Hoppa yfir valmynd
16. maí 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 16. maí 2001. 1. tbl. 3. árg.

1. tölublað 3. árg. 16. maí 2001.



Efnisyfirlit
Staðan í samningamálum
Samkomulag varðandi vinnutíma
Útboð ríkisins á nýju fjárhagskerfi
Viðbótargreiðslur í fæðingarorlofi
Leiðbeiningar um skipulag vinnutíma
Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum á netinu
Hækkun desember- og orlofsuppbótar
1. tbl. 3. árg.
Útgefið 16. maí 2001
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang: [email protected]

Hér má sækja PDF útgáfu af fréttabréfinu til prentunar.



Staðan í samningamálum í byrjun maí 2001

Þegar þetta er skrifað hefur samninganefnd ríkisins (SNR) skrifað undir 45 kjarasamninga og taka þeir til 65 stéttarfélaga. Ólokið er 30 kjarasamningum við jafnmörg félög. Ef horft er til fjölda ríkisstarfsmanna í þeim stéttarfélögum sem samningum er þegar lokið við, eru það rétt um 2/3 hlutar starfsmanna. Haldnir hafa verið 627 formlegir samningafundir auk fjölda óformlegra funda. Ef nýgerðir samningar eru flokkaðir með hliðsjón af bandalögum, þá er búið að semja við öll félög innan ASÍ og FFSÍ auk Vélstjórafélags Íslands. Í BSRB er ólokið samningum við lögreglumenn, sjúkraliða, tollverði og Starfsmannafélag Suðurnesja en innan BHM er lokið samningum við 1/4 hluta aðildarfélaga en 31% félagsmanna, þ.e. dýralækna, háskólakennara, háskólamenntaða starfsmenn stjórnarráðsins, kennara við Kennaraháskólann, lögfræðinga og þá sem eru innan vébanda Útgarðs. Af þeim sem eru í öðrum bandalögum eða utan bandalaga, er búið að semja við flugumferðarstjóra, framhaldsskólakennara og tæknifræðinga en ólokið er samningum við verkfræðinga og lækna sem starfa annars staðar en á heilsugæslustöðvum (en heilsugæslulæknar taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar).

Í þeim viðræðum sem nú eru í gangi er af hálfu samninganefndar ríkisins þrennt sem einkum er lögð áhersla á:

Í fyrsta lagi að framfylgja þeirri launastefnu sem mörkuð var á hinum almenna vinnumarkaði á síðasta ári. Í hnotskurn þýðir það að ríkið er að bjóða samning til nóvemberloka 2004 með 6,9% upphafshækkun og síðan 3% hækkun á ári næstu þrjú ár.

Í öðru lagi að formfesta aðlögunarsamningana og gera þá að varanlegum þætti kjarasamningsins. Þeir heita nú stofnanasamningar og í tillögum SNR er gert ráð fyrir að þeir séu endurskoðaðir með reglubundnum hætti þannig að hægt sé að óska eftir endurskoðun innan 12 mánaða frá staðfestingu hins miðlæga kjarasamnings og síðan ekki sjaldnar en annað hvert ár. Það er tekið misjafnlega undir þessa tillögu af hálfu félaganna en henni hefur ekki verið alfarið hafnað. Þær tillögur um endurskoðun sem stéttarfélögin hafa lagt fram, gera ráð fyrir að stofnanasamningar skuli endurnýjaðir í kjölfar kjarasamninga þannig að í raun væri verið að semja tvisvar hverju sinni, fyrst á miðlægu borði við samninganefnd ríkisins og síðan í stofnununum. SNR hefur hafnað þessum tillögum stéttarfélaganna.

Í þriðja lagi að breyta vinnutímakaflanum. Tillögur SNR ganga út á meiri sveigjanleika varðandi tímamörk vinnuskylduskila og að skerpa á þeim ákvæðum er varða frávik frá lágmarkshvíld og útreikning frítökuréttar. Eins er skilið á milli greiðslna fyrir vaktir og bakvaktir og lögð til hækkun á álagsprósentunni úr 45% í 55% fyrir nætur- og helgarvaktir vaktavinnumanna en lækkun úr 45% í 33,33% fyrir bakvaktir á nóttunni. Þá verður sama lágmarksgreiðsla fyrir útkall hvort sem viðkomandi starfsmaður er á bakvakt eða ekki og verður 3 eða 4 klst., sbr. gr. 2.3.3.

Nánari útlistun á þessum atriðum er að finna í tölvupósti sem sendur var til forstöðumanna vegna SFR-samningsins 10. maí sl.


_______________

Nýtt samkomulag varðandi vinnutíma
Aðildarfélög BSRB


Samið var um tiltekna þætti varðandi vinnutíma í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB 22. mars sl. Samkomulagið lýtur að ýmsum atriðum er tengjast vinnutímanum, t.d. vaktaálagi, útköllum, tímamörkum dagvinnu og hvíldartíma. Gildistaka samkomulagsins miðast við væntanlega gildistöku nýrra kjarasamninga hvers aðildarfélags fyrir sig. Þar á meðal er Starfsmannafélag ríkisstofnana, fjölmennasta aðildarfélag BSRB, en nýr kjarasamningur félagsins gildir frá 1. mars 2001 til 30. nóvember 2004.

Samkvæmt samkomulaginu verða álagsgreiðslur fyrir annars vegar vaktir og hins vegar bakvaktir mismunandi. Í sumum tilvikum hækkar álag fyrir vaktir og álag fyrir bakvaktir lækkar. Vaktaálag fyrir vaktir á nóttunni og um helgar hækkar úr 45% í 55% en bakvaktaálag á nóttunni, 4 nætur í viku, lækkar úr 45% í 33,33%. Á móti kemur að lágmarksútkall á bakvakt/gæsluvakt sem var 2 klst., verður nú hið sama og gildir um útköll utan bakvaktar. Þá kemur inn heimild til að greiða fastan álagsstundafjölda fyrir bakvaktir án tillits til tímalengdar. Samningsaðilum verður heimilt að semja um rýmkun dagvinnutíma á virkum dögum umfram tímabilið frá 08:00 til 17:00. Tímamörk varðandi sveigjanlegan vinnutíma verða einnig rýmkuð þannig að heimilt verður að verða við óskum einstakra starfsmanna um að skila vinnu sinni á tímabilinu 07:00 til 18:00 á virkum dögum. Þá verður kaflinn um hvíldartíma ítarlegri og fyllri en áður, t.d. að því er varðar frítökurétt vegna vinnu umfram 16 klst. og 24 klst.

Tvö af aðildarfélögum BSRB eiga ekki aðild að samkomulaginu, þ.e. Landssamband lögreglumanna og Starfsmannafélag Suðurnesja. Ósk um aðild að samkomulaginu frá Starfsmannafélagi Akraness og Starfsmannafélagi Siglufjarðar hefur verið samþykkt.


_______________

Útboð ríkisins á nýju fjárhagskerfi

Eins og flestir þekkja eru fjárhagskerfi ríkisins orðin nokkuð gömul að stofni til og hafa ekki fylgt eftir þróun í tækni og nýjum vinnuferlum. Því var fyrir tveimur árum mörkuð sú stefna að endurnýja BÁR og launakerfi ríkisins. Þau skyldu leyst af hólmi með nýjum stöðluðum kerfum og efnt skyldi til útboðs fyrir fjárhagskerfi fyrir ríkissjóð og stofnanir ríkisins. Ríkisbókhald hefur annast undirbúning fyrir hönd ríkisins og stofnana þess og hefur hann staðið yfir í u.þ.b. 1 ár. Útboðsgögn voru afhent 6. janúar 2001 og 8. mars síðastliðinn voru opnuð þau tilboð sem bárust.

Alls bárust 8 tilboð frá 6 aðilum:


Undanfarna 2 mánuði hefur Ríkisbókhald unnið að því að meta þær lausnir sem bárust. Skipaðir voru fimm hópar sem fengu það verkefni að heimsækja fyrirtækin og yfirfara gæði þeirra lausna sem þau buðu. Hóparnir gáfu síðan einkunn um gæðin og skiluðu umsögn um hvert kerfi. Tveir aðrir hópar voru myndaðir til þess að fara yfir tilboðsverðin og hæfni bjóðenda.

Þann 30. apríl tók stýrinefnd ákvörðun um hvaða tilboð fyrir fjárhagskerfi ríkisins og stofnana þess skyldi skoða nánar. Sú ákvörðun var byggð á þeim skýrslum og einkunnum sem hóparnir gáfu. Fyrir valinu varð Skýrr með Oracle hugbúnað og Nýherji með SAP hugbúnaðarlausn.

Þessi tvö tilboð voru valin út frá gæðum og því hvernig lausnirnar gætu uppfyllt þarfir ríkisins sem best. Oracle og SAP hugbúnaðarlausnirnar voru þær einu sem uppfylltu þá kröfu að vera með heildstætt kerfi, þ.e. bæði fjárhagskerfi og launakerfi í sama kerfinu.

Þar sem markmiðið er að velja kerfi sem uppfyllir kröfur ríkisins og stofnana þess næstu 10 árin, er rík áhersla lögð á að kerfið hagnýti sér rafræn viðskipti til að auka hagkvæmni í ríkisrekstri og auðvelda þannig samskipti borgara og atvinnulífs við ríkisstofnanir.

Með tilkomu nýs fjárhagskerfis munu stofnanir þurfa að endurskoða skipulag sitt og jafnvel taka upp nýtt vinnuskipulag. Nýja kerfið mun færa ríkisstofnanir nær nútímanum og um leið gera rekstur þeirra líkari fyrirtækjarekstri. Bæði þau kerfi sem valin voru úr útboðinu uppfylla þessar kröfur og jafnvel gott betur.

Upplýsingaþörfin hjá nútíma þjóðfélagi er alltaf að verða meiri og meiri og með tilkomu nýs kerfis er stefnt að því að það gefi betri upplýsingar til stjórnenda og fyrr en núverandi kerfi.

Bæði kerfin búa yfir öflugum hliðarkerfum sem þýðir að stofnanir verða einungis með eitt heildstætt kerfi en ekki mörg sérsniðin kerfi til þess að sinna daglegum rekstri. Nýja kerfið mun ekki einungis leysa mörg kerfi af hólmi heldur einnig gefa stofnunum kost á mikilli hagræðingu og möguleika á að greina starfsemina mun betur en áður.

Á næstu 3-4 vikum verður farið í nánari greiningu á hvernig þessar hugbúnaðarlausnir leysa úr þörfum ríkisins. Valdar voru tvær stofnanir til þessa sem eru: Kvennadeild Landspítala sem er eining innan Landspítala- háskólasjúkrahúss og St. Jósefspítalinn í Hafnarfirði. Þegar þessar stofnanir voru valdar, var haft í huga að greina tvær sambærilegar stofnanir þar sem jafnframt reyndi á sem flestar af kröfum tilboðsins.

Eftir þessa greiningarvinnu er vonast til að innsýn fáist í hvernig endanleg útgáfa muni líta út og hvernig hún mun virka í raun hjá stofnunum ríkisins.


_______________

Viðbótargreiðslur í fæðingarorlofi
Fjölskyldu- og styrktarsjóður

Í síðasta fréttabréfi var fjallað nokkuð ítarlega um breytt fyrirkomulag fæðingarorlofs samkvæmt nýjum lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Ein helsta breyting sem nýju lögin hafa í för með sér er sú að nú fá allir starfsmenn, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera, greiðslur í fæðingarorlofi hjá Tryggingastofnun ríkisins úr hinum nýja Fæðingarorlofssjóði. Launagreiðslur falla því niður meðan á fæðingarorlofi stendur, þó ekki alfarið hjá grunnskóla- og framhaldsskólakennurum en ekki hefur verið gengið frá samkomulagi um fæðingarorlofsgreiðslur þeirra þegar þetta er ritað.

Auk greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hjá Tryggingastofnun eiga þeir starfsmenn ríkisins sem tilheyra samtökum BHM, BSRB eða KÍ í mörgum tilvikum rétt á viðbótargreiðslum úr nýjum Fjölskyldu- og styrktarsjóði samtakanna. Rétt til slíkra viðbótargreiðslna eiga þeir starfsmenn sem hefðu átt rétt í eldra kerfi, þ.e. samkvæmt reglugerð um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins nr. 410/1989. Viðbótargreiðslurnar nema þeim mismun sem kann að vera á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins (Fæðingarorlofssjóði) og þeim greiðslum sem viðkomandi hefði átt rétt á skv. eldri reglum. Allar ákvarðanir varðandi viðbótargreiðslurnar eru í höndum Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins en hverri stofnun um sig ber að tilkynna sjóðnum um þá starfsmenn sem kynnu að eiga rétt til slíkra greiðslna. Í því skyni hefur verið útbúið eyðublað sem ber yfirskriftina "Vottorð um ráðningarkjör" og er m.a. að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Á þessu eyðublaði er gert ráð fyrir ýmsum upplýsingum um ráðningarkjör starfsmannsins þannig að sjóðurinn geti reiknað út mismuninn á þeim greiðslum sem starfsmaðurinn hefði átt rétt á og þeim sem hann fær frá Tryggingastofnun. Áður en launagreiðandi fyllir út þetta eyðublað, þarf að liggja fyrir samþykki starfsmanns. Óskað er eftir slíku samþykki um leið og starsfmaður tilkynnir launagreiðanda að hann hyggist fara í fæðingarorlof, sjá f - lið á eyðublaði sem ber yfirskriftina "Tilkynning um fæðingarorlof". Þar er jafnframt óskað eftir samþykki starfsmanns fyrir því að Tryggingastofnun sendi sjóðnum upplýsingar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Ákvæði um Fjölskyldu- og styrktarsjóðinn eru í 3. kafla samkomulagsins sem fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga gerðu við BHM, BSRB og KÍ um tiltekin atriði er varða réttindi starfsmanna í nefndum samtökum þann 24. október 2000. Fjallað var um þetta samkomulag í síðasta fréttabréfi og talin upp helstu atriði þess, þ.e. ákvæði er lúta að réttarstöðu starfsmanna í fæðingarorlofi og rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa.

Búast má við því að samið verði á svipuðum nótum við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem standa utan samtaka BHM, BSRB og KÍ. Það hefur þegar verið gert við Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands, Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Leikarafélag Íslands. Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands hefur stofnað eigin fjölskyldu- og styrktarsjóð. Félag íslenskra flugumferðarstjóra mun sækja um aðild að Fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM, BSRB og KÍ. Það liggur ekki enn fyrir hvort Leikarafélag Íslands muni stofna eigin sjóð eða sækja um aðild að sjóði bandalaganna.


_______________

Leiðbeiningar um skipulag vinnutíma
Samráðsnefnd

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að gerð almennra leiðbeininga um skipulag vinnutíma á vegum samráðsnefndar aðila að samningi um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga annars vegar og ASÍ, BHM, BSRB og KÍ hins vegar, dags. 23. janúar 1997. Þann 16. febrúar sl. voru loks undirritaðar leiðbeiningar í þessum efnum.

Leiðbeiningarnar lúta að helstu breytingum sem fylgdu fyrrnefndum vinnutímasamningi. Í inngangi þeirra er fjallað almennt um vinnutímann og taldar upp helstu meginreglur. Þá eru sérstakir kaflar um daglegan hvíldartíma, vikulegan hvíldartíma, hámarksvinnutíma og frávik frá daglegri lágmarkshvíld. Í kaflanum um frávik frá daglegri lágmarkshvíld er einnig fjallað um frítökurétt. Ákvæði um síðast talda atriðið er þó ekki að finna í vinnutímasamningnum en um frítökurétt hefur verið samið í langflestum tilvikum í kjarasamningi. Leiðbeiningarnar er að finna á vef fjármálaráðuneytisins.

Til fróðleiks og skýringar er rétt að geta þess að með vinnutímasamningnum var vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, nr. 93/104/EB, frá 24. nóvember 1993, hrint í framkvæmd. Aðdragandi samningsins og uppruni hans kann að skýra að verulegu leyti hversu hægt hefur gengið hjá samráðsnefndinni að koma sér saman um almennar leiðbeiningar. Nefndin er skipuð 8 fulltrúum, 4 tilnefndum af vinnuveitendum og 4 tilnefndum af heildarsamtökum starfsmanna. Hún skal fjalla um útfærslu og túlkun einstakra ákvæða. Áður en ágreiningi er vísað til dómstóla, ber aðilum að reyna til þrautar að leya úr honum. Verklagsreglur fyrir Samráðsnefnd um vinnutíma eru á vefsíðu ráðuneytisins.


_______________

Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum á netinu

Í ársbyrjun 2000 tók til starfa á vegum menntamálaráðuneytisins sérstök verkefnisstjórn um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum. Formaður verkefnisstjórnar er Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins. Hlutverk hennar er að kanna tilboð um aðgang að gagnasöfnum og gera tillögur til menntamálaráðuneytisins um kaup á aðgangi að þeim, fjármögnun, skipulag og tilhögun. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn sér um framkvæmd samninga fyrir hönd verkefnisstjórnarinnar. Safnið sér um kynningu rafrænu gagnasafnanna auk samskipta og þjónustu við eigendur og notendur þeirra. Háskólinn í Reykjavík mun reka kennsluvef fyrir gagnasöfnin.

Þegar hafa verið gerðir samningar við eigendur fjögurra gagnasafna. Um er að ræða gagnagrunna og tímarit í ProQuest 5000, Literature Oneline og Literature Online for Schools frá Bell & Howell, tilvísunargrunnana í Web of Science (Science Citation Index Expanded, Social Science Citation Index og Arts & Humanities Citation Index) frá ISI, viðskipta- og fyrirtækjaupplýsingar frá Data Downlink (Portal B og .XLS) og alfræðiritið Encyclopædia Britannica / Merriam Webster Online. Fleiri samninga, bæði við seljendur gagnasafna og rafrænna tímarita, er að vænta á árinu 2001.

Nefndin hefur sett á laggirnar vefsíðu.

Á síðunni eru upplýsingar um öll gagnasöfnin og samninga sem gerðir hafa verið. Fljótlega verður komið á síðuna kennsluefni um notkun gagnasafnanna. Viljum við hvetja alla til að kynna sér gagnasöfnin, einnig er hægt að hafa samband við bókasafns- og upplýsingafræðinga í hverri stofnun sem geta veitt nánari upplýsingar og aðstoðað starfsmenn við efnisleit.

Halldóra Kristbergsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur, fjármálaráðuneytinu.


_______________

Hækkun desember- og orlofsuppbótar í ASÍ félögum

Í samningsforsendum í kjarasamningum fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og aðildarfélaga og aðildarsambanda ASÍ er vísað til niðurstöðu nefndar ASÍ og SA sem starfar skv. 19. gr. kjarasamnings þessara aðila. Nefndin komst að niðurstöðu 6. mars 2001 og er hún á þá leið að desember- og orlofsuppbætur hækki sem hér segir:

Fjárhæðir desemberuppbótar verði:
Á árinu 2001 35.000 kr.
Á árinu 2002 36.000 kr.
Á árinu 2003 37.000 kr.

Fjárhæðir orlofsuppbótar verði:
Á árinu 2001 20.000 kr.
Á árinu 2002 20.300 kr.
Á árinu 2003 20.400 kr.

Hærri desember- eða orlofsuppbætur en niðurstaða þessi felur í sér, skulu ekki hækka vegna hennar. Þessar bætur verða því samtals ekki hærri en 55.000 kr. árið 2001.

Niðurstaða nefndarinnar mun einnig gilda um ASÍ-félagsmenn hjá ríkinu og mun verða gengið frá samningsbreytingum á næstu dögum.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum