Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2001 Forsætisráðuneytið

Opnun útibús Íslandsbanka í London

Nóvember 2001

Ræða forsætisráðherra við opnun útibús Íslandsbanka í London


Ágætu gestir
Ég þakka kærlega þetta tækifæri til að fá að vera með ykkur hér í dag. Tilefnið er ánægjulegt, opnun útibús Íslandsbanka hér í City, miðstöð fjármála og viðskipta í heiminum.
Við Íslendingar eigum meira en margir aðrir undir traustum og greiðum viðskiptum við aðrar þjóðir. Afkoma þjóðarinnar og gæfa hefur löngum verið í réttu hlutfalli við og skilyrði landsins til viðskipta við önnur lönd. Íslandi hefur farnast best þegar viðskipti hafa verið hvað frjálsust, en verst þegar viðskiptafrelsið var hvað minnst. Fylgni er svo skýr hvað þetta varðar að ekkert rúm er fyrir vafa.

Nú eru liðin sex ár frá því að fjármagnsflutningar til og frá Íslandi voru gefnir endanlega frjálsir. Á þessum skamma tíma hafa orðið mikilar breytingar á bankastarfsemi á Íslandi og fjármálamarkaðurinn hefur vaxið hratt og þroskast vel, þótt ekki hafi allt verið erfiðleikalaust. Íslandsbanki er eitt besta dæmið um það sem vel hefur blessast. Bankinn varð til við einkavæðingu fjármálastofnana í eigu ríkissins og sameiningu banka á markaði og er Íslandsbanki nú stærsti banki þjóðarinnar.

Það hefur löngum þótt manndómsmerki á Íslandi að hleypa heimdraganum og reyna fyrir sér á erlendir grund. "Vor landi vill mannast á heimsins hátt" sagði skáldið og útrás íslenskra banka er merki um aukin þroska þeirra, aukin styrk og aukið þor. Rétt eins og forfeður okkar vildu reyna afl sitt og vit í víkingaferðum, meðal annars hingað til Bretlands, þá vilja nú íslenskir bankamenn halda í víking og vinna sér frægð, fé og frama. Þó er sá munur á allir hafa hag af vel reknum bönkum en arðinum af víkingaferðunum var nokkuð misskipt og kurteisi ferðalanganna var æði takmörkuð.

Ég tel það fagnaðarefni að Íslandsbanki opni nú með formlegum hætti útibú sitt hér í City. Ekki einvörðungu fyrir þær sakir að hér séu ný tækifæri og möguleikar fyrir bankann til að vaxa og dafna. Ég tel að ekki sé minna um vert að bankastarfsemi á hér í hjarta fjármálaheimsins skili mikilli þekkingu og reynslu til bankans. Það er mikilvægt fyrir íslenska fjármálamarkaðinn að fá að njóta aðgangs að markaði þar sem hinir bestu keppa, þannig eflist hann og styrkist hraðar og betur en ella. Sú þekking sem flyst heim til Íslands í gegnum þá starfsemi sem hér verður stunduð, er ekki síður verðmæt en þær krónur og aurar sem bankinn og viðskiptamenn hans munu vonandi græða.

Góðir gestir.
Það er mér mikil ánægja að lýsa því yfir að starfsemi Íslandsbanka í City of London er formlega hafin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum