Hoppa yfir valmynd
6. september 2004 Forsætisráðuneytið

Skýrsla nefndar um réttarstöðu samkynhneigðra

Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðs fólks sem forsætisráðherra skipaði 8. september 2003 hefur lokið störfum. Nefndin var skipuð í samræmi við ályktun Alþingis frá 11. mars 2003 sem fól ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera úttekt á réttarstöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi og skyldi hún jafnframt gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu.

Í nefndinni sátu Anni G. Haugen, félagsráðgjafi, tilnefnd af félagsmálaráðuneyti, Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Hólmfríður Grímsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Kristín Jónsdóttir, skrifstofustjóri, tilnefnd af menntamálaráðuneytinu, Þorvaldur Kristinsson tilnefndur af Samtökunum ’78 og Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands sem var skipuð formaður nefndarinnar. Dís Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var starfsmaður nefndarinnar.

Nefndin fór yfir íslensk lög og reglur um svið þar sem samkynhneigðir njóta ekki sömu réttarstöðu og gagnkynhneigðir og kannaði framkvæmd laga sem miða að því að vinna gegn mismunun gegn samkynhneigðum. Hún fékk einnig á sinn fund ýmsa sérfræðinga til viðræðna og ráðgjafar um einstaka þætti viðfangsefnisins. Á vegum nefndarinnar fór fram víðtæk upplýsingaöflun varðandi þróun í réttindamálum samkynhneigðra á Norðurlöndum og nokkrum Evrópulöndum. Var þar einkum litið til nýlegra lagabreytinga svo og margvíslegra skýrslna og rannsókna síðustu ára frá sérfræðinganefndum um málefni samkynhneigðra í nokkrum nágrannalöndum, m.a. í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Einnig var litið til þróunar varðandi réttarstöðu samkynhneigðra í ýmsu alþjóðlegu samstarfi sem Ísland á aðild að, m.a. í alþjóðlegri mannréttindasamvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.

Í skýrslu nefndarinnar um réttarstöðu samkynhneigðra birtist úttekt hennar og gerðar eru tillögur um úrbætur. Eru þær í megindráttum eftirfarandi:

  • Lögum um lögheimili nr. 21/1990 verði breytt þannig að samkynhneigð pör geti fengið óvígða sambúð skráða hjá Hagstofu Íslands með sömu réttaráhrifum og gagnkynhneigð pör. Í dag geta samkynhneigðir gengið í staðfesta samvist, sem er ígildi hjúskapar með nokkrum undantekningum, en geta ekki fengið sambúð sína skráða hjá Hagstofu Íslands.
  • Lagaákvæðum í sérlögum sem veita sambúð karls og konu sérstök réttaráhrif, t.d. á vettvangi vinnumarkaðsréttar, skattamála, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, verði breytt þannig að þau nái einnig til samkynhneigðra para í sambúð.
  • Fellt verði niður búsetuskilyrði 2. gr. laga um staðfesta samvist nr. 87/1996 þess efnis að a.m.k. annar einstaklinganna þurfi að vera íslenskur ríkisborgari sem eigi fasta búsetu hér á landi.
  • Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til þess breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör.
  • Samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist verði heimilað að frumættleiða íslensk börn og 1. mgr. 6. gr. laganna um staðfesta samvist breytt í því skyni. Í dag er samkynhneigðum einstaklingi í staðfestri samvist aðeins heimilt að stjúpættleiða barn maka síns.
  • Þrír nefndarmenn telja ekki rétt að svo stöddu að heimila ættleiðingar samkynhneigða para á erlendum börnum eða tæknifrjóvganir samkvæmt tæknifrjóvgunarlögum til tveggja kvenna í staðfestri samvist. Þrír nefndarmenn eru á öndverðri skoðun og leggja til að allar takmarkanir verði felldar niður varðandi ættleiðingar samkynhneigðra para og tæknifrjóvganir.
  • Sett verði í lög sérstök verndarákvæði til að sporna við mismunun samkynhneigðra á vinnumarkaði. Nefndin telur mikilvægt í undirbúningi löggjafar sem nú stendur yfir um réttindi launþega á vinnumarkaði að vernd samkynhneigðra gegn mismunun varðandi ráðningu, starfsumhverfi eða uppsögn verði sérstaklega tilgreind.
  • Fræðsla um samkynhneigð og málefni samkynhneigðra á ýmsum sviðum þjóðfélagsins verði efld til þess að vinna gegn fordómum, og fjallað verði um samkynhneigð í viðeigandi köflum aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla.
  • Samkynhneigð fái sérstaka umfjöllun í grunnmenntun ýmissa stétta svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna, lögfræðinga, guðfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa og námsráðgjafa, lögreglumanna og fangavarða.
  • Þá leggur nefndin til verkefni sem miða að rannsóknum, fræðslu og ráðgjöf um málefni samkynhneigðra njóti aukinna opinberra styrkja, einkum vísindarannsóknir á lífi og líðan lesbía og homma á Íslandi til þess að komast að því hvar skórinn kreppir þannig að gera megi viðeigandi ráðstafanir á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála gagnvart þessum þjóðfélagshópi.

                                                                                                            Reykjavík 6. september 2004Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum