur frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar en brennsla á óendurnýjanlegu og mengandi jarðefnaeldsneyti.
Virkjun vatnsorku getur valdið því að sumir hlutar vatnsfalla verða vatnslitlir eða alveg þurrir. Breytingar á aurburði verða fyrst og fremst við það að aurburður stöðvast í miðlunarlónum. Við það geta farvegir vatnsfalla neðan miðlunarlóna raskast. Við ósa árinnar geta orðið breytingar á ströndinni vegna minni framburðar og í stað þess að ströndin færist út getur orðið landbrot. Aurburðurinn sest til í miðlunarlónum og fyllir þau smám saman. Slíkt tekur yfirleitt áratugi eða aldir. Gerð miðlunarlóna veldur því óhjákvæmilega að land fer undir vatn. Hentugustu svæði fyrir miðlunarlón eru venjulega í lægðum á hálendinu og eru því oft þeir hlutar hálendisins sem best eru grónir. Önnur umhverfisáhrif af völdum virkjana sem ekki verða metin til fjár eru t.d. fossar og önnur náttúrufyrirbæri sem geta horfið eða breyst verulega.
Áhrif vinnslu jarðhita á jarðhitakerfin eru oft mikil. Nær undantekningarlaust lækkar þrýstingur í jarðhitakerfunum líkt og í vatnstanki sem dælt er úr. Er það einfaldlega vegna þess að meira vatn er tekið upp en nær að streyma inn í kerfin. Þetta veldur því að jarðhiti á yfirborði breytist eða hverfur, sjálfrennsli úr borholum minnkar eða hættir og síðast en ekki síst að vatnsborð í borholum lækkar. Á sumum jarðhitasvæðum hefur orðið smávægilegt landsig. Jarðhitakerfin kólna hægt og hægt við áframhaldandi vinnslu og minnkandi orka fæst úr borholunum. Auk þess sem vinnsla jarðhita hefur áhrif á jarðhitasvæðin sem náttúruauðlind, eins og að framan greinir, fylgir nýtingu jarðhita óhjákvæmilega nokkur mengun og umhverfisáhrif. Helst má nefna útlitsbreytingar á yfirborði, hávaða, varmamengun og efnamengun lofts og grunnvatns. Mengunin er þó mjög lítil miðað við orkuvinnslu með brennslu jarðefnaeldsneytis.


2.5. Náttúruvernd

Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á verndun lands og hefur friðlýstum svæðum fjölgað um 15 síðastliðinn áratug, þannig að í dag eru alls um 80 svæði friðlýst skv. náttúruverndarlögum eða með sérstökum lögum. Auk þess hefur mörkum nokkurra friðlýstra svæða verið breytt. Nú ná friðlýst svæði yfir rúmlega 10.000 km2, eða u.þ.b. 10% af heildarflatarmáli Íslands, borið saman við 533 km2 í byrjun áttunda áratugarins. Þjóðgarðar skv. náttúruverndarlögum eru tveir, þ.e. Skaftafell og Jökulsárgljúfur, en unnið er að því að stofna þjóðgarð á utanverðu Snæfellsnesi. Þingvellir voru friðaðir með sérstökum lögum árið 1928 og eru í daglegu tali kallaðir þjóðgarður, þó svo þeir séu ekki friðaðir á grundvelli laga um náttúruvernd. Svæði sem friðuð hafa verið með sérstökum lögum eru Mývatn og Laxá, Geysir og Breiðafjörður.
Friðlönd eru alls 33 og ná yfir 2.754 km2, náttúruvætti eru 30 (um 300 km2) og fólkvangar eru 11 talsins (um 400 km2). Enn eru ófriðuð stór svæði, sem eru sérstæð vegna stórbrotins landslags, víðernis, náttúrufegurðar eða plöntu- og dýralífs og ástæða mætti teljast til að friðlýsa.
Auk þeirra svæða sem friðlýst hafa verið skv. náttúruverndarlögum eru mörg svæði sem njóta verndar af öðrum ástæðum. Landgræðsla ríkisins hefur síðan 1907 friðað og girt af um 130 svæði, eða um 3% landsins, vegna jarðvegs- og gróðureyðingar. Skógrækt ríkisins hefur friðað hluta af leifum hins gamla birkiskógar, en jafnframt ræktað upp skóg á nýjum svæðum. Nú eru um 70 friðuð skógræktarsvæði á landinu, eða alls um 350 km2.

Líffræðileg fjölbreytni

Talið er að um 485 tegundir háplantna vaxi hér villtar og eru þá ekki taldar með fjölmargar aðfluttar tegundir sem ekki hafa náð hér bólfestu. Um það bil 570 tegundir mosa finnast á landinu. Á landinu hafa fundist um 580 fléttutegundir og um 1700 tegundir sveppa. Alls eru þetta um 3300 tegundir af há- og lágplöntum. Vitað er um nálægt 650 tegundir botnþörunga í sjónum við Ísland. Þá hafa verið skráðar tæplega 540 tegundir kísilþörunga í ferskvatni. Alls gerir þetta um 1200 tegundir og eru þá enn ótaldir svifþörungar í sjó umhverfis landið. Nokkuð er um hitakæra þörunga og bakteríur í hverum.
Tófan er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi. Talið er að refir séu um það bil 3.000 að hausti. Minkur var fluttur til landsins skömmu eftir 1930 til loðdýraræktar, nokkrir sluppu úr búrum, juku kyn sitt og hafa nú dreifst um allt land. Talið er að varpsvæði ýmissa sjófugla og votlendisfugla hafi dregist saman eftir að minkurinn kom til sögunnar. Ekki er vitað um stofnstærð en sennilega eru dýrin innan við 10.000 á haustin.
Íslenska hreindýrið er af hálftömdum norskum stofni sem fluttur var til landsins í lok 18. aldar. Vegna ágangs á beitarlönd hefur verið grisjað nokkuð í stofninum á síðustu árum með veiðum og taldi hann um 2.500 dýr í júlí árið 1996. Fjórar tegundir villtra nagdýra hafa tímgast hér á landi: hagamús, húsamús, brúnrotta og svartrotta.
Um 70 fuglategundir verpa reglulega hérlendis og vitað er að um u.þ.b. 25 tegundir til viðbótar sem hafa orpið hér einu sinni eða oftar. Allt bendir til að tvær tegundir séu að hverfa úr tölu varpfugla: keldusvín er líklega þegar hætt að verpa hér og haftyrðli hefur fækkað stórlega. Fálkinn er nú alfriðaður og strjáll varpfugl víða um land og verpir í klettum. Haförn var býsna algengur áður fyrr en ofsóknir og afföll af völdum eitrunar gengu svo nærri stofninum að mjög var óttast um framtíð hans. Þótt erninum hafi fjölgað nokkuð vegna friðunaraðgerða og sé nú kominn upp í 35–40 pör vantar mikið á að stofninn hafi náð sömu stærð og fyrir einni öld, en þá voru pörin áætluð 150. Ísland hefur löngum verið ein stærsta bækistöð vatnafugla í Evrópu og Mývatnssvæðið sérlega vel þekkt fyrir gnægð vatnafugla. Við grunnt vatnið og afrennsli þess, Laxá, verpa 15 tegundir anda. Sjófuglar skipa mikilvægan sess í fuglaríki landsins. Flestir stofnarnir eru líka mikilvægir á alþjóðamælikvarða því einstaklingarnir eru það margir að þeir eru oft verulegur og stundum stór hluti þessara fuglastofna í öllum heiminum. Stærstu fuglabjörgin, Látrabjarg, Hælavíkurbjarg og Hornbjarg, eru öll á Vestfjörðum og eru meðal stærstu fuglabyggða við Norður-Atlantshaf.
Fimm innlendar fisktegundir lifa að nokkru eða öllu leyti í ferskvatni. Lax gengur upp í u.þ.b. 80 ár, smærri og stærri. Urriði er algengur í vötnum um land allt og mikið er um sjóbirting í ám á Suður- og Suðausturlandi. Bleikja er í flestum vötnum og sjóbleikja er ríkjandi tegund í köldum ám norðvestanlands og í ám norðanlands og austan. Áll er algengastur á Suður- og Suðvesturlandi. Hornsíli er um allt land og sumir stofnar þess ganga í sjó. Regnbogasilungur hefur stundum komist úr eldisstöðvum í náttúrlegt umhverfi. Fiskeldi hefur í nokkrum tilvikum mengað ár og vötn. Fiskar sem sleppa úr eldisstöðvum skapa hættu á erfðamengun og eyðingu upprunalegra stofna, auk þess sem meiri líkur eru á að sjúkdómar komi upp.
Alls hafa verið skráðar á Íslandi um 1250 tegundir hryggleysingja, að meðtöldum flækingum og þeim sem berast hingað með fólki og vörum. Tvívængjur eru fjölskrúðugasti hópurinn, eins og í öðrum norðlægum löndum, en bjöllur og æðvængjur eiga þónokkuð marga fulltrúa. Náttfiðrildi eru einu innlendu fiðrildin. Áttfætlumaurar eru allmargir (nokkur hundruð tegundir) en innan við 100 tegundir eru af kóngulóm. Land- og sæsniglar, ánar, margfætlur og þúsundfætlur eru fáskrúðugar. Engin skipulögð rannsókn hefur verið gerð á hryggleysingjum í sjó en umfangsmiklar rannsóknir á útbreiðslu, magni og vistfræði botndýra innan efnahagslögsögu Íslands hófust 1992. Gert er ráð fyrir að þeim ljúki 1998. Vísindamenn búast við að finna allt að 3000 tegundir hryggleysingja, margar þeirra nýjar í dýraríki Íslands og jafnvel tegundir sem ekki hefur verið lýst áður.

Jarðefnavinnsla

Öllu efnisnámi fylgir óhjákvæmilega jarðrask og varanlegar breytingar á útliti landsins. Vegagerð ríkisins hefur áætlað að árleg notkun malarefna hérlendis sé um 6 milljón m3/ári. Miðað við höfðatölu nota Íslendingar þrefalt til fimmfalt meira af malarefnum en aðrar Norðurlandaþjóðir.
Gjall úr eldgígum og gervigígum er auðvelt í vinnslu og var fyrir nokkrum áratugum mikið notað í vegagerð og allskyns fyllingar, m.a. húsgrunna. Einnig hefur gjallið verið notað í léttsteypu. Slíkt efnisnám hefur verið stundað nær alls staðar þar sem slíkt gjall er að finna nærri byggð. Helstu gjallgígasvæðin eru á Reykjanesskaga og í Reykjanesfjallgarði, á Snæfellsnesi, í Mývatnssveit, í Grímsnesi og í Landbroti og Álftaveri. Heita má að varla séu nokkrir gjallgígar óskemmdir nærri byggð og sums staðar er allt auðunnið gjall löngu horfið.
Gjall af yfirborði apalhrauna er einnig fremur auðvelt í vinnslu og hefur verið notað í fyllingar á svipaðan hátt og bólstraberg. Slíkar námur skilja eftir sig gríðarleg sár enda yfirleitt aðeins unnið 2–4 m þykkt lag af yfirborði hraunanna. Stærstu námur af þessu tagi eru á Reykjanesskaga og á Hellisheiði og var efnið úr þeim einkum notað til vegagerðar. Þar sem vegir liggja um apalhraun hefur tíðkast að ýta gjallinu upp frá báðum hliðum og liggja vegirnir síðan eftir sárinu miðju.
Hjá Náttúruverndarráði eru nú skráðar 2.336 námur. Talið er að vinnsla fari nú fram í um 60-70% þeirra. Umfangsmestu námurnar eru nær allar á Suðvesturlandi, en í þeim er unnið allt að 40-50% af því heildarmagni jarðefna, sem unnið er hér á landi árlega. Gamlar ófrágengnar námur eru áberandi margar um land allt og töluvert er um að rusli sé safnað í námur, m.a. brotajárni og gömlum bílhræjum. Dæmi eru um að námuvinnsla sé á friðlýstum svæðum eða svæðum sem eru á náttúruminjaskrá.
Kísilgúr hefur verið unninn af botni Mývatns frá árinu 1967. Árlega hefur verið dælt af botninum 250–300 þús. m3 af botnleðju. Framleiðsla kísilgúrs á árunum 1984–1993 var á bilinu 18–29 þús. tonn árlega.
Fágætar steintegundir (holufyllingar) er einkum að finna á Austfjörðum, í Eyjafjarðarsýslu, Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Undanfarna tvo áratugi hafa einstaklingar tínt töluvert magn af steinum, einkum geislasteinum úr náttúru landsins. Steingervingar finnast einkum á Vestfjörðum og á Tjörnesi.

2.6. Alþjóðlegar skuldbindingar

Alþjóðlegt samstarf á sviði umhverfismála hefur aukist verulega á síðustu árum og augljóst að útilokað er fyrir litla þjóð eins og Íslendinga að fylgjast með og taka þátt í öllu því starfi. Í stað þess hafa íslensk stjórnvöld einbeitt sér að tiltölulega afmörkuðum sviðum umhverfismála í alþjóðlegu starfi, þar sem saman fara bæði hagsmunir og sérþekking umfram annað. Þessi forgangsröðun var mjög skýr við undirbúning Alheimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun árið 1992 í Ríó de Janeiro og hefur verið það síðan. Verndun hafsins gegn mengun, sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins og notkun endurnýjanlegra orkugjafa hafa verið áhersluatriði íslenskra stjórnvalda í samstarfi þjóðanna í umhverfismálum eftir Ríó-ráðstefnuna. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sérstaka áherslu á að losun lífrænna þrávirkra efna og losun geislavirkra efna út í umhverfið verði bönnuð.
Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði leggur þjóðréttarlegar skyldur á herðar Íslendingum í sambandi við umhverfismál, m.a. á sviði mengunarvarna og eiturefna. Íslendingar hafa lögfest stærstan hluta af þeim gerðum sem samningurinn tekur til og varða mengunarvarnir, en nokkuð er eftir á eiturefnasviðinu.

2.7. Álag og aðsteðjandi ógnir

Hér er ætlunin að draga fram í stuttu máli nokkrar helstu ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, jafnvel þó að einnig sé fjallað um þær í öðrum köflum hér á undan. Í sumum tilvikum er tæpast rétt að tala um ógnir, eins og á t.d. við um eyðingu ósonlagsins og mengun hafsins, en frekar um álag á náttúruna, eins og t.d. vegna umferðar ferðamanna um viðkvæm landsvæði.

• Mengun hafsins

Mengun hafsins við Íslandsstrendur er tvímælalaust ein alvarlegasta ógnin sem að okkur steðjar þegar til langs tíma er litið. Mengun af völdum skolps hefur líklega lítil áhrif á nytjastofna, en þó þarf að gæta að hugsanlegum áhrifum þess á lífríki stranda og innfjarða, s.s. á skelfisk. Slys við olíuflutninga geta einnig haft alvarleg staðbundin áhrif, en eru tæpast ógn við fiskimiðin. Geislavirkni í sjó hefur mælst mjög lítil hér við land, en fyllsta ástæða er til að vera vakandi yfir starfsemi kjarnorkuvera í nálægum löndum, umferð kjarnorkuknúinna farartækja og flutningi með geislavirk efni. Styrkur þungmálma í lífverum hér við land er í sumum tilvikum töluverður, þó að það stafi líklega af náttúrulegum aðstæðum en ekki mengun af manna völdum. Þegar til langs tíma er litið er alvarlegasta ógnunin varðandi mengun hafsins vegna svokallaðra þrávirkra lífrænna efna, að mati íslenskra stjórnvalda. Þessi efni eyðast seint eða ekki í náttúrunni og safnast fyrir í lífkeðjunni. Brýnt er að draga úr og stöðva mengun af völdum slíkra efna hér innanlands, en megnið af þrávirkum lífrænum efnum berst hingað erlendis frá með vindum og hafstraumum. Ef ekkert verður að gert kann svo að fara að á næstu öld verði talið óhollt að neyta fisks af Íslandsmiðum, eða a.m.k. að íslenskar sjávarafurðir tapi ímynd sinni sem hrein og ómenguð matvara. Það er því eitt helsta forgangsverkefni stjórnvalda að vinna að alþjóðlegum samningum og aðgerðum gegn losun slíkra efna í umhverfið.

• Ofveiði á nytjastofnum

Ofveiði á þorski og öðrum nytjastofnun getur leitt til hruns þeirra, eins og gerst hefur hér við land og sums staðar annars staðar í heiminum. Slíkt hrun yrði ekki aðeins alvarlegt efnahagslegt áfall fyrir Íslendinga, heldur drægi það einnig úr fæðuframboði á erlendum mörkuðum. Veiði- og hrygningarstofn þorsks, helsta nytjafiskstofns Íslendinga hefur minnkað verulega á þessarri öld vegna mikilla veiða útlendinga jafnt sem Íslendinga. Þannig er talið að veiðistofn þorsks hafi minnkað úr um 2,5 milljónum tonna árið 1955 (þegar hann var reyndar í algjöru hámarki) í u.þ.b. 600.000 tonn á fyrri hluta tíunda áratugar aldarinnar. Engir sterkir þorskárgangar hafa komið upp síðan 1984. Nauðsynlegt er að halda áfram þeirri viðleitni að viðhalda nytjastofnum og byggja þá upp með veiðistýringu á vísindalegum grunni, þannig að stofnarnir verði nýttir á sjálfbæran hátt framvegis. Ofveiði og hrun á nytjastofnum sem ganga á milli íslenskrar lögsögu og lögsögu annarra ríkja og/eða úthafsins getur einnig haft slæm efnahagsleg áhrif fyrir Íslendinga, sem sýnir nauðsyn þess að ná samningum um sjálfbæra nýtingu þeirra og sanngjarna skiptingu afla. Hið sama á við um suma stofna á úthafinu og fjarlægum miðum.

• Ósonþynning

Þynning ósonlagsins vegna áhrifa manngerðra efna veldur aukinni útfjólublárri geislun, sem getur valdið aukinni tíðni húðkrabbameins og fleiri sjúkdóma og haft neikvæð áhrif á lífríki lands og sjávar. Þynning ósonlagsins hefur orðið mest á suðurhveli jarðar, en hennar hefur einnig orðið vart yfir Íslandi og annars staðar á norðurhveli. Þetta er hnattrænt vandamál og verður aðeins leyst með sameiginlegu átaki þjóða heims innan ramma alþjóðasamninga um minnkun og stöðvun notkunar ósoneyðandi efna.

• Veðurfarsbreytingar vegna gróðurhúsaáhrifa

Vísindamenn telja nú mjög miklar líkur á því að útstreymi koltvíoxíðs og fleiri lofttegunda af manna völdum auki á svokölluð gróðurhúsaáhrif lofthjúpsins, sem leiðir til hlýnunar á jörðinni. Erfitt er að spá um hve mikil eða hve ör þessi hlýnun kann að verða og enn erfiðara er að segja til um hvaða áhrif hún kunni að hafa á veðurfar og efnahagslíf í einstökum löndum og heimshlutum. Nýjustu tölvulíkön benda flest til þess að hlýnun verði minni á Íslandi og hafsvæðinu í kring en víða annars staðar. Hækkandi sjávarstaða af völdum hlýnunar kann að leiða til aukinnar tíðni sjávarflóða og hugsanlega gætu gróðurhúsaáhrifin breytt styrk og stefnu hafstrauma, þ.á m. Golfstraumsins. Slíkt myndi hafa ófyrirsjáanleg og að öllum líkum alvarleg áhrif á veðurfar og fiskigengd. Útstreymi Íslendinga af gróðurhúsalofttegundum er umtalsvert miðað við fólksfjölda. Nauðsynlegt er að takmarka það eftir því sem kostur er og starfa að því markmiði innan vébanda Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

• Uppblástur og jarðvegseyðing

Uppblástur og eyðing jarðvegs er einn alvarlegasti vandi sem Íslendingar eiga við að glíma. Líklega hefur um eða yfir helmingur af jarðvegi landsins og um 95% af skóglendi tapast frá landnámi og er frumorsökin líklega að mestu leyti athafnir mannsins og beit búfénaðar, en óblíð náttúruöfl hafa síðan opnað sárin og hraðað eyðingunni. Nú er talið að víðast hafi tekist að stöðva versta sandfokið og uppblásturinn, en því fer þó fjarri að tekist hafi að stöðva jarðvegseyðingu. Mikilvægt er að stöðva eyðinguna þar sem hún á sér stað og jafnframt að reyna að endurheimta þau landgæði sem tapast hafa eftir því sem kostur er.

• Skerðing á fjölbreytni lífríkisins

Af 72 fuglategundum sem verpa á Íslandi eru 14 taldar vera í hættu og af 483 háplöntutegundum eru 14 taldar vera í hættu. Auk þess teljast margar aðrar tegundir dýra og plantna vera sjaldgæfar. Hverasvæði geyma víða sérstæðar hitaþolnar örverur. Á Íslandi er víða að finna mikilvægar varpstöðvar og búsvæði fugla, sem nauðsynlegt er að vernda. Fá óspillt votlendissvæði á láglendi eru eftir á Íslandi og nauðsynlegt er að varðveita þau og önnur innlend vistkerfi gegn röskun og endurheimta þau eftir því sem kostur er.

• Eyðilegging náttúruminja

Víða um land hafa merkilegar og jafnvel einstæðar náttúruminjar verið skemmdar og jafnvel eyðilagðar. Ein helsta orsök þessa er nám á möl og öðrum jarðefnum, sem oft er sótt í gíga, yfirborð hrauna og aðrar jarðmyndanir sem eru sérstæðar og/eða einkennandi fyrir Ísland. Brýnt er að kortleggja og skipuleggja efnisnám betur en nú er gert, fækka námum og stækka þær og beina efnisnámi frá sérstæðum jarðmyndunum til annarra staða.

• Ágangur á viðkvæm landsvæði

Víða lætur land á sjá vegna ágangs ferðamanna, þó svo að ekki sé endilega um að ræða skemmdir á einstæðum náttúruminjum. Dæmi um áhrif af of miklum ágangi eru traðk á hverahrúðri og sár í mosa og jarðvegi vegna umferðar farartækja, hesta og jafnvel gangandi manna. Sjaldnast er um ásetning að ræða og oft má koma í veg fyrir rask með betri skipulagningu, gerð göngustíga, fræðslu og leiðbeiningum og aukinni landvörslu.

• Óbyggð víðerni

Óbyggð víðerni eru varla til lengur í Evrópu, nema sums staðar á Norðurlöndunum, þ.á m. Íslandi. Líta má á þau sem auðlind, þar sem stór hluti ferðamanna sem heimsækir landið kemur hingað til að sjá óbyggðir og ósnortna náttúru. Með mannvirkjagerð á hálendinu og annars staðar í óbyggðum er gengið á þessa auðlind. Þetta ber að hafa í huga við framkvæmdir á óbyggðum stöðum, jafnvel þó að þær séu ekki taldar skaða merkar náttúruminjar eða viðkvæm vistkerfi. Þar sem ákveðið er að ráðast í mannvirkjagerð á slíkum svæðum þarf að gæta þess að sem minnst rask og sjónmengun hljótist af.


3. Markmið og leiðir

3.1. Grundvallarreglur umhverfisréttar

Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992, var m.a. samþykkt yfirlýsing, Ríóyfirlýsingin, þar sem staðfestar voru nokkrar grundvallarreglur um samskipti manns og umhverfis, sem stuðla eiga að sjálfbærri þróun. Ríki heims voru hvött til þess að taka þessar reglur upp í umhverfislöggjöf sinni.
Í Ríóyfirlýsingunni segir að mannkyninu beri réttur til að lifa heilbrigðu og auðgandi lífi í sátt við náttúruna. Þar er einnig minnst á réttinn til þróunar, sem beri að nýta með þeim hætti að komið sé af sanngirni til móts við umhverfis- og þróunarþarfir núlifandi og komandi kynslóða. Tekið er fram að hver einstaklingur eigi rétt á upplýsingum um umhverfið, ástand þess og aðgerðir á sviði umhverfismála. Einnig á hver einstaklingur rétt á þátttöku í ákvarðanatöku sem snerta nánasta umhverfi hans.
Segja má að þessar réttindayfirlýsingar séu ein af fjórum meginreglum sem finna má í Ríóyfirlýsingunni. Hinar eru:
Varúðarreglan, sem kveður á um að ekki skuli að öðru jöfnu ráðist í framkvæmdir sem kunna að hafa alvarleg eða óbætanleg umhverfisáhrif í för með sér, fyrr en sýnt sé að þær hafi ekki slík áhrif;
Mengunarbótareglan, sem kveður á um að þeir sem spilla umhverfinu beri nauðsynlegan kostnað við að bæta skaðann og kostnað vegna aðgerða sem miða að því að koma í veg fyrir umhverfisskaða. Reglan felur m.a. í sér að þeir sem hyggja á framkvæmdir sem geta haft mengun eða umhverfisspjöll í för með sér greiði kostnað við mat á umhverfisáhrifum og umhverfiseftirlit.
Nytjagreiðslureglan, sem felur í sér að þeir sem nýta náttúrulegar auðlindir sér til ávinnings eða ánægju, greiði þann kostnað sem til fellur við verndun og viðhald þessarra auðlinda.

3.2. Tæki til að ná markmiðum

Skipta má þeim tækjum sem hægt er að nota til þess að beina framkvæmdum inn á brautir sjálfbærrar þróunar í þrennt. Í fyrsta lagi fyrirmæli (boð og bönn), í öðru lagi ýmis hagstjórnartæki og í þriðja lagi fræðslu og upplýsingamiðlun.
Það tæki sem stjórnvöld hafa að jafnaði gripið til við vernd umhverfisins er setning laga og reglugerða. Það er auðvitað nauðsynlegt að stjórnvöld setji almennan lagaramma um umhverfismál, eins og aðra málaflokka í þjóðfélagi sem byggist á lögum. Þessi aðferð hefur þó ekki ein og sér megnað að snúa við þeirri þróun sem einkennt hefur umhverfismál sl. 50 ár.
Annað tæki eru hagræn stjórntæki, sem litið er á í auknum mæli víða um lönd. Hagræn stjórntæki skilgreina ekki ákveðin mörk eða tækni við mengunarvarnir, eins og oft er gert með reglusetningu, heldur leitast við að hafa áhrif á hegðun markaðarins með sköttum, niðurgreiðslum, skilagjöldum og öðrum efnahagslegum skilaboðum. Kostirnir við hagræn stjórntæki eru m.a. að þau gefa markaðinum tækifæri til að finna hagkvæmustu lausnirnar í stað þess að stjórnvöld tilgreini þær aðferðir sem nota skal til að ná settu marki. Ókostirnir eru m.a. að óvíst er hvort markmiðið (t.d. um minnkun ákveðinnar mengunar um helming) næst með slíkum stjórntækjum og í mörgum tilvikum eiga slík stjórntæki einfaldlega ekki við, t.d. um margt sem lýtur að náttúruvernd og friðun tegunda. Hagræn stjórntæki eru ekki aðeins notuð af stjórnvöldum, heldur geta t.d. fyrirtæki nýtt sér þau í starfsemi sinni, svo sem með framseljanlegum kvótum.
Að síðustu ber að nefna fræðslu og upplýsingamiðlun. Forsenda allra aðgerða eru góðar upplýsingar um ástand umhverfisins, þær hættur sem að því stafa og hvaða áhrif líklegt er að einstaka framkvæmdir munu hafa á umhverfið. Fræðsla til almennings og í skólakerfinu þarf að vera virk til þess að bæði lagasetning og hagræn stjórntæki nái markmiðum sínum.1) LANDBÚNAÐUR

Markmið

Sjálfbær þróun íslensks landbúnaðar á að fela í sér að hann geti eflst og arður af honum aukist án þess að af hljótist skaðleg mengun eða gengið sé á gróður, jarðveg eða aðrar náttúruauðlindir. Landnotkun þarf að vera háð skipulagi og taki tillit til lífræðilegrar fjölbreytni. Gróður- og jarðvegsvernd þarf að vera eitt helsta forgangsverkefni þjóðarinnar. Landeyðingu þarf að stöðva og endurheimta eftir megni það sem tapast hefur af skógi, gróðri og jarðvegi. Landnotendur beri ábyrgð á ástandi lands sem nýtt er til beitar. Beitarnýting skal vera hófleg og skipuleg og ekki fara fram á svæðum þar sem gróður er viðkvæmur og jarðvegsrof á sér stað eða hætta er á jarðvegsrofi. Stuðla skal að verndun og endurheimt votlendis og nýtt land verði ekki tekið til framræslu nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Nytjar af innlendum tegundum fugla og spendýra verði þannig að stofnum þeirra stafi ekki hætta af og ekki verði röskun á náttúru landsins. Stuðla skal að bættri nýtingu og eflingu hlunninda í lax- og silungsveiði í sátt við náttúru landsins og villta fiskistofna. Fiskeldi leiði ekki til þess að sjúkdómar og mengun berist út í náttúruna og fiskeldisstöðvar séu ekki í námunda við frjósöm og viðkvæm vistkerfi. Koma skal í veg fyrir mengun grunnvatns, vatna og áa af völdum áburðarnotkunar og annarrar landbúnaðarstarfsemi.


Leiðir

Skipulag og landnotkun; beitarnytjar

• Hafin verði vinna að svæðisskipulagi um land allt og henni hraðað, þ.á m. vinnu að skipulagi miðhálendisins. Aðalskipulag sveitarfélaga taki á öllu landi innan lögsögu þeirra, en takmarkist ekki við þéttbýli og taki m.a. tillit til landnota og kosta landsins.

• Lög og reglur er varða landnotkun verði endurskoðuð til að byggja á skipulagsákvarðanir og tryggja eftirlit. Við slíka endurskoðun er nauðsynlegt að þeir sem nota land og auðlindir svari til um áætlaðar þarfir í nútíð og nánustu framtíð. Þetta á við um bændur og aðstandendur ferðaþjónustu, sumarhúsabyggða, sæluhúsa, skógræktar, vegagerðar, útivistar, veiði o.s.frv. Þeir sem bera ábyrgð á verndun lands þurfa einnig að leggja fram sínar tillögur um landnot og aðgerðir: friðlýsingu, stjórn búfjárbeitar, jarðvegsvernd, skógvernd, landgræðslu, votlendisvernd, verndun menningarminja og landlags o.s.frv.
• Landnotendur geri gróðurnýtingaráætlun hver fyrir sína jörð þar sem gerð er grein fyrir því hvernig þeir hyggjast sjá búfé fyrir fóðri og bithaga hvort sem það er með nýtingu heimalanda, leigu á beitarrétti, landgræðslu eða afréttarnotum. Eftirlit með landnytjum verði á ábyrgð sveitarfélags og heimaaðila, svipað og er um forðagæslu búfjár.

• Búvöruframleiðsla og búfjárhald taki mið af landgæðum í mun ríkara mæli en nú er. Samfara endurskipulagningu og hagræðingu, sem nú á sér stað í landbúnaði, þarf að afla gagna til að hægt sé að votta að landnýting sé í samræmi við landkosti og æskilega nýtingu.

• Fræðsla verði aukin til leiðbeinenda um beitarnot sem auðveldi þeim að aðstoða bændur við mat á hóflegri nýtingu lands, við landbætur í heimalöndum og afréttum og beitarstjórnun.

• Könnuð verði áhrif villtra grasbíta á gróðurfar.

Verndun lands og lífríkis

Skógrækt

• Gerð verði áætlun um skógrækt á landinu. Aðferðir við skógrækt t.d. tegundaval og ræktunaraðferðir, þurfa að taka mið að markmiðum skógræktar á hverjum stað.

• Rannsóknir á þýðingu skógræktar fyrir sjálfbæra landnýtingu verða efldar, þ.m.t. rannsóknir á áhrifum skógræktar á vatnabúskap, jarðvegsvernd, líffræðilega fjölbreytni, framleiðni vistkerfa, efna- og orkuhringrásir og félags- og efnahagsþætti. Jafnframt verða rannsóknir á leiðum til að auka útbreiðslu, vöxt og sjálfbæra nýtingu skóga efldar.

• Skógrækt ríkisins í samvinnu við búnaðarfræðslu og fleiri aðila, leggi í auknum mæli áherslu á leiðbeiningar til einstaklinga, áhugamannafélaga og ekki síst sveitarfélaga um skógrækt.

• Verndun og útbreiðsla birkiskóga, skógrækt á bújörðum, skógrækt til jarðvegsverndar og skjólbeltarækt verði aukin þar sem við á.

Landgræðsla

• Upplýsingaöflun um jarðvegsrof og aðra þætti er varða ástand lands verði efld til að styrkja forsendur forgangsröðunar landgræðsluverkefna, áætlanagerðar og áhættuflokkunar lands með hliðsjón af nýtingu. Lokið verði gerð jarðvegsrofs- og gróðurkorta af einstökum jörðum og landinu öllu. Notkun fjarkönnunargagna verði aukin.

• Lokið verði gerð landgræðsluáætlunar fyrir landið allt með hliðsjón af ástandi lands og fjármögnun framkvæmda tryggð. Áætlunin verði unnin í nánu samstarfi við sveitarfélög, skipulagsyfirvöld og aðra hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

• Við skógrækt og landgræðslu verði reiknað út hve mikil binding koltvíoxíðs í lífmassa á sér stað og það fært Íslandi til tekna í viðleitninni við að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Kostir landgræðslu í þessu skyni verða vegnir og metnir á móti öðrum leiðum til að draga úr losun koltvíoxíðs.

• Efldar verði þær fjölbreyttu rannsóknir sem nauðsynlegar eru vegna mats á ástandi lands, verndunar vistkerfa, aðferða við uppgræðslu og skipulags sjálfbærrar landnýtingar. Efldar verði rannsóknir hvað varðar gróðurframvindu, jarðvegsþróun og uppbyggingu frjósemi í næringarsnauðum jarðvegi. Auka þarf skilning á þeim grunnþáttum sem ráða hraða framvindunnar og því hvernig inngrip mannsins (beitarnot,friðun, áburðargjöf, sáning) hafa áhrif á hraða og stefnu hennar.

• Fræðsla til landnotenda og annarra þeirra sem haft geta áhrif á ástand lands verði efld. Fræðslustarfið miði m.a. að því að auka skilning þeirra á sameiginlegri ábyrgð og veita þekkingu á leiðum til að vernda og bæta vistkerfi landsins.

Framræsla votlendis

• Gerðar verði tilraunir með að loka framræsluskurðum sem ekki eru nýttir. Gerð verði úttekt á lífríki í votlendi hér á landi og reynt að meta áhrif þess á vatnsbúskap og lífkeðju í ám og vötnum. Settar verði skýrar og strangar reglur um nýja framræslu og krafist umhverfis- og hagkvæmnismats í hvert sinn sem framræsla er fyrirhuguð.

Innflutningur lífvera

• Settar verði reglur um notkun á innfluttum tegundum. Þar verði tilgreint við hvaða aðstæður notkun þeirra eigi við og metnar afleiðingar þess að dreifa þeim á svæðum þar sem þær teljast ekki eiga heima. Eiginleikar innfluttra tegunda og tegunda sem til stendur að flytja inn verði rannsakaðar með tilliti til dreifingarleiða, dreifingarhraða, samkeppnishæfni og aðlögunar að íslenskum lífsskilyrðum. Innfluttum tegundum verði ekki dreift til notenda fyrr en lagt hefur verið mat á hugsanlegan skaða sem leitt gæti af dreifingu viðkomandi tegundar. Tryggt verði að slíkur innflutningur leiði ekki til þess að sjúkdómar eða meindýr berist til landsins.


Útskolun næringarefna

Unnar verði skýrar leiðbeiningar um meðferð búfjáráburðar, haughús og frárennsli frá verksmiðjubúum.

• Stuðlað verði að skynsamlegri nýtingu búfjáráburðar, bæði sem áburðar á ræktað land og ekki síður á óræktað land. Öll búvöruframleiðsla hafi nægjanlegt landrými til að taka við búfjáráburði og koma honum inn í eðlilega hringrás náttúrunnar.

Alþjóðasamstarf

• Stofnað verði til alþjóðlegs samstarfs um rannsóknir og þróun á sviði jarðvegs- og gróðurverndar. Starfið beinist að því að efla rannsóknir og miðla til þróunarlanda reynslu og tækni á sviði landgræðslu, jarðvegs- og gróðurverndar, beitarstjórnunar, landnýtingar og fræðslu, m.a. með vísindalegri og tæknilegri ráðgjöf og þjálfun sérfræðinga frá þróunarlöndum.

• Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinni að því að efla tengsl við alþjóðlegar stofnanir á sviði jarðvegsverndar með það að markmiði að íslenskir sérfræðingar geti aðstoðað við að leysa verkefni í öðrum löndum.

Landbúnaður og meðferð úrgangs

• Sveitarfélög skipuleggi söfnun og eyðingu/endurnýtingu á landbúnaðarplasti í samstarfi við verksmiðjur eða sorpeyðingarstöðvar. Umhverfisgjald verði innheimt til að standa undir kostnaði við söfnunina.

Veittir verði styrkir til þróunar afurða úr sláturúrgangi.

Allar fiskeldisstöðvar og verksmiðjubú hafi rot- og setþrær sem tryggi sem minnsta hættu fyrir umhverfið. Kannaðar verði leiðir til að auka nýtingu á lífrænum úrgangi í áburð og fóður.

Veiðinytjar

• Auknar verði rannsóknir á nytjuðum fiskum, fuglum og spendýrum og vistkerfum sem þeir eru hluti af. Fylgt verði eftir reglum um skráningu allrar veiði.

• Áframhaldandi stjórnun og nýting veiðihlunninda verði tryggð og þróuð þannig að hún skili hámarksarði til langs tíma.

• Tryggt verði að áhrif framkvæmda og atvinnurekstrar á vistkerfi áa og vatna verði sem minnst.

• Samræmdar verði reglur sem kveða á um fiskeldi annars vegar og nýtingu á náttúrulegum fiskistofnum hins vegar.2) SJÁVARÚTVEGUR

Markmið
Sjálfbær þróun í sjávarútvegi felur í sér að tryggja hámarks langtímaafrakstur lifandi auðlinda sjávar í efnahagslegu tilliti í þágu íslensku þjóðarinnar sé náð án þess að lífríki hafsins sé ógnað. Af þessu leiðir að ekki má ganga svo nærri nytjastofnum að möguleikar komandi kynslóða til nýtingar þeirra séu skertir. Stefnt skal að því að fyrir árið 2000 hafi ofangreint markmið náðst hvað varðar allar nýttar tegundir (einnig er hugsanlegt að setja markmið fyrir hvern stofn), eftir því sem þekking leyfir. Brýnt er að stjórnvöld marki sem fyrst stefnu um hvernig best megi efla ímynd Íslands, sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar með góðri umgengni við hafið og auðlindir þess. Leitast verður við að ná samkomulagi við aðrar þjóðir um sjálfbæra nýtingu fiskistofna á alþjóðlegum hafsvæðum. Efldar verði rannsóknir á auðlindinni til þess að tryggja sem best áreiðanleika fiskveiðiráðgjafar. Efla skal eiturefnamælingar og mengunarrannsóknir. Draga ber sem mest úr mengun hafsins vegna starfsemi á sjó og í landi, einkum er brýnt að stöðva alveg mengun af völdum spilliefna og þrávirkra lífrænna efna. Leita skal leiða til að ná hagkvæmari orkunýtingu í sjávarútvegi og til að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipaflotanum.Leiðir

Skynsamleg nýting á auðlindum sjávar

• Sjávarútvegsráðuneytið setji fram fyrir hönd stjórnvalda nýtingarstefnu og aflareglur fyrir nýttar tegundir sem miði að ofangreindu markmiði um sjálfbæra nýtingu.

• Umhverfisvöktun á hafsvæðinu við landið verði aukin, svo og vöktun lífsferils helstu nytjastofna og fæðutegunda þeirra.

• Stefnt verði að því að hefja nýtingu á þeim sjávarspendýrum sem rannsóknir sýna að óhætt sé að nýta. Forsenda þess að Íslendingar séu aðilar að alþjóðasamstarfi um nýtingu auðlinda sjávar á að vera að vísindaleg þekking sé lögð til grundvallar.

• Fiskileit á djúpslóð verði efld. Áhersla verði lögð á Reykjaneshrygg þar sem líklegast er að árangur náist. Samvinna stjórnvalda og útgerða er æskileg og til þarf að koma stuðningur og hvatning frá hinu opinbera. Upplýsingar um eðli og lögun botnsins er forsenda skynsamlegrar nýtingar tegunda á djúpslóð; þeirrar þekkingar þarf að afla með rannsóknum og aðgangi að fullkomnum kortum.

• Íslensk stjórnvöld leitist við að ná samkomulagi við grannríki um veiðar og skiptingu afla úr stofnum sem ganga á milli lögsögu ríkjanna eða á milli lögsögu einstakra ríkja og úthafsins.

• Áfram verði stefnt að bættri nýtingu sjávarafla, m.a. með því að minnka brottkast afla, bæta meðferð á afla í skipum og við vinnslu í landi og með því að vinna markaði fyrir vannýttar tegundir. Opinberir aðilar þurfa að stuðla að því að framhald verði á þeirri þróun með því að verja auknu fjármagni til rannsókna og þróunar á þessu sviði. Meðal annars þarf að kanna beitingu veiðarfæra og eiginleika þeirra með tilliti til bættrar meðferðar afla.

• Kjörhæfni veiðarfæra verði aukin til að bæta nýtingu stofnanna og til að draga úr óæskilegum aukaafla. Kannaðir verða möguleikar á almennari notkun leggglugga, smáfiska- og seiðaskilju, notkun stærri króka með stórskornari beitu og öðrum veiðarfærabreytingum sem stuðla að aukinni kjörhæfni veiðarfæra.

• Þekking á áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar og búsvæði verði aukin.

• Unnið verði að gerð alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar um vernd og sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda sjávar á grunnsævi og strandsvæðum innan ramma samnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni.

Rannsóknir á lífríki og vistfræði sjávar

• Rannsóknir á samspili stofna ólíkra lífvera hafsins (fjölstofnarannsóknir) verði efldar til þess að auka þekkingu og skilning á lífríki hafsins og stuðla þannig að skynsamlegri nýtingu auðlinda þess.

• Hugað verði að eflingu stofnmælinga botnfiska og kannað hvort æskilegt sé að efna til reglubundinna stofnmælinga á öðrum árstíma og svæðum en nú er gert. Með þessu móti mætti fylgjast með framvindu í fleiri stofnum botnlægra tegunda, s.s. grálúðu og karfa.

• Efldar verði hrygningarrannsóknir á þorski og slíkar rannsóknir teknar upp á fleiri tegundum. Fram fari ítarlegar rannsóknir á áhrifum friðunar um hrygningartímann á þorsk og ýsu. Auknar verði grundvallarrannsóknir á nýliðun, útbreiðslu og göngu annarra nytjafiska en þorsks, síldar og loðnu.

• Auknar verði rannsóknir á sviði hafefna- og hafeðlisfræði til þess að bæta skilning á því hvernig framleiðslugeta hafsins og lífríki þess eru háð breytilegum umhverfisþáttum.

• Niðurstöður rannsókna með veðurfarslíkön benda til þess að með auknum gróðurhúsaáhrifum geti straumakerfi N-Atlantshafsins breyst. Því er Íslendingum nauðsynlegt að efla hafrannsóknir og taka þátt í alþjóðlegum verkefnum er lúta að breytileika hafsins.

• Auknar verði rannsóknir á útbreiðslu, magni og veiðiþoli hryggleysingja, s.s. kúfisks og ígulkera.

• Lögð verði aukin áhersla á grunnrannsóknir og ráðgjöf um hagnýtingu áður ónýttra stofna.

• Auknar verði vistfræðirannsóknir í fjörum og á grynnstu veiðislóð því áhugi á nýtingu ýmissa botndýra hefur aukist, auk þess sem slíkar rannsóknir munu varpa ljósi á afdrif yngri aldurshópa ýmissa fisktegunda.

• Efldar verði rannsóknir á fæðunámi og göngu lax í sjó til að varpa ljósi á tengsl lax við aðra dýrastofna, þ.m.t. nytjastofna.

• Alþjóðleg samvinna á sviði fiskirannsókna verði efld. Þetta á alveg sérstaklega við um þá stofna sem ná yfir stærra útbreiðslusvæði en íslenska hafsvæðið, svo sem karfa, ufsa, grálúðu o.fl.

• Efldar verði rannsóknir á jarðfræði og jarðeðlisfræðilegri uppbyggingu hafsbotnsins á landgrunni Íslands.

Mengun í sjó og frárennsli

• Efldar verði rannsóknir til að afla víðtækari þekkingar á mengun af völdum þrávirkra lífrænna mengunarefna. Ennfremur verði efldar rannsóknir á þáttum í jarðefnafræði og lífríki sem tengjast þungmálmum sem eru á annan hátt hér við land en við meginlönd. Rannsóknir á flutningsleiðum mengunarefna til íslenska hafsvæðisins verði auknar.

• Leitað verði frekari leiða til að koma í veg fyrir losun úrgangsolíu og annars úrgangs í sjó. Mikilvægt er að viðunandi aðstaða sé í höfnum landsins til að taka á móti úrgangsolíu og sorpi frá skipum.

• Banna skal notkun málningar hér á landi sem inniheldur tribútyltin-sambönd (tbt). Almennt hefur notkun málningar með efninu á fiskiskip verið hætt, en þar sem hún var notuð töluvert áður fyrr skal fylgst áfram með áhrifum tbt á lífríkið.

• Stefnt verði að hreinni framleiðslutækni í fiskiðnaði með hagræðingu í vinnsluhúsum, t.d. með minni vatnsnotkun, fitugildrum og grófsíun frárennslis. Áætlanir um umbætur í frárennslismálum einstakra fyrirtækja skulu gerðar í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög.

• Alþjóðlegri framkvæmdaáætlun um vernd hafsins gegn mengun frá landstöðvum, sem samþykkt var á ráðstefnu í Washington 1995, verði fylgt eftir með það að markmiði að draga úr og stöðva mengun hafsins af völdum þrávirkra lífrænna efna. Gera þarf úttekt á öllum þeim atriðum sem framkvæmdaáætlunin nær til og meta hvar nauðsynlegt er að gera endurbætur svo að þessi áætlun komist til framkvæmda hér á landi.

• Ísland mun knýja á um alþjóðlegar takmarkanir eða bann við notkun þrávirkra lífrænna efna sem valda umhverfisskaða og heilsutjóni með gerð sérstaks alþjóðasamnings um þrávirk lífræn efni. Íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að notkun málningar sem inniheldur tribútyltin verði hætt.

• Ísland mun fylgjast grannt með alþjóðlegum samningum um verndun hafsins. M.a. verður unnið að því að Ísland verði aðili að samningum um bætur vegna olíuslysa frá árinu 1992.

• Nýr samningur um vernd Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR) verði fullgiltur og ráðstafanir gerðar um þjóðréttarlega vernd hafsins á norðurslóðum.


Orkunotkun í sjávarútvegi

• Starfshópur skipaður af sjávarútvegsráðherra til þess að gera áætlun um hvernig megi ná settu markmiði um að draga úr útstreymi koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipaflotanum vinni ötullega að verkefni sínu svo hefja megi aðgerðir til úrbóta.

• Sjávarútvegsráðuneytið beiti sér fyrir aðgerðum til að stuðla að orkusparnaði hjá fiskiskipaflotanum á sem flestum sviðum. Meðal annars verði könnuð hagkvæmni og eldsneytisnotkun mismunandi veiða og veiðarfæra og gerðar tillögur um aðgerðir. Auk þess verði unnið að eflingu fræðslu fyrir útgerðarmenn, skipsstjóra og vélstjóra um leiðir til að koma í veg fyrir sóun eldsneytis og til að draga úr notkun eldsneytis við fiskveiðar og siglingar.

• Stefnt verði að því að nýta innlenda orku í ríkari mæli til fiskimjölsframleiðslu.

3) ORKA OG IÐNAÐUR

Markmið

Þróun íslensks iðnaðar og orkubúskaps verði með þeim hætti að nýting orkulinda skerði ekki lífsskilyrði komandi kynslóða og að slík nýting og hvers kyns iðnaðarstarfsemi valdi ekki skaðlegri mengun eða óhóflegri röskun vistkerfa og náttúruminja. Dregið verði úr notkun innflutts eldsneytis m.a. með orkusparnaði og með því að nýta í enn auknu mæli innlenda orkugjafa, sem eru hreinir og endurnýjanlegir, í þess stað. Koma skal í veg fyrir hvers kyns sóun á raforku og jarðvarma. Draga skal eins og kostur er úr sjónmengun og röskun á lífríki og landslagi af völdum vatnsafls- og jarðvarmavirkjana. Reynt skal að halda innihaldi óæskilegra efna í innfluttu eldsneyti í lágmarki og gera ráðstafanir eftir því sem kostur er til að koma í veg fyrir óhöpp og slys við meðferð olíu. Í iðnaði verði beitt bestu fáanlegri tækni til þess að lágmarka mengun og uppræta þrávirka mengun.

Leiðir

Vatnsorka og jarðvarmi - öflun

• Kveðið verði nánar á um eftirlit með framkvæmdum með vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum, sem eru matsskyldar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum, og rekstri sem þeim tengist.

• Kveðið verði á um að haft skuli samráð við lögbundið stjórnvald áður en undirbúningsrannsóknir vegna stærri virkjanaframkvæmda hefjast, með það fyrir augum að landi sé ekki raskað tilviljanakennt eða að nauðsynjalausu við rannsóknirnar, t.d. með lagningu vega eða vegslóða.

Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árslok 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum auk ferðaþjónustu. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður felldar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.

• Rannsóknir verði gerðar til að afla grundvallarþekkingar á umhverfisáhrifum virkjana á Íslandi og fé lagt til þróunar rannsóknaraðferða í því skyni. Rannsóknum á umhverfisáhrifum nýrra virkjana verði hagað í samræmi við forgangsröðun í rammaáætluninni um virkjanir.

• Séð verði til þess að áður en vinnsla jarðhita hefst hafi farið fram grunnrannsóknir á lífríki og vatnsbúskap sem hugsanlega raskast við rannsóknir eða vinnslu.

• Sveitarfélög sjái til þess í samvinnu við Skipulag ríkisins að gert verði skipulag er nái til landsins alls af öflun vatnsorku og jarðvarma fyrir árslok 2000 og tryggi að það sé endurskoðað með reglubundnum hætti.

• Orkufyrirtæki rannsaki gaumgæfilega umhverfisáhrif virkjana sem þau reka eða eru í undirbúningi.

• Orkufyrirtæki móti umhverfisstefnu, á grundvelli sjálfbærrar þróunar, sem fylgt sé í allri starfsemi þeirra.

• Orkufyrirtæki og viðkomandi skipulagsyfirvöld kanni hvort og þá með hvaða hætti nýta má aðstöðu sem sköpuð er við framkvæmdir og undirbúning orkumannvirkja, svo sem vegna samgangna og ferðamennsku.

Vatnsorka og jarðvarmi - notkun

• Séð verði til þess að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um raforkunotkun tækja og búnaðar og eigi kost á ráðgjöf um leiðir til að draga úr raforkunotkun. Neytendur hafi einnig greiðan aðgang að upplýsingum um hitunarþörf húsa og hitunarbúnað og eigi kost á ráðgjöf um leiðir til að draga úr henni, svo sem með betri einangrun og stillingu hitakerfa.

• Iðnaðarráðherra skipi starfshópa til að kanna leiðir til að auka hlut raforku á kostnað innflutts eldsneytis á tilteknum sviðum, svo sem í iðnaði og til lengri tíma litið til samgangna og flutninga. Iðnaðarráðherra skipi einnig starfshópa til að kanna leiðir til að auka notkun á heitu vatni og jarðgufu á kostnað innflutts eldsneytis á tilteknum sviðum, svo sem í iðnaði.

• Iðnaðarráðherra, í samvinnu við sveitarfélög, hafi frumkvæði að því að skipuleg athugun fari fram á því hvar afhenda megi gufu til iðnaðar nálægt höfn, mat á gufukostnaði, hvenær afhending gæti hafist sem og önnur atriði sem máli skipta. Í því sambandi verði sérstaklega fjallað um umhverfisáhrif vegna öflunar, flutnings og notkunar gufunnar.

• Sveitarfélögin kanni í samvinnu við umhverfis- og iðnaðarráðuneyti sem lið í skipulagsáætlunum hvort og þá hvar komi til greina að gera iðnaðarsvæði, m.a. fyrir stór iðnfyrirtæki, með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar í samvinnu við embætti skipulagsstjóra ríkisins, Siglingastofnun ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands o.fl.

• Rafveitur og hitaveitur efli neytendaþjónustu sína. Meðal annars upplýsi þær og leiðbeini viðskiptamönnum um leiðir til að nota rafmagn, heitt vatn og jarðgufu með skilvirkum hætti. Upplýsingar verði sendar reglulega til heimila og fyrirtækja um notkun á rafmagni og heitu vatni og ábendingar um leiðir til að draga úr henni. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að auka þær upplýsingar sem fram koma á orkureikningum til heimila og fyrirtækja með það fyrir augum að notendur geti áttað sig á því hvort orkunotkun þeirra sé óeðlilega mikil borin saman við aðra sambærilega notendur.

• Gæta skal þess að gjaldskrá orkuveitna hvetji til þess að innlendir orkugjafar séu nýttir í stað innfluttra.

• Fyrirtæki fari yfir notkun sína á raforku, heitu vatni og jarðgufu og geri ráðstafanir til þess að orka sé nýtt með skilvirkum hætti t.d. með því að bæta stjórnun á nýtingu orkunnar.


Jarðefnaeldsneyti - öflun/dreifing

• Lög og reglugerðir um umhverfiskröfur til innflutts eldsneytis þarf að uppfylla skal endurskoða með hæfilegu millibili. Hér er meðal annars um að ræða lög um varnir gegn mengun sjávar, lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, mengunarvarnareglugerð og reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

• Ríkisvaldið hafi forustu um að tryggja að ávallt sé fyrir hendi búnaður í höfnum landsins til að bregðast við olíuóhöppum og -slysum í þeim, bæði vegna dælingar olíu úr olíuskipum sem og vegna dælingar um borð í skip og báta. Jafnframt þarf að vera fyrir hendi viðbragðsáætlun til að vinna eftir sem og þjálfaður mannskapur, ella er hætta á að búnaðurinn komi að litlu haldi.

• Eftirlit með reglum um varnir gegn mengun vegna geymslu, flutnings og dreifingar olíu verði hert.

• Gerðar verði strangar öryggiskröfur um olíuflutninga í bílum og geymslu olíu með tilliti til hugsanlegra mengunaróhappa. Gripið verði til nauðsynlegra ráðstafana á svæðum þar sem olía getur haft í för með sér óbætanlegan skaða, t.d. á vatnsverndarsvæðum.

• Fylgst verðimeð erlendum rannsóknum og stutt við innlendar athuganir til að nota aðra orkugjafa en olíu til að knýja farartæki og kannaðir möguleikar á að nýta innlendar orkulindir í því skyni.

• Olíufélög móti og starfi eftir umhverfisstefnu sem hafi að leiðarljósi að draga úr umhverfisröskun.

• Á bensínstöðvum verði bestu fáanlegri tækni beitt við mengunarvarnir við byggingu nýrra stöðva og breytingar á eldri stöðvum.

• Olíufélög geri áætlanir til þess að geta brugðist við olíuslysum og hafi til taks búnað og þjálfað starfslið í því sambandi.


Jarðefnaeldsneyti - notkun

• Stjórnvöld stuðli að því að allir eigi kost á ráðgjöf og leiðbeiningum til að spara eldsneyti.

• Lögleiddar verði reglur um að skylt sé að veita væntanlegum kaupendum nýrra bíla samræmdar upplýsingar um eldsneytisnotkun bíla sem boðnir eru til sölu.

• Keppt verði að því í skipulagi byggðar og samgöngukerfis að draga úr flutningaþörf m.a. milli heimila og vinnustaða.

• Notkun olíu til hitunar á húsnæði sem ríki og sveitarfélög reka verði hætt að svo miklu leyti sem það er unnt.

• Fyrirtæki taki upp umhverfisstjórnun við rekstur sinn.

• Fyrirtæki velji bestu fáanlegu tækni ("BAT-tækni") til brennslu á eldsneyti sem fáanleg er á markaðnum við endurnýjun eldri véla og búnaðar.

• Sett verði af stað eldsneytis- og orkusparnaðarátak í iðnfyrirtækjum. Sérstök áhersla verður lögð á að koma í veg fyrir orkusóun og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Ríkisstjórnin leiti hagrænna leiða sem hvetji til endsneytisnotkunar er feli í sér minnkun á útstreymi mengandi lofttegunda, svo sem koltvíoxíðs. Jafnframt verði í samvinnu við atvinnulífið kannaðar aðrar leiðir að sama marki.

• Ísland taki virkan þátt í gerð bókunar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Reynt verður að draga eftir megni úr þeirri aukningu á útstreymi koltvíoxíðs sem orðið hefur, með það að markmiði að fylgja eftir framkvæmdaáætlun Íslands vegna samningsins. Endurmeta þarf framkvæmdaáætlunina ef og þegar ný ákvæði bætast við rammasamninginn. Sérstök "umsjónarnefnd ráðuneyta" mun hafa umsjón með framkvæmdaáætlun vegna rammasamningsins. Hlutverk nefndarinnar verður m.a. það að meta á hverju ári árangur af framkvæmdum og aðgerðum í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun.

• Gerður verði samanburður á hagkvæmni og orkunotkun sjó- og landflutninga með tilliti til orkusparnaðar.

Iðnaður og mengun

• Gerð verði úttekt á möguleikum til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og annarra lofttegunda fráiðnaði.

• Gerð verði úttekt á möguleikum á að draga úr losun vatnsmengandi efna frá iðnaði.

• Gerð verði úttekt á möguleikum á að draga úr úrgangsmyndun í iðnaði og á möguleikum þess að nýta í iðnaði úrgangsefni, sem ekki er unnt að koma í veg fyrir myndun á, þar með talin brennsla orkuríks úrgangs.

• Gert verði átak í að taka upp umhverfisstjórnkerfi í iðnaði. Stjórnvöld stuðli að því að tilraunaverkefni fari fram til könnunar á möguleikum þess að beita umhverfisstjórnkerfum í mismunandi iðngreinum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.


4) NYTJAVATN OG JARÐEFNI

Markmið

Þó að Ísland eigi líklega meira af nytjavatni á íbúa en flest eða öll önnur ríki er brýnt að koma í veg fyrir sóun á því og koma í veg fyrir mengun grunnvatns og vatnsbóla til að komandi kynslóðir geti nýtt þessa auðlind.
Á Íslandi er mikið magn jarðefna til mannvirkjagerðar aflögu fyrir fámenna þjóð, en þar er ekki um endurnýjanlega auðlind að ræða. Til þess að vinnsla jarðefna uppfylli skilyrði meginreglna um sjálfbæra nýtingu, þarf að tryggja að notkun jarðefna skerði ekki möguleika framtíðarkynslóða til að nýta þau. Ennfremur þarf að gæta þess að námavinnsla valdi ekki skaða á náttúruminjum, svo sem eldvörpum, röskun á gróðurþekju eða óþarfa sjónmengun. Stuðla skal að því að nýjar námur verði ekki teknar í rekstur fyrr en þörf krefur, að námur í rekstri verði nýttar betur og skipulegar og að gengið verði frá eldri og ónýttum námum á viðunandi hátt.

Leiðir

Nytjavatn

• Lög verði sett um vatnsvernd. Í framhaldi af því verði metin nauðsynleg vatnsvernd umhverfis vatnsból.

• Gert verði átak í að efla þekkingu á grunnvatni og nauðsyn þess að vernda vatnsból og koma í veg fyrir sóun vatns.

• Umhverfisstjórnun verði í auknum mæli tekin upp hjá vatnsveitum. Í því sambandi verði kannað hvort skynsamlegt sé að breyta ákvæðum laga og reglugerðar um gjaldtöku vatnsveitna fyrir notkun. Vatnsveitur móti sér umhverfisstefnu og fylgi gæðastjórnun í starfsemi sinni.

• Vatnsveitur á vegum sveitarfélaga efli neytendaþjónustu sína og upplýsi m.a. notendur um leiðir til að draga út vatnsnotkun.

• Vatnsveitur kanni hvort skynsamlegt sé að breyta gjaldtöku þeirra fyrir notkun með hliðsjón af reglum sjálfbærrar þróunar.

• Sveitarfélög geri heildarúttekt á vatni sem nýtanlegt er til neyslu og/eða hvers konar starfsemi innan sveitarfélagsins og í nágrenni þess, það síðarnefnda í samvinnu við nágrannasveitarfélög og sjái til þess að fullt tillit sé tekið til nauðsynlegrar vatnsöflunar og vatnsverndar við gerð skipulags.

• Sveitarfélög tryggi vatnsveitum sínum nægilegt fé til rannsókna á vatnsvinnslusvæðum og eftirlits með þeim, sem og til nauðsynlegra framkvæmda og viðhalds á vatnsöflunar-og dreifikerfum.

• Sveitarfélög sjái til þess að eftirlit með nýtingu vatnsbóla sé virkt.

• Vatnsveitur sjái til þess að nauðsynleg þekking sé fyrir hendi á þeim svæðum þar sem vatn er tekið til þess að unnt sé að ákveða stærð og legu vatnsverndarsvæða. Vatnsveitur mæli hversu mikið vatn þær nema og fylgist með gæðum þess og efnainnihaldi.

• Vatnsveitur reyni að draga eins og kostur er úr leka í vatnsveitukerfum sínum.

• Fyrirtæki og einstaklingar veiti vatnsveitum aðhald varðandi gæðamál, nauðsynlega vatnsvernd, sem og umhverfisáhrif vatnsöflunarinnar.

• Fyrirtæki og einstaklingar efli kostnaðarvitund sína varðandi notkun á vatni og bæti stjórnun á notkuninni, m.a. verði sóun á neysluvatni útrýmt og dregið úr notkun þess.

Jarðefni

Öflun jarðefna

• Lög um vinnslu jarðefna verði endurskoðuð og samræmd, þannig að þau stuðli að aðhaldi í nýtingu þessarar takmörkuðu og endanlegu auðlindar og því að nýtingin sé í anda meginreglna um sjálfbæra þróun. Meðal annars verði kveðið á um að kortleggja skuli jarðefni. Flokka þarf námusvæði eftir efni, magni, aðgengi og gæðum efnis. Gerð verði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu jarðefna á einstökum landsvæðum í samvinnu við sveitarfélög og eigendur náma.


• Lögum verði breytt þannig að tryggt verði að efnistökustaðir verði deiliskipulagðir. Þar verði m.a. gerð grein fyrir vinnsluaðferðum, tilhögun efnistöku og frágangi námu eftir vinnslu. Krafist verði tryggingar til frágangs námu að vinnslu lokinni.

• Við endurskoðun laga um náttúruvernd verði skýr ákvæði um verndun jarðmyndana auk ákvæða um verndun landslags. Við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum verði stærðarmörk náma sem falla undir lögin endurskoðuð og námuhugtakið skýrt betur.

• Tryggt verði í samvinnu við sveitarfélög virkt eftirlit með námavinnslu og frágang svæða að henni lokinni. Sveitarfélög taki mið af þörfum fyrir jarðefni og hvar þau kunni að vera að finna við gerð skipulags.

• Þeir sem nýta jarðefni í námum geri það á skipulegan hátt í samræmi við áætlun um nýtingu viðkomandi svæðis. Stuðlað verði að því að fleiri aðilar sameinist um nýtingu einstakra svæða með það fyrir augum að fækka svæðum sem numin eru á hverjum tíma.

• Fyrirtæki í námavinnslu móti sér umhverfisstefnu sem þau framfylgi í allri starfsemi sinni. Sú stefna skal m.a. miða að því að: draga úr áhrifum vinnslunnar á ásýnd lands eftir því sem kostur er; tryggja snyrtilega umgengni um námur og aðlögun vinnslunnar að landslagi eins og kostur er; og að ganga vel frá svæðunum að vinnslu lokinni. Stuðlað verði að því að umhverfisstjórnun verði í auknum mæli tekin upp hjá fyrirtækjum sem nema og nýta jarðefni.


Notkun jarðefna

• Stuðlað verði að fræðslu um mikilvægi þess að nútíma samfélag hafi aðgang að jarðefnum og þess að sóun þeirra verði hætt.

• Fylgst verði með útflutningi jarðefna og settar reglur í því efni ef þörf krefur.

• Fyrirtæki sem nýta jarðefni efli kostnaðarvitund sína varðandi notkun þeirra, bæti stjórnun á notkuninni og taki tillit til þess að um endanlega og takmarkaða auðlind er að ræða.

• Athugaðir verði möguleikar á úrvinnslu jarðefna á Íslandi, þannig að sem minnst verði af útflutningi á óunnu hráefni.

5) SAMGÖNGU- OG FERÐAMÁL


Markmið

Markmið með sjálfbærum samgöngum á Íslandi er að auðvelda hagkvæma nýtingu landsins í atvinnuskyni og að auðvelda okkur að njóta þess sem einstaklingar til útivistar og hagsældar án þess að rýra landgæði eða möguleika komandi kynslóða. Reynt verður að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum á landi, í lofti og á sjó til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig verður leitast við að draga úr þörf fyrir flutninga, m.a. með notkun nýrrar tækni í fjarskiptum. Draga skal úr sjónmengun, jarðraski og annari mengun samfara vegagerð og halda áfram uppgræðslu vegsvæða.
Við allt skipulag ferðamála er það grundvallaratriði að íslensk náttúra og umhverfi bíði ekki tjón af og að náttúruvernd haldist í hendur við vöxt atvinnugreinarinnar og bætta þjónustu við ferðamenn. Reynt skal að samræma góðan aðgang að viðkomustöðum ferðamanna og verndun náttúruverðmæta.

Leiðir

Samgöngumál og umhverfismál

Samgönguskipulag

• Samgönguráðherra skipi starfshóp, að höfðu samráði við umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, til að leggja grunn að heildstæðu skipulagi samgangna í landinu m.t.t. umhverfis- og orkumála. Starfshópnum verður falið að stuðla að stórefldri fræðslu til að draga úr sóun eldsneytis og bæta nýtingu ökutækja. Starfshópurinn láti gera könnun á hagkvæmni og eldsneytisnotkun mismunandi samgöngumáta með það að markmiði að efla þjóðhagslega hagkvæma, lítt mengandi og eldsneytissparandi samgöngumáta.

• Stjórnvöld, í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og aðra aðila, gangist fyrir rannsóknum á hagkvæmni mismunandi samgöngukerfa með tilliti til þess að ná fram markmiðum um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

• Stjórnvöld móti og framfylgi stefnu um aðlögun framkvæmdaáætlana að niðurstöðum hagkvæmnirannsókna.Samgöngur í lofti

Stjórnvöld, í samvinnu við Flugmálastjórn, flugrekendur og eftir því sem við á aðrar stofnanir, félög og samtök:

• Móti stefnu um uppbyggingu og rekstur flugvalla m.t.t. niðurstaðna hagkvæmnirannsókna og endurskoði á þeim grundvelli flugmálaáætlun sem gerð er skv. 1. kafla laga nr. 31/1987.

• Tryggi að þess sé gætt að skipulag mannvirkja sé í sem bestu samræmi við aðliggjandi vegi og nálæga byggð, þannig að leiðir að og frá flugvelli og flugstöð séu sem skemmstar og greiðastar um leið og þess er gætt að hávaði frá flugumferð sé í lágmarki í byggð.

• Setji reglur - eftir því sem við á til viðbótar við núgildandi reglur og í samræmi við staðla alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að, þ. á m. Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) - sem takmarki umhverfisáhrif frá flugumferð, þ.m.t. loftmengun og hávaðamengun, og um notkun og efnasamsetningu ís- og hálkueyðandi efna á flugbrautum og flugvélum að teknu fullu tilliti til öryggisstaðla.

Samgöngur á sjó

Stjórnvöld, í samvinnu við Siglingastofnun Íslands, útgerðir og samtök þeirra og eftir því sem við á aðrar stofnanir, félög og samtök:

• Endurskoði hafnaáætlun, m.a. með tilliti til niðurstaðna hagkvæmnirannsókna, með það fyrir augum að uppbygging hafna landsins leiði til hagkvæmustu flutninga.

• Beiti hagrænum aðgerðum varðandi vöruflutninga, m.t.t. niðurstaðna umhverfis- og hagkvæmnirannsókna, í þeim tilgangi að beina flutningum hagkvæmustu leið.

• Beiti sér fyrir setningu nauðsynlegra reglna, í samræmi við alþjóðlegar reglur og samninga um staðla, um ábyrgð mengunarvalds vegna mengunaróhappa í höfnum og við strendur landsins og á hafinu innan lögsögu.

• Stuðli að notkun orkusparandi búnaðar um borð í skipum í samræmi við nýjustu tækni hverju sinni.

• Gerðar verði ráðstafanir til þess að í öllum höfnum geti skip fengið rafmagn úr landi. Ef þurfa þykir verði jafnframt settar reglur sem takmarka notkun ljósavéla skipa í höfnum.


Samgöngur á landi

Stjórnvöld, í samvinnu við Vegagerðina og eftir því sem við á aðrar stofnanir, félög og samtök:

• Leggi áfram áherslu á fagurfræðilega hönnun og kröfur um frágang og hirðingu mannvirkja, m.a. með ákvæðum um fagurfræðilega hönnun í hönnunarleiðbeiningum.

• Setji skýrari reglur um hirðingu og viðhald mannvirkja með tilliti til útlits og geri áætlun um snyrtingu og frágang þeirra malarnáma, þar sem frágangur og umgengni telst enn ófullnægjandi.

• Dragi úr hávaða frá umferð með því að kanna möguleika á skermun milli hljóðgjafa og móttakenda.

• Dragi úr loftmengun með: bundnu slitlagi á vegakerfið, styttingu vegalengda milli staða, greiðfærum gatnamótum sem ekki valda umferðartöfum, þjóðvegum sem sneiða hjá þéttbýli, hágæða eldsneyti, minni lausagangi ökutækja og virku eftirliti með útblæstri.

• Dragi úr staðbundnum áhrifum loftmengunar og hávaða við staðsetningu umferðarmannvirkja svo sem með því að skilja umferðarmannvirki með mikla umferð sem best frá íbúðar- og athafnasvæðum.

• Dragi sem kostur er úr notkun lífrænna leysiefna í bundnu slitlagi og leiti leiða til að komast hjá notkun þeirra, þ. á m. hvort raunhæft sé að nota vatnsleysanleg efni við gerð slitlaga. Vegagerðinni verði falið að gera nákvæmari tillögur í þessu efni.

• Dragi úr hættu á grunnvatnsmengun með kerfisbundnu aðhaldi í notkun affitunar- og hreinsiefna og með því að nota einungis umhverfishæfa málningu á vegamannvirki, þ.e. málningu sem ekki inniheldur sink- eða blýefnasambönd.

• Komi á reglubundinni hreinsun rusls meðfram vegum og hvetji til bættrar umgengni og reki áróður gegn losun úrgangs á víðavangi og meðfram vegum.

• Fjölgi áningarstöðum meðfram vegum og við markverða staði og komi þar upp aðstöðu, fræðsluskiltum og sorpílátum og tryggi reglubundna umhirðu þeirra.

• Komi á markvissu og virku samstarfi við sveitarfélög um að efla almenningssamgöngur. Við gerð bæjar- eða borgarskipulags verði lögð sérstök áhersla á almenningssamgöngur. Kannað verði hvort hagkvæmt er að rafvæða ákveðnar leiðir almenningsfarartækja.

• Geri ráðstafanir til þess að gangandi og hjólandi vegfarendur eigi örugga og greiðfæra leið um þéttbýli og önnur fjölfarin svæði um allt land. Til að styðja við framkvæmdir á þessu sviði verður komið á samstarfi við sveitarfélög og skipulagsyfirvöld eftir því sem þurfa þykir.

• Standi fyrir könnun á heildarkostnaði þjóðfélagsins af rekstri einkabíla og niðurstöður m.a. notaðar til að kynna almenningi kosti almenningssamgangna.

• Stefni að breyttri gjaldtöku af bifreiðum og eldsneyti, þannig að gjaldtaka færist frá stofn- og viðhaldskostnaði yfir í eldsneytiskostnað. Gjaldtöku og skattlagningu á bíla sem valda lítilli mengun verði breytt þannig að notkun þeirra verði sem fyrst hagkvæmari kostur fyrir almenning.

Flutningur á hættulegum varningi

Stjórnvöld, í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og flutningafyrirtæki og eftir því sem við á félög og samtök:

• Setji reglur um flutning hættulegra efna á landi til að draga sem mest úr hættu á slysum og óhöppum sem hafa mengun og aðra hættu í för með sér. Afmörkuð verði svæði og vegkaflar þar sem sérstakrar aðgæslu er þörf við flutning hættulegra efna eða slíkir flutningar eru bannaðir.

• Beiti sér fyrir samræmdum reglum og eftirliti með flutningi og geymslu hættulegra efna.

Fjarskipti

Til þess að draga úr flutningsþörf munu stjórnvöld, í samvinnu við fjarskiptaveitendur, fyrirtæki og einstaklinga og samtök þeirra:

• Beita sér fyrir því að áfram verði unnið að útbreiðslu þeirra fjarskiptakerfa sem enn hafa ekki náð til meginþorra byggða í landinu.

• Beita sér fyrir því að gjaldtöku fyrir fjarskiptaþjónustu og fjarskiptabúnað verði hagað þannig, að hún hvetji til notkunar fjarskipta í stað flutninga.Ferðamál og umhverfismál

Stjórnvöld, í samvinnu við Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráð og Ferðamálaráð Íslands, ferðamálasamtök landshluta, áhugamannasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og samtök þeirra:

• Stofni samráðsnefnd um umhverfismál á ferðamannastöðum. Verkefni nefndarinnar verði að ræða og gera tillögur um framtíðarskipan og mannvirkjagerð á ferðamannastöðum, einkum utan þéttbýlis, m.a. um ábyrgð, álag og kostnað við framkvæmdir og þjónustu.

• Samræmi stefnu um gjaldtöku fyrir veitta þjónustu og/eða aðstöðu á ferðamannastöðum.

• Stuðli að rannsóknum á áhrifum ferðamennsku á umhverfi og þjóðfélag og á vistfræðilegu þoli fjölsóttra svæða. Niðurstöður rannsóknanna verði notaðar við mótun stefnu og framkvæmdaáætlanir gerðar þar sem þess er gætt að vernda og viðhalda náttúrlegu umhverfi.

• Beiti sér fyrir því að við skipulag, hönnun og staðsetningu mannvirkja í þágu ferðaþjónustu verði tekið mið af landslagi, náttúrufari og menningarminjum.

• Leggi áherslu á skipulagningu fjölsóttra ferðamannastaða. M.a. þarf að flokka svæði eftir verndargildi og skilgreina hvaða tegund ferðamennsku og útivistar hentar best hverju svæði.

• Tryggi að við stefnumótun í skipulags- og umhverfismálum verði tekið tillit til þarfa ferðaþjónustunnar.

• Gangist fyrir samstarfi við ferðaþjónustuaðila í því skyni að við skipulagningu ferða verði tekið tillit til umhverfisverndar og þess álags sem einstakir staðir og svæði bera.

• Stuðli að því að álagi á landið vegna ferðalaga verði dreift eftir því sem unnt er um landið og yfir árið. Áhersla verði lögð á slíka dreifingu við landkynningu og markaðssetningu og stuðlað verði að uppbyggingu ferðaþjónustu á þann veg að bygging mannvirkja verði fyrst og fremst utan hálendisins.

• Stuðli að því að við markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu, gerð landkynningarefnis og hvers konar upplýsinga fyrir ferðaskrifstofur, skipuleggjendur ferða og ferðamenn, sé þess gætt að kynningin efli skilning og umhyggju einstaklingsins fyrir umhverfi sínu og að áhersla sé lögð á að auka skilning ferðamannsins á hinni viðkvæmu íslensku náttúru.

• Sjái um öfluga fræðslu um umhverfismál meðal þeirra sem skipulegga ferðir um landið með það að markmiði að stuðla að aukinni þekkingu og meiri skilningi á verðmæti auðlindarinnar. Landvarsla verði aukin og ábyrgð og þátttaka aðila við landvörslu og náttúruvernd verði skilgreind. Auka þarf umhverfismerkingar og merkingar á sögustöðum og fleiri menningarminjum.

• Sjái til þess að á hverjum tíma séu til aðgengilegar upplýsingar, á íslensku og helstu tungumálum öðrum sem erlendir ferðamenn hér tala, um akstur og umgengni við landið, náttúrufar og öryggismál. Nota þarf samhliða bæklinga, upplýsingaskilti og merkingar. Ekki síst þarf að stuðla að gerð og útbreiðslu nákvæmra korta, sem þætti í öryggis-, landkynningar- og fræðslumálum.

• Stuðli að því að almennar upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn verði jafnframt nýttar til fræðslu og upplýsinga um umhverfismál.

• Umhverfisráðuneytið tryggi í samvinnu við samgönguráðuneytið, Ferðamálaráð, hagsmunaaðila og samtök áhugamanna, fjármuni vegna kostnaðar við nauðsynlega náttúruvernd samhliða ferðaþjónustu. Aukin ferðaþjónusta kallar á aukna landvörslu og náttúruvernd, til þess að hún geti talist sjálfbær og náttúruminjar skaðist ekki.
6) MEÐFERÐ ÚRGANGS

Markmið

Sjálfbær þróun varðandi meðferð úrgangs miðar að því að lágmarka allan úrgang, en nýta hann eða farga honum þar sem hann fellur til, þó þannig að það hamli ekki þróun atvinnulífs, en verði komandi kynslóðum til efnahagslegs og félagslegs ábata og skerði ekki lífsskilyrði þeirra. Sjálfbær þróun í þessum málaflokki er háð breytingum sem ráðast af þekkingu, tæknistigi og samfélagsskipan á hverjum tíma. Sjálfbær þróun í meðferð úrgangs setur nýtingu auðlinda og fjárfestinga, tækniþróun og breytingum á samfélaginu ekki skorður, heldur lagar hún sig að breyttum þörfum í nútíð og framtíð.
Meðhöndlun úrgangs skal sett fram í tiltekinni forgangsröð: Að draga úr magni úrgangs, að endurnota og endurnýta það sem mögulegt er og að farga því sem afgangs er á þann veg að það skaði umhverfið sem minnst. Reynt skal að draga úr úrgangsmyndun á Íslandi, þannig að það sem fer til endanlegrar förgunar verði um 50% minna um næstu aldamót en árið 1990. Förgun úrgangs skal verða í samræmi við gildandi kröfur um umhverfisvernd um allt land og á ábyrgð þess sem framleiðir úrgang. Fræðsla til fyrirtækja og neytenda verði aukin eftir megni, þannig að öllum sé ljóst hvernig draga megi úr úrgangsmyndun og hvert skila skal spilliefnum og úrgangi til endurnýtingar.

Leiðir

Meðferð heimilis- og framleiðsluúrgangs

• Á heimilum skal stefnt að minnkun úrgangs með upplýsingum og fræðslu til heimilanna, þar sem hvatt er til minnkunar sorps strax við innkaup.

• Sett verði skýr ákvæði um eftirlit og framkvæmd sorphirðumála (meðferð heimilis- og framleiðsluúrgangs) í lög.

• Umhverfisráðuneyti, Hollustuvernd ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um sorphirðuáætlanir.

• Samband íslenskra sveitarfélaga sjái um að ráðgjafi eða sérstakur starfsmaður vinni verk- og tímaáætlanir varðandi sorphirðumál, skilgreiningar, tölfræði- og mælieiningar. Umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga láti gera úttekt á þörf sveitarfélaga fyrir aðstoð og leiti leiða til að veita sveitarfélögum í landinu fjárhagsaðstoð á meðan breytingar eiga sér stað.

• Til að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og auka endurnýtingu verður hagrænum aðgerðum beitt í ríkara mæli.

• Sveitarfélög beiti sorphirðugjöldum þannig að þau hvetji íbúa og atvinnulífið til þess að flokka úrgang og skila honum til móttökustöðva, að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingi. Umhverfisráðuneyti, Hollustuvernd ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni leiðbeiningar um hvernig áætlanir um gjöld og tekjur í sorphirðumálum skuli unnar.

• Hollustuvernd ríkisins kynni almenningi niðurstöður rannsókna, mengunarmælinga og verkefna á sviði umhverfisvöktunar sem unnin eru í tengslum við rekstur förgunarstöðva.

• Umhverfisráðuneytið, Hollustuvernd ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga skipuleggi, í samráði við spilliefnanefnd, kynningarstarfsemi um leiðir til þess að draga úr notkun efna sem enda sem spilliefni í sorpinu og þær hættur og kostnað sem hlýst af völdum spilliefna.

• Umhverfisráðuneytið leiti eftir samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og Samband íslenskra sveitarfélaga til að tryggja farveg fyrir förgun sóttmengaðs úrgangs frá öllum heilbrigðisstofnunum og lækningastofum.

• Ríkisstjórnin, samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga beiti sér fyrir að koma söfnun og endurvinnslu brotamálma í viðunandi horf sem fyrst. Enn fremur verði reglugerð fjármálaráðuneytis nr. 248/1990 um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðilalagfærð sem fyrst þannig að endurgreiðsla virðisaukaskatts nái til söfnunar, flutnings og meðhöndlunar á úrgangi til endurnýtingar.

• Sveitarfélög skipuleggi söfnun og endurnýtingu/eyðingu á landbúnaðarplasti í samstarfi við atvinnulífið eða sorpeyðingarstöðvar. Umhverfisgjald verði innheimt til að standa undir kostnaði við söfnun og endurnýtingu/eyðingu.

• Fyrirtæki skapi sér stefnu í umhverfismálum sem taki mið af minnkun úrgangs og ábyrgri meðhöndlun hans.

• Hugmyndafræði um hreinni tækni verði innleidd í iðnaði. Fyrirtæki verði hvött til að þróa og nota tækni sem dregur úr neikvæðum afleiðingum fyrir umhverfið.

• Fyrirtæki verði hvött til að minnka óæskileg áhrif vöru á umhverfið strax við hönnun og þróun hennar. Skoða þarf allan lífsferil (lifecycle) vörunnar.

• Hvatt verði til aukins innra umhverfiseftirlits fyrirtækja, jafnframt því að dregið verði úr þörf fyrir opinbert eftirlit.

• Tryggja verður að íslensk fyrirtæki geti fengið umhverfisstjórnunarkerfi (EMAS, ISO 14001) skráð/vottuð hér á landi.

• Stjórnvöld tryggi að fylgst verði með þeirri vinnu sem unnin er í tengslum við staðlagerð í umhverfismálum. Niðurstöður þeirrar vinnu verði settar fram á aðgengilegu formi fyrir fyrirtæki og þeim auðveldað að laga starfshætti að þeim kröfum sem fram koma í stöðlunum. Í reglugerðum um umhverfismál verði vísað beint í staðla þar sem það á við.

Endurvinnsla lífræns úrgangs.

• Kannað verði hlutfall lífræns úrgangs hér á landi og fáanleg stoðefni.

• Samráðshópur á vegum umhverfisráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis vinni að því að finna not fyrir afurðir lífræns úrgangs.

• Skilgreina þarf garðaúrgang sem endurnýtanlegt efni og hvetja að hann fari í moltu. Sama á við um eldhúsúrgang frá heimilum. Hvatt verði til heimajarðgerðar þar sem það á við.

• Stefna skal að því að endurnýta lífrænan úrgang og skilgreina kröfur til afurðar mismunandi eftir notkun. Setja þarf fram kröfur til framleiðsluferlisins í vinnslustöð og íláta fyrir heimajarðgerð. Skoða þarf nýtingu afurðarinnar.

• Ríkisstjórnin, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök atvinnulífsins beiti sér fyrir að nú þegar verði fiskúrgangi, sláturhúsa- og kjötvinnsluúrgangi ásamt úrgangi frá stóreldhúsum, fundinn annar farvegur en urðun, og skal því markmiði náð að fullu fyrir aldamót.

Meðferð umbúða.

• Umhverfisráðuneytið beiti sér fyrir samstarfi við atvinnulífið sem stuðli að því að markmið reglugerðar um umbúðir og umbúðaúrgang verði komið á eins fljótt og auðið er.

• Á grundvelli reglugerðar um umbúðir og umbúðaúrgang verði komið á skráningu innlendra framleiðenda og innflytjenda um notkun umbúða. Framleiðendur skili inn gögnum reglulega til Hagstofu Íslands með upplýsingum um tegund umbúða, stærð, magn, efnasamsetningu o.fl. þætti sem nauðsynlegt er að fá upplýsingar um til að hægt sé að fylgjast með umbúðamagni. Innflytjendur skulu með sama hætti tiltaka magn umbúða sem fluttar eru inn til landsins hvort sem þær eru tómar eða utan um erlendar vörur.

• Kannaðir verði möguleikar á að taka fleiri tegundir drykkjarvöruumbúða inn í lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og að breyta þeim lögum þannig að þau taki einnig til annarra tegunda umbúða.


7) BYGGÐAÞRÓUN

Markmið

Stefnumörkun stjórnvalda í byggðaþróun og við gerð skipulagsáætlana skal taka tillit til sjónarmiða umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar. Samhæfa þarf gerð skipulagsáætlana og svæðisbundinna áætlana Byggðastofnunar þannig að tekið sé saman á landnýtingu og hagrænum þáttum. Einstaklingum og samtökum verði tryggður réttur til að hafa áhrif á ákvarðanatöku um nánasta umhverfi sitt.

Leiðir

• Við endurskoðun stefnumarkandi byggðaáætlunar Alþingis verði fjallað um umhverfissjónarmið með beinni hætti en nú er gert.

• Skipaður verði starfshópur með fulltrúum frá forsætisráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Skipulagi ríkisins og Byggðastofnun til að gera tillögur um hvernig samræma megi svæðisskipulagsgerð samkvæmt skipulagslögum og svæðisbundnar byggðaáætlanir Byggðastofnunar.

• Sveitarfélög hafi markvisst eftirlit með að framkvæmdir séu ávallt í samræmi við skipulagsáætlun.

• Áfram verði unnið að því að styrkja sveitarfélög m.a. með sameiningu, sem ætti að auðvelda þeim framkvæmd og eftirlit með hinum ýmsu þáttum skipulags og umhverfismála og tryggja forræði þeirra yfir þessum málaflokkum.

• Sveitarfélög vinni framkvæmdaáætlun um umhverfismál og hafi reglubundið eftirlit með framkvæmd hennar. Áætlunin byggi á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, Dagskrá 21 og stefnumörkun ríkisvaldsins. Á þennan hátt bera sveitarfélögin sjálf sem mesta ábyrgð á framkvæmd umhverfismála í sveitarfélaginu.

Til að renna stoðum undir markvissari áætlanagerð og meiri samræmingar milli stjórnvalda og framkvæmdaraðila, verði unnið að stafrænni kortagerð og uppbyggingu á landfræðilegu upplýsingakerfi.

• Áætlanir um þróun og skipulag byggðar taki tillit til umhverfis- og öryggisþátta, svo sem hættu á náttúruhamförum, með sama hætti og hagfræðilegra vaxtarskilyrða.

• Rannsakað verði samhengi samgangna og byggðamynsturs og metin langtímaáhrif tiltekinna skipulagskosta fyrir umhverfið.

• Rannsökuð verði langtímaáhrif stofnvega á miðhálendinu með tilliti til umhverfis, hagkvæmni, ferðaþjónustu, atvinnuþróunar og byggðamynsturs.

• Mörkuð verði stefna um landsskipulag með ríka áherslu á umhverfisvernd og þar sem tillit er tekið til ólíkra hagsmuna, svo sem framleiðslu og dreifingar orku, samgangna, hollustuhátta og öryggis.

• Lokið verði hið fyrsta við gerð svæðisskipulagsáætlana fyrir allt landið. Unnið verði í samræmi við stefnu sem Alþingi og ríkisstjórn marka um landsskipulag.

• Við svæðisskipulagsgerð verði lögð áhersla á að landnotkun og landnýting gangi ekki á auðlindir og umhverfi þannig spillt sé möguleikum síðari kynslóða til búsetu í landinu. Jafnvægis sé gætt á milli nýtingar og náttúruverndar.

• Gerðar verði aðalskipulagsáætlanir fyrir öll sveitarfélög fyrir 2007 og þeim fylgt eftir með reglubundinni endurskoðun.

• Lokið verði við áætlun um skipulag miðhálendisins þar sem m.a. verði kveðið á um stjórnsýslumörk sveitarfélaga.

• Þróaðar verði aðferðir með það að markmiði að samræma mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana.


8) UMHVERFISFRÆÐSLA

Markmið
Menntun og fræðsla er undirstaða þess að hægt sé að ná markmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar á öllum sviðum samfélagsins. Með umhverfismennt er stefnt að því að einstaklingar öðlist þekkingu og skilning á hugtökum, staðreyndum, lögmálum, vistkerfum og tengslum hluta í náttúrunni sem og þjálfun í að afla og vinna úr upplýsingum um umhverfismál. Umhverfismennt felur einnig í sér uppeldi með áherslu á mótun viðhorfa og skoðana og eflingu ábyrgðar gagnvart náttúru og umhverfi. Stefnt er að því að allir nemendur njóti umhverfismenntunar á öllum stigum skólakerfisins, námsbrautir á sviði umhverfismála verði efldar sem og umhverfismennt fyrir almenning utan skólakerfisins.

Leiðir

Umhverfisfræðsla í skólakerfinu

Skólayfirvöld

• Við endurskoðun sem nú er í gangi á námskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla verði sett fram skýr stefna og markmið um umhverfismennt og fræðslu um grundvallarmarkmið sjálfbærrar þróunar.

• Ráðinn verði verkefnisstjóri til að fylgja markmiðum og stefnu í umhverfismennt eftir í skólakerfinu. Stjórnvöld láti fara fram mat á árangri umhverfisfræðslu í skólakerfinu, t.d. árið 2000, til þess að meta árangur af breyttum áherslum.

• Fagskólar geri sérstakt átak í að upplýsa nemendur um umhverfismál sem tengjast viðkomandi fagsviði. Þeir setji jafnframt upp endurmenntunarnámskeið um vinnuaðferðir, tækni og efni sem eru umhverfisvæn og stuðla að sjálfbærri þróun.

• Skólar á viðskipta- og hagfræðisviði leggi aukna áherslu á kennslu í umhverfishagfræði.

Námsgögn

• Við gerð og endurskoðun námsefnis verði umhverfismennt og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar felld inn í sem flestar námsgreinar til þess að tryggja fjölfaglega umfjöllun á öllum sviðum náms, þar sem við á.

• Umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og/eða aðrir til þess bærir aðilar stuðli að útgáfu og gefi út fræðsluefni með upplýsingum, verkefnum og leiðbeiningum. Æskilegt er að afmörkuð efni verði tekin ítarlega fyrir og verði hentug fyrir ákveðin skólastig.

• Saminn verði vegvísir fyrir kennara um umhverfisfræðslu. Þar verði yfirlit yfir aðgengileg gögn, ábendingar um leiðir til að ná ákveðnum markmiðum, ábendingar um hvar hægt sé að leita upplýsinga og fá aðstoð. Námsgagnastofnun gefi út sérstakan lista yfir aðgengilegt efni og námsgögn um umhverfismennt.

• Námsgagnastofnun efli útgáfu námsefnis á sviði umhverfismála.

• Verkefnum á sviði umhverfisfræðslu, sem unnin hafa verið í grunnskólum landsins, verði safnað saman og þau samræmd eftir því sem við á og komið til Námsgagnastofnunar eða skólaskrifstofa til frekari dreifingar og upplýsingar fyrir aðra skóla. Sérstaklega verði hugað að því að nýta menntanetið í þessum tilgangi.

• Kennsluefni í óskyldum námsgreinum, t.d. móðurmáli, félagsfræði, o.s.frv. verði yfirfarið og gerð áætlun um mögulegar breytingar þannig að við kennslu verði m.a. tekið tillit til sjálfbærrar þróunar og þekkingar um umhverfi.

• Útgefið fræðsluefni um umhverfismál verði strax gert aðgengilegt til kennslu á viðkomandi skólastigi og/eða því fylgi viðunandi kennsluleiðbeiningar unnar í samráði við kennaraskóla, Námsgagnastofnun eða aðra aðila.


Kennaramenntun

• Kennaranemar fái þjálfun í að útfæra umhverfisfræðslu í sem flestum námsgreinum. Kennarar fái leiðsögn um umhverfisfræðslu og hvernig fella megi hana inn í sem flestar námsgreinar.

• Kennaramenntunarstofnanir auki framboð endurmenntunarnámskeiða í umhverfisfræðslu fyrir kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Umhverfisfræðsla utan hefðbundins skólastarfs

Umhverfisfræðsluráð

• Stofnað verður sérstakt umhverfisfræðsluráð til að sjá um að hagnýtum upplýsingum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar á öllum stigum samfélagsins sé veitt með skipulegum hætti til almennings og skóla. Hlutverk ráðsins verði að hvetja til aðgerða, koma á samvinnu, samræma og stuðla að aukinni umhverfismennt í samvinnu við sveitarfélög, samtök áhugamanna um umhverfismál, samtök almennings, aðila vinnumarkaðarins og stofnanir.

Sveitarfélög

• Sveitarfélög verði hvött til að ráða umhverfisráðgjafa. Hlutverk þeirra verði að ráðleggja íbúum sveitarfélagsins um náttúruvernd, aðstoða við skipulagningu á umhverfismennt í skólum og fyrir almenning og skipuleggja úrbætur í umhverfismálum héraðsins.

• Komið verði á upplýsingakerfi sem nýtist heilbrigðisnefndum, náttúruverndarnefndum og sveitarfélögum til að kynna þjónustu á sviði umhverfismála og þá möguleika sem eru til staðar í viðkomandi sveitarfélagi.

• Sveitarfélög varðveiti og verndi náttúruleg svæði, ekki síst í nágrenni þéttbýlis, m.a. til fræðslu. Nemendum gefist tækifæri til að taka þátt í verndun og viðhaldi svæðanna og þau gætu jafnvel verið falin skólum til umsjónar og varðveislu í samvinnu við yfirvöld. Hluti af starfi í vinnuskólum unglinga verði umhverfisfræðsla og náttúruupplifun. Nemendum, kennurum og foreldrum verði boðið að taka þátt í aðgerðum, svo sem viðhaldi, gerð fræðslustíga, merkingum, náttúruskoðun o.fl. í samvinnu við starfsmenn sveitarfélaga til þess að efla samkennd og ábyrgðar- tilfinningu gagnvart umhverfinu.

• Náttúrusöfnum verði gert kleyft að efna til umhverfisfræðslu og hafi frumkvæði að því að koma á markvissu samstarfi innbyrðis og við skóla.

Áhugamannasamtök

• Stofnanir, samtök, áhugafélög og atvinnufyrirtæki sem tengjast umhverfismálum auki samstarf við skóla og leggi umhverfisfræðslu lið með upplýsingum og sérfræðiþekkingu.

Heimili

• Umhverfisráðuneytið og stjórnvöld stuðli að útgáfu fræðsluefnis fyrir almenning og aukinni þáttagerð í fjölmiðlum, þar sem getið skal helstu atriða í rekstri heimilis og daglegu lífi, sem áhrif hafa á umhverfið og bent á leiðir til úrbóta.

Vinnustaðir

• Komið verði á samstarfi aðila vinnumarkaðarins á sviði umhverfisfræðslu. Umhverfisfræðsluráð, ásamt samtökum atvinnulífsins, vinni að því að efla og samræma umhverfisfræðslu vinnumark- aðarins. Með markvissri fræðslu verði starfsmenn í fyrirtækjum meðvitaðir um skaðsemi efna sem þeir vinna með og hvernig draga megi úr áhrifum á umhverfið og um leið bæta andlega og líkamlega líðan.

• Hagsmunasamtök vinnumarkaðarins felli umhverfisfræðslu inn í núverandi starfsfræðslukerfi.

• Lögð verði áhersla á að koma á fót námskeiðum fyrir stjórnendur fyrirtækja um hina ýmsu þætti umhverfismála í samvinnu við Endurmenntunarstofnun H.Í. og aðrar menntastofnanir, Stjórnunarfélag Íslands, Iðntæknistofnun og fleiri aðila á þessu sviði.

• Sérstakri fræðslu og hvatningu verði beint til þeirra, sem sinna innkaupum fyrirtækja þannig að þau auki notkun á viðurkenndum umhverfisvænum vörum.

Fjölmiðlar

• Stofnað verði til sérstakra umhverfis- verðlauna, sem veitt verða árlega fyrir umfjöllun um umhverfismál. Verðlaunin verði veitt fjölmiðlum jafnt sem einstökum blaðamönnum, dagskrárgerðarmönnum, textahöfundum og kvikmyndagerðarmönnum.

• Stofnað verði til sérstakrar fræðslu á sviði umhverfismála fyrir blaðamenn, t.d. við fjölmiðlanám Háskóla Íslands, svo og í endurmenntunarkerfi H.Í., þar sem fjölmiðlafólki væri m.a. gefinn kostur á að taka þátt í vinnuhópum við hæfi þess fjölmiðils (ljósvakamiðlar, dagblöð, tímarit, landsmála- og héraðsfréttablöð) sem það starfar við.

• Umhverfisfræðsluráð komi upp upplýsinga- banka um umhverfismál á netinu í samráði við stofnanir, samtök og aðra aðila sem koma að umhverfismálum. Slíkt upplýsinga- net ætti m.a. að nýtast fjölmiðlafólki og stuðla þannig að aukinni upplýsingamiðlun, bæði um innlend og alþjóðleg umhverfismál.

Stjórnvöld

• Umhverfisráðuneytið leiti eftir samstarfi við fræðslu- og vísindastofnanir, háskóla, áhugamannasamtök og sveitarfélög um uppbyggingu Náttúrugripasafns Íslands sem nútímalegs náttúrusafns, þannig að það nýtist almenningi sem fræðimönnum og geti þjónað öllum skólastigum og ferðamönnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira