Ísland fullgildir samþykkt ILO nr. 156
Hinn 22. júní sl. afhenti fastafulltrúi Íslands fullgildingarskjal Íslands vegna samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu, Starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981. Samþykktinni fylgja tilmæli nr. 165 sem bera sama nafn og samþykktin og fela í sér nánari útfærslu á efni hennar. Í tilmælunum eru ríki hvött til aðgerða til að stuðla að jafnræði til handa vinnandi körlum og konum með fjölskylduábyrgð.
Samþykkt ILO nr. 156 og tilmælunum sem fylgja henni er annars vegar ætlað að stuðla að jafnrétti karla og kvenna sem bera fjölskylduábyrgð til starfa og hins vegar að jafna aðstöðu þeirra starfsmanna sem bera ábyrgð á fjölskyldu og þeirra sem ekki hafa slíka ábyrgð.
Helstu skuldbindingar sem ríki takast á hendur með fullgildingu samþykktar ILO nr. 156 eru eftirfarandi:
· Að setja það markmið í stjórnarstefnu sína að gera einstaklingum með fjölskylduábyrgð, sem eru í atvinnu eða óska eftir að gegna launuðu starfi, kleift að framfylgja þeim rétti sínum án þess að verða fyrir mismunun og að svo miklu leyti sem mögulegt er án árekstra milli atvinnu og fjölskylduábyrgðar.
· Að gera allar mögulegar ráðstafanir til að gera starfsfólki með fjölskylduábyrgð kleift að nýta rétt sinn til frjáls vals atvinnu og jafnframt að taka tillit til þarfa þeirra varðandi starfskjör, vinnuskilyrði og félagslegt öryggi.
· Að gera ráðstafanir til þess að tekið sé tillit til þarfa starfsfólks með fjölskylduábyrgð á sveitarstjórnarstigi. Í þessu sambandi er sérstaklega bent á barnagæslu og fjölskylduaðstoð.
· Að stuðla að upplýsingum og fræðslu sem leiði til almennari skilnings á meginreglunni um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu og á vandamálum starfsfólks með fjölskylduábyrgð.
· Að gera ráðstafanir, svo sem á sviði starfsfræðslu og þjálfunar til þess að gera starfsfólki með fjölskylduábyrgð kleift að hefja og halda áfram þátttöku í atvinnulífinu, svo og að koma á vinnumarkaðinn á ný eftir fjarveru vegna þessarar ábyrgðar.
· Að tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík verði ekki gild ástæða til uppsagnar starfs.
· Að framfylgja ákvæðum samþykktarinnar með lögum, reglugerðum, kjarasamningum, starfsreglum, gerðardómum, dómsúrskurðum eða með hverjum öðrum þeim hætti sem við kann að eiga, að teknu tilliti til aðstæðna í viðkomandi landi.
- Ísland er 31. aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem fullgildir samþykkt nr. 156.
Samþykktin tekur gildi fyrir íslenska ríkið að liðnum 12 mánuðum frá fullgildingu hennar, þ.e. 22. júní 2001.
Tengt efni:
Ný lög um fjölskylduábyrgð