Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2002 Dómsmálaráðuneytið

Upplýsingabæklingur fyrir þolendur afbrota.

Fréttatilkynning

Nr. 21/ 2002

Dómsmálaráðherra kynnir upplýsingabækling
fyrir brotaþola.


Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti í dag sérstakan upplýsingabækling fyrir brotaþola, sem unnin hefur verið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Er þetta fyrsti bæklingur þessarar tegundar sem gefinn hefur verið út af hálfu hins opinbera.
Í bæklingnum er að finna fræðandi og hagnýtar upplýsingar um atriði er lúta að meðferð og rannsókn opinberra mála.
Meðal annars er í bæklingnum farið yfir hvert á að kæra brot, ýmsa kærufresti brotaþola, leiðbeiningarskyldu lögreglu, réttindi brotaþola tengdum réttargæslumönnum, aðgang að gögnum máls, rannsókn máls hjá lögreglu, vitnavernd, meðferð fyrir dómstólum, lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota auk fjölda annarra upplýsinga á þessu sviði. Er útgáfa þessa bæklings enn eitt skref í þá átt að gera mál þessi aðgengilegri öllum almenningi. Bæklingi þessum verður dreift á lögreglustöðvar um land allt, auk þess sem hann mun liggja frammi hjá fjölmörgum embættum á vegum ríkisins og ýmsum stofnunum og samtökum sem koma að þessum málaflokki.
Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra sagði í ávarpi sínu, það vera skyldu opinberra aðila að gera brotaþolum málsmeðferðina eins skýra og framast er unnt. Því hafi hún ákveðið að skipa faglega nefnd til þess að útbúa aðgengilegan upplýsingabækling til þess að auka skilning og upplýsingagjöf til almennings varðandi þennan málaflokk. Kvað ráðherra bækling þennan nýtast vel öllum þolendum afbrota, meðal annars þeim sem verða fyrir ofbeldisbrotum. Ráðherra kvað einnig mikilvægt að í bæklingnum væri að finna umfjöllun um vitnavernd og áréttaði að mál þessi væru í sérstakri skoðun hjá lögreglu og í dómsmálaráðuneytinu, þar sem allra leiða væri leitað að stemma stigu við þeim vanda er tengjast svonefndum handrukkurum.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
15. nóvember 2002.


Upplýsingabæklingur fyrir þolendur afbrota (339K án mynda)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum