Hoppa yfir valmynd
20. júní 2000 Dómsmálaráðuneytið

Reglur um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum

20. júní 2000                                                                                                                                        Nr. 463

 

1. gr.

                Reglur þessar eru settar samkvæmt 2. og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og gilda um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara í þágu annarra og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum.

 

2. gr.

                Dómara er heimilt í takmörkuðum mæli að taka að sér kennslu- og prófdómarastörf án þess að leita fyrirfram leyfis nefndar um dómarastörf, sem starfar samkvæmt IV. kafla laga um dómstóla. Hinu sama gegnir um setu í dómnefnd um hæfi umsækjenda um stöður háskólakennara og um einstök verkefni, sem Alþingi eða nefnd Alþingis felur dómara að vinna. Dómari skal þó tilkynna nefnd um dómarastörf um störf, sem um ræðir í þessari grein, áður en hann tekur við þeim.

 

3. gr.

                Dómara er heimilt að sitja í gerðardómi samkvæmt tilnefningu eins og einungis sumra málsaðila, en ekki allra. Bannið á þó ekki við ef tilnefning í gerðardóm er sameiginleg af hendi beggja eða allra málsaðila eða stafar frá þeim, sem falið er í gerðarsamningi eða með lögum að tilnefna slíkan dómara. Skal um þau störf farið eftir ákvæðum 4. greinar þessara reglna.

                Dómara er óheimilt að taka að sér málflutningsstörf. Sama máli gegnir um önnur hefðbundin lögmannsstörf ef endurgjald kemur fyrir.

                Dómara er ennfremur óheimilt að gegna stjórnunarstörfum í félagi eða öðrum lögaðila, sem hefur þann megintilgang að stunda atvinnustarfsemi í hagnaðarskyni.

 

4. gr.

                Dómara er heimilt að taka að sér önnur aukastörf en getið er að framan að fengnu samþykki nefndar um dómarastörf. Leita skal samþykkis nefndarinnar hverju sinni fyrirfram. Dómari skal einnig tilkynna þegar hann lætur af aukastarfi, sem hann tók áður að sér til óákveðins tíma.

 

5. gr.

                Umsókn um að mega gegna aukastarfi skulu fylgja tiltækar upplýsingar um eðli starfans, hvað ætla megi um umfang hans og hver ákveði og greiði laun, sem honum fylgja.

                Ef aukastarf, sem heimild hefur fengist fyrir, breytist þannig að hugsanlegt sé að það samrýmist ekki lengur stöðu dómara, ber honum að gera nefnd um dómarastörf viðvart. Hið sama á við ef umfang aukastarfs eykst þannig að hætta kunni að vera á að dómari geti af þeirri ástæðu ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi.

                Nefnd um dómarastörf getur krafið dómara upplýsinga um hve miklum tíma hann hafi varið í framkvæmd aukastarfs.

 

6. gr.

                Dómara er heimilt að taka að sér ólaunuð störf í þágu áhugamannasamtaka og þarf hvorki að tilkynna nefnd um dómarastörf um slík viðfangsefni né leita samþykkis hennar fyrir þeim. Sjái nefnd um dómarastörf sérstakt tilefni til að kanna umfang slíkra starfa skal dómari gera grein fyrir þeim.

 

7. gr.

                Dómara er heimilt að eiga hlut í öðrum félögum og atvinnufyrirtækjum en þeim, sem sérstakar lögfestar hömlur gilda um varðandi eignaraðild.

                Skylt er dómara að tilkynna nefnd um dómarastöf um eignarhlut sinn í félagi, sem hefur skráð gengi í verðbréfaviðskiptum, sé hann að verðmæti allt að 3.000.000 króna. Sama á við um önnur félög, sem dómari á allt að 5% hlut í.

                Leita skal heimildar nefndarinnar sé eignarhlutur dómara í félagi umfram þau mörk, sem greinir að framan.

 

 

8. gr.

                Nefnd um dómarastörf getur með rökstuddri ákvörðun meinað dómara að gegna aukastarfi eða eignast hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Hafi dómari þegar tekið að sér starf eða eignast hlut skal hann laga sig að ákvörðun nefndarinnar innan sex mánaða að því er aukastarfið varðar, en tólf mánaða að því er varðar eignarhlutinn.

 

9. gr.

                Aðili dómsmáls á rétt á að fá frá nefnd um dómarastörf upplýsingar um tiltekið aukastarf eða eignarhlut dómara í félagi, ef það getur að mati nefndarinnar skipt máli fyrir það ágreiningsefni, sem er til úrlausnar, eða hefur verið dæmt.

 

10. gr.

                Reglur þessar öðlast þegar gildi.

 

 

 

Reykjavík, 20. júní 2000.

 

 

Nefnd um dómarastöf samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

 

 

Gunnlaugur Claessen                                            Helgi I. Jónsson                                  Sigurður Líndal

hæstaréttardómi                                                     héraðsdómari                                       prófessor

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira