Hoppa yfir valmynd
18. desember 2002 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Upplýsingasamfélagið á Norðurlöndum

18. desember 2002
Fréttatilkynning Nr. 136/2002 frá Hagstofu Íslands


Norræna ráðherraráðið og hagstofur Norðurlandanna hafa að frumkvæði þess fyrrnefnda gefið út skýrsluna Nordic Information Society Statistics 2002 um upplýsingasamfélagið á Norðurlöndum. Skýrslan byggir á könnunum sem gerðar voru meðal einstaklinga og fyrirtækja á tímabilinu nóvember 2001 til júní 2002.

Um 60% Norðurlandabúa á aldrinum 16-74 ára hafa aðgang að Interneti heima fyrir. Algengastur er þessi aðgangur á Íslandi, þar sem 73% landsmanna hafa internetaðgang heima á móti 68% í Svíþjóð, 61% í Danmörku og Noregi og 53% í Finnlandi. Íslendingar eru einnig duglegastir Norðurlandaþjóða við að sækja sér upplýsingar á Netið, en 70% þeirra fara inn á Internetið einu sinni í viku eða oftar.
Ef teknar eru niðurstöður danskra, norskra og sænskra kannana er vart teljanlegur munur á notkun norrænna karla og kvenna á upplýsingatækni. Hins vegar er munur ef skipt er eftir aldri, þar sem þeir sem komnir eru yfir sextugt virðast ekki hafa tileinkað sér notkun upplýsingatækninnar að sama marki og þeir sem yngri eru.

Nær öll fyrirtæki á Norðurlöndum, sem hafa 10 starfsmenn eða fleiri í vinnu, nota tölvur og yfir 90% fyrirtækja af þessari stærð hafa aðgang að Interneti. Háhraðatengingar (xDSL) eru algengastar á Íslandi eða hjá 65% fyrirtækja á móti 50% í Finnlandi, 47% í Danmörku, 43% í Svíþjóð og 34% í Noregi. Fyrirtæki með heimasíður eru flest í Svíþjóð eða 78%, en 72% danskra, 64% finnskra og íslenskra og 55% norskra fyrirtækja hafa komið sér upp heimasíðu. Helsti tilgangurinn með heimasíðu fyrirtækja er að markaðssetja framleiðsluvöru og gildir það um öll Norðurlöndin.
Sala á vörum um Internetið (a.m.k. 1% af heildarveltu fyrirtækis) hefur enn ekki fest sig í sessi hjá norrænum fyrirtækjum. Þannig höfðu um 16% íslenskra fyrirtækja selt vöru um Netið en á öðrum Norðurlöndum var hlutfallið 8-11%.

Söfnun tölulegra upplýsinga um upplýsingasamfélagið á Íslandi var fram til ársloka 2001 í höndum verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið. Frá byrjun árs 2002 hefur þetta verið viðfangsefni Hagstofu Íslands. Hagstofan hefur gert tvær kannanir á þessu sviði á árinu. Hin fyrri fór fram í maí/júní og náði til notkunar fyrirtækja á upplýsingatækni. Niðurstöður hennar má finna hér. Síðari könnunin beindist að notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og Interneti og er henni nýlokið. Niðurstöður úr henni verða birtar í byrjun næsta árs
Norrænu skýrsluna má nálgast í heild sinni síðar í dag á vefslóð finnsku hagstofunnar http://stat.fi/tk/yr/tietoyhteiskunta/index_en.html.
Einnig verður hægt að fá afhent eintak af henni í afgreiðslu Hagstofu Íslands að Skuggasundi 3.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira