Hoppa yfir valmynd
28. maí 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2003: Dómur frá 28. maí 2003

Ár 2003, miðvikudaginn 28. maí, er í Félagsdómi í málinu nr. 5/2003

Alþýðusamband Íslands f.h.

Rafiðnaðarsambands Íslands vegna

Félags íslenskra rafvirkja

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Samtaka verslunar og þjónustu vegna

Rafmagnsveitna ríkisins

(Ragnar Árnason hdl.)

kveðinn upp svofelldur

dómur

Mál þetta, sem dómtekið var 30. apríl síðastliðinn, er höfðað 12. mars 2003.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands, Stórhöfða 31, Reykjavík vegna Félags íslenskra rafvirkja, Stórhöfða 31, Reykjavík.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Samtaka verslunar og þjónustu, vegna Rafmagnsveitna ríkisins, Rauðarárstíg 10, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að dómurinn viðurkenni að túlka beri ákvæði í gr. 2.06 um útköll í kjarasamningi RSÍ við Rarik þannig að greiða beri fyrir hvert útkall starfsmanns um helgar sérstaklega fjórar klukkustundir þótt starfsmaður sé kallaður aftur út til vinnu innan fjögurra klukkustunda.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Dómkröfur stefnda

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Ágreiningur er með málsaðilum um túlkun á ákvæði kjarasamnings um útköll um helgar.       Ákvæðið er að finna í 2. mgr. í grein 2.06 í kjarasamningi milli Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) vegna aðildarfélaga annars vegar og Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik) hins vegar sem gildir frá 1. október 2000 til 30. nóvember 2004. Ákvæði þetta var viðbót við eldra ákvæði í kjarasamningi aðila. Hér reynir því á túlkun á nýju ákvæði í kjarasamningi. Greinin hljóðar í heild sinni sem hér segir:

„1. mgr.: Sé starfsmaður kallaður til vinnu frá heimili sínu eftir að venjulegum vinnudegi er lokið greiðist honum ávallt ein klst. auk þess tíma sem unnin er, þó aldrei skemur en þrjár klst. nema dagvinna hefjist innan þriggja klst. frá því að hann kom til vinnu.  Ákvæði þetta á ekki við um vinnu sem unnin er í beinu framhaldi af venjulegum vinnudegi.

2. mgr.:  Fyrir útkall á tímabilinu 00.00-06.00 og frá kl. 18.00 á föstudegi til kl. 06.00 á mánudagsmorgni greiðist ekki minna en 4 klst. nema dagvinna hefjist innan þriggja klst. frá því hann kom til vinnu.

3. mgr.: Sé starfsmaður kallaður til fyrirfram skipulagðrar vinnu utan hefðbundins vinnutíma innan þriggja klst. frá því að hann lauk vinnu greiðist svo sem um samfelldan tíma hafi verið að ræða, annars skal greiða eina klst. auk unnins tíma.

4. mgr.: Sé starfsmanni sem ekki er á bakvakt gert að sinna þjónustu í frítíma sínum skal samið um þóknun vegna þess ónæðis sem af því hlýst.  Sé fyrirfram ákveðin vinna um helgi afboðuð eftir kl. 20.00 á föstudag greiðast 2 klst.”

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að ítrekað hafi átt sér stað að starfsmenn stefnanda hafi verið kallaðir út um helgar þannig að skemmri tími en 4 klukkustundir líði milli útkalla. Hafi þeir þá einungis fengið greiddan samfelldan tíma auk einnar klukkustundar en ekki fengið hvert útkall sérstaklega greitt svo sem kveðið sé á um í 2. mgr. gr. 2.06.  Þessi breytta túlkun Rarik á ákvæðinu hafi farið að koma í ljós á árinu 2002 en fram til þess hafi stefndi alltaf greitt fullan tíma án athugasemda.        Þannig hafi Páll Elíasson, starfsmaður stefnda og félagsmaður í RSÍ, verið kallaður út til starfa 23. mars 2002 kl. 13 en hann sé starfsmaður í vinnuflokki á Hvolsvelli. Hann hafi unnið í eina klukkustund og verið kominn heim til sín kl. 14.  Kl. 15 hafi hann svo verið  kallaður út í annað verk og þá unnið til kl. 17. Taldi starfsmaðurinn sig eiga rétt á greiðslu vegna tveggja útkalla fyrir þessi störf eða samtals 8 klukkustundir en einungis fengið greiddar 5,5 klukkustundir. Annar starfsmaður, Rúnar Gränz, hafi verið kallaður út á sama vinnustað 19. mars 2003 kl. 10.30, verið í því útkalli til kl. 11.30 og þá farið heim til sín.  Hann hafi verið kallaður aftur út í annað verk kl. 12 og verið í því útkalli til kl. 14. Hafi hann ekki fengið þetta sem tvö útköll og stefndi skilgreint þetta sem eitt útkall og greitt honum laun samkvæmt því.

Túlkun stefnda í þeim tilvikum sem að framan eru greind standist ekki og sé ekki í samræmi við skýrt orðalag 2. mgr. greinar 2.06 í kjarasamningi aðila. Þegar um útköll um helgi er að ræða beri að greiða 4 klukkustundir fyrir hvert útkall enda sé ekki deilt um það í þessum tilvikum að um tvö aðskilin verk hafi verið að ræða. Ekki sé hægt að túlka ákvæðið með öðrum hætti en þeim að í hvert verk, sem starfsmaður er kallaður til um helgi, skuli greiða sjálfstætt og sérstaklega 4 klukkustundir. Engin heimild sé til þess að fara eftir 1. tl. gr. 2.06 um helgarútköllin.

Ástæða fyrir breytingu á þessu ákvæði í síðustu kjarasamningum hafi verið sú að bæta hafi átt kjör rafiðnaðarmanna vegna útkalla um helgar. Ætti túlkun stefnda að standa hefði ekki verið ástæða að setja inn sérstakt ákvæði um útköll um helgar og unnt að nota fyrri málsgreinina um helgarnar.

 

Málsástæður og lagrök stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að ákvæði kjarasamninga SA við viðsemjendur séu nokkuð mismunandi hvað varðar lágmarksgreiðslu í útköllum. Í sumum sé kveðið á um 4 klukkustunda lágmarksgreiðslu en kjarasamningur SA og RSÍ sé meðal þeirra samninga þar sem lágmarksgreiðsla hafi verið 3 klukkustundir. RSÍ hafi í kjaraviðræðum gert kröfu um hækkun lágmarksgreiðslu fyrir útkall úr 3 klukkustundum í 4 klukkustundir. Í aðalkjarasamningi RSÍ og SA frá 24. mars 2000 hafi náðst samkomulag um að hækka greiðslu í 4 klukkustundir þegar útkall á sér stað á tímabilinu frá miðnætti til kl. 6 og frá kl. 17 á laugardegi til kl. 6 á mánudagsmorgni. Sé starfsmaður á bakvöktum sé lágmarksgreiðsla þó ávallt 3 klukkustundir.

Í kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga og Samtaka atvinnulífsins vegna Rafmagnsveitna ríkisins (RARIK) sé einnig ákvæði um útköll. Ef starfsmaður er kallaður til vinnu utan vinnutíma beri að greiða honum að lágmarki 3 klukkustundir. Við endurnýjun kjarasamningsins í desember 2000 hafi verið gerð krafa um hækkun þessarar greiðslu úr 3 klukkustundum í 4 klukkustundir. Hafi m.a. verið vísað til nýgerðs aðalkjarasamnings sem og kjarasamnings RSÍ og Landsvirkjunar. Hafi orðið að samkomulagi að greiða að lágmarki 4 klukkustundir þegar útkall ætti sér stað á tímabilinu frá miðnætti til kl. 6 og frá kl. 18 á föstudegi til kl. 6 á mánudagsmorgni. Eigi útkallsákvæðið jafnt við um útköll sem starfsmaður sinnir á bakvakt sem og utan bakvakta.

Að mati stefnda hafi hér verið um einfalda aðgerð að ræða. Á afmörkuðum tímum sólarhringsins og vikunnar skyldi greiða einni klukkustund meira en ella. Komi sá skilningur einnig fram í kynningarefni RSÍ með aðalkjarasamningi. Ekki hafi verið  rætt um grundvallarbreytingar á útreikningi eða greiðslureglum, hvorki við gerð aðalkjarasamnings né við gerð kjarasamnings vegna RARIK.

Stefndi hafi ávallt greitt fyrir útköll með sama hætti og í samræmi við viðurkennda framkvæmd annarra fyrirtækja og enginn ágreiningur verið við RSÍ um framkvæmdina. Þegar starfsmaður er kallaður út fari hann inn á launaskrá í að lágmarki 3 eða 4 klukkustundir Á því tímabili geti hann þurft að sinna fleiri en einu verki. Algengt sé að starfsmenn þurfi að sinna fleiri verkum á einu útkallstímabili.  Að mati stefnda fólst í kjarasamningi aðila frá desember 2000 sú breyting að í stað 3 kukkustunda fyrir þessa vinnu yrðu greiddar 4 klukkustundir. Sé framkvæmd 2. mgr. greinar 2.06 í kjarasamningi aðila í fullu samræmi við viðurkennda túlkun á útkallsákvæðum kjarasamninga. Eigi útkallsgreiðslan skv. gr. 2.06 eingöngu við þegar starfsmaður er kallaður til starfa frá heimili sínu og hann er þá ekki að störfum eða í greiddum vinnutíma. Það teljist ekki útkall þegar haft er samband við starfsmann sem er í vinnu og hann beðinn að vinna annað verk, hvort sem hann er þá staddur á vinnustaðnum eða utan hans. Starfsmaður, sem kallaður hefur verið einu sinni út, sé þar með kominn í vinnuna næstu 4 klukkustundir sem sé sú lágmarksgreiðsla sem ákvæðið tryggi um helgar. Eigi nýtt útkall og ný útkallsgreiðsla sér ekki stað innan 4 klukkustunda greidds útkallstíma (vinnutíma).

Útkallsákvæði kjarasamninga séu frávik frá þeirri meginreglu kjarasamninga að laun séu einungis greidd fyrir þær vinnustundir sem starfsmaður innir af hendi og verður að túlka ákvæðin með hliðsjón af því. Ekki sé greitt fyrir óunninn tíma nema skýr og ótvíræð ákvæði kjarasamnings kveði á um slíkt. Hvíli á stefnanda að sýna fram á og sanna að samið hafi verið um enn víðtækari frávik frá meginreglunni.

Ekki sé ágreiningur milli aðila um framkvæmd útkallsákvæða á virkum dögum skv. 1. mgr. greinar 2.6 og viðurkenni stefnandi þá framkvæmd í stefnu. Stefndi mótmælir skilningi stefnanda á 2. mgr. greinar 2.06. Veiti hún hvorki né hafi verið ætlað að veita starfsmönnum svo víðtækan rétt sem stefnandi heldur fram. Í ákvæðinu felist einungis að greiddar séu að lágmarki 4 klukkustundir fyrir nætur- og helgarútköll í stað 3 klukkustunda áður. Þegar starfsmaður kemur til vinnu eftir útkall hefst vinnutími hans og sé honum tryggð lágmarksgreiðsla, 3 eða 4 klukkustundir. Hann sé þá kominn inn á launaskrá og beri að sinna þeim verkefnum sem honum eru falin. Þótt starfsmaður yfirgefi vinnustað eftir að verkefni er lokið breyti það ekki þeirri staðreynd að hann sé enn á launaskrá.

Mótmælt er að stefndi hafi breytt framkvæmd sinni árið 2002 og sé stefnda er ekki kunnugt um að starfsmenn hafi fyrir þann tíma fengið greitt tvisvar sinnum fjórar klukkustundir fyrir tvö helgarútköll sem legið hafa saman í tíma.

  

Niðurstaða

Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Ekki er ágreiningur milli aðila um framkvæmd útkallsákvæða á virkum dögum samkvæmt 1. mgr. greinar 2.6 í kjarasamningi aðila.

Fallist er á með stefnda að útkallsákvæði kjarasamninga séu frávik frá þeirri meginreglu kjarasamninga að laun séu einungis greidd fyrir þær vinnustundir sem starfsmaður innir af hendi og verður að túlka ákvæðin með hliðsjón af því. Er ekki greitt fyrir óunninn tíma nema skýr og ótvíræð ákvæði kjarasamnings kveði á um slíkt. Samkvæmt því verður að skýra ákvæði 2. mgr. greinar 2.06 í kjarasamningi aðila á þann veg að það eigi eingöngu við þegar starfsmaður er kallaður til starfa innan þeirra tímamarka sem þar greinir og hann er ekki þá þegar að störfum eða í greiddum vinnutíma. Því er ekki um nýtt útkall að ræða þegar haft er samband við starfsmann, sem þegar hefur verið kallaður út, og hann beðinn að vinna annað verk innan útkallstímans. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaðurinn er á þeirri stundu staddur á vinnustaðnum eða utan hans. Verður því að líta svo á að starfsmaður, sem kallaður hefur verið út, sé þar með kominn í vinnuna næstu 4 klukkustundir en það er sú lágmarksgreiðsla sem umrætt samningsákvæði tryggir um helgar. Hefur ekki verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að framkvæmd umþrætts kjarasamningsákvæðis hafi verið á annan veg en stefndi heldur fram.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu en eftir atvikum þykir mega ákveða að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu. 

Dómsorð

Stefndi, Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Samtaka verslunar og þjónustu vegna Rafmagnsveitna ríkisins, er sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands vegna Félags íslenskra rafvirkja, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Gunnar Sæmundsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum