Hoppa yfir valmynd
4. október 2004 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða forsætisráðherra 2004

Herra forseti, góðir Íslendingar.

Á þessu ári höfum við minnst aldarafmælis heimastjórnarinnar, en jafnframt minnumst við þess að sextíu ár eru liðin frá lýðveldisstofnun á Þingvöllum árið 1944.

Það er auðvelt að hrífast með bjartsýni og hugrekki forystumanna hins unga lýðveldis þegar horft er til baka. Og staðreynd málsins er sú að okkur hefur tekist betur til við uppbyggingu þjóðfélagsins en nokkur þorði að vona á þeim tíma.

Það kemur nú í minn hlut að flytja stefnuræðu ríkisstjórnar, eftir breytingar á ríkisstjórninni sem urðu þann 15. september síðastliðinn. Ég vil við þetta tækifæri þakka Davíð Oddssyni, utanríkisráðherra, farsæla forystu í málum þjóðarinnar í meira en þrettán ár.

Á þessum tímamótum verða ekki breytingar á meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar, enda eru þau sett fram í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir kjörtímabilið allt. Frá því að flokkarnir hófu samstarf árið 1995 hafa orðið stórstígar framfarir í landinu. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið stöðugt og samfellt, atvinnuleysi minnkað, velferðarkerfið styrkst og hagur atvinnulífsins vænkast, svo aðeins fáein atriði séu nefnd.

Það er því ekkert sem kallar á róttækar breytingar, þvert á móti er ástæða til að halda áfram á sömu vegferð.

Þrátt fyrir að góður friður hafi almennt verið á vinnumarkaði á undanförnum árum, er þessi ræða flutt í skugga alvarlegs kennaraverkfalls. Stöðvun skólastarfs er mikið áfall fyrir heimilin í landinu. Ríkisvaldið er ekki aðili að deilunni, enda rekstur og yfirstjórn grunnskólans í höndum sveitarfélaganna. Ríkið og sveitarfélögin sömdu um yfirfærslu grunnskólans. Þeirri yfirfærslu fylgdu fullnægjandi tekjustofnar.

Stjórnarandstaðan hefur nú síðustu daga reynt að draga ríkisstjórnina inn í þessa deilu og sett fram þá kenningu að það sé á ábyrgð ríkisins að leysa úr ágreiningi samningsaðila. Það er ljótur leikur og mikill bjarnargreiði að vekja með því falsvonir og getur dregið úr því að samningsaðilar axli ábyrgð sína.

Nýverið undirrituðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir eindregnum vilja til að vinna áfram að eflingu sveitarstjórnarstigsins. Sérstaklega verður litið til þeirra sveitarfélaga og svæða sem standa höllum fæti fjárhagslega, leitað orsaka og gerðar tillögur til úrbóta. Því fer vitaskuld fjarri að öll sveitarfélög eigi við vanda að etja. Þar sem vandinn er fyrir hendi er hins vegar nauðsynlegt að grípa til aðgerða og tryggja eins vel og unnt er að sveitarfélögin verði nægilega öflug til að þau geti orðið við óskum íbúa og atvinnulífs um þjónustu til framtíðar.

Við stjórnmálamenn erum vanir að takast á um mál og sjá atburði liðinna ára í misjöfnu ljósi. Með sama hætti sjá menn framtíðina og möguleikana sem í henni felast með ólíkum hætti.

Framtíðarsýn núverandi ríkisstjórnar er skýr. Við viljum sjá meiri fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við viljum sjá að í byrjun næsta kjörtímabils hafi kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxið um 50% frá því að flokkarnir hófu samstarf. Við viljum sjá íslensk fyrirtæki sem öfluga þátttakendur í alþjóðlegu atvinnulífi. Við viljum sjá aukna erlenda fjárfestingu hér á landi. Við viljum taka vaxandi þátt í alþjóðasamstarfi og axla aukna ábyrgð. Við viljum fjölbreytta menntun sem gerir okkur kleift að standast vaxandi samkeppni og tileinka okkur nýjungar. Við viljum öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi sem öryggisnet fyrir fjölskyldur okkar og komandi kynslóðir.

Meginniðurstaða fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2005 er að áfram ríki stöðugleiki í efnahagslífinu þrátt fyrir aukin umsvif. Þetta er afrakstur þeirrar aðhaldssömu stefnu í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur markað.

Líkt og undanfarin ár verður tekjuafgangi ríkissjóðs varið til greiðslu skulda. Samkvæmt þessum áformum lækka skuldir ríkissjóðs um þriðjung frá árinu 1998 til 2005, eða úr 41% af landsframleiðslu í 27½ %.

Í fjárlagafrumvarpinu er jafnframt lögð fram stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fyrir árin 2005-2008. Sú stefnumörkun er afar mikilvæg í ljósi þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem hafnar eru og gera kröfu um ábyrga en sveigjanlega hagstjórn og staðfestu í ríkisbúskapnum. Jafnframt er þessi stefna mikilvæg forsenda skattalækkunaráforma.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka tekjuskatt einstaklinga um 4% á næstu þremur árum, úr 25,75% í 21,75%. Þegar sú lækkun verður að fullu komin til framkvæmda hefur tekjuskattur einstaklinga lækkað um 8,66 prósentustig frá árinu 1997. Jafnframt er ákveðið að afnema eignarskatt einstaklinga og lögaðila. Þá verða barnabætur hækkaðar. Nánari útfærsla á þessum tillögum verður kynnt með frumvarpi á næstunni. Ennfremur verður unnið að endurskoðun á virðisaukaskatti. Með hliðsjón af horfum í efnahagsmálum og tímasetningu stóriðjuframkvæmda er miðað við að skattalækkanir komi að mestu til framkvæmda á seinni hluta kjörtímabilsins.

Af hálfu Framkvæmdanefndar um einkavæðingu er nú unnið að undirbúningi á sölu Landssíma Íslands hf. í samræmi við málefnasamning ríkisstjórnarinnar og fyrirliggjandi heimild Alþingis. Markaðsaðstæður eru nú taldar hagstæðar og því líklegt að ríkissjóður fái sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir eign sína. Samhliða er unnið að því að þjónusta við almenning á þessu sviði verði góð og dreifikerfið bætt. Fyrir skömmu var af hálfu nefndarinnar auglýst eftir ráðgjafa við sölu Símans. Að því er stefnt að slíkur aðili verði ráðinn til verksins í nóvember á þessu ári. Hlutverk ráðgjafans verður að vinna með nefndinni að frekari undirbúningi og veita álit sitt á fyrirkomulagi sölunnar, stærð söluhluta og röð söluþátta. Þar sem þessi vinna tekur nokkurn tíma er ekki við því að búast að eiginlegt söluferli og sala hefjist fyrr en á fyrri hluta næsta árs.

Menntamál er sá málaflokkur sem mestu skiptir fyrir atvinnuþróun og uppbyggingu til framtíðar. Einungis örfá ríki verja meira til þessa málaflokks en við Íslendingar.

Á næstunni verður unnið að breyttri námsskipan til stúdentsprófs þar sem áhersla verður lögð á aukna samfellu í skólastarfi, allt frá leikskóla til loka framhaldsskóla, hvort sem um er að ræða bóknám, iðnnám eða starfsnám.

Forsenda þessara áforma eru þær miklu breytingar sem orðið hafa á skólakerfinu undanfarinn áratug. Þær veita tækifæri til breytinga sem meðal annars hafa í för með sér að námstími til stúdentsprófs styttist um eitt ár, án þess að í nokkru sé slakað á þeim kröfum sem gerðar eru til menntunar.

Háskólalíf í landinu stendur í miklum blóma. Námsframboð hefur aldrei verið meira og það sama má segja um fjölda háskólanema. Þetta er ánægjuleg þróun og til marks um að stefna ríkisstjórnarinnar um að efla menntun og rannsóknir í landinu hefur nú þegar skilað verulegum árangri. Þá stendur yfir endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og á vettvangi menntamálaráðuneytisins verður unnið að undirbúningi lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á öflugt velferðarkerfi. Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að stytta biðlista fatlaðra eftir búsetu. Rýmum á sambýlum mun fjölga um 110 frá 2001 til 2005. Þar með verður biðlistum eytt. Sú stefna hefur verið mörkuð að tryggja fullnægjandi meðferðar- og búsetuúrræði fyrir geðfatlaða á árunum 2006-2010.

Heilbrigðisþjónustan er meginstoðin í þeirri samfélagsþjónustu sem víðtæk sátt er um í okkar samfélagi. Öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn er kjarninn í velferðarkerfinu. Sú þjónusta á að standa öllum opin, óháð efnahag. Sjúklingar standa alltaf höllum fæti og sáttin um velferðarkerfið byggist ekki hvað síst á þeim almenna vilja að hjálpa þeim sérstaklega.

Við vitum að hreyfingarleysi og offita getur verið ávísun á sykursýki, hjartasjúkdóma og fleiri alvarlega sjúkdóma. Reykingar og áfengisneysla geta einnig haft gríðarlegar heilsufarslegar afleiðingar síðar á lífsleiðinni. Það er afar brýnt fyrir okkur að gefa gaum að samspili lífshátta og sjúkdóma.

Með þessu er ég vitaskuld ekki að halda því fram að sjúkir geti bara sjálfum sér um kennt og að hver sé í þeim efnum sinnar gæfu smiður. Fjarri því, enda hefur engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum veitt jafn miklu fé til heilbrigðismála og sú sem nú situr.

Stjórnarandstaðan og hagsmunaaðilar deila á ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið við fyrirheit við öryrkja. Staðreyndir málsins eru þær, að sérstaða þeirra sem yngstir verða öryrkjar hefur verið viðurkennd með því að tvöfalda grunnlífeyri þeirra. Rúmum milljarði króna var varið til þessa verkefnis. Ekki nóg, ekki nóg, segir stjórnarandstaðan, og krefst frekari framlaga, og neitar að horfast í augu við umtalsverðan samfélagslegan vanda sem kann að vera að skapast vegna mikillar fjölgunar öryrkja.

Halda menn að fjölgun öryrkja um 50% á sex árum segi ekki til sín í bókhaldi Tryggingastofnunar ríkisins? Halda menn að þreföldun heildarbótagreiðslna til öryrkja á jafn löngum tíma komi hvergi fram í útgjöldum ríkisins? Ætlast menn til að almenningur eða kjósendur trúi því, að einhver önnur ríkisstjórn hefði gert betur við þennan hóp?

Tölurnar tala sínu máli. Þreföldun heildarbótagreiðslna til öryrkja á sex árum er meira en nokkur önnur ríkisstjórn getur státað af.

Sjaldan eða aldrei hafa orðið örari breytingar á íslensku atvinnulífi en undanfarin ár. Á mörgum mörkuðum hefur samkeppni blómstrað þar sem hún var áður heft og útrás íslenskra fyrirtækja hefur tekið á sig myndir sem enginn sá fyrir.

Tillögur nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi liggja nú fyrir. Til að bregðast við óæskilegum afleiðingum hringamyndunar og öðrum samkeppnishömlum telur nefndin nauðsynlegt að skerpa eftirlit með samkeppni á markaði, meðal annars með því að gera skipulag samkeppnisyfirvalda skilvirkara og veita meira fjármagni til þeirra. Tillögur nefndarinnar um stjórnhætti og félagarétt miða einkum að því að bæta minnihlutavernd, upplýsingagjöf og auka hluthafalýðræði.

Unnið verður að þessum breytingum á grundvelli tillagna nefndarinnar og umsagna um þær.

Aldrei áður hafa verið jafn miklar framkvæmdir í samgöngumálum. Jarðgöng á Austurlandi eru að verða fullgerð og verða mikil samgöngubót. Hið sama má segja um jarðgöng til Siglufjarðar sem senn verður ráðist í. Tvöföldun Reykjanesbrautar er afar mikilsverð framkvæmd og á höfuðborgarsvæðinu er ekki síst nauðsynlegt að ganga frá áætlun um Sundabraut sem að hluta yrði einkaframkvæmd. Um leið er ljóst að framkvæmdir við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eru mjög brýnar. Við eigum að líta á þessar mikilvægu framkvæmdir sem verkefni sem þarf að takast á við og leysa en stilla þeim ekki upp sem andstæðum.

Fjarskiptamál hafa verið í brennidepli síðustu vikur og mánuði. Fyrirhuguð sala á Símanum, hröð tækniþróun í dreifingu stafræns sjónvarps og samruni fjarskipta og fjölmiðlunar gera það enn nauðsynlegra en áður að stefna stjórnvalda sé skýr. Nú er unnið að gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005-2014.

Umhverfismál verða sem fyrr áherslumál. Framkvæmd stefnumótunar um sjálfbæra þróun sem ríkisstjórnin samþykkti árið 2002 verður endurmetin á næsta ári og undirbúningur að framkvæmd Kyoto-bókunarinnar árið 2008 heldur áfram með nýju stöðumati árið 2005.

Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja náttúruvernd og málefni þjóðgarða og unnin landsáætlun um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Haldið verður áfram vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, þar sem lögð er áhersla á að afla sem bestra upplýsinga um náttúrufar.

Í landbúnaðarmálum leggur ríkisstjórnin áherslu á meiri aðlögunarhæfni íslensks landbúnaðar og að samkeppnisstaða hans verði styrkt til að mæta vaxandi erlendri samkeppni og uppfylla kröfur neytenda um hreinleika. Leitast verður við að tryggja framþróun landbúnaðarins með meiri sveigjanleika í greininni og aukinni áherslu á menntun, þróun og rannsóknir.

Frá því að kvótakerfið var tekið upp í sjávarútvegi hefur það tekið margvíslegum breytingum. Breytingarnar hafa miðað að aukinni hagræðingu í greininni og ekki síður að því að sætta ólík sjónarmið. Síðustu breytingar þar sem dagakerfið var lagt niður svo og upptaka veiðileyfagjalds eru hvorutveggja ákvarðanir sem eru til þess fallnar að auka sátt um sjávarútveginn.

Einn af hornsteinum velferðar íslenskra fjölskyldna er að búa við öryggi í húsnæðismálum. Rík hefð er fyrir því hjá landsmönnum að eignast sitt eigið húsnæði. Íbúðalánasjóður hefur það hlutverk að stuðla að því með lánveitingum að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum á viðráðanlegum lánakjörum.

Það er afar ánægjulegt að bankar, sparisjóðir og lífeyrissjóðir eru farnir að bjóða sambærileg vaxtakjör og Íbúðalánasjóður. Um leið má spyrja hvað veldur. Ég dreg enga dul á þá skoðun mína að þær breytingar sem áttu sér stað með nýjum lögum um húsnæðismál, valda þar mestu að ógleymdri einkavæðingu bankanna.

Félagsmálaráðherra mælir nú á haustþingi fyrir frumvarpi um 90% húsnæðislán að ákveðnu hámarki fyrir allan almenning hvar sem er á landinu.

Á liðnum vetri samþykkti ríkisstjórnin tillögu dómsmálaráðherra um að breyta skipulagi sérsveitar lögreglunnar og að hún skyldi efld á næstu árum. Unnið hefur verið í samræmi við það og verður fjölgað í sveitinni á næsta ári.

Efling sérsveitarinnar er í samræmi við alþjóðlega þróun. Ríkisvaldið þarf að gera meiri og öflugri ráðstafanir en áður til að tryggja öryggi hins almenna borgara. Viðbragðsáætlanir til að draga úr hættu á hryðjuverkum krefjast nýrra starfsaðferða til dæmis við flugvernd og siglingavernd. Alþjóðleg glæpastarfsemi teygir anga sína um heim allan og við henni þarf að bregðast. Verulegur árangur hefur náðst undanfarið í baráttu við þá sem smygla fíkniefnum til landsins. Ekki er síður nauðsynlegt að sporna við tilraunum til mansals og viðleitni óprúttinna aðila til að nýta sér neyð flóttafólks og hælisleitenda í eigin þágu.

Það þykir ekki lengur tíðindum sæta að Ísland taki að sér að vera í fyrirsvari á alþjóðavettvangi. Formennsku í Norðurskautsráði verður skilað í hendur Rússlands á ráðherrafundi í nóvember. Á næsta ári taka við ný verkefni í formennsku Eystrasaltsráðsins. Þetta er til vitnis um aukna burði til að axla ábyrgð á alþjóðavettvangi. Undirbúningur framboðs til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er í góðum farvegi.

Traustar loftvarnir eru Íslandi ekki síður mikilvægar en öðrum þjóðum. Í þessum efnum treystum við áfram á varnarsamninginn við Bandaríkin. Í fyrirhuguðum viðræðum við Bandaríkin verður metið hvernig Íslendingar geta tekið aukinn þátt í rekstri Keflavíkurflugvallar enda hefur borgaralegt flug um völlinn aukist til mikilla muna.

Þótt stefna stjórnvalda skipti miklu um framfarir í þjóðfélaginu er það samspil ólíkra þátta sem ræður úrslitum. Frumkvæði einstaklinganna, vinnusemi fólksins, samvinna ólíkra hagsmuna og tiltrú á gæðum landsins eru dæmi um atriði sem skipta sköpum. Fáum dylst að tækifærin eru mörg og margvísleg og það er okkar að vinna úr þeim.

Þótt tekist hafi að ná miklum árangri í sextíu ára sögu lýðveldisins mun enn frekar reyna á samstöðu þjóðarinnar á næstu áratugum. Þar kemur til meira frelsi, alþjóðavæðingin og byltingarkenndar breytingar.

Þeir menn sem stóðu í fylkingarbrjósti íslenskrar þjóðar að fengnu frelsi komu fram af metnaði og stórhug. Ekkert var sæmandi Íslandi og Íslendingum nema það besta. Íslendingar skyldu óhræddir skapa sér sess meðal annarra þjóða á jafnréttisgrundvelli. Þessa viðhorfs mátti sjá stað jafnt í alþjóðamálum, í atvinnumálum, í félagsmálum og menningarmálum. Eitt var þó það verk sem þeir vísuðu til komandi kynslóða. Það var endurskoðun stjórnskipunarinnar og ákvarðanir um framtíðarstjórnskipun Íslands.

Á liðnu sumri hvessti verulega í íslensku stjórnmálalífi. Nú þegar þeirri hríð hefur slotað er mikilvægt að við tökumst á hendur það verkefni sem aldrei hefur með fullnægjandi hætti verið leitt til lykta. Á því þingi sem nú fer í hönd þarf að hefja sameiginlegt starf allra flokka að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í því starfi þarf að tryggja að löggjafarstarf Alþingis geti gengið fram með eðlilegum hætti, en einnig að tryggja lýðræðislegan rétt almennings til að fá fram atkvæðagreiðslur um mál sem miklu skipta. Þá þarf að skýra betur hlutverk forseta, Alþingis og ríkisstjórnar í stjórnskipuninni.

Þetta verkefni er vandasamt og miklu skiptir að þeir sem að því koma líti til þess af ábyrgð. Við þurfum líka að gæta þess að hin lýðræðislega uppbygging sé einföld og skýr, en týnist ekki í frumskógi formsatriða og formreglna.

Við endurskoðun hinna lýðræðislegu leikreglna þurfum við að hafa þetta í huga. Einungis þannig getum við verið trú þeim bjartsýna anda sem einkenndi lýðveldisstofnunina fyrir sextíu árum og hefur verið leiðarljós okkar æ síðan.

Ég þakka þeim sem hlýddu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum