Hoppa yfir valmynd
28. mars 2003 Dómsmálaráðuneytið

Ný barnalög samþykkt á Alþingi

Á Alþingi hefur verið samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra til nýrra barnalaga, sem öðlast gildi 1. nóvember n.k.

Fréttatilkynning
Nr. 8/ 2003

Ný barnalög


Á Alþingi hefur verið samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra til nýrra barnalaga, sem öðlast gildi 1. nóvember n.k.
Þar sem hin nýju barnalög fela í sér margvíslegar réttarbætur til handa börnum og foreldrum þykir rétt að kynna helstu nýmæli þeirra fyrir almenningi.
Aðdragandi hinna nýju barnalaga var sá, að á árinu 1999 fól dómsmálaráðherra sifjalaganefnd, sem er ein af fastanefndum ráðuneytisins, að endurskoða gildandi barnalög frá 1992. Á þeim tíma sem liðinn var frá gildistöku þeirra höfðu orðið miklar breytingar á viðhorfum og sjónarmiðum í barna- og fjölskyldurétti, bæði hér á landi og erlendis, og taldi dómsmálaráðherra því tímabært að endurskoða lögin í ljósi fenginnar reynslu og þróunar.
Í sifjalaganefnd áttu sæti Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, formaður, Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu og Valborg Þ. Snævarr, hæstaréttarlögmaður. Ritari nefndarinnar var Kristrún Kristinsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu. Nefndinni til aðstoðar var enn fremur Jóhanna Gunnarsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.
Í upphafi starfa nefndarinnar varð ljóst að taka þyrfti afstöðu til fjölmargra sjónarmiða og álitaefna og var því ýmsum stofnunum, félaga- og hagsmunasamtökum sem láta sig málefni á sviði barnaréttar varða gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri við sifjalaganefnd í tilefni fyrirhugaðrar endurskoðunar. Þeir sem nefndin ritaði bréf í þessu skyni voru Barnaheill, Barnaverndarráð, Barnaverndarstofa, Dómarafélag Íslands, Félag ábyrgra feðra, Félag einstæðra foreldra, Fjölskylduráð, Heimili og skóli, Íslandsdeild OMEP (Bernskan), Jafnréttisráð, karlanefnd Jafnréttisráðs, Kvenréttindafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Samtökin 78, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, Sýslumannafélag Íslands og umboðsmaður barna.
Sifjalaganefnd tók allar athugasemdir og ábendingar sem henni bárust til efnislegrar athugunar og var við samningu frumvarpsins tekið tillit til fjölmargra þeirra.
Við samningu frumvarpsins var höfð sérstök hliðsjón af þeim alþjóðlegu samningum og samþykktum sem Ísland er aðili að og varða málefni á sviði barnaréttar. Sérstaklega var litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og mannréttindasáttmála Evrópu, en einnig til norræns samstarfs á sviði sifjaréttar o.fl.
Þegar sifjalaganefnd hafði lokið við gerð draga að frumvarpi til barnalaga, í árslok 2001, voru þau send áðurnefndum aðilum og fleirum til kynningar og þeim gefinn kostur á að veita nefndinni umsögn sína um þau. Flestir þeirra sem veittu umsagnir lýstu mikilli ánægju með frumvarpsdrögin en fram komu þó ýmsar ábendingar og athugasemdir og sem fyrr var tekið tillit til þeirra við samningu frumvarpsins.

Verður nú getið um helstu nýmæli nýju barnalaganna og jafnframt er bent á að ítarlegar skýringar um þau er að finna í athugasemdum með frumvarpinu.
1. Móður er skylt að feðra barn sitt. Með þessu er stefnt að því að réttur barns til að þekkja báða foreldra sína, sem mælt er fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sé virtur. Viðurlögum verður þó ekki beitt þótt móðir láti hjá líða að feðra barn.
2. Reglur um feðrun barns eru einfaldaðar.
3. Kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst móðir þess.
4. Réttarstaða manns sem gefur sæði til tæknifrjóvgunar er skýrð.
5. Tryggður er réttur barns til skráningar í þjóðskrá, sbr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, þ.e. að barn skuli skráð þegar eftir fæðingu.
6. Manni, sem telur sig föður ófeðraðs barns, er veitt heimild til að höfða faðernismál.
7. Dómara er veitt heimild til að skipa stefnda í faðernismálum, vefengingarmálum og málum til ógildingar á faðernisviðurkenningu, sérstakan málsvara.
8. Tiltekið er að meðal forsjárskyldna sé skylda forsjármanna til að vernda barn gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
9. Sjálfvirkri forsjá stjúpforeldris og sambúðarmaka er breytt, þannig að þessir aðilar öðlast aðeins forsjá barns með foreldri þess þegar foreldrið fer eitt með forsjá.
10. Forsjá sambúðarmaka verður ekki sjálfkrafa við stofnun sambúðar, heldur kemst hún á að liðnu einu ári frá skráningu sambúðar foreldris og sambúðarmaka í þjóðskrá.
11. Heimild er fyrir foreldra til að mæla fyrir um hver skuli fara með forsjá barns þeirra að þeim látnum.
12. Foreldrar geta gert með sér tímabundna samninga um forsjá.
13. Dómstólar leysa alfarið úr ágreiningsmálum um forsjá barna.
14. Dómari hefur heimild til þess að dæma um meðlagsgreiðslur og umgengni í forsjármáli. Þessi heimild er bundin við það að forsjármálið sé til meðferðar hjá dómstól, en í öðrum tilvikum verður að beina umgengnis- og meðlagsmáli til sýslumanns.
15. Dómari hefur heimild til að úrskurða til bráðabirgða um umgengni og meðlag á meðan dómsmál um forsjá er rekið. Hann getur einnig ákveðið hjá hvoru foreldra barn skuli búa, jafnvel að barn skuli búa til skiptis hjá þeim. Þetta er til þess fallið að stuðla að því að barn haldi tengslum við báða foreldra sína undir rekstri máls og draga úr líkum á því að annað foreldri öðlist betri stöðu en hitt ef mál dregst á langinn, sem og að tryggja barni framfærslu beggja foreldra sinna.
16. Dómari hefur heimild til að skipa málsvara fyrir stefnda í forsjármáli.
17. Réttur barns til að tjá sig um mál miðast við að barn hafi náð nægilegum þroska til að tjá sig um mál í stað þess að miða við 12 ára aldur barns.
18. Staðfestan samning um umgengni er unnt að fullnusta með sama hætti og úrskurð um umgengni.
19. Sýslumaður getur úrskurðað um umgengni og meðlag þótt forsjá sé sameiginleg.
20. Dómari hefur heimild til þess að dæma um meðlagsgreiðslur í faðernismáli.
21. Ný þvingunarúrræði vegna brota á umgengnisrétti eru lögfest. Umgengni verður komið á með beinni aðfarargerð ef álagning og innheimta dagsekta skilar ekki viðunandi árangri. Mikilvægi þess að barn hafi tækifæri til þess að þekkja og njóta samvista við það foreldri sem það býr ekki hjá er undirstrikað í hinum nýju lögum.


Að lokum er tekið fram að niðurröðun kafla hinna nýju laga er breytt frá gildandi lögum og leitast hefur verið við að málfar laganna sé skýrt og auðskiljanlegt.Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
27. mars 2003Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira