Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2000 Dómsmálaráðuneytið

Reglur um litmerkibyssur nr. 464 26. júní 2000.

REGLUR
um litmerkibyssur

Gildissvið
1. gr.

Reglur þessar gilda um kolsýru-, loft- og fjaðurbyssur sem ætlaðar eru til notkunar í litboltaleik. Skilyrði þess að ofangreindar merkibyssur, falli undir reglurnar en ekki ákvæði vopnalaga um loftbyssur, er að þær séu eingöngu hannaðar til að skjóta litboltum sem eru a.m.k. 16 mm í þvermál.

2. gr.

Kúlur í merkibyssur, sem samanstanda af gelatínhúð o.fl. og innihalda litarefni, eru ekki háðar ákvæðum vopnalaga. Reglur vopnalaga taka ekki til hleðslukúta og -hylkja sem framleidd eru sérstaklega fyrir litmerkibyssur.

Almenn ákvæði
3.gr

Notkun litmerkibyssa er bönnuð nema á afmörkuðum viðurkenndum svæðum. Litmerkibyssur skulu vera í eigu fyrirtækis eða félagasamtaka sem hafa litboltaleik að markmiði og hafa fengið viðurkenningu ríkislögreglustjórans. Slík félög skulu hafa aðgang að öruggum geymslum fyrir litmerkibyssur og hlutum er þeim fylgja og halda um þá skrá.
Umsjónarmenn hvers félags bera ábyrgð á útlánum litmerkibyssa og að þátttakendur í leik beri sérbúnar andlitshlífar til að koma í veg fyrir meiðsli.

4. gr.

Þar sem litmerkibyssur eru notaðar skal a.m.k. einn lögráða umsjónarmaður vera við leiksvæðið.
Fyrir þátttöku í litboltaleik skulu ungmenni undir 18 ára aldri hafa skriflegt samþykki forráðamanns. Óheimilt er að afhenda barni undir 15 ára aldri litmerkibyssu.

5. gr.

Við notkun á litmerkibyssum skal ítrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir viðurkenndum leikreglum sem umsjónarmanni félags er skylt að kynna þátttakendum. Þeim sem eru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er óheimil meðferð á litmerkibyssum.

6. gr.

Tilkynna ber lögreglu um öll alvarleg slys sem kunna að verða við meðferð á litmerkibyssum og/eða litboltum í þær.
Óheimilt er að breyta litmerkibyssu á nokkurn hátt þannig að hún hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hennar ætlaðist til.


7. gr.
Viðurkenning félags

Félag sem hefur litboltaleik með litmerkibyssum að markmiði skal leita leyfis ríkislögreglustjórans. Til að öðlast slíkt leyfi skal félagið uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1. Vera stofnað á sérstökum stofnfundi og skráð hjá Hagstofu Íslands.
2. Hafa skipulagsbundna stjórn og tilgreindan ábyrgðarmann með skotvopnaleyfi.
3. Hafa félagslög.
4. Hafa skráðar leikreglur.
5. Hafa aðgang að viðurkenndri geymslu fyrir tæki í eigu félagsins.

8. gr.
Geymslu-og leiksvæði

Varsla á litmerkibyssum og litboltum í þær skal vera í húsnæði búnu þjófavörn viðurkenndu af lögreglustjóra og skulu merkibyssur og litboltar aðskilin í læstum hirslum.
Lögreglustjórar geta veitt viðurkenndum félögum leyfi fyrir leiksvæðum, að fenginni umsögn sveitarstjórnar. Ekki má leyfa leiksvæði nema ytri mörk vallar séu í a.m.k. 150 metra fjarlægð frá næstu umferðargötu og ekki á opnum útivistarsvæðum. Fjarlægðarmörk má þó stytta, ef völlur er girtur með öryggisneti þannig að tryggt sé að leikurinn trufli ekki umferð.

9. gr.
Innflutningur

Enginn má flytja inn litmerkibyssur í atvinnuskyni nema með leyfi ríkislögreglustjórans. Leyfi til að flytja inn litmerkibyssur verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé fyrirtæki eða félagasamtök með virðisaukaskattsnúmer og tilgreindan ábyrgðarmann sem hefur skotvopnaleyfi.
Aðeins er heimilt að veita innflutningsleyfi fyrir litmerkibyssum þeim sem hafa starfsleyfi til að versla með skotvopn og skotfæri auk viðurkenndra félaga sem hafa litboltaleik að markmiði.
Einstaklingum er óheimill innflutningur á litmerkibyssum til eigin nota.
Sækja skal um leyfi fyrir hverri sendingu til ríkislögreglustjórans þar sem pöntun er sundurliðuð. Fram þarf að koma nafn innflytjanda, kennitala hans, heimilisfang og símanúmer. Einnig þarf að tilgreina útflytjanda og heimilisfang auk áætlunar um flutningsleið og komudag sendingar.
Óheimilt er að tollafgreiða litmerkibyssu nema innflytjandi leggi fram við tollafgreiðslu innflutningsleyfi ríkislögreglustjórans og áritaðan vörureikning, sem lögreglustjóri hefur samþykkt til innflutnings.


10. gr.
Afturköllun leyfis

Leyfi samkvæmt reglum þessum getur leyfisveitandi afturkallað ef ekki teljast lengur fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu eða leyfishafi hafi ekki farið eftir settum fyrirmælum. Leyfisveitanda er heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án þess að með mál sé farið samkvæmt reglum stjórnsýslulaga, enda sé hætta á tjóni fyrir menn eða muni.


11. gr.
Gildistaka

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í d-lið 3. gr. vopnalaga nr. 16 25. mars 1998, taka þegar gildi.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 26. júní 2000.

Sólveig Pétursdóttir.
________________
Arnar Þór Jónsson.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira