Hoppa yfir valmynd
5. október 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlagaræða fyrir árið 2005. Flutt á Alþingi 5. október 2004.

GEIR H. HAARDE, FJÁRMÁLARÁÐHERRA

5. október 2004

Talað orð gildir

Fjárlagaræða fyrir árið 2005

Herra forseti

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005, helstu áhersluatriðum og forsendum. Jafnframt mun ég gera grein fyrir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fyrir næstu ár sem liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þessi stefnumótun er afar mikilvæg í ljósi þeirra umfangsmiklu framkvæmda við virkjanir og stóriðju sem hafnar eru og gera kröfu um ábyrga en sveigjanlega hagstjórn og staðfestu í ríkisbúskapnum.

Mikill uppgangur er nú á flestum sviðum þjóðarbúskaparins og fátt sem bendir til annars en að framhald verði á þessari þróun næstu árin. Þannig eru horfur á að landsframleiðsla aukist um nær fjórðung á árunum 2003 til 2007 og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna aukist um 15%. Verðbólga mun verða vel innan marka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans og störfum fjölga umtalsvert. Framkvæmdir við uppbyggingu stóriðju ráða miklu um hagvöxtinn en einnig aukin einkaneysla og íbúðafjárfesting. Við þessar aðstæður er mikilvægt að beita ríkisfjármálunum til að hamla gegn innlendri eftirspurn á næstu tveimur árum þegar framkvæmdirnar eru sem mestar.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005 endurspeglar þessar áherslur. Þar er gert ráð fyrir rúmlega 11 milljarða króna tekjuafgangi eða sem nemur 1¼% af landsframleiðslu. Þetta er 3½ milljarði króna meira en síðustu áætlanir fyrir árið 2004 benda til og 17½ milljarðs króna viðsnúningur frá árinu 2003. Breytingin er enn meiri þegar leiðrétt hefur verið fyrir ýmsum óreglulegum gjalda- og tekjuliðum sem hafa ekki áhrif á rekstur ríkissjóðs, eða sem nemur 21 milljarði milli 2003 og 2005. Betri afkoma ríkissjóðs stafar annars vegar af auknum umsvifum í efnahagslífinu sem skilar meiri tekjum og hins vegar af auknu útgjaldaaðhaldi. Ég vek athygli á því að í frumvarpinu er ekki að svo stöddu gert ráð fyrir sérstökum tekjum af sölu eigna umfram það sem hefðbundið er að áætla af sölu fasteigna og jarða. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir fyrsta skrefi í lækkun tekjuskatts einstaklinga.

Í fjárlagafrumvarpinu er jafnframt, annað árið í röð, lögð fram stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Slík stefnumörkun styrkir trúverðugleika efnahagsstefnunnar og stuðlar að stöðugleika í efnahagslífinu. Rauði þráðurinn í þessari stefnumörkun er, líkt og í fyrri langtímaáætlun, að ríkisfjármálunum verði beitt með öflugum hætti til að halda aftur af innlendri eftirspurn þegar stóriðjuframkvæmdirnar standa sem hæst og að sama skapi til að örva hagvöxt þegar þeim lýkur. Helstu markmið stefnunnar í ríkisfjármálum 2005-2008 eru eftirfarandi:

  • Fylgt verði aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Þannig verði árlegur vöxtur samneyslu ekki umfram 2% að raungildi. Þar verði meðal annars miðað við að launakostnaður ríkisins hækki ekki umfram laun í samkeppnisgreinunum. Enn fremur verði árleg hækkun tilfærsluútgjalda ekki umfram 2½% að raungildi.
  • Dregið verði úr framkvæmdum ríkisins um 2 milljarða króna árin 2005 og 2006 frá því sem er í ár, en þær auknar aftur um sömu fjárhæðir árin 2007 og 2008.
  • Á árunum 2005–2007 verði verulegum fjármunum varið til skattalækkana í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og til forgangsverkefna.

Þessi stefnumörkun kallar á ýtrasta aðhald í almennum rekstri, bæði í launamálum og öðrum rekstrarútgjöldum. Svipaða sögu er að segja af ýmsum tilfærsluútgjöldum sem hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum. Jafnframt er nauðsynlegt að draga úr framkvæmdum á vegum ríkisins á næstu tveimur árum þegar stóriðjuframkvæmdirnar standa sem hæst. Framkvæmdir verða síðan auknar á árunum 2007 og 2008 þegar hægir á hagvexti.

Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum er ekki einungis mikilvæg forsenda fyrir stöðugleika í efnahagsmálum næstu árin heldur einnig fyrir framgang skattalækkunaráforma í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Með hliðsjón af horfum í efnahagsmálum og tímasetningu stóriðjuframkvæmda er miðað við að meginþungi skattalækkananna komi til framkvæmda á síðari hluta kjörtímabilsins. Á næsta ári er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi lækkunar tekjuskatts einstaklinga komi til framkvæmda og að skatthlutfallið lækki úr 25,75% í 24,75%. Ennfremur er gert ráð fyrir að eignarskattar einstaklinga og lögaðila verða felldir niður á kjörtímabilinu. Annar áfangi tekjuskattslækkunar tekur gildi árið 2006 og lokaáfanginn kemur til framkvæmda árið 2007. Með þessum breytingum mun tekjuskattur einstaklinga hafa lækkað um 8,66% frá árinu 1997, úr 30,41% í 21,75%, eða um meira en fjórðung. Stefnt er að því að lögfesta allar þessar breytingar nú á haustþingi. Auk þess verður unnið að endurskoðun virðisaukaskatts í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Áður en lengra er haldið langar mig að fara nokkrum orðum um þau áform ríkisstjórnarinnar að verja hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs á næstu árum til þess að lækka skatta. Sumir hafa gagnrýnt þessi áform og sagt þau ótímabær og að skattalækkanir geti orðið til að kynda óeðlilega mikið undir innlenda eftirspurn á næstu árum. Ég er ósammála þessu og tel þvert á móti að það sé skynsamlegast að ráðast í skattalækkanir og láta heimilin njóta þess þegar mikill afgangur er á ríkissjóði, enda eru þær tímasettar með tilliti til efnahagsaðstæðna.

Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum er mikilvægt að menn horfi á heildarmyndina og skoði þróun ríkisfjármálanna í heild á næstu árum. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja umtalsverðum fjárhæðum til að lækka skatta er tekin að vel athuguðu máli eftir að hafa skoðað alla þætti efnahagsmála vandlega, ekki síst hvernig megi auka aðhald í útgjöldum ríkissjóðs. Farið hefur verið vandlega í saumana á fjölmörgum þáttum útgjalda með það fyrir augum að hagræða og spara og verður hert á þeim áformum á næstu misserum. Þessi viðleitni endurspeglast glöggt í niðurstöðutölum fjárlagafrumvarpsins sem sýna að útgjöldin muni standa í stað að raungildi milli áranna 2004 og 2005 og lækka í hlutfalli við landsframleiðslu úr 32,2% í 30,8%. Þessi þróun heldur áfram á árinu 2006 en þá er gert ráð fyrir að hlutfall útgjalda lækki enn frekar, eða í 29,8% af landsframleiðslu. Niðurstaðan af þessu er sú að skattalækkanir munu ekki hleypa öllu í bál og brand eins og sumir hafa verið að spá. Þvert á móti er niðurstaðan sú að skattalækkunaráformin muni falla vel að áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum.

Ég tel því fyllilega tímabært að halda áfram á þeirri braut sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa markað á undanförnum árum bæði á þessu kjörtímabili og hinu næsta á undan þegar markvisst hefur verið gripið til skattalækkana, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Eins og ég nefndi áðan var tekjuskattur einstaklinga lækkaður verulega á árunum 1997-1999, eða um 4%. Því næst var tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18% árið 2002. Afleiðing þess var sú að tekjur ríkissjóðs af þeim skatti jukust en minnkuðu ekki eins og ýmsir spáðu. Á sama tíma voru eignaskattar einstaklinga og fyrirtækja lækkaðir um helming. Erfðafjárskattur var lækkaður um helming á þessu ári og einnig var nýtt skref stigið í átt til niðurfellingar hátekjuskattsins svonefnda og mun hann endanlega falla niður í lok næsta árs. Nú er röðin komin að því að stíga næstu skref í lækkun tekjuskatts einstaklinga og afnema eignarskattana.

Meginniðurstaða langtímaáætlunar í ríkisfjármálum er sú að áfram muni ríkja stöðugleiki í efnahagslífinu þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda og aukna innlenda eftirspurn meðal annars vegna breyttra aðstæðna á íbúðalánamarkaði. Gert er ráð fyrir umtalsverðum hagvexti 2005 og 2006 en hægari vexti árin 2007 og 2008. Mikill innflutningur vegna framkvæmdanna leiðir óhjákvæmilega til umtalsverðs halla á viðskiptum við útlönd en talið er að rekja megi meira en helming hallans til þeirra. Það dregur því verulega úr viðskiptahalla á nýjan leik þegar framkvæmdum lýkur og álútflutningur nýrrar verksmiðju segir til sín. Búast má við að verðbólga aukist lítillega þegar framkvæmdirnar eru í hámarki en lækki aftur þegar þeim er lokið. Kaupmáttur mun aukast verulega og atvinnuleysi minnka fyrri hluta tímabilsins. Á síðari hlutanum hægir á kaupmáttaraukningunni og atvinnuleysi eykst lítillega. Einnig verður umtalsverður afgangur á ríkissjóði þegar framkvæmdirnar eru í hámarki á árunum 2005-2006 eða sem nemur um 1¼ % af landsframleiðslu. Jafnframt lækka skuldir ríkissjóðs á sama mælikvarða. Samkvæmt framreikningunum er hins vegar gert ráð fyrir nokkrum halla árin 2007 og 2008 enda dragast þjóðarútgjöld þá beinlínis saman og verulega hægir á hagvexti.

Rétt er að hafa nokkurn fyrirvara á framreikningum af þessu tagi sem ná yfir þetta langt tímabil. Eins er mikilvægt að hafa í huga að í forsendum langtímaáætlunar er ekki gert ráð fyrir tekjum af sölu Landssímans. Hér ráða varfærnissjónarmið ferðinni eins og eðlilegt er í slíkri áætlanagerð. Það verður hins vegar að teljast afar líklegt að Landssíminn verði seldur á kjörtímabilinu, vonandi á næstu misserum. Það mun skila umtalsverðum sölutekjum í ríkissjóð og gefa færi á lækkun skulda umfram það sem hér er gert ráð fyrir. Árlegur vaxtakostnaður ríkisins mun því geta lækkað umtalsvert sem aftur bætir afkomu ríkissjóðs. Að öllu samanlögðu má því ætla að afkoma ríkissjóðs verði að jafnaði þó nokkru betri á framreikningstímabilinu en hér er sýnt, ekki síst ef ráðist verður í enn frekari stóriðjuframkvæmdir eins og ýmislegt bendir til að geti orðið.

Herra forseti

Ég mun nú víkja að helstu þáttum fjárlagafrumvarps næsta árs.

Tekjuafgangur ríkissjóðs árið 2005 er áætlaður 11,2 milljarðar króna í frumvarpinu og styrkist staðan nokkuð frá áætlaðri útkomu þessa árs og verulega miðað við ríkisreikning 2003. Bætta stöðu ríkissjóðs má bæði rekja til aukinna tekna vegna meiri umsvifa í efnahagslífinu og aðhaldi að gjaldahlið frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir 3 milljarða króna lægri útgjöldum en annars hefði orðið og er það í samræmi við langtímastefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Lánsfjárafgangur styrkist ekki eins mikið og tekjuafkoman sem skýrist að mestu af því að handbært fé frá rekstri er minna árið 2005 vegna þess að stórir flokkar spariskírteina verða á gjalddaga það ár. Það veldur auknum vaxtagreiðslum umfram gjaldfærða vexti. Er því reiknað með 4 milljarða króna lánsfjárafgangi á næsta ári.

Í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir áframhaldandi auknum umsvifum í efnahagslífinu og að hagvöxtur haldist áfram mikill og stöðugur. Spáð er að hagvöxtur verði um 5% á árinu 2005 og verðbólgan um 3½%. Einkaneyslan er talin munu aukast um 5% og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 3¼%. Á þessum forsendum er áætlað að skatttekjur ríkissjóðs muni hækka um rúmlega 6% frá fyrra ári og fara í rúmlega 280 milljarða króna. Heildartekjur ríkissjóðs eru taldar verða tæplega 306 milljarðar króna og hækka um 16 milljarða frá árinu 2004.

Heildargjöld ríkissjóðs árið 2005 eru áætluð 294,6 milljarðar og hækka um 12 milljarða frá áætlun 2004. Útgjöldin standa hins vegar nánast í stað að raungildi frá útgjaldaáætlun ársins 2004. Rekstrargjöld ríkissjóðs hækka aðeins um ½% að raungildi frá áætluðum útgjöldum árið 2004, einkum vegna þess að gerð er almenn 1% hagræðingarkrafa til reksturs flestra stofnana ríkisins. Viðhald og stofnkostnaður lækka að raungildi um tæp 9% en þar munar mestu um áformaða frestun framkvæmda er nemur 1,9 milljörðum króna. Loks lækka vaxtagjöld ríkissjóðs um 1,4% að raungildi milli ára.

Lítil hækkun rekstrarútgjalda og lækkun fjárfestingaútgjalda endurspeglar aukið útgjaldaaðhald. Alls er í frumvarpinu gert ráð fyrir aðgerðum sem skila 3 milljarða króna lækkun útgjalda frá því sem annars hefði orðið. Í langtímaáætlun sem birt var í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004 var gert ráð fyrir 3 milljarða króna frestun framkvæmda árið 2005. Þessi áform hafa nú verið endurskoðuð í ljósi stöðunnar á vinnu- og verktakamarkaði og er nú gert ráð fyrir 2 milljarða króna frestun framkvæmda og 1 milljarðs króna lækkun annarra útgjalda ríkissjóðs. Frestun framkvæmda er annars vegar 1.900 m.kr. frá vegáætlun og hins vegar 100 m.kr. í endurbótum menningarbygginga. Lækkun annarra útgjalda felst í að gerð er 1% hagræðingarkrafa á rekstur stofnana að frátöldum stóru sjúkrahúsunum tveimur í Reykjavík og á Akureyri og að frátöldum rekstri hjúkrunarheimila. Áætlað er að sú aðgerð skili 800 m.kr. lækkun rekstrarútgjalda. Loks er gert ráð fyrir að vaxtabætur verði 200 m.kr. lægri en annars hefði orðið vegna áforma um að greiddar bætur verði 95% af reiknuðum bótum samkvæmt gildandi lögum.

Gangi áform fjárlagafrumvarpsins eftir verður samanlagður lánsfjárafgangur frá 1998 til ársins 2005 rúmlega 68 milljarðar króna og er honum ráðstafað til að bæta stöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, bæta stöðuna við Seðlabanka Íslands og til að halda aftur af skuldum ríkissjóðs. Þetta hefur skilað þeim árangri að skuldir ríkissjóðs hafa minnkað um nær helming frá árinu 1995. Heildarskuldir ríkissjóðs lækka úr 51,2% af landsframleiðslu árið 1995 í 27,6% samkvæmt áætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2005. Hreinar skuldir ríkissjóðs lækka úr 34,3% af landsframleiðslu árið 1995 í 17,2% árið 2005. Sala á Landssíma Íslands gefur færi á að lækka skuldirnar enn frekar. Lækkun skulda leiðir eðlilega til lægri vaxtagreiðslna. Ef ekki hefði komið til skuldalækkunar ríkissjóðs frá árinu 1998 hefðu vaxtagjöld á næsta ári orðið rúmum 11 milljörðum króna hærri en áætlað er í frumvarpinu. Það munar um minna. Viðbótarframlög ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með vöxtum nema tæplega 80 milljörðum króna á tímabilinu 1999-2005. Staða sjóðsins hefur því styrkst sem því nemur og seinkað þeim möguleika um fjölda ára að til þess komi að greiða verði lífeyri B-deildar LSR beint úr ríkissjóði.

Herra forseti

Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Ég hef áður gert að umtalsefni í mínum fyrri fjárlagaræðum þær breytingar sem gerðar hafa verið á íslensku efnahagslífi frá árinu 1991 enda má líkja þeim við byltingu. Markmið þessara breytinga hefur verið að gera efnahagsumhverfi heimila og fyrirtækja hér á landi eins gott og helst betra en þekkist í okkar helstu viðskiptalöndum þannig að menn þurfi ekki að leita til annarra landa til að bæta lífskjörin. Stórlega hefur verið dregið úr afskiptum hins opinbera og kröftum einkaframtaksins og einstaklinga leyft að njóta sín. Ríkisfyrirtæki hafa verið seld og samkeppni innleidd á fjölmörgum sviðum þar sem áður ríkti einokun. Frelsi hefur verið innleitt á flestum sviðum. Skattar af einstaklingum og fyrirtækjum hafa verið lækkaðir. Þannig mætti lengi telja. Árangur þessarar stefnu sést glöggt í þeirri miklu grósku sem er í atvinnulífinu. Jafnframt hefur kaupmáttur heimilanna stóraukist. Nýlegar breytingar á íbúðalánamarkaði þar sem almenningi gefst nú kostur á hagstæðum íbúðalánum hjá bönkunum eru mikilvæg viðbót á þessum markaði og er bein afleiðing þessarar stefnu, ekki síst einkavæðingar bankanna.

Breytt skipulag efnahagslífsins hefur ekki einungis bætt stöðu heimila og fyrirtækja heldur einnig skapað grundvöll fyrir breyttar áherslur í hagstjórn. Þannig hefur skapast almennur skilningur á því að ábyrg stefna í ríkisfjármálum og traust staða þeirra er mikilvæg forsenda stöðugleika í efnahagsmálum. Sama gildir um mikilvægi sjálfstæðrar peningamálastjórnar Seðlabankans. Þessar áherslubreytingar í hagstjórn hafa stuðlað að stöðugra efnahagsumhverfi hér á landi en áður hefur þekkst og munu án efa auðvelda hagstjórnarhlutverk stjórnvalda á næstu árum.

Ennfremur hefur bætt staða ríkisfjármála skapað skilyrði til þess að stórauka greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega, mennta-, menningar-, samgöngu- og félagsmála, hækka atvinnuleysisbætur og auka framlög til þróunaraðstoðar. Undanfarin ár hafa verið gerðar margvíslegar breytingar á lífeyriskerfi almannatrygginga, bætur hækkaðar og dregið úr tengingu bóta við atvinnutekjur. Útgjöld almannatrygginga hafa tvöfaldast frá árinu 1998, eða úr 19,2 milljörðum króna í 38 milljarða. Þar af hafa greiðslur til öryrkja hækkað úr 4,9 milljörðum í 14,3 milljarða króna. Kaupmáttur bóta hefur vaxið hröðum skrefum frá árinu 1998 eða um 25,6% hjá einhleypum öryrkjum og um 45,2% hjá öryrkja í hjúskap eða sambúð með maka sem ekki er lífeyrisþegi.

Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir auknum framlögum til menntamála og rannsókna. Þannig hafa framlög til háskóla og rannsókna auk framhaldsskóla vaxið hröðum skrefum undanfarin ár. Þess sjást glögg merki í frumvarpinu þar sem framlög til menntamála aukast um tæplega 9% frá áætlun þessa árs. Framlög til rannsókna hækka áfram í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu vísinda- og rannsóknasjóða. Þannig hækka framlög í Rannsóknarsjóð hjá menntamálaráðuneyti um 85 m.kr. og verða 500 m.kr., framlög til Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðuneyti hækka um 140 m.kr. og verða 340 m.kr. Þá er framlag í rannsóknarsjóð til að auka verðmæti sjávarfangs tvöfaldað og verður 200 m.kr. Í samanburði við önnur ríki OECD verja Íslendingar næst mestu af opinberu fé til rannsókna á mann á eftir Bandaríkjunum en önnur ríki koma þar talsvert á eftir.

Í frumvarpinu er stigið lokaskrefið í sérstöku átaki til að draga úr bið eftir þjónustu á sambýlum og er veitt rúmlega 200 m.kr. til málaflokksins. Þar af eru 130 m.kr. til að sambýla og nýrra búsetuúrræða fatlaðra. Í heilbrigðismálum má helst nefna að framlög til Landsspítala hækka um 500 m.kr. auk þess að framlög til heilbrigðisstofnana aukast og rekstur stofnana er styrktur. Framlög til fjölgunar hjúkrunarrúmum og til dvalarheimila aukast um 587 m.kr. og er gert ráð fyrir að taka í notkun 55 ný rými á næsta ári og 65 rými frá þessu ári verða tekin í heilsársrekstur auk þess að framlög til dagvista og hvíldarinnlagna aukast. Framlög til löggæslu eru aukin um tæplega 200 m.kr. þar eru eru rúmlega 90 m.kr. til að efla sérsveitina og 55 m.kr. vegna fjölgunar lögreglumanna í Reykjavík. Þá aukast einnig framlög til sýslumanna vegna fjölgunar lögreglumanna í embættum úti um land. Loks má nefna að framlög til þróunaraðstoðar hækka um 500 m.kr. í frumvarpinu og framlög til íslensku friðargæslunnar hækka um 125 m.kr. Hefur framlag Íslendinga til þróunaraðstoðar þá hækkað úr 0,09% af landsframleiðslu árið 1999 í 0,21% árið 2005.

Sumir hafa dregið í efa þá staðreynd að íslenskt efnahagslíf hafi tekið eins miklum stakkaskiptum og haldið hefur verið fram. Gleggsti vitnisburðurinn í þeim efnum er að horfa til samanburðar við stöðuna í öðrum löndum. Allar alþjóðlegar hagtölur staðfesta að flestir efnahagslegir mælikvarðar sýna sterka stöðu Íslands miðað við önnur lönd. Hagvöxtur er meiri hér en annars staðar. Atvinnuleysi er langt undir því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Staða ríkisfjármála er einnig mun betri og sama gildir um skuldastöðuna. Verðbólga er einnig svipuð þótt hún sé nær efri mörkum en það stafar alfarið af því að hagvöxtur er hér mun meiri en annars staðar. Þegar horft er lengra fram í tímann kemur í ljós að staða okkar er einnig betri en víðast hvar annars staðar. Þannig er lífeyrissjóðakerfið mun öflugra hér á landi þar sem það er að verulegu leyti byggt á sjóðssöfnun en ekki gegnumstreymi. Þetta þýðir að ekki þarf að grípa til sérstakra ráðstafana hér á landi til þess að mæta hlutfallslegri fjölgun ellilífeyrisþega, hvorki með hækkun skatta né skerðingu lífeyrisréttinda.

Öll þessi atriði hafa orðið til þess að bæta lífskjör almennings og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja verulega á undanförnum árum. Þetta hefur síðan skilað sér í því að Ísland er komið í hóp þeirra ríkja sem bjóða upp á hvað bestu lífskjörin og hlúa hvað mest að atvinnulífinu. Um þetta eru menn almennt sammála eins og sést best af umsögnum alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD sem og þriggja virtustu matsfyrirtækja heims sem hafa sett okkur í flokk þeirra ríkja sem njóta einna bestu lánskjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Herra forseti

Ég vil að lokum undirstrika þá meginniðurstöðu bæði fjárlagafrumvarps fyrir árið 2005 og langtímaáætlunar í ríkisfjármálum að áfram muni ríkja stöðugleiki í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmdanna. Ástæðan fyrir þessu er sú aðhaldsstefna í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur markað og ætlar sér að fylgja. Þessi stefna miðar einnig að því að skapa svigrúm til lækkunar skatta og aukinna útgjalda til sérstakra forgangsverkefna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eins og ég hef rakið hér að framan án þess að raska þeim meginmarkmiðum efnahagsstefnunnar að viðhalda stöðugleika.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er ekkert einfalt og þaðan af síður vinsælt að framfylgja slíkri stefnumörkun á sama tíma og mikill uppgangur er í efnahagslífinu. Þótt samgönguframkvæmdir hafi aukist verulega undanfarin ár er vissulega enn ýmislegt ógert og sjálfsagt má nefna margt annað sem menn gætu hugsað sér að verja auknum fjármunum til. Við stöndum hins vegar í þeim sporum að framundan eru afar umfangsmiklar framkvæmdir á okkar mælikvarða sem munu reyna mjög á innviði okkar litla hagkerfis. Við þessar aðstæður er óhjákvæmilegt að stjórnvöld axli hagstjórnarlega ábyrgð sína af fullum þunga og geri það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Þetta á sérstaklega við um stefnuna í ríkisfjármálum og peningamálum en ég tel einnig nauðsynlegt að sveitarfélögin axli sína ábyrgð því að það er ekkert síður hagsmunamál fyrir þau að hér ríki áfram stöðugleiki.

Mér finnst þess vegna mikilvægt að umræða um fjárlagafrumvarpið og langtímaáætlunina taki mið af þeim efnahagslega raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir. Auðvitað má alltaf deila um áherslur og forgangsmál. Það á hins vegar ekki að þurfa að deila um heildarsamhengi efnahagslífsins og þörfina fyrir aðhaldssama hagstjórn.

Í beinu framhaldi af þessu get ég ekki látið hjá líðast að minnast á villandi málflutning um ríkisfjármálin undanfarna daga þar sem því hefur verið haldið blákalt fram að allt hafi farið úr böndunum undanfarin ár og afkoman orðið 80 milljörðum lakari en fjárlög gerðu ráð fyrir. Hér er farin sú leið að bera saman annars vegar niðurstöðutölur fjárlaga og hins vegar endanlegar tölur samkvæmt ríkisreikningi. En er það ekki eðlilegur samanburður, kann einhver að spyrja? Svarið er nei. Þetta er þvert á móti afar villandi og í rauninni ekki marktækur samanburður fylgi honum ekki eðlilegar skýringar.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að hafa í huga að oft þarf að bregðast við sérstökum aðstæðum og atvikum í fjáraukalögum sem ekki voru fyrirsjáanleg þegar fjárlög voru samþykkt og raska niðurstöðum samþykktra fjárlaga. Allir þingmenn hafa tekið þátt í afgreiðslu fjáraukalaga og þekkja þetta. Árið 2003 voru þannig samþykkt tvenn fjáraukalög, hin fyrri gagngert til að auka útgjöld til byggðamála og vegaframkvæmda og draga þannig úr afgangi á fjárlögum.

Í öðru lagi verður, þegar verið er að fjalla um ríkisfjármálin og hvernig þeim hefur verið stjórnað, að taka ákveðna liði út úr samanburðinum sem hafa ekkert að gera með hinn eiginlega og daglega rekstur ríkissjóðs og liggja yfirleitt ekki fyrir fyrr en eftir lok hvers fjárlagaárs. Hér má ekki síst nefna gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga ríkisstarfsmanna sem nemur milljarðatugum á síðustu árum, mest um 25 milljörðum á einu ári. Þetta eru hins vegar ekki greiðslur úr ríkissjóði og þær hafa því engin áhrif á hagstjórn líðandi stundar. Sama á við um afskrifaðar skattkröfur.

Í þriðja lagi vil ég nefna tekjur af sölu eigna umfram bókfært verðmæti sem einnig flokkast með óreglulegum liðum.

Alla þessa þætti þarf að undanskilja því að annars fæst ekki rétt mynd af þróun ríkisfjármála. Á þetta hefur verið rækilega bent í mörg ár í athugasemdum Fjársýslu ríkisins með ríkisreikningi þannig að það ætti ekki að koma á óvart, allra síst þingmönnum. Mér finnst því hægt að gera þá kröfu til þeirra að þeir fari rétt með þessar tölur. Jafnframt vil ég nefna að allar stefnumótandi ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum undanfarin ár taka mið af stöðu ríkissjóðs að frátöldum þessum óreglulegu liðum. Villandi og óábyrg umfjöllun sumra þingmanna og fjölmiðla um þessi mál að undanförnu hefur ekki orðið þeim til álitsauka. Sætir raunar furðu, að þeir sem halda því fram að fjárlög undanfarinna ára hafi verið marklaus glansmynd og staða ríkisfjármála sé í kaldakoli, skuli sömu skoðunar og ríkisstjórnin um að verulegt svigrúm sé til skattalækkana. Allir sjá að slíkur málflutningur fær ekki staðist.

Ég get nefnt eitt tiltekið dæmi sem sýnir hversu fáranlegt er að horfa á afkomutölur ríkissjóðs án þess að undanskilja þessa óreglulegu liði. Árið 1989 voru gjaldfærðar í einu lagi lífeyrisskuldbindingar sem námu þá 61 milljarði króna sem reiknast til um 120 milljarða á verðlagi í dag. Þetta varð til þess að það varð gífurlegur halli á ríkissjóði þetta ár sem nam um 125 milljörðum króna. Þótt mörgu hafi verið ábótavant í fjármálastjórn ríkisins á þessum tíma held ég að engum hafi dottið í hug að telja þessa gjaldfærslu með í umræðu um hallarekstur ríkissjóðs.

Og hvað leiðir þá réttur samanburður í ljós? Ef við tökum ríkisreikning áranna 1998 til 2003 og leiðréttum fyrir þessum óreglulegu liðum er niðurstaðan sú að yfir tímabilið í heild er uppsafnaður tekjuafgangur ríkissjóðs, afgangurinn af raunverulegum rekstri ríkissjóðs, um 95 milljarðar króna á verðlagi hvers árs. Þetta svarar til 16 milljarða tekjuafgangs á hverju ári. Jafnframt var afkoma ríkissjóðs 7 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þetta verður að teljast býsna vel af sér vikið þegar haft er í huga að á þessum árum var meðal annars gripið til sérstakra aðgerða til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Eins hefur verið gripið til sérstakra atvinnuskapandi aðgerða, svo sem í vegamálum o.fl. Loks hafa komið til skjalanna áhrif kjarasamninga sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum. Fyrir slíkum viðbótarútgjöldum er síðan leitað heimilda í fjáraukalögum hverju sinni. Niðurstaðan af þessu er því sú að hér hafi ríkt traust ríkisfjármálastjórn. Þetta hefur verið staðfest í umsögnum alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD og þriggja virtustu matsfyrirtækja heims eins og ég hef þegar nefnt.

Herra forseti

Ég vil ljúka máli mínu með því að ítreka að sú stefna sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og langtímaáætlun í ríkisfjármálum sýnir að ríkisstjórnin er ráðin í að taka ríkisfjármálin sterkum tökum og beita þeim til þess að hamla gegn þenslu í efnahagslífinu á næstu árum. Ég er sannfærður um að þetta er rétt stefna og að hún muni, þegar upp er staðið, skila tilætluðum árangri og styrkja okkar stöðu í samfélagi þjóðanna sem land þar sem okkur finnst eftirsóknarvert er að búa í lífskjaranna vegna og þar sem fyrirtækjum finnst hagstætt að starfa í.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpi þessu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umræðu og háttvirtrar fjárlaganefndar. Óska ég eftir góðu samstarfi við nefndina nú sem endranær og vona að takast megi að afgreiða frumvarpið í samræmi við starfsáætlun þingsins svo sem verið hefur undanfarin ár.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum