Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hópbílar hf. fengu Kuðunginn 2003

Kuðungurinn
Kuðungurinn

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra veitti í gær, á Degi umhverfisins, Hópbílum hf. umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, Kuðunginn 2003 við hátíðlega athöfn á sýningunni Dagar umhverfisins í Smáralind. Það var Aðalsteinn Hallgrímsson hjá Hópbílum hf sem tók við viðurkenningunni.

Sérstök nefnd var skipuð til þess að gera tillögu til ráðherra um fyrirtæki, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, væri þess verðugt að hljóta umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir árið 2003. Nefndina skipuðu Óskar Maríusson tilnefndur af Samtökum Atvinnulífsins, Sigurður Hafliðason tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands og formaður nefndarinnar Andrés Pétursson tilnefndur af umhverfisráðuneytinu. Það var samdóma álit nefndarinnar að leggja til við ráðherra að fyrirtækið Hópbílar h.f. í Hafnarfirði fengi umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins Kuðunginn fyrir árið 2003.Siv Friðleifsdóttir og Aðalsteinn Hallgrímsson við afhendingu Kuðungsins 2003

Hópbílar hf. var stofnað árið 1995 og sérhæfir sig í rekstri hópferðabifreiða. Hjá fyrirtækinu starfa að meðaltali um 40 manns. Hópbílar h.f. hafa allt frá árinu 2001 unnið að því að fá umhverfisvottun samkvæmt alþjóðlegum staðli ISO-14001. Um mitt árið 2003 var umhverfisstjórnunarkerfið orðið vottunarhæft og afhent úttektaraðilanum Vottun hf. til frekari yfirferðar. Á meðan beðið var eftir umsögn vottunaraðila var farið í reglubundnar innri úttektir á verklagsreglum kerfisins og verklagi starfsmanna til enn frekari tryggingar því að starfsemin uppfylli kröfur ISO-14001 umhverfisstaðalsins. Fyrirtækið hefur sett sér skýr markmið í umhverfismálum:

  1. Stuðla að sjálfbærri þróun með minni notkun hráefna, endurnýtingu og endurnotkun.
  2. Auka umhverfisvitund starfsmanna með fræðslu og þjálfun og hvetja þá til að framkvæma verk sín á umhverfisvænan hátt.
  3. Velja birgja með tilliti til frammistöðu þeirra í umhverfismálum, svo framarlega sem verð og gæði leyfa.
  4. Haga starfsemi fyrirtækisins í samræmi við gildandi lög og reglur um umhverfismál og fylgjast með breytingum á lögum og reglugerðum.
  5. Stuðla að mengunarvörnum með:

- vöktun umhverfisþátta í starfsemi fyrirtækisins

- flokka og lágmarka úrgang sem fellur til hjá fyrirtækinu

- draga úr mengandi útblæstri frá bílum fyrirtækjanna

Fyrirtækið hefur fært grænt bókhald tvö síðastliðin ár án þess að á því hvíli lagaleg skylda til þess. Með samanburði á milli ára kemur í ljós sá árangur sem náðst hefur á þessu tímabili á sviði umhverfismála, öryggismála og fjárhagslegs sparnaðar. Þar kemur m.a. fram að náðst hefur 7% sparnaður á notkun díselolíu á ekinn km sem dregur að sama skapi úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnkar kostnað umtalsvert. Dregið hefur verið úr notkun á dekkjahreinsi um 25% og notkun efna sem verða að spilliefnum, eins og smurolíu, um 38% sem hvort tveggja dregur úr umhverfisáhrifum af völdum rekstrarins og hefur fjárhagslegan sparnað í för með sér. Þá má nefna að dregið hefur verið verulega úr orkunotkun í formi rafmagns og heits vatns. Það krefst mikillar vinnu að koma á vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO-14001 og því fylgir mikill kostnaður. Það má því teljast til afreka þegar lítið meðalstórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, sem Hópbílar hf eru, tekst á við svo stórt verkefni og lýkur því með glæsibrag, sem gerir það eitt af framsæknustu fyrirtækjum landsins í umhverfismálum.

Hannað hefur verið sérstakt merki (logo) fyrir viðurkenninguna og fá Hópbílar hf. rétt til að nota merkið í eitt ár. Merkið er kuðungur sem Kristín Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður, hannaði. Auk þess fær verðlaunahafinn sérhannaðan Kuðung til eignar sem í ár er hannaður af listakonunni Guðnýju Hafsteinsdóttur.

Fréttatilkynning nr. 16/2004
UmhverfisráðuneytiðHafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira