Hoppa yfir valmynd
29. desember 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 29. desember 2000. 4. tbl. 2. árg.

4. tölublað 2. árg. 29. desember 2000.

Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is

Tölvupóstfang: [email protected]

Hér má sækja PDF-útgáfu til prentunar.
Textinn prentast vel þó hann sé óskýr á sumum skjám.

Samningar 2000

Kjarasamningaviðræður við stéttarfélög starfsmanna ríkisins hófust þegar í byrjun árs. Lokið var við endurnýjun 10 kjarasamninga við ýmis verkalýðs-, sjómanna- og iðnaðarmannastéttarfélög í vor og sumar en samningar þeirra runnu út í febrúar og mars. Viðræður við framhaldsskólakennara hófust um miðjan maí og viðræður við nokkur aðildarfélög ASÍ hófust í byrjun september. Nú þegar hafa verið gerðir 6 nýir kjarasamningar en ólokið er samningum við 59 samningsaðila. Fundað hefur verið með 45 samningsaðilum en 20 aðilar eru ókomnir til leiks. Lokið er samningum við eftirtalda aðila: 1) Alþýðusamband Austurlands, 2) Verkalýðsfélagið Hlíf, 3) Verkalýðsfélögin í Keflavík og Grindavík, 4) Verkalýðsfélag Akraness og 5) Verkalýðsfélag Húsavíkur, allir þessir samningar eru vegna heilbrigðisstofnana og 6) Matsveinafélag Íslands v/matsveina á rannsóknarskipum Hafrannsóknastofnunar.

Samkomulög um viðræðuáætlanir voru gerð, eins og lög gera ráð fyrir, síðari hluta ágústmánaðar og var í þeim flestum gert ráð fyrir að samningaviðræður hæfust í byrjun október. Septembermánuður var ætlaður til að ljúka samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga við bandalög opinberra starfsmanna um svokölluð réttindamál, þ.e. að semja um veikindaforföll og fyrirkomulag fæðingar- orlofs sem áður var bundið í reglugerðum. Sá þáttur samningamálanna dróst til 24. október er gengið var frá samkomulagi þar að lútandi og er fjallað um það annars staðar í fréttabréfinu. Af þessum sökum hófust samningaviðræður almennt við félög innan BHM og BSRB ekki fyrr en í byrjun nóvember.

Formlegar viðræður við framhaldsskólakennara hófust, eins og fyrr segir, um miðjan maí og hafa þær staðið óslitið síðan að undanskildum júlímánuði. Þegar fyrir janúarlok á þessu ári hófst undirbúningur fyrir viðræðurnar af hálfu samninganefndar ríkisins með óformlegum fundum allra aðila, þ.e. kennara, skólastjórnenda og fulltrúa menntamálaráðuneytisins. Þeim undirbúningi lauk þó eftir miðjan mars þegar fulltrúar kennara neituðu að halda starfinu áfram nema fjármálaráðherra gæfi út yfirlýsingu um leiðréttingarkröfu þeirra.

Kennarar vísuðu deilunni til sáttasemjara í byrjun október. Auk kennara hafa flugumferðarstjórar vísað kjaraviðræðum til sáttasemjara.

Þegar þetta er ritað, hefur samninganefnd ríkisins haldið 175 samningafundi frá 1. nóvember sl., þar af 45 fundi með KÍ vegna framhaldsskólakennara. Fundir með þeim síðastnefndu halda að sjálfsögðu áfram daglega en búast má við að viðræður við önnur félög komist í fullan gang aftur eftir áramótin.

_______________

Fæðingar- og foreldraorlof

Í maí sl. voru samþykkt ný lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Gilda þau um fæðingarorlof sem hefjast 1. janúar 2001 eða síðar. Um fæðingarorlof og barnsburðarleyfi sem hefjast fyrir áramót, gilda eldri lög og reglugerðir, þ.e.a.s. að því tilskildu að barnsfæðingin eigi sér staða fyrir áramótin.

Hér fara á eftir leiðbeiningar um fyrirkomulag fæðingarorlofs frá og með 1. janúar 2001 og gilda þær fyrir alla starfsmenn ríkisins, bæði mæður og feður, hvort sem þeir eru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ, BHM, BSRB, KÍ eða standa utan bandalaga og/eða stéttarfélaga.

Gildissvið. Nýju lögin gilda um töku fæðingarorlofs, frumættleiðingu eða töku barns yngra en 8 ára í varanlegt fóstur. Ef fæðingarorlof hefst fyrir áramót, t.d. vegna sjúkleika móður, en fæðingin á sér stað eftir 31. desember 2000, skal móðirin sækja um fæðingarorlof skv. nýju lögunum þegar barnið er fætt. Nýju lögin taka til allra fæðinga sem verða 1. janúar 2001 og síðar.

Launagreiðslur. Lögin tryggja að starfsmenn sem starfað hafa á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi í mánuði hverjum í síðustu 6 mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, fái greidd 80% af meðaltali heildarlauna síðustu 14 mánaða fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þó að undanteknum síðustu 2 mánuðunum. Nýr sjóður, Fæðingarorlofssjóður, sem verður í umsjá og afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, mun annast launagreiðslurnar og fara því engar launagreiðslur fram hjá launagreiðanda á meðan. Fæðingarorlofsgreiðslur þær sem sjóðurinn innir af hendi, eru heildargreiðslur. Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingarorlofi eftir því sem ráðningarsamningur segir fyrir um.

Lengd fæðingarorlofs. Móðir á sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að 3 mánuði. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt í 3 mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða þau skipt með sér. Skilyrt er í lögunum að móðir skuli vera í fæðingarorlofi fyrstu 2 vikurnar eftir fæðingu barns.

Sjálfstætt fæðingarorlof föður tekur gildi í áföngum. Þann 1. janúar 2001 verður sjálfstæður réttur föður til fæðingarorlofs 1 mánuður, 2 mánuðir árið 2002 og 3 mánuðir frá og með 1. janúar 2003. Á næsta ári verður réttur foreldra til fæðingarorlofs samtals 7 mánuðir, 3 mánuðir fyrir móður, 1 mánuður fyrir föður og 3 mánuðir sem foreldrar geta skipt með sér. Taki faðir ekki sinn hluta, fellur hann eða sá hluti sem ekki er tekinn, niður.

Tilkynning um fæðingarorlof. Starfsmaður skal tilkynna vinnuveitanda skriflega a.m.k. 8 vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns hvenær hann ætlar að hefja töku fæðingarorlofs. Í tilkynningunni skal m.a. tilgreina upphafsdag, lengd, tilhögun og fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs foreldra barns. Eyðublað fyrir tilkynningu hefur verið útbúið og er það að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins á síðunni eyðublöð. Móður er heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Faðir getur í fyrsta lagi hafið fæðingarorlof á fæðingardegi barns.

Sönnun á forsjá. Vinnuveitandi getur krafist þess að foreldri sanni að það fari með forsjá barnsins, telji hann þess þörf.

Taka fæðingarorlofs. Starfsmaður á rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi. Honum er þó heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að haga töku þess með öðrum hætti, m.a. með lengingu og breyttu launahlutfalli. Þá er starfsmanni nú heimilt að vera að hluta til í fæðingarorlofi og að hluta til í starfi og gætu foreldrar þannig t.d. verið í fæðingarorlofi á sama tíma en gegnt hálfu starfi á móti hvort um sig. Einnig er gefinn kostur á að taka fæðingarorlof þannig að það skiptist niður á fleiri tímabil en þó aldrei styttri tíma en viku í senn. Töku fæðingarorlofs skal þó vera lokið, þegar barn nær 18 mánaða aldri. Mjög áríðandi er að starfsmaður og vinnuveitandi gangi tímanlega frá tilhögun fæðingarorlofs og á það bæði við um móður og föður.

Umsókn til Tryggingastofnunar. Síðan þarf starfsmaður að sækja um fæðingarorlof til Tryggingastofnunar 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns á eyðublaði sem nálgast má á vefsíðu Tryggingastofnunar www.tr.is. Þar er einnig að finna frekari leiðbeiningar. Sömuleiðis eru upplýsingar á vefsíðu félagsmálaráðuneytisins: http://www.felagsmalaraduneyti.is

Í lögunum er einnig kveðið sérstaklega á um atriði eins og:

 • Andvanafæðingu og fósturlát.
 • Fjölburafæðingu.
 • Veikindi barns eða móður.
 • Uppsöfnun og vernd réttinda.
 • Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.
 • Foreldra utan vinnumarkaðar og í námi.
 • Foreldraorlof.

_______________


Samkomulag um tiltekin atriði er varða réttindi starfsmanna

Þann 24. október sl., var undirritað samkomulag BHM, BSRB, Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar um atriði er varða réttindi starfsmanna. Samkomulagið tekur gildi þann 1. janúar nk. og verður hluti af kjarasamningum hlutaðeigandi stéttarfélaga.

Félag íslenskra leikskólakennara er einnig aðili að samkomulaginu.Í samkomulaginu er fjallað um tilhögun fæðingarorlofs, rétt starfsmanns vegna veikinda og slysa svo og nýjan sjóð, fjölskyldu- og styrktarsjóð.

Enn sem komið er gildir samkomulagið aðeins um félagsmenn aðildarfélaga þessara bandalaga. Nýtt samkomulag á svipuðum nótum var gert við Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands 27. nóv. sl. en félagið verður með eigin fjölskyldu- og styrktarsjóð. Stefnt er að gerð slíkra samkomulaga við öll stéttarfélög opinberra starfsmanna sem standa utan bandalaga, þ.m.t. flugumferðarstjóra, lækna, leikara Þjóðleikhúss og verkfræðinga.

Hvað varðar tilhögun fæðingarorlofsins, tekur samkomulagið til nokkurra þátta til hliðar við lögin um fæðingar- og foreldraorlof og eru þeir þessir:

 • Réttindi til greiðslu sumarorlofs.
 • Réttindi til greiðslu desemberuppbótar.
 • Réttindi til greiðslu orlofuppbótar.
 • Ábyrgð á réttindaávinnslu í B-deild LSR og sambærilegum lífeyrissjóðum/-deildum.
 • Hliðrun fyrirframgreiddra launa við upphaf og lok fæðingarorlofs.
 • Tilkynningaskylda til fjölskyldu- og styrktarsjóðs viðkomandi bandalags eða stéttarfélags um laun móður sem hún hefði átt rétt á í launuðu barnsburðarleyfi ef reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, væri enn í gildi.

Helstu breytingar hvað varðar rétt starfsmanna vegna óvinnufærni af völdum veikinda eða slysa eru sem hér segir:

 • Veikindaréttur lausráðinna og fastráðinna hefur verið samræmdur.
 • Laun í veikindum reiknast allan tímann að fullu en ekki að fullu og hálfu eins og áður var.
 • Sérstakur viðbótarréttur er vegna vinnuslysa.
 • Ávinnslan miðast nú við allan þjónustualdur hjá ríki og sveitarfélögum. Auk þess sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.
 • Þjónustualdur tekur, eins og áður, til kjara skv. lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
 • Á fyrstu 3 mánuðum ráðningar takmarkast þó fyrri þjónustualdur ef hann er skemmri en 12 mánuðir.
 • Makalaun vegna látins starfsmanns taka nú einnig til sambúðaraðila.
 • Réttur foreldris vegna veikinda barna yngri en 13 ára lengist úr 7 dögum í 10 daga.
 • Samráðsnefnd aðila skal fjalla um túlkun og útfærslu einstakra ákvæða um veikindarétt.

_______________

Samkomulag um viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar


Þann 20. desember sl., undirrituðu BHM, BSRB og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs hins vegar samkomulag um viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar. Samkomulagið tekur gildi 1. janúar nk. og verður hluti af kjarasamningum hlutaðeigandi stéttarfélaga. Félag íslenskra leikskólakennara er einnig aðili að samkomulaginu.

Í samkomulaginu kemur fram, að leggi starfsmaður til a.m.k. 2% viðbótarframlag í séreignarsjóð, greiðir launagreiðandi framlag á móti. Næst það fram í tveimur áföngum: Frá 1. janúar 2001 greiðir launagreiðandi 1% af launum í séreignarlífeyrissjóð starfsmanns og 2% frá 1. janúar 2002. Er þetta viðbótarframlag launagreiðanda óháð því 10% framlagi sem hann greiðir lögum samkvæmt, þ.e. 0,4% að hámarki.

Starfsmaður sem þannig hefur samið um að spara 2% í séreignarsparnað, fær frá 1. janúar n.k. 1% til viðbótar frá launagreiðanda þannig að sparnaður er þá orðinn 3%. Frá 1. janúar 2002 er sparnaður þá kominn í 4% launa. Starfsmaður sem hefur samið um að spara sjálfur 4% í séreignarsparnað, er þá samtals með 5% sparnað frá 1. janúar 2001 og 6% sparnað frá 1. janúar 2002.

Samkvæmt samkomulaginu er skilyrðið aðeins það að starfsmaður leggi að lágmarki fram 2%.

_______________

Skýrsla um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna

Nýlega er komin út skýrsla nefndar sem fjármálaráðherra skipaði til að gera úttekt á ákvæðum laga um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana. Nefndin var skipuð á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar. Meðal annars skyldi nefndin skýra stöðu forstöðumanna sem stjórnenda gagnvart öðrum aðilum svo sem stjórn stofnunar, fagaðilum, samstarfsmönnum og öðrum þeim sem tilgreint er að komi að starfi stofnunar.

Meginniðurstaða nefndarinnar er að verulegt misræmi sé á milli ákvæða almennra laga, einkum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og þeirra fjölmörgu sérlaga sem fjalla um stjórnun stofnana hvað varðar ábyrgð, valdsvið og stjórnunarábyrgð forstöðumanna. Einnig að mikið misræmi sé á milli hinna ýmsu sérlaga hvað ákvæði um stjórnun stofnana varðar. Stjórnsýslustaða stofnana, hlutverk stjórna og staða forstöðumanna séu oft óljós og af því leiði að oft sé óljóst hver ber ábyrgð á starfsemi stofnunar.

Nefndin leggur til að lögleidd verði heildstæð ákvæði um skipulag og stjórnun stjórnsýslukerfisins, meginreglur um stjórnsýslustöðu stofnana, ábyrgð og verkefni forstöðumanna og stjórna og stjórnunar- og eftirlitshlutverk ráðherra. Í framhaldi af setningu slíkrar heildarlöggjafar um stjórnsýslukerfið þurfi síðan með samræmdum hætti að breyta ákvæðum sérlaga um stjórnun stofnana þannig að þau samræmist almennum lagaákvæðum um stjórnsýslukerfið. Áhersla verði lögð á að fella niður ákvæði sérlaga svo að um stöðu og stjórnun stofnana gildi almenn lög. Áhersla verði lögð á að:

 • Skipulag stjórnsýslukerfisins verði endurmetið með það að markmiði að staða og ábyrgð stofnana samræmist sem best sjónarmiðum ráðherrastjórnsýslu annars vegar og nýjum áherslum á sjálfstæði, árangur og ábyrgð hins vegar. Með þessu verði komið á betra jafnvægi milli meginreglna um stjórnun og skipulag stjórnsýslukerfisins.
 • Skilið verði með skarpari hætti milli stofnana ráðherrastjórnsýslu og annarra stofnana en nú er gert og skilgreint í hvaða tilfellum stofnunum er veitt stjórnarfarslegt sjálfstæði og hvað það felur í sér.
 • Sjálfstæði og ábyrgð stofnana og stjórnenda þeirra verði skilgreind með skýrum hætti og tryggt verði eðlilegt jafnvægi þessara þátta og þeirra leiða sem ráðherra og þing hafa til að kalla stofnanir til ábyrgðar.
 • Þrígreining ríkisvaldsins verði styrkt og dregið úr beinni þátttöku löggjafans í stjórnun stofnana. Á móti verði eftirlitshlutverk Alþingis eflt.

Nefndin leggur til að skoðað verði hvort rétt sé að útvíkka lög um Stjórnarráð Íslands þannig að þau taki til stjórnsýslukerfis ríkisins í heild sinni og verði heildarlöggjöf um stjórnarráðið og stofnanakerfið. Þar verði á heildstæðan hátt mótaðar framangreindar meginreglur um stjórnun og skipulag stjórnsýslu ríkisins. Einnig komi til greina að setja sérstök lög um stofnanakerfið.

_______________

Athyglisverðir dómar

Í fréttabréfi 7. febrúar sl. (1. tbl. 2. árg.) var fjallað um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. desember 1999 í máli ÞG gegn Fjölbrautaskóla Vesturlands. Í málinu var deilt um hvort uppsögn tímabundins ráðningarsamnings hafi verið ólögmæt þar sem ákvæði 21. og 44. gr. starfsmannalaga voru ekki virt. Fjölbrautaskóli Vesturlands var sýknaður í héraði þar sem ekki var talið að ÞG hafi tekist að sýna fram á að um uppsögn hennar skyldi fara eftir fyrrnefndum ákvæðum starfsmannalaga. Einnig taldi héraðsdómur að hafa bæri í huga að ÞG hefði nýlega aflað sér kennsluréttinda og að um frumraun hennar á því sviði hafi verið að ræða.

Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, sem kvað upp sinn dóm 28. september sl., og snéri hann niðurstöðunni við. Hæstiréttur dæmdi ÞG bætur úr hendi Fjölbrautaskóla Vesturlands fyrir fjártjón vegna ólögmætrar uppsagnar. Hæstiréttur vísaði í niðurstöðu sinni til þess að í málinu væri óumdeilt að um starfs- og ráðningarkjör ÞG hafi farið samkvæmt starfsmannalögum og að ráðningarsamningur hennar hafi verið í samræmi við ákvæði laganna sem heimili að starfsmenn séu ráðnir tímabundið. Einnig væri það óumdeilt að ÞG hafi verið sagt upp störfum án áminningar í skilningi 21. gr. starfsmannalaga. Hæstiréttur taldi að af hálfu skólameistara hafi ástæða uppsagnar ÞG verið sú að hann taldi hana ekki valda starfi sínu. Það væri ástæða sem félli undir 21. gr. starfsmannalaga og því hafi átt, samkvæmt skýru ákvæði 44. gr. starfsmannalaga, að veita ÞG skriflega áminningu og gefa henni kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar kæmi. Hæstiréttur hafnaði þeim rökum fjölbrautaskólans að fyrrgreind ákvæði starfsmannalaga ættu ekki við um tímabundna ráðningarsamninga og taldi að sú skýring ætti sér hvorki stoð í lögunum né í lögskýringargögnum.

Af dóminum er ljóst að valdi starfsmaður ekki starfi sínu, er skylt að veita honum áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum af þeirri ástæðu.

Hægt er að nálgast dóm Hæstaréttar, nr. 105/2000, á vef réttarins (http://www.Haestirettur.is/).

_______________


Dómur Félagsdóms frá 12. desember 2000 í máli nr. 13/2000, Alþýðusamband Íslands f.h. Flugvirkjafélags Íslands vegna S gegn íslenska ríkinu og Landhelgisgæslu Íslands.

Flugvirkjafélag Íslands krafðist þess að viðurkennt yrði að flugvirki, S, hjá Landhelgisgæslu Íslands hefði öðlast 9 klukkustunda frítökurétt er hann var kallaður til vinnu á bakvakt frá kl. 18.00 á laugardegi til kl. 03.00 aðfararnótt sunnudags. Í málinu var deilt um hvort S hefði öðlast frítökurétt í samræmi við grein 04.-8.3. sbr. 04.-8.4. í kjarasamningi flugvirkja. S byggði á því að samkvæmt kjarasamningi hafi hann átt rétt á 11 tíma hvíld fyrir venjubundið upphaf næsta vinnudags þar sem unnið hefði verið á undan frídegi eða helgi. Miðað við upphaf venjulegs vinnudags. kl. 08.00 hafi hann aðeins fengið 5 tíma hvíld er þýddi samkvæmt fyrrnefndum reglum að hann hafi átt rétt á 1½ klst. í frítökurétt fyrir hverja klst. eða 9 klst. í frítökurétt. Af hálfu Landhelgisgæslunnar var á því byggt að umrætt ákvæði greinar 04-8.4. ætti ekki við í tilviki S þar sem að með orðalaginu frídegi eða helgi í greininni væri átt við eiginlegt frí. Því væri ekki til að dreifa þegar um bakvakt væri að ræða enda starfsmaðurinn þá bundinn skilyrtri vinnuskyldu á bakvaktinni sem greidd hafi verið með bakvaktarálagi.

Í niðurstöðu Félagsdóms er vísað til ákvæða í kjarasamningi um að með bakvakt sé átt við að "starfsmaður sé ekki við störf en reiðubúinn að sinna útkalli." Þá tekur dómurinn fram að hvorki í kjarasamningum milli aðila né lögum, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sé fjallað um það hvernig virða beri bakvakt með tilliti til vinnutíma og hvíldartíma. Ljóst sé að bakvakt feli í sér viðveruskyldu, sbr. m.a H 1993:2147, og setji viðkomandi starfsmanni skorður. Í niðurlagi dómsins segir síðan:

"Þegar eðli umræddra bakvakta samkvæmt framangreindum kjarasamningi aðila er virt og þegar litið er til óljóss orðalags kjarasamningsákvæða þeirra sem stefnandi byggir á þar sem ekkert er að bakvöktum vikið, verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að S hafi öðlast frítökurétt þann sem krafist er viðurkenningar á í máli þessu."

Landhelgisgæslan og ríkið voru því sýknuð af kröfum stefnanda, Flugvirkjafélags Íslands, í málinu.

Í forúrskurði dómstóls EU frá 3. október sl. í máli C-303/98 komst dómstóllinn að sambærilegri niðurstöðu og í ofangreindum félagsdómi. Í því máli var m.a. fjallað um bakvaktir lækna á heilsugæslustöð í Valencia á Spáni. Taldi dómurinn að einungis vinna í útkalli teldist til eiginlegs vinnutíma en ekki tíminn sem læknir er tiltækur og bíður útkalls nema þess sé krafist að bakvaktartímanum sé varið á vinnustað.

_______________

Frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana

www.ffr.is

Nýlega var opnuð vefsíða Félags forstöðumanna ríkisstofnana undir slóðinni http://www.ffr.is. Enn sem komið er eru takmarkaðar upplýsingar á síðunni enda er hún í mótun. Útlit vefsíðunnar er ennfremur aðeins til bráðabirgða þar sem unnið er að frekari hönnun hennar. Markmiðið með vefsíðunni er að miðla upplýsingum og fróðleik til félagsmanna og áhugamanna um opinbera stjórnsýslu. Í fyrstu verða á vefsíðunni upplýsingar um félagið, lög þess, félagaskrá og listi yfir allar stofnanir ríkisins. Síðar er áformað að fundargerðir félagsfunda sem félagið stendur fyrir, verði birtar á vefsíðu félagsins auk kynningar á verkefnum sem félagið kann að beita sér fyrir. Þá er vel athugandi að vefsíða félagsins verði einnig virkur vettvangur fyrir skoðanaskipti félagsmanna.

Þar sem hér er um tilraunastarfsemi að ræða er mikilvægt að þeir sem áhuga hafa komi með tillögur um uppbyggingu vefsíðunnar, sýni viðbrögð við því sem þegar er þar að finna og komi með ábendingar um nýtt efni, útlit og innihald. Framtíðarrekstur síðunnar byggist á notkun félagsmanna og áhuga.

Um leið og þessi nýjung er kynnt, skal þess getið að stjórn félagsins hefur ákveðið að öll boðun funda verði framvegis með tölvupósti enda allir virkir félagsmenn komnir með netfang. Er af þessu mikið hagræði bæði í vinnu og beinum kostnaði.

Magnús Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira