Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dreifibréf 2/2001- Fæðingarorlof

Fjármálaráðuneytið
Starfsmannaskrifstofa
Nóvember 2001/gós. Uppfært í júlí 2010/skj
Dreifibréf 2/2001

FÆÐINGARORLOF
Túlkun og framkvæmd laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og á ákvæðum kjarasamninga.

Réttur til orlofstöku, orlofslauna og persónu- og orlofsuppbótar.

Starfsmaður í fæðingarorlofi á rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem er í vörslu Vinnumálastofnunar, þ.e. greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk. Á meðan falla launagreiðslur frá vinnuveitanda almennt niður. Fæðingarorlof telst þó til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Í lagaákvæðinu er tekið fram að fæðingarorlof skuli teljast til starfstíma við mat á rétti til orlofstöku en ekki er minnst á réttinn til orlofslauna. Fjármálaráðuneytið hefur því litið svo á að lögin tryggi starfsmanni ekki rétt til orlofslauna heldur eingöngu til töku orlofs. Í mörgum tilvikum nýtur starfsmaður sem er í fæðingarorlofi þó réttinda til greiðslu sumarorlofs (orlofslauna) auk persónu- og orlofsuppbótar samkvæmt kjarasamningi.

Slík ákvæði er að finna í 1. kafla um tilhögun fæðingarorlofs í samkomulagi BHM, BSRB og KÍ (Word 49K) annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar, frá 24. október 2000. Samhljóða ákvæði er nú að finna í kjarasamningum fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og allra stéttarfélaga opinberra starfsmanna, þ.e. félaga sem falla undir lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna (oftast í 13. kafla). Þar er fjallað um réttarstöðu starfsmanna í fæðingarorlofi, m.a réttindi til greiðslu sumarorlofs (orlofslauna) auk persónu- og orlofsuppbótar. Ávinnsla á rétti til orlofslauna (sumarorlofs), persónuuppbótar og orlofsuppbótar er háð því skilyrði að foreldri hafi gegnt að minnsta kosti 25% starfi í samfellt 6 mánuði fyrir fæðingu barns síns hjá hlutaðeigandi launagreiðanda, þ.e. hjá einni eða fleiri stofnunum ríkisins, og sé með gilda ráðningu við upphaf orlofsins (sbr. jafnan grein 13.1.1). Ákvæði samkomulagsins frá 24. október 2000 gilda eftir því sem við getur átt um þá embættismenn og aðra starfsmenn sem heyra undir kjararáð.

Í kjarasamningum fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og annarra stéttarfélaga, þ.e. félaga sem starfa á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, eru yfirleitt ákvæði sem fjalla um starfsaldur í veikindum og fæðingarorlofi. Samkvæmt þeim teljast fjarvistir vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum til starfstíma við útreikning á desember- og orlofsuppbót. Skilyrði þessa eru þau að starfsmaður hafi starfað í tiltekinn tíma hjá sömu stofnun. Ákvæði þessi eru ekki alveg samhljóða. Þau er jafnan að finna í kafla um laun í veikinda- og slysatilvikum (oftast 6. kafli).

Samkvæmt framansögðu ávinnur ríkisstarfsmaður sér rétt til orlofstöku meðan á fæðingarorlofi stendur. Taki hann laun skv. kjarasamningi við stéttarfélag opinberra starfsmanna eða skv. ákvörðun kjaranefndar ávinnur hann sér jafnframt rétt til greiðslu orlofslauna auk persónu- og orlofsuppbótar, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Taki hann laun skv. kjarasamningi annarra stéttarfélaga ávinnur hann sér einöngu rétt til orlofstöku meðan á fæðingarorlofi stendur en ekki til orlofslauna. Að uppfylltum tilteknum skilyrðum ávinnur hann sér aftur á móti rétt til greiðslu persónu- og orlofsuppbótar.

Athygli er vakin á því að persónu- og orlofsuppbætur eru greiddar á tilteknum tíma ársins, þ.e. annars vegar í desember og hins vegar í júní. Slíkar launagreiðslur kunna því að koma til greiðslu þó svo að aðrar launagreiðslur falli niður t.d. vegna fæðingarorlofs.

------------------------------------------

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum