Hoppa yfir valmynd
1. október 2004 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 7/2004:

A

gegn

Kjarnafæði hf.

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 1. október 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 15. mars 2004, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort launagreiðslur til hennar sem sölumanns hjá Kjarnafæði hf. feli í sér mismunun sem brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Kjarnafæði hf. með bréfi dagsettu 22. mars 2004. Þar var, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000, óskað upplýsinga um fjölda og kyn sölumanna hjá Kjarnafæði, hver gegni starfi kæranda nú og hver væru laun hans, afstöðu félagsins til erindis kæranda og annað það sem fyrirtækið vildi koma á framfæri og teldi til upplýsinga fyrir málið.

Greinargerð B hrl., f.h. Kjarnafæðis hf., er dagsett 3. maí 2004, og henni fylgdu gögn um laun kæranda og tveggja annarra sölumanna hjá félaginu. Kæranda var kynnt greinargerðin með bréfi, dags. 5. maí 2004, og henni gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Kærunefndin óskaði símleiðis eftir frekari upplýsingum hjá Kjarnafæði hf. og bárust þær með bréfi B hrl., f.h. Kjarnafæðis hf., dags. 19. júlí 2004, ásamt gögnum um laun sölumanns hjá félaginu. Kæranda var kynnt bréfið með bréfi, dags. 22. júlí 2004, og henni gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Andsvar kæranda er dagsett 9. ágúst 2004.

Kæranda og forsvarsmanni Kjarnafæðis hf. var gefinn kostur á að koma á fund kærunefndarinnar 1. október 2004. Af hálfu Kjarnafæðis hf. mætti D sölustjóri, en einnig mætti kærandi á fund nefndarinnar.

Mál þetta barst kærunefnd jafnréttismála þann 15. mars 2004. Úrlausn málsins hefur dregist vegna gagnaöflunar, auk þess sem nauðsynlegt var talið að kalla málsaðila fyrir nefndina eftir að skriflegri gagnaöflun lokið.

 

II

Málavextir

Kærandi hóf störf sem sölumaður hjá Kjarnafæði hf. í september 2001. Í upphafi var hún ráðin til reynslu og voru laun hennar þá ákveðin E kr. Að loknum reynslutíma voru laun hennar hækkuð og voru þau við starfslok hennar hjá félaginu F kr.

Starf kæranda fólst í sölu á vörum félagsins í ákveðnar verslanir á höfuðborgarsvæðinu og útkeyrsla á vörunum í þær verslanir. Vinnutími hennar var frá 8.00 til 17.00 alla virka daga, en hún hafði ekki vinnuskyldu eftir kl. 17.00 á daginn og ekki um helgar. Kærandi starfaði hjá félaginu fram til áramóta 2003, þegar hún lét af störfum í kjölfar uppsagnar hennar hjá félaginu og fékk hún greidd laun út febrúar 2004.

Hjá fyrirtækinu starfa nú átta sölumenn og eru fimm þeirra konur. Kærandi telur að karlkyns sölumenn, sem störfuðu í starfsstöð félagsins í Reykjavík, hafi verið umtalsvert hærra launaðir en hún. Nefnir hún í því skyni sölumann sem ráðinn var til félagsins á meðan hún starfaði hjá félaginu en var ekki fastráðinn hjá því, sem og sölumann sem ráðinn var til starfa hjá félaginu í september 2003, sem hafi haft tvöfalt hærri laun en hún. Kæranda og kærða greinir á um inntak starfa sölumannanna eins og gerð er grein fyrir síðar.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að sér hafi verið mismunað í launum hjá Kjarnafæði hf. vegna kynferðis síns. Hún hafi verið starfsmaður Kjarnafæðis hf. frá 1. september 2001 til 29. febrúar 2004, hafi þótt skila vinnu sinni vel og fengið hrós bæði yfirmanna og viðskiptavina fyrirtækisins. Vorið 2003 hafi karlmaður verið ráðinn sem sölumaður til fyrirtækisins og hafi hún haft ástæðu til að ætla að hann hafi fengið greidd verulega hærri laun en kærandi þegar við ráðningu, þrátt fyrir starfsreynslu kæranda við góðan orðstír. Þessi karlmaður hafi verið látinn fara eftir örfáa mánuði vegna slælegrar frammistöðu. Í nóvember 2003 hafi síðan verið ráðinn annar karlmaður í stöðu sölumanns. Hann hafi haft reynslu af slíkum störfum og byrjunarlaun hans hjá fyrirtækinu hafi verið næstum tvöföld laun kæranda eftir rúmlega tvö ár hennar í sama starfi.

Kærandi telur framangreinda mismunun í launagreiðslum afar óviðeigandi og telur augljóst að það sé eingöngu vegna kynferðis hennar. Henni hafi verið lofað launahækkunum sem aðeins hafi verið orðið við að litlu leyti. Hún hafi fengið lágmarkslaunahækkun eftir eitt ár í starfi og síðan lítils háttar hækkun viku áður en uppsagnarfrestur hennar hafi runnið út með loforði um frekari hækkanir sem ekki hafi verið staðið við.

Kærandi mótmælir staðhæfingum Kjarnafæðis hf. um vinnutíma þess starfsmanns sem ráðinn var á haustdögum 2003. Starfsmaðurinn hafi, þann tíma sem kærandi vann hjá félaginu, unnið frá kl. 8.00 á morgnana til kl. 17.00 á daginn og aðeins örfáa laugardaga. Sé hann með annan vinnutíma nú komi það þessu máli ekki við og telji kærandi það að hafa „vinnuskyldu“ á laugardögum og „bakvakt“ á sunnudögum hafi lítið að segja séu menn ekki við vinnu á þessum tímum. Kærandi telur umræddan starfsmann hafa sinnt sama starfi og hún sjálf.

Þá mótmælir kærandi staðhæfingum Kjarnafæðis hf. þess efnis að hún hafi eingöngu sinnt sölustarfi. Hún hafi séð um útkeyrslur á langflestum vörum sem hún hafi selt í verslanir auk þess sem hún hafi iðulega verið beðin um að fara í ýmis sérverkefni svo sem útkeyrslur á veitingastaði og fleira. Einungis þegar hún var að því komin að eiga barn hafi verið notaðir verktakar til útkeyrslu á vörunum, en þó ekki í öllum tilvikum.

 

IV

Sjónarmið Kjarnafæðis

Í greinargerð B hrl., fyrir hönd Kjarnafæðis hf., dags. 3. maí 2004, kemur fram að hjá fyrirtækinu starfi átta sölumenn og séu fimm þeirra konur. Sex þessara sölumanna starfi á Akureyri og tveir í Reykjavík.

Félagið telur að kæranda hafi ekki verið mismunað í launum á starfstíma hennar hjá félaginu. Samkvæmt framlögðum launaseðlum sé ljóst að sá sölumaður sem kærandi hefur borið kjör sín saman við og starfaði hjá félaginu frá mars 2003 og fram á haust sama ár, hafi verið með lægri heildarlaun en kærandi, eða G kr. á mánuði.

Þá hafi sá starfsmaður sem hóf störf hjá félaginu haustið 2003 allt annan vinnutíma en kærandi hafi haft. Starfsmaðurinn hefji störf kl. 7.00 á morgnanna og vinni til kl. 18-19 á virkum dögum. Hann hafi einnig vinnuskyldu á laugardögum og sé á bakvakt á sunnudögum. Þá hafi honum verið ætlað að leysa af sölustjóra og hafi því ríkari skyldur en almennur sölumaður hjá félaginu. Fyrir framangreint vinnuframlag eru laun hans ákveðin H kr. sem séu heildarlaun og fái hann ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu.

Þá hafi starfi kæranda verið breytt verulega eftir að kærandi hafi látið af störfum, bæði varðandi vinnutíma, sem væri nú lengri, og enn fremur annist sölumenn nú allan akstur á vörum til viðskiptamanna fyrirtækisins í Reykjavík. Því sé ekki hægt að tala um að einhver hafi tekið við starfi kæranda. Kjarnafæði hf. telur því að fullyrðingar kæranda, um að karlmaður hafi verið ráðinn í starf hennar með hærri laun en hún hafi haft, eigi ekki við rök að styðjast og enn síður að karlmaður sem hafi starfað hjá fyrirtækinu á sama tíma og hún, í sambærilegu starfi, hafi fengið hærri laun en hún.

 

V

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Af ákvæðinu má ráða að störf þau sem um ræðir þurfa að teljast vera jafnverðmæt og sambærileg.

Í máli þessu er um það deilt hvort kæranda hafi verið mismunað í launum í starfi sínum hjá Kjarnafæði hf. á tímabilinu frá mars 2003 og til starfsloka í febrúar 2004, en á því er byggt af hálfu kæranda að karlkyns sölumenn sem gegnt hafi sambærilegu starfi og hún hafi notið hærri launa, án þess að slíkt væri réttlætt með tilliti til ákvæða jafnréttislaga. Af hálfu Kjarnafæðis hf. hefur sjónarmiðum kæranda verið andmælt og á því byggt að umrædd störf sem kærandi vísar til hafi ekki verið sambærileg, meðal annars með tilliti til vinnufyrirkomulags og vinnuskyldu starfsmannanna.

Samkvæmt gögnum málsins var karlmaður ráðinn til sölustarfa hjá Kjarnafæði hf. í mars 2003 og mun honum hafa verið ætlað að gegna svipuðu starfi og kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum verður ekki ráðið að sölumaðurinn hafi haft hærri laun en kærandi naut á þeim tíma. Ekki þykir hafa komið fram í gögnum málsins að kæranda hafi verið mismunað með tilliti til ráðningakjara hins nýja starfsmanns.

Fyrir liggur að nýr karlkyns sölumaður hafi komið til starfa hjá Kjarnafæði hf. í september 2003. Samkvæmt launaseðlum hafði hann hærri mánaðarlaun en kærandi naut á umræddum tíma. Í skriflegum athugasemdum Kjarnafæðis hf. til nefndarinnar og eftir því sem ráðið verður af upplýsingum, sem forsvarsmaður fyrirtækisins veitti á fundi nefndarinnar, þykir verða að fallast á að umræddur starfsmaður hafi að einhverju leyti haft aðrar og víðtækari starfsskyldur heldur en kærandi. Þannig mun starfsmanninum hafa verið ætlað að vera aðstoðarmaður sölustjóra og leysa hann af eftir atvikum og jafnframt hafi hann haft vinnuskyldu utan hefðbundins vinnutíma, en óumdeilt mun vera í málinu að viðkomandi sinnti slíkum skyldum umfram það sem kæranda var gert að sinna. Þá liggur einnig fyrir í málinu að karlkyns sölumaður var ráðinn til starfa hjá Kjarnafæði hf. um það leyti sem kærandi hætti störfum hjá fyrirtækinu. Mánaðarlaun þess starfsmanns voru einnig nokkru hærri en mánaðarlaun kæranda. Af tilvísuðum gögnum og því sem fram þykir hafa komið af hálfu Kjarnafæðis hf. á fundi nefndarinnar má ráða að sá starfsmaður hafi einnig haft aðrar vinnuskyldur heldur en kærandi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir ekki sýnt að stöður þær sem kærandi vísar til og hefur borið stöðu sína saman við teljist hafa verið jafnverðmætar og sambærilegar í skilningi 14. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 96/2000.

Er það því álit nefndarinnar að ekki liggi fyrir að Kjarnafæði hf. hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum