Hoppa yfir valmynd
29. júlí 1999 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 28. október 1999. 2. tbl. 1. árg

2. tbl. 1. árg. útgefið þann 28. október 1999

Skýrsla fjármálaráðuneytis um ,,Starfsumhverfi ríkisstarfsmanna við aldahvörf"

Út er komin skýrsla fjármálaráðuneytisins um ,,Starfsumhverfi ríkisstarfsmanna við aldahvörf". Í skýrslunni eru birtar niðurstöður viðamikilla kannana sem gerðar voru meðal starfsmanna og forstöðumanna ríkisins á starfskjörum og starfsskilyrðum þeirra. Markmið þessara kannana var að fá fram hvert væri viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis síns. Þátttakendur voru allir ríkisstarfsmenn í hálfu starfi eða meira, eða tæplega 14.000 starfsmenn og af þeim svöruðu rétt um 8.000 eða tæp 60%.

Ritið skiptist í tvo meginhluta. Í fyrri hluta þess er fjallað um helstu þætti starfsmannamála ríkisins. Má þar nefna þróun starfsmannafjölda, árlega starfsmannaveltu, meðalaldur og menntunarstig ríkisstarfsmanna, mönnun ríkisstofnana eftir stærð og viðfangsefnum o.fl. Fjallað er um starfsaðstæður, samskipti á vinnustað, starfsánægju, vinnuálag og streitu. Eins er starfsþróun tekin fyrir sem og afstaða starfsmanna til launamála og fyrirkomulags launaákvarðana. Fyrri hlutanum lýkur með umfjöllun um úrlausnarefni við mótun áherslna í starfsmannamálum ríkisins á næstu árum. Í seinni hluta ritsins er svo að finna þær tölulegu upplýsingar sem fyrri hlutinn byggir á og annað ítarefni, m.a. skrá yfir ríkisstofnanir.

Úr niðurstöðum skýrslunnar má m.a. lesa að:

Ríkisstofnanir eru margar en fámennar. Árið 1998 voru ríkisstofnanir framkvæmdavaldsins tæplega 250 eða nær ein stofnun á hverja þúsund íbúa. Fámennasta stofnunin var með 1,5 stöðugildi og 45% ríkisstofnana höfðu færri en 20 stöðugildi.

Skýrslan hefur verið send til forstöðumanna. Við hvetjum alla til að lesa skýrsluna og skoða töflurnar sem í henni eru. Hér hafa verið valdar fjórar spurningar: "Þegar á heildina litið er ég ánægð(ur) með stjórnun stofnunarinnar", "Þegar á heildina er litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu", ,,Ég stefni að því að vinna hjá stofnuninni a.m.k. næstu 2 árin" og "Góður starfsandi er ríkjandi innan stofnunarinnar". Einnig er gerð grein fyrir hlutfalli karla og kvenna í störfum hjá ríkinu í október mánuði 1998. Niðurstöður eru settar upp í skífuritum og súluriti. Myndirnar tala sínu máli.

Þegar á heildina er litið er ég ánægð(ur) með stjórnun stofnunarinnar

Þegar áheildina er litið er égánægð(ur) í starfi mínu


Hlutfall karla og kvenna í okt. 1998

Ég stefni að því að vinna hjá stofnunni a.m.k. næstu 2 árin

Góður starfsandi er ríkjandi innan stofnunarinnar

 

_______________

Verkefnavísar 2000 og áframhaldandi þróun þeirra

Fjármálaráðuneytið gaf í síðustu viku út verkefnavísa fimmta árið í röð. Þeir geyma upplýsingar frá um u.þ.b. 300 aðilum sem ríkið fjármagnar og eru það 80% af þeim heildarfjölda sem hægt er að ætlast til að skili upplýsingum. Ráðuneytið þakkar forsvars-mönnum ráðuneyta og stofnana fyrir samstarfið um útgáfuna en þeir hafa lagt til bróðurpart allra upplýsinga í ritinu. Verkefnavísar hafa verið í stöðugri þróun. Þannig var í Verkefnavísum 1998 fyrst gerð grein fyrir hlutverki stofnana ásamt helstu verkefnum. Framsetning upplýsinga frá aðilum á sama starfssviði hefur smám saman verið samræmd og þjónustuvísar sem stofnanir láta í té, hafa verið að batna. Þróun verkefnavísa er hvergi nærri lokið enda eru þeir hluti af árangursstjórnun í ríkisrekstri sem stöðugt er unnið að.

Gagnsemi verkefnavísa

Margir spyrja: Hvaða gagn má hafa af verkefnavísum og hvernig verða þeir þróaðir áfram? Verkefnavísar eru ætlaðir alþingismönnum, ríkisstjórn, starfsmönnum ráðuneyta og stofnana og almenningi. Hér er um að ræða mjög breiðan hóp lesenda með ólíkar þarfir. Óhætt er að halda því fram að fáir hafi yfirsýn yfir hvaða hlutverki allar ríkisstofnanir gegna og við hvað þær fást. Það gildir um allan lesendahópinn. Starfsemi flestra stofnana breytist eitthvað frá ári til árs og það getur verið erfitt fyrir utanaðakomandi að fylgjast með breytingunum. Ekki má heldur gleyma því að stöðugar mannabreytingar eru innan ríkisrekstrarins. Í könnun á starfs-umhverfi kemur m.a. fram að nálægt fjórðungur starfsmanna æðstu stjórnsýslu hafi starfað þar skemur en eitt ár. Verkefni ríkisins eru mörg og verkaskipting stofnana flókin svo það getur tekið nýja starfsmenn töluverðan tíma að átta sig á hvernig þessu er háttað. Þetta gildir bæði um almenna starfsmenn og þá sem koma að mótun á rekstri og þjónustu ríkisins. Starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafa orðið varir við aukinn áhuga þeirra sem taka stefnumótandi ákvarðanir í ríkisrekstrinum á upplýsingum verkefnavísa. Af þessum sökum hafa verkefnavísar verið gefnir út í kjölfar fjárlagafrumvarps.

Áhugi á árangri stofnana

Verkefnavísar eru uppsláttarrit sem þjónar að hluta til sama tilgangi og Ríkishandbókin sem var síðast gefin út árið 1988, með skrá um stofnanir ríkisins, starfsmenn þeirra o. fl. Það er fróðlegt að bera saman hvaða upplýsingar birtast í síðustu ríkishandbókum og í verkefnavísaritum. Á meirihluta 672 blaðsíðna Ríkishandbókar 1988 er að finna nöfn, fæðingardaga og starfsaldur ríkisstarfsmanna. Þetta var í samræmi við þá áherslu fjármála-ráðuneytisins á þeim tíma að stjórna fjölda ríkisstarfsmanna með því að hafa eftirlit með ráðningu þeirra. Með auknu sjálfstæði stofnana í rekstrarmálum er ekki lengur áhugavert að birta samskonar upplýsingar um þær og áður. Nú beinist áhuginn að árangri þeirra og þáttum sem hafa sterka fylgni við hann. Hvað starfsmannahald áhrærir, beinist áhuginn ekki að nöfnum ríkisstarfsmanna og fjölda stöðugilda, heldur að starfsumhverfinu enda er það skoðun margra að starfsánægja hafi veruleg áhrif á það hve vel stofnanir ríkisins standa undir væntingum sem gerðar eru til þeirra um árangur.

Verkefnavísar eru liður í árangursstjórnun

Við undirbúning verkefnavísa síðustu ára hefur fjármálaráðuneytið lagt áherslu á að þeir eru hluti af þeirri árangursstjórnun sem ríkis-stjórnin hefur falið ráðuneytum að koma á í samskiptum sínum við undirstofnanir. Hvatt hefur verið til endurskoðunar á þjónustuvísum þannig að þeir mæli fremur þá þjónustu sem er veitt en það sem notað er við reksturinn. Vísar eiga að vera stjórnunarupplýsingar en ekki tölfræðiupplýsingar. Góðir vísar bera þess vitni að stjórnendur og starfsmenn skynji eðli og markmið þess starfs sem unnið er innan stofnunarinnar. Jafnframt magnvísum hefur verið óskað eftir gæðavísum þar sem talið er nauðsynlegt að mæla rekstur hverrar stofnunar frá nokkrum hliðum svo að mælingarnar bæti hver aðra upp og gefi góða heildarmynd af árangri starfseminnar í samanburði við markmiðin sem stefnt er að. Fjármála-ráðuneytið hefur bent starfsmönnum stofnana og ráðuneyta á þá þætti í rekstrinum sem rétt gæti verið að mæla. Þar sem mælikvarðarnir eru háðir því hvernig hlutverk stofnunarinnar er útfært með setningu markmiða, er það fyrst og fremst verkefni starfsmanna viðkomandi stofnunar og ráðuneytisins sem hún heyrir undir, að velja þá. Í mörgum tilvikum má fá ágæta heildarmynd með því að mæla hvernig stofnunin stendur fjárhagslega og hve hagkvæmur rekstur hennar er, hve ánægðir notendur þjónustunnar eru, ánægju starfsmanna og hve vel hún annar verkefnum sínum.

Mælingar á framleiðni áhugaverðar

Samningar milli ráðuneyta og undirstofnana, undir formerkjum árangursstjórnunar, sem fylgt er eftir með vönduðum áætlunum, er kjörinn vettvangur til þess að skerpa markmiðasetninguna og endurskoða mæli-kvarða. Áhugi fjármálaráðuneytisins beinist nú í auknum mæli að einingarkostnaði og framleiðni í ríkisrekstrinum. Þetta er nokkuð sem fleiri hafa áhuga á, ekki síst vegna þess að framleiðni fyrirtækja hér á landi er lakari en í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Einnig benda erlendar kannanir sterklega til að framleiðni sé minni í opinberum rekstri en í einkarekstri og að framleiðni minnki þegar uppsveifla er í efnahagslífinu. Forsvarsmenn ríkisstofnana eru hvattir til að hugleiða þetta og þróa mælikvarða á framleiðni sinna stofnana til að birta í verkefnavísum næstu ára.

Verkefnavísar og ársskýrslur stofnana

Einn af þremur hornsteinum árangurs-stjórnunar í ríkisrekstri er að meta verkefnin í þeim tilgangi að draga lærdóm af framkvæmd þeirra, bæta það sem farið hefur úrskeiðis og festa í sessi góð vinnubrögð. Ætlast er til að mat á árangri stofnana birtist í ársskýrslu sem send er viðkomandi ráðuneyti. Af hálfu fjármálaráðuneytisins er litið svo á að árs-skýrslan birti að verulegu leyti upplýsingar sem yrðu dregnar saman í verkefnavísum. Hið knappa form verkefnavísa gefur ekki kost á því að útskýra í orðum hverju rekstur stofnana skilar og þarf að leita leiða til að bæta úr því. Auk þess þyrfti að gera framsetningu tölulegra upplýsinga áhugaverðari. Augað á auðveldara með að greina þróun sem sýnd er í línuriti en í töflu. Stofnanir geta að sjálfsögðu bætt úr þessu í ársskýrslum sínum. Æskilegt er að verkefnavísar sýni lengra tímabil en þau þrjú ár sem nú er fjallað um hverju sinni svo að betra sé að greina þróun. Að lokum er rétt að huga að leiðum til að auðvelda lesendunum að bera saman stofnanir sem starfa á sama sviði.

 

_______________

Ýmislegt fréttnæmt

 • Undanfarið hálft annað ár hefur verið unnið að heildarútgáfu kjarasamninganna hjá starfsmannaskrifstofu. Hafa nú verið gefnir út samtals 25 samningar og aðrir 6 eru langt komnir. Betur má þó ef duga skal því að alls er hjá ríkinu um að ræða ríflega 80 kjarasamninga við u.þ.b. 110 stéttarfélög. Hefur nú bæst liðsauki í útgáfustarfið sem er starfsmaður Ríkisbókhalds. Jafnóðum og nýr heildarsamningur er tilbúinn til prentunar, er hann settur inn á vefsíðu fjármálaráðuneytisins og er þar aðgengilegur í Word-uppsetningu. Á núverandi síðu eru samningarnir undir nýtt efni en á endurskoðaðri vefsíðu undir Helstu viðfangsefni - starfsmannamál ríkisins - Kjarasamningar ríkisstarfsmanna.
 • Í vor voru haldin námskeið í árangursstjórnun og áætlanagerð fyrir forstöðumenn og fjármálastjóra ríkisstofnana. Þátttakendur lýstu ánægju sinni með þetta framtak og fram komu mjög ákveðnar óskir um að framhald yrði á slíkum námskeiðum fyrir aðra starfsmenn. Til að fylgja því eftir ákvað fjármálaráðuneytið að standa fyrir frekari námskeiðum fyrir aðra starfsmenn stofnana. Námskeiðin hófust í september og er nú þegar búið að bóka stofnanir út árið og fram í janúar. Þá er ráðgert að taka hlé þar til næsta haust. Fjármálaráðuneytið skorar á forstöðumenn að nýta sér þetta tækifæri til sóknar við að innleiða árangursstjórnun og vinnubrögð hennar í stofnunum sínum. Kynningarefni og rit ráðuneytisins um árangursstjórnun er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins . Nánari upplýsingar veitir [email protected]r.is
 • Fjármálaráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum unnið að endurbótum á vefsíðu þess. Afrakstur þeirrar vinnu er nú að líta dagsins ljós. Helstu breytingar eru að á forsíðu vefsins verður að finna efnisflokkun yfir helstu verkefni ráðuneytisins og þau verkefni sem ráðuneytið leggur sérstaka áherslu á. Gagnlegar upplýsingar eru færðar nær notandanum og gerðar sýnilegri. Aðrar breytingar sem vert er að nefna er að málefnum ráðuneytisins hafa verið gerð betri skil, efni uppfært og aukið við efni á enska og norræna vefnum. Vakin er sérstök athygli á eftirfarandi málaflokkum: Starfsmannamálum, opinberum framkvæmdum og innkaupum, fjárlögum ríkisins, tilkynningum, fréttabréfum, fræðsluefni fyrir forstöðumenn, námskeiðum og fyrirlestrum og árangursstjórnun. Fjármálaráðuneytið bindur vonir við að vefurinn geti nýst forstöðumönnum við upplýsingaöflun um málefni sem tengjast starfsemi ráðuneytisins og leggur kapp á að svo megi vera. Áætlað er að opna endurbættan vef þann 15. nóvember nk.
 • Fjármálaráðuneytið hefur samið um rétt þungaðra kvenna til mæðraskoðunar við BHM, BSRB og ASÍ. Í samningunum felst að þungaðar konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma. Samningarnir eru gerðir til að hrinda í framkvæmd ákvæðum 9. gr. tilskipunar ESB frá 19. október 1992, um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir eða hafa nýlega alið eða hafa börn á brjósti (92/85/EBE). Fjármálaráðuneytið sendi stofnunum og ráðuneytum þessa samninga með bréfi þann 10. september. sl. Samningana verður jafnframt að finna á endurskoðuðum vef ráðuneytisins.
 • Nefnd samkvæmt 27. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 (starfsmannalaga) hefur gefið fjármálaráðherra skýrslu um störf sín fyrir tímabilið 1. júlí 1997 til 30. júní 1999. Hlutverk nefndarinnar er að rannsaka mál þegar embættismönnum er veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi. Í slíkum tilvikum ber nefndinni jafnframt að láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir. Skýrslunni fylgja úrdrættir úr þeim sjö álitsgerðum er nefndin hefur tekið saman á umræddu tímabili. Hægt verður að nálgast skýrsluna og úrdrættina á endurskoðaðri vefsíðu ráðuneytisins.

 

_______________

Túlkun á kjarasamningum

Í 4. tölublaði, 12. árgangs BHM tíðinda, Bandalags háskólamanna, birtist grein undir yfirskriftinni Yfirvinna tekin út í frí. Í greininni kemur fram að yfirvinna tekin út í fríi skuli lúta sömu reglum og væri yfirvinnan greidd sem tímakaup í yfirvinnu. Þar kemur einnig fram að samþykki starfsmaður að taka yfirvinnu sína út í fríi, skuli fara að hlutaðeigandi kjarasamningi á sama hátt og þegar greitt er fyrir yfirvinnu með tímakaupi.

Þessi túlkun BHM er á veikum grunni byggð.

Það hefur verið skilningur aðila að sé yfirvinna tekin út í fríi, sé um að ræða tíma á móti tíma. Um þetta atriði hefur verið samið í nokkrum kjarasamningum, m.a. með þeim hætti að fari yfirvinna starfsmanns fram úr 1/3 af vikulegri vinnuskyldu hans, skuli hann hafa val á milli leyfis og launa sem því nemur, þannig að ein klukkustund í leyfi komi í stað hverrar unninnar yfirvinnustundar. Slíkt leyfi má aðeins taka í samráði við yfirmann stofnunar.

 

_______________

AUGLÝSING - Norræn starfsmannaskipti

Norræna ráðherranefndin hefur síðan 1979 veitt styrk til þess að gera ríkisstarfsmönnum kleift að stunda tímabundið nám eða störf á starfsvettvangi sínum í ríkisstofnunum á hinum Norðurlöndunum. Umsóknarfrestur fyrir starfsmannaskipti vegna ársins 2000 er til 15. nóvember 1999.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins og hjá [email protected]

 

_______________

Starfsmannaréttur - Störfum og verksviði breytt

Með einhliða tilkynningu geta forstöðumenn breytt störfum og verksviði starfsmanna frá því að þeir tóku við störfum. Svo virðist sem mönnum sé almennt ekki kunnugt um þessa stjórnunarheimild, sem er að finna í 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, hér eftir nefnd starfsmannalög. Þá eru þess dæmi að ekki sé rétt staðið að breytingum samkvæmt 19. gr. með tilliti til formsins. Í stað þess að tilkynna viðkomandi um breytingarnar með sérstöku bréfi hafa menn gert nýja ráðningarsamninga eða gefið út ný setningar- eða skipunarbréf. Með því að ganga þannig frá breytingunum er því sjónarmiði að verið sé að víkja frá auglýsingaskyldu gefið rækilega undir fótinn. En það gefur auga leið að auglýsing er með öllu tilgangslaus og óþörf ef fyrir liggur ákvörðun um að breyta starfi og verksviði tiltekins starfsmanns í stað þess að ráða nýjan.

Ákvörðun um breytingar á störfum og verksviði þarf að tilkynna starfsmanni skriflega þar sem fram kemur í hverju breytingarnar felast, hvenær þær muni koma til framkvæmda og hvort þær hafi áhrif á launakjör starfsmanns. Nauðsynlegt er að vísa til 19. gr. starfsmannalaganna og raunar ágætt að taka ákvæðið í heild sinni upp í bréfið en þar kemur m.a. fram að starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga enda skýri hann frá því innan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum. Með tilliti til þess tímafrests sem starfsmaður hefur til umhugsunar, er æskilegt að honum sé tilkynnt um breytingar á störfum og verksviði með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.

Breytingar samkvæmt 19. gr. starfsmannalaga geta lotið að vinnutíma, verkefnum og verksviði og vinnustað. Ríkisstofnun verður þó ekki flutt frá Reykjavík án lagastoðar, sbr. Hrd. frá 18. desember 1998 í máli nr. 312/1998 (Landmælingar Íslands). Tilefni breytinganna getur verið nýtt skipulag hjá viðkomandi stofnun eða nýtt fyrirkomulag innan þess skipulags sem fyrir hendi er hjá stofnuninni. Breytingarnar geta t.d. verið á þá leið að starfsmanni beri að sinna störfum sínum í annarri deild og undir stjórn annars yfirmanns en áður. Þá kunna breytingarnar að leiða til þess að verkefni hans verða önnur en slíkt kann jafnframt að hafa í för með sér annað starfsheiti. Hið nýja starfsheiti getur verið hliðsett hinu eldra eða falið í sér stöðuhækkun eða stöðulækkun.

Það er ekki ljóst hversu miklar breytingar er hægt að gera á störfum og verksviði starfsmanns samkvæmt 19. gr. starfsmannalaga þar sem engin dómaframkvæmd er fyrir hendi. Ætla verður þó að á grundvelli þessarar lagagreinar verði ríkisstarfsmenn að hlíta meiri breytingum á störfum og verksviði en starfsmenn á hinum almenna markaði þurfa að þola. Umboðsmaður Alþingis hefur litið svo á, að breytingarnar skv. 33. gr. eldri laga, verði eðli máls samkvæmt að vera starfsmanni samboðin, meðal annars með hliðsjón af menntun, sbr. skýrslu hans frá 1991/97.

Að lokum skal tekið fram að meginregluna um að skylt sé að auglýsa laus störf og laus embætti er að finna í 7. gr. starfsmannalaga. Þá er rétt að árétta að reglur nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, gilda ekki um störf embættismanna. Á hinn bóginn gildir ákvæði 19. gr. starfsmannalaga um alla starfsmenn er falla undir gildissvið laganna, þ.e. bæði embættismenn og aðra starfsmenn ríkisins.

_______________

Athygli er vakin á

Í þeim tilvikum er starfsmaður er þungaður, hefur nýlega alið barn eða hefur barn á brjósti þarf vinnuveitandi, hvort heldur atvinnurekandi á hinum almenna markaði eða forstöðumaður ríkisstofnunar, að gæta að því hvort starfið geti haft í för með sér hættu fyrir öryggi og heilbrigði starfsmannnsins sakir mengunar, vinnuaðferða eða vinnuskilyrða. Ef svo er þarf að grípa til viðeigandi ráðstafana. Þær geta t.d. falist í því að breyta vinnuskilyrðum eða vinnutíma starfsmannsins tímabundið, fela honum önnur verkefni eða veita honum leyfi frá störfum. Sjá nánar reglugerð félagsmálaráðuneytis nr. 679/1998, um ráðstafanir til þes að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Vinnueftirlit ríkisins fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og annast kynningu hennar. Veffang vinnueftirlitsins er: www.vinnueftirlit.is.

Reykingar á vinnustöðum, hvort heldur á hinum almenna markaði eða hjá því opinbera, eru almennt óheimilar. Þær eru alfarið óheimilar í skólum og heilbrigðisstofnunum sem og á stöðum sem almenningur hefur aðgang að vegna afgreiðslu eða þjónustu, sbr. reglur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um tóbaksvarnir á vinnustöðum nr. 88/1999. Í öðru atvinnuhúsnæði getur atvinnurekandi / forstöðumaður þó heimilað reykingar í ákveðnum tilvikum, svo fremi sem sérstakar reglur banni það ekki, t.d. vegna framleiðslu matvæla, eldhættu eða öryggis í flugi. Samkvæmt reglum um tóbaksvarnir er til að mynda heimilt að leyfa starfsmanni að reykja í vinnurými hans meðan hann er þar einn, þ.e. ef starfsmaðurinn er einn um vinnurýmið og það tengist öðru vinnurými einungis með lokanlegum dyrum. Það er ennfremur skilyrði að starfsmaðurinn hafi ekki með höndum afgreiðslu eða þjónustu við almenning í vinnurýminu. Vinni tveir eða fleiri starfsmenn í slíku rými er heimilt að leyfa þeim, með sömu skilmálum, að reykja þar enda hafi hver og einn þeirra samþykkt þá tilhögun. Þá er rétt að geta þess að heimilt er að hafa afdrep fyrir reykingar á vinnustað. Afdrepið skal vera vel loftræst og þannig fyrir komið að tóbaksreykur berist ekki til annarra svæða á vinnustaðnum.

_______________

Athyglisverðir dómar

Hér á eftir er sagt frá tveimur nýlegum héraðsdómum.

Fyrra málið:

Aðilar deildu m.a. um það hvort lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, hér eftir nefnd starfsmannalög, ættu við um uppsögn á vinnusambandi þeirra fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-3446/1998: Þ.R. gegn Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ). Dómur var kveðinn upp 14. apríl 1999. SÁÁ hefur áfrýjað dóminum.

Með skriflegum ráðningarsamningi í júlí 1995 var stefnandi ráðinn ótímabundið til ráðgjafastarfa hjá SÁÁ. Í ráðningarsamningi var vísað til starfsmannalaga. Þar var einnig sérstakt ákvæði um að:".. starfsmaður hætti þegar í stað störfum ef hann hafi óleyfileg samskipti við sjúkling í meðferð en öll samskipti starfsmanna við sjúklinga þar sem perónulegir hagsmunir starfsmanna geta komið til, eru bönnuð í að minnsta kosti eitt ár frá lokum meðferðar". Sambærilegt ákvæði var að finna í siðareglum SÁÁ. Í janúar 1998 kynntist stefnandi konu sem hafði lokið áfengismeðferð frá meðferðarheimili SÁÁ í mars 1996 og notið göngudeildarstuðnings hjá SÁÁ þar til í mars 1997 en á þeim tíma starfaði stefnandi sem ráðgjafi á göngudeild og hélt m.a. fyrirlestra fyrir stuðningshópa. Stefnandi kvaðst ekki hafa komið að meðferð konunnar.

Með vísan til ráðningarsamnings og siðareglna ráðgjafa hjá SÁÁ var stefnanda fyrirvaralaust sagt upp störfum hjá SÁÁ í febrúar 1998. Stefnandi hélt því fram að um ólögmæta uppsögn hefði verið að ræða þar sem hún hefði í fyrsta lagi byggst á röngum forsendum og í öðru lagi hefði formreglum (málsmeðferðarreglum) starfsmannalaga í engu verið fylgt.

Í forsendum dómsins sagði að skv. ráðningarsamningi giltu starfsmannalög um réttarstöðu stefnanda og að skylt hefði verið að fylgja ákvæðum 44. gr. og 21. gr. þeirra laga í þessu tilviki. Með þessu hafnaði dómurinn þeirri skýringu SÁÁ að ákvæði ráðningarsamningsins um "samskiptabann" við sjúklinga SÁÁ viki til hliðar almennum ákvæðum starfsmannalaga. Um orðalag fyrrnefnds ákvæðis sagði dómurinn að þrátt fyrir að starfsemi SÁÁ fari fram bæði á sjúkra-stofnunum og göngudeildum, yrði að líta svo á að það næði ekki til samskipta stefnanda og konunnar í byrjun árs 1998. Stefnandi fékk dæmdar skaðabætur er svöruðu til um það bil sexföldum mánaðarlaunum hans hjá SÁÁ en miskabótakröfu var hafnað.

Af dóminum er ljóst að ákvæði starfsmannalaga geta átt við um réttarstöðu annarra starfsmanna en ríkisstarfsmanna, þ.e. á grundvelli samningsákvæða. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á að í þeim tilvikum þegar starfsmaður gegnir aukastarfi í þjónustu ríkisins þá er hann ekki ríkisstarfsmaður í skilningi starfsmannalaga, sbr. 1. gr. laganna. Um réttindi hans og skyldur getur engu að síður farið eftir ákvæðum starfsmannalaga, sé um slíkt samið í ráðningarsamningi.

Þess eru einnig dæmi að í kjarasamningi sé samið um að réttindi og skyldur félagsmanna hjá sjálfseignarstofnun skuli vera hliðstæð því sem mælt er um í starfsmannalögum. Fyrrum starfsmaður á Landakotsspítala fékk dæmd biðlaun á grundvelli slíks ákvæðis með dómi Hæstaréttar frá 19. október 1995 (1995:2342) í málinu 93/1993: G.S. gegn St. Jósefsspítala.

_______________


Síðara málið:

Aðilar deildu um það hvort uppsögn vinnuveitanda á ráðningarsamningi hans og starfsmanns á reynslutíma hefði verið lögmæt fyrir Héraðsdómi Reykjaness í máli nr. E-60/1999: J.I.Ó. gegn Heilsugæslunni í Garðabæ (HG). Dómur var kveðinn upp 31. maí 1999. J.I.Ó. hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar. Stefnandi var ríkisstarfsmaður í skilningi starfsmannalaga. Hann var ráðinn til starfa hjá HG sem framkvæmdastjóri í hálfu starfi frá 1. ágúst 1998 með skriflegum samningi. Ráðningarsamningurinn var ótímabundinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Í stöðluðu ákvæði ráðningar-samningsins sagði: "Uppsagnarfrestur ótíma-bundins ráðningarsamnings er þrír mánuðir. Þó skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Uppsagnarfrestur tímabundins ráðningar-samnings er einn mánuður." Þá sagði að um réttindi og skyldur starfsmanns færi eftir starfsmannalögum og að þau lög lægju til grundvallar við gerð ráðningarsamningsins. Í starfsmannalögunum er kveðið á um þá meginreglu að starsfmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnar-fresti og að sá frestur skuli vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um lengri uppsagnarfrest sé samið í kjarasamningi.

Í október sama ár var stefnanda sagt upp störfum með eins mánaðar fyrirvara miðað við mánaðamót. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi hans eftir að uppsagnarbréfið hafði verið afhent. Stefnandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni og fékk þau svör að ákvörðunin hefði byggst á skriflegum starfssamningi, að uppsögnin hefði átt sér stað á reynslutíma samningsins og væri að öllu leyti í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest. Stefnandi var ósáttur við þennan rökstuðning og sagði að þvert á móti hefðu engar frambærilegar ástæður verið færðar fram sem réttlætt gætu uppsögnina, t.d. að hann rækti ekki starf sitt með fullnægjandi hætti eða þess háttar. Stefnandi krafðist skaðabóta að jafngildi þeim launum sem hann hefði haft í umræddu starfi í 24 mánuði.

Dómurinn sýknaði HG af kröfum stefnanda. Í forsendum dómsins sagði að þegar litið væri til aðdraganda uppsagnar stefnanda, lægi ekki fyrir að uppsögnin ætti rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. starfsmannalaga. Við mat á lögmæti uppsagnarinnar bæri því eingöngu að beita ákvæði 43. gr. laganna. Dómurinn vísaði jafnframt til 41. gr. starfsmannalaga og sagði að þar sem reynslutími ráðningarsamninga ríkisstarfsmanna væri ekki tiltekinn, yrði ályktað að það hafi verið vilji löggjafans að eftirláta forstöðumönnum ríkisstofnana að ákveða lengd reynslutíma hverju sinni. Þá sagði að samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda og HG hefði gagnkvæmur uppsagnarfrestur fyrstu þrjá mánuðina í starfi verið ákveðinn einn mánuður. Með því ákvæði hefðu málsaðilar ákveðið að reynslutíminn skyldi vara í þrjá mánuði er þýddi að hvorum aðila um sig var heimilt að segja samningnum upp á þessum tíma með umsömdum uppsagnarfresti án þess að tilgreina ástæður uppsagnarinnar sérstaklega en samkvæmt 2. mgr. 44. gr. starfsmannalaga væri skylt að rökstyðja uppsögn skriflega ef starfsmaður færi fram á það. Þá sagði dómurinn að rökstuðningur HG hefði verið nægilegur eins og hér stóð á en í rökstuðningnum sagði að uppsögnin ætti sér stað á reynslutíma og væri í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest.

Af dóminum er a.m.k. ljóst að á reynslutíma getur forstöðumaður án aðvörunar eða sérstakra skýringa sagt starfsmanni upp störfum með umsömdum uppsagnarfresti enda eigi ástæður uppsagnar ekki rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. starfsmannalaga. Óski starfsmaður eftir rökstuðningi fyrir uppsögn í slíkum tilvikum, nægir að vísa til þess að uppsögnin hafi átt sér stað á reynslutíma samningsins og hafi verið í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest. Þá má með hliðsjón af dóminum segja að starfsmaður sem ráðinn er til starfa í ótiltekinn tíma í þjónustu ríkisins, öðlist fyrst réttarstöðu ríkisstarfsmanns á ótímabundnum samningi að reynslutíma loknum - að samningurinn verði ekki fullgildur að þessu leyti fyrr en að reynslutíma liðnum.

_______________

Frá félagi forstöðumanna ríkisstofnana

SKILVIRK STJÓRNSÝSLA – STYRKUR ÍSLANDS!

Eftir Vilhjálm Lúðvíksson

Framkvæmdastjóra RANNÍS

Það hefur lengi verið skoðun mín, byggð á reynslu og samanburði, að íslenskar stofnanir hins opinbera skiluðu miklu meiri og betri þjónustu og þjóðfélagslegum ávinningi en þær fá heiðurinn af í daglegu umtali. Hnútukast fjölmiðla um ,,blýantsnagara" og ,,jötuætur á framfæri hins opinbera" svo og aðvörunum forsvarsmanna samtaka atvinnulífsins um ofþenslu opinbera geirans og oflaun opinberra starfsmanna hefur nánast aldrei verið svarað af okkur forstöðumönnum stofnana hins opinbera.

Þetta hefur farið í taugarnar á mér. Bæði hagtölur og reynsla mín á því sviði sem ég þekki, segja allt aðra sögu. Tölurnar sýna að opinberi geirinn á Íslandi ,,tekur til sín" miklu minni hluta en gerist í öllum þeim löndum OECD sem við á annað borð viljum bera okkur saman við, - lönd sem bjóða uppá þá þjónustu sem Íslendingar krefjast og telja sjálfsagða.

Margir sem reynt hafa að flytjast til annarra landa úr íslensku kerfi með sjálfan sig, fjölskyldu og/eða fyrirtæki hafa orðið fyrir vonbrigðum í ,,fyrirheitnu landi" og oftar en ekki snúið til baka reynslunni ríkari. Þeir segja farir sínar ekki sléttar af viðskiptum við skrifræði, eftirlits- og forsjárkerfi sem skapar aukinn kostnað og tímasóun, hvað sem líður loforðum um opinbera aðstoð, styrki, skattaafslætti og velferðarforsjá og annað form á ,,grænu grasi handan girðingar".

Ég hef beinan samanburð úr rannsóknastarfseminni þar sem við leysum gjarnan sömu eða hliðstæð verkefni fyrir 1/3 til 1/5 þess kostnaðar sem gerist hjá öðrum þjóðum. Nærtækt dæmi er í rannsóknum og stjórnun fiskveiðimála, t.d. í samanburði við Noreg miðað við til aflamagn og verðmæti. Samkvæmt hefðbundinni hagfræði felst í þessu ákveðin þversögn því samkvæmt henni njótum við hvergi hagkvæmni stærðarinnar, og Íslendingar gera kröfu um að gera allt fyrir alla – á heimsmælikvarða og verða strax óánægðir ef við liggjum einhvers staðar eftir.

Það kom því þægilega á óvart þegar forsætisráðherra í síðasta áramótaávarpi sínu hafði eftir ungum brautryðjanda í upplýsingaiðnaðinum, að íslenska stjórnkerfið væri svo framúrskarandi gott að það væri hæft til útflutnings! Það var afar gott að heyra þetta af vörum ,,stjórnarformanns í fyrirtækinu Ísland" - og haft eftir frumkvöðli úr einkageiranum!

Þessi sami boðskapur var svo staðfestur af Ágústi Þór Jónssyni ráðgjafarverkfræðingi, sem lengi hefur unnið fyrir Alþjóðabankann og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að úttektum og endurbótum á stjórnkerfum fyrrum austantjaldsríkja og í þróunarríkjum. Hann lýsti reynslu sinni af þessu á Nýsköpunarþingi RANNÍS og Útflutningsráðs fyrr á þessu ári og staðfesti einarðlega að íslenska stjórnkerfið væri til fyrirmyndar og án efa útflutningshæft í formi ráðgjafar og sölu á einföldum skilvirkum kerfum fyrir þjóðfélög í endurhæfingu. Í erindi sínu taldi hann upp langan lista verkefna á eftirfarandi sviðum:

 • Heildarskipulag almennrar stjórnsýslu
 • Skattamál
 • Umferðaröryggi
 • Flugöryggi
 • Orkumál
 • Heilbrigðismál
 • Almannatryggingakerfið
 • Almannavarnir
 • Samgöngumál
 • Stjórn sjávarútvegsmála
 • Neytendamál
 • Hollustumál
 • Dómskerfi
 • Uppbyggingu ,,gæðainnviða" þjóðfélagsins s.s. rannsóknastarfsemi, stöðlun og tæknilegar reglugerðir!

Skýringuna á skilvirku kerfi taldi hann að rekja mætti til:

 • Vel skilgreindra og fastmótaðra pólitískra leiðbeininga.
 • Vel afmarkaðrar faglegrar verkaskiptingar innan stjórnsýslunnar.
 • Lítilla heildarumsvifa er samt nær til allra nauðsynlegra þátta þjóðfélagsins.
 • Góðrar löggjafar um alla þætti stjórnsýslu.
 • Hæfs starfsfólks með víðtæka reynslu.
 • Óspillts stjórnkerfis.
 • Tölvuvæðingar á háu stigi.

Sjálfur tel ég að skýringin liggi ekki síður í:

 • Kostum smæðarinnar og beinna tengsla og stuttra boðleiða, bæði innan stjórnkerfis og til notenda opinberrar þjónustu.
 • Hæfu og vel menntuðu starfsfólki með sterka samfélagsvitund, réttlætiskennd og vilja til þess að gera sitt besta til að þetta litla þjóðfélag standi sig í alþjóðlegum samanburði.
 • Útsjónarsemi, að leita einfaldra og ódýrra lausna.

Hvað sem skýringunum líður, tel ég matið réttmætt - og að opinberir starfsmenn geti borið höfuðið hátt sem framleiðendur þjónustu í þágu góðs mannlífs á Íslandi! Á hinn bóginn er enginn vafi á að við getum gert enn betur! Við eigum í raun eftir að nýta okkur möguleika smæðarinnar á markvissan hátt – með því að taka upp skipulegt samstarf og samvirkni og skapa samlegðaráhrif (synergi). Þannig getum við ennþá aukið við það sem fæst út úr fé skattborgaranna og skapað verðmæti í formi aukinnar þjónustu með sama tilkostnaði.

-Hvernig væri að hjálpast að?! -

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira