Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2004 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um stöðu eftirlitsiðnaðar á Íslandi

Eftirlitsiðnaðurinn á Íslandi: Kostnaður og ábati

Að beiðni forsætisráðuneytis hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands unnið skýrslu um stöðu eftirlitsiðnaðarins á Íslandi út frá hagrænu sjónarmiði og reynt að varpa ljósi á kostnað og ábata hans fyrir samfélagið í heild.

Eftirlitsreglur eru yfirleitt settar til að tryggja mikilvæga hagsmuni í samfélaginu, svo sem að leiðrétta markaðsbresti, stuðla að jöfnuði og tryggja almannahag. Á Íslandi er lögum um opinberar eftirlitsreglur. ætlað að stuðla að öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, neytendavernd, samkeppni, eðlilegum viðskiptaháttum og getu fyrirtækja til að standa við skuldbindingar sínar.

Eftirlitsstarfsemi hefur aukist töluvert í hinum vestræna heimi undanfarna áratugi, sérstaklega eftirlit sem er ætlað að þjóna markmiðum um öryggi og heilsuvernd, neytendavernd og umhverfisvernd. Með vaxandi tekjum neytenda hafa kröfur um slíka hagsmuni aukist. Jafnframt hefur verið lögð aukin áhersla á að samræma reglur milli landa til að koma í veg fyrir óþarfar hindranir í viðskiptum.

Eftirlit hins opinbera með starfsemi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana hefur ávallt einhver takmarkandi áhrif á möguleikum þessara aðila til athafna. Í skýrslunni er leitast við að varpa ljósi á heildarkostnað samfélagsins vegna opinberra eftirlitsreglna á Íslandi. Lagt er mat á beinan kostnað fyrirtækja og ályktað um óbeinan kostnað þeirra og áhrif eftirlitsreglna á hagkerfið í heild sinni. Einnig er lagt mat á kostnað yfirvalda.

Litið er sérstaklega á matvælaeftirlit, reynt að leggja hagrænt mat á kostnað og ábata við frekari samræmingu matvælaeftirlits á Íslandi sem og kostnað og ábata þess fyrir samfélagið í heild sinni. En þeir útreikningar eru að miklu leyti byggðir á bandarískum rannsóknum sem hafa metið hagræn áhrif matvælaeftirlits.


Helstu niðurstöður:

Kostnaður:
Kostnaður samfélagsins vegna eftirlitsreglna skiptist með eftirfarandi hætti:

Kostnaður samfélagsins vegna eftirlitsreglna

  • Beinn heildarkostnaður fyrirtækja á Íslandi við að framfylgja eftirlitsreglum er talinn nema um 7,2 milljarðar króna á verðlagi ársins 2003. Þetta er vafalítið vanmat þar sem ekki var tekið mið af öllum gildandi eftirlitsreglum á öllum sviðum. Við mat á stjórnunarkostnaði fyrirtækja á Íslandi er stuðst við könnun OECD frá árinu 2001 sem rúmlega 500 íslensk fyrirtæki tóku þátt í. Þar var stjórnunarkostnaður fyrirtækja talinn nema um 0,7% af VLF á ári, eða um 5,7 milljarðar árið 2002 á verðlagi ársins 2003. Fjármagnskostnaður fyrirtækja er er talinn nema 20% af heildarkostnaði, eða um 1,5 milljarðar króna og er þá stuðst við niðurstöður bandarískrar könnunar.
  • Óbeinn kostnaður er sá kostnaður sem til fellur vegna áhrifa eftirlitsreglna á framleiðni, nýsköpun, samkeppnishæfni og skilvirkni innan fyrirtækja. Metið var að mögulegt framleiðslutap íslenskra fyrirtækja væri á bilinu 0,4-4 milljarða króna á verðlagi ársins 2003 miðað við að framleiðsla sé allt frá því að vera 0,05% minni upp í það að vera 0,5% minni vegna áhrifa opinberra eftirlitsreglna. Minni framleiðsla núna hefur áhrif á magn framleiðslu í framtíðinni og ef breytingin er færð til núvirðis yfir tíma er framleiðslutapið mun meira.
  • Heildarkostnaður yfirvalda, þ.e. almennur rekstrarkostnaður opinberra eftirlitsstofnana var metinn á bilinu 1,5 – 5 milljarðar króna á verðlagi ársins 2003. Neðri mörk matsins taka mið af eftirlits- og leyfisgjöldum innheimtum af atvinnulífinu árið 2002, en eftirlitsstarfsemin er að miklu leyti fjármögnum með þeim gjöldum. Efri mörk matsins tók mið af rekstrarkostnaði opinberra stofnanna sem sjá um ýmiss konar eftirlit.
  • Miðað við ofangreindar forsendur má áætla að heildarkostnaður íslensks samfélags vegna opinbers eftirlits hafi verið á bilinu 9–12 milljarðar króna á verðlagi ársins 2003. Óbeinn kostnaður er ekki tekin með í þeirri tölu.

Ábati:

  • Í þessari skýrslu var ekki lagt mat á ábata samfélagsins af opinberum eftirlitsreglum. Fjármálaráðuneytið í Bandaríkjunum gefur árlega út skýrslu þar sem lagt er mat á  kostnað og ábata af eftirlitsreglum hins opinbera. Ef sú greining væri yfirfærð yfir á Ísland má ætla að árlegur kostnaður gæti verið um 2,5 – 3 milljarðar króna, en ábatinn verulega hærri eða 10–16 milljarðar króna. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst um ágiskun að ræða. Óvíst er hvort eftirlitsreglur þar eru sambærilegar við eftirlitsreglur á Íslandi. Niðurstöðurnar gefa eigi að síður til kynna að ábatinn af opinberu eftirliti sé vafalítið mun meiri en sá kostnaður sem því fylgir.

Matvælaeftirlit:

  • Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um matvælaeftirlit og ábati af því metinn svo og kostnaður fyrir samfélagið í heild sinni. Matvælaeftirlit á Íslandi fellur undir tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög. Þrjú ráðuneyti, umhverfis-, landbúnaðar- og sjávárútvegsráðuneyti, og stofnanir þeirra eru með matvælaeftirlit á sinni könnu, auk sveitarstjórna og heilbrigðisnefnda þeirra.
  • Í skýrslunni er lagt mat á ábata og kostnað við matvælaeftirlit á Íslandi. Mat á ábata samfélagsins af matvælaeftirliti er á bilinu 350–11.350 milljónir ISK árið 2002 en kostnaður er metinn á bilinu 700–2.700 milljónir kr. Niðurstöðurnar gefa til kynna að ábati af matvælaeftirliti sé líklega meiri en kostnaðurinn.
  • Í þessum samanburði er ekki tekið mið af þeim neikvæðu áhrifum sem slæmt matvælaeftirlit getur haft í för með sér til dæmis ef upp kemur víðtæk matarsýking eða aðrir sjúkdómar sem rekja má til lélegs eftirlits, í því sambandi má nefna nýlegt fuglafár í Asíu.
  • Einnig var metið að ábatinn af sameinaðri stjórnsýslu matvælaeftirlits væri meiri en kostnaðurinn. Þar sem miðað var við að sameinuð stjórnsýsla myndi skila skilvirkara eftirliti.


Niðurstöður skýrslunnar eru þær að yfirvöldum beri að tryggja ákveðna þjóðhagslega hagsmuni með opinberum eftirlitsreglum þar sem ábati af þeim er yfirleitt meiri en kostnaðurinn fyrir samfélagið í heild sinni. Hins vegar er brýnt að reynt sé að ná markmiðum fram með sem skilvirkustum hætti með það fyrir augum að halda byrði samfélagsins í lágmarki hverju sinni.

Í Reykjavík, 19. apríl 2004.

Skýrslan í heild sinni:Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum