Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2005 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2005

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 1/2005:

A

gegn

Búri ehf.

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála, þann 16. nóvember 2005, var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru dags. 25. janúar 2005 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort að við ákvörðun launa hennar og síðar við brottrekstur hennar frá Búri ehf. hafi verið brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Búri ehf. með bréfi, dags. 31. janúar 2005. Í bréfinu var, með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, óskað eftir afstöðu Búrs ehf. til kærunnar. Með bréfi Samtaka atvinnulífsins, f.h. Búrs ehf., dags. 8. mars 2005, komu fram sjónarmið félagsins til erindis kæranda. Með bréfi, dags. 15. mars 2005, var kæranda kynnt afstaða Búrs ehf. til kærunnar og var henni gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 11. apríl 2005.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2005, var Samtökum atvinnulífsins f.h. Búrs ehf. gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda. Í bréfi, dags. 9. maí 2005, gerðu Samtök atvinnulífsins f.h. Búrs ehf. grein fyrir afstöðu félagsins vegna athugasemda kæranda. Með bréfi, dags. 9. maí 2005, var kæranda sent afrit af bréfi Samtaka atvinnulífsins f.h. Búrs ehf. og var henni gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum við nefndina.

Engar frekari athugasemdir hafa borist.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Málavextir eru þeir að kærandi hóf störf hjá Búri ehf. þann 1. júní 2002. Samkvæmt ráðningarsamningi sem gerður var þann 30. maí 2002 var kærandi ráðin sem innkaupastjóri í ávaxta- og grænmetisdeild félagsins. Meginstarfssvið hennar voru samkvæmt ráðningarsamningi að sjá um erlend innkaup á ávöxtum og grænmeti, að bera ábyrgð á að ætíð væri til nægjanlegt magn og úrval tegunda til að fullnægja þörfum viðskiptavina félagsins á hagstæðasta fáanlega verði miðað við gæði og að leitast við að ná ávallt hagkvæmni í vöruflæði hjá félaginu. Í ráðningarsamningnum var næsti yfirmaður kæranda tilgreindur deildarstjóri ávaxta- og grænmetissviðs.

Laun kæranda voru ákveðin [X] krónur á mánuði miðað við vinnutíma, sem var skilgreindur í ráðningarsamningi frá kl. 8–16 alla virka daga. Þar að auki var ráð fyrir því gert að á álagstímum gæti kærandi þurft að vinna lengur, en fyrir þá vinnu skyldi ekki greiða sérstaklega.

Kærandi hefur borið kjör sín saman við kjör starfsmanns sem ráðinn var til starfa hjá Búri ehf. með ráðningarsamningi dags. 30. ágúst 2002. Tilvísaður starfsmaður var ráðinn sem starfsmaður á ávaxta- og grænmetislager Búrs ehf. Meginstarfssvið hans var samkvæmt ráðningarsamningi að vinna almenn störf á ávaxta- og grænmetislager Búrs ehf., að hafa yfirumsjón með inntöku banana á lager og þroskun þeirra og að annast um almennt gæðaeftirlit á allri vöru sem tekin væri inn á lager Búrs ehf. Í ráðningarsamningnum var næsti yfirmaður starfsmannsins tilgreindur vöruhússstjóri ávaxta- og grænmetisdeildar félagsins. Laun starfsmannsins voru ákveðin [...] krónur á mánuði miðað við vinnuframlag frá kl. 7-16 alla virka daga, auk umsjónar með bananaþroskun og nauðsynlegrar lagervinnu og þjónustu við viðskiptavini félagsins þriðju hverja helgi.

Þann 31. ágúst 2004 var kæranda sagt upp störfum hjá Búri ehf. Á þeim tímamótum var annar starfsmaður ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu á lægri launum en kærandi hafði, en kærandi telur að sá hafi ekki verið ráðinn í öldungis sambærilegt starf og hún hafði gegnt. Kærandi heldur því fram að uppsögn hennar úr starfi hafi komið í kjölfar þess að hún gerði athugasemdir við að kjör hennar væru önnur og lægri en störf þess karlkyns starfsmanns sem hún bar kjör sín saman við.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að með því að ákvarða henni lægri laun en fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf karlkyns starfsmanns félagsins, hafi Búr ehf. brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Af hálfu kæranda er einkum vísað til ákvæðis 14. gr. laganna þar sem fram kemur að konur og karlar sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greiða sömu laun og njóta jafnra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Jafnframt vísar kærandi til 25. gr. laganna þar sem henni hafi verið sagt upp störfum skömmu eftir að hún kom að máli við yfirmann sinn og krafðist leiðréttingar á launum sínum.

Kærandi byggir á því að starf hennar hafi verið jafnverðmætt og sambærilegt og starf þess karlmanns sem hún hefur borið kjör sín saman við. Starfssvið þeirra tveggja hafi verið það sama og vinnuframlag þeirra hafi verið ámóta.

Kærandi hafi ráðist til starfa sem innkaupastjóri með umsjón með erlendum innkaupum á ávöxtum og grænmeti hjá Búri ehf. í júní 2002. Þá hafi hún verið eini starfsmaður deildarinnar, en karlmaðurinn hafi verið ráðinn til starfa sem innkaupastjóri innlends grænmetis frá september/október 2002. Þann 1. júní 2003 hafi verið ráðinn nýr yfirmaður þeirra beggja og hafi þau því starfað þrjú í grænmetisdeild fyrirtækisins. Að auki hafi verið einn starfsmaður á lager.

Í kæru tók kærandi fram að hún hefði mikla reynslu af innkaupum, þar sem hún hafi séð um öll innkaup fyrir B hf. og hjá C. Hún sé snyrtifræðingur að mennt, vanti aðeins nokkur fög uppá að ljúka stúdentsprófi, tali reiprennandi dönsku og jafnframt mjög góða ensku.

Kærandi segir að á fyrsta ári hennar í starfi hafi hún daglega unnið tvo tíma umfram þá átta tíma sem fram komu í ráðningarsamningi hennar, auk þess sem hún hafi unnið 2–8 tíma um helgar. Við ráðningu nýs yfirmanns 1. júní 2003 hafi vinna hennar breyst töluvert, þótt ekki hafi verið talin ástæða til að endurskoða ráðningarsamning hennar við fyrirtækið. Þannig hafi nýi yfirmaðurinn tekið yfir öll erlend innkaup, að undanskildum innkaupum á pokasalati. Þá hafi hún áfram annast gerð verðlista fyrir Búr ehf. sem hafi verið sendur út einu sinni í viku frá júní 2003 til apríl 2004 og haldið áfram að sinna gæðamálum á lager fyrirtækisins. Sá starfsmaður sem hún hefur borið kjör sín saman við hafi hins vegar haldið áfram starfi sem innkaupastjóri innlendra innkaupa auk þess að sinna áfram störfum við bananaþroskun. Kærandi tekur fram að umræddur starfsmaður hafi aldrei sinnt innkaupum fyrr en hann hóf störf hjá félaginu og þá sé sérþekking hans á bananaþroskun ofmetin, enda hafi hann kennt öðrum að sinna því starfi sem taki vanan mann einungis um tvo tíma á dag.

Þá hafi vinnuframlag þeirra beggja verið ámóta og hafi kærandi unnið jafn mikið og karlmaðurinn, þrátt fyrir að skilgreindur vinnutími karlamannsins í ráðningarsamningi hans við Búr ehf. hafi verið lengri en kæranda. Helgist það af því að við ráðningu kæranda hafi grænmetisdeildinni nýlega verið komið á laggirnar og því ekki verið vitað hvert vinnuframlag kæranda yrði í reynd. Við ráðningu karlmannsins hafi hann notið þess að reynsla var komin á hversu mikla yfirvinnu hafi þurft að inna af hendi til þess að gegna starfinu. Aldrei hafi komið til þess að ráðningarsamningur kæranda yrði endurskoðaður, en hins vegar hafi hún nokkrum sinnum fengið sérstaklega greidda yfirvinnu. Í fyrsta skiptið hafi henni verið boðin eingreiðsla [Y] krónur, án þess að hún hafi farið fram á hana að fyrra bragði, sem hafi í reynd falið í sér viðurkenningu Búrs ehf. á því að kærandi hefði unnið meira en gert var ráð fyrir í ráðningarsamningnum. Þá hafi kærandi fengið greidda yfirvinnu sem unnin var svo sem á páskum, milli jóla og nýárs og á frítímum. Af framansögðu megi því ráða að vinnuframlag kæranda og karlmannsins hafi verið jafn mikið.

Varðandi karlkyns starfsmann sem ráðinn var eftir að kærandi lét af störfum og tók við starfi hennar, bendir kærandi á að sá starfsmaður hafi í reynd ekki tekið við sama starfi og hún hafi gegnt. Hann hafi einungis verið almennur sölumaður og til að mynda ekki annast innkaup á pokasalati erlendis frá.

Samkvæmt framansögðu byggir kærandi á því að hún og karlmaðurinn sem ráðinn var sem innkaupastjóri innlends grænmetis á árinu 2002 hafi gegnt sambærilegum störfum hjá félaginu. Hún hafi leyst karlmanninn af sem og yfirmann þeirra, í fjarveru þeirra beggja. Störf kæranda og karlmannsins hafi því verið jafnverðmæt og sambærileg í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Kærandi hafi því farið á fund yfirmanns síns í lok ágúst 2004 og óskað eftir leiðréttingu launa sinna, þar sem kærandi hafi talið að um væri að ræða launamismunun byggða á kynferði. Hafi henni ekki verið gefnar neinar skýringar á umræddum launamun. Nokkrum dögum síðar hafi henni verið tjáð að hún myndi fá greidda yfirvinnu vegna afleysinga þá um sumarið. Við sama tækifæri hafi henni verið afhent uppsagnarbréf, dags. 31. ágúst 2004, þar sem hún var jafnframt leyst undan vinnuskyldu á uppsagnarfresti.

Kærandi kannast við að hafa fengið tiltal frá yfirmönnum sínum, en um hafi verið að ræða kvörtun frá einum viðskiptavini. Hafi samstarfsmaður hennar verið henni sammála um að þessi tiltekni viðskiptavinur væri mjög erfiður. Hún kannist hins vegar ekki við að lagerstarfsmenn hafi kvartað undan henni, utan þess að einn tiltekinn starfsmaður á lager hafi verið erfiður í umgengni. Síðar hafi þeim starfsmanni verið sagt upp störfum hjá félaginu.

Því hafi ekki verið gætt ákvæða 14. gr. og 23. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun kjara kæranda á meðan ráðningu hennar stóð hjá Búri ehf. Jafnframt byggir kærandi á því að með uppsögn hennar úr starfi hjá Búri ehf. hafi félagið brotið gegn 25. gr. laga 96/2000. Jafnframt byggir kærandi á því að Búri ehf. standi það nær að sýna fram á að umrædd mismunun stafi af öðru en kynferði og krefst hún þess að við úrlausn málsins verði beitt sönnunareglu 2. mgr. 23. gr., 3. mgr. 24. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 96/2000.

 

IV

Sjónarmið Búrs ehf.

Á því er byggt af hálfu Búrs ehf. að lög nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi ekki verið brotin við ákvörðun ráðningarkjara kæranda í starfi hennar hjá félaginu og þá hafi uppsögn hennar ekki byggst á þeim atriðum sem kærandi byggir sinn málatilbúnað á.

Kærandi hafi verið ráðin til starfa hjá félaginu þótt hún hafi ekki haft reynslu á því viðskiptasviði sem hún var ráðin til. Hún hafi upphaflega verið ráðin til að gegna stöðu innkaupastjóra erlends grænmetis, en hafi síðar orðið almennur sölumaður hjá félaginu í kjölfar ráðningar nýs yfirmanns yfir deildina. Laun hennar hafi þó haldist óbreytt, jafnvel þótt laun almenns sölumanns hjá félaginu væru lægri en þau laun sem kærandi hafði hjá Búri ehf.

Vinnutími kæranda hafi verið frá kl. 8–16 á virkum dögum í samræmi við ráðningarsamning hennar. Hún hafi þó oftast hafið störf um kl 8.30 til 9 og unnið til kl. 16.30 eða 17. Þá hafi hún ekki unnið hverja helgi, eins og hún hafi haldið fram og hún hafi heldur aldrei unnið helgarvinnu öðru vísi en svo að sú vinna væri sérstaklega greidd. Þótt sérstaklega væri gert ráð fyrir því í ráðningarsamningi kæranda að hún gæti þurft að vinna lengur á álagstímum án þess að sérstök greiðsla kæmi fyrir það vinnuframlag, hafi kærandi í reynd fengið greitt aukalega fyrir unna yfirvinnu þegar kærandi hafi óskað þess. Hún hafi fengið eingreiðslu [Y] krónur árið 2003, [Z] krónur vegna níu klukkustunda í júlí 2004 og [Þ] krónu vegna 76,5 stunda við launauppgjör í október 2004.

Sá karlkyns starfsmaður sem kærandi ber kjör sín saman við hafi verið ráðinn sem starfsmaður á ávaxta- og grænmetislager félagsins. Innflutningur og innlend vörukaup hafi ekki hafist hjá félaginu fyrr en í október 2002 og því hafi engin reynsla verið komin á starfsemi deildarinnar og þar af leiðandi hvort þörf væri fyrir yfirvinnu við ráðningu starfsmannsins.

Tilvísaður starfsmaður hafi áður unnið hjá Ágæti ehf. í sjö ár, þar af tvö ár við dreifingu. Þá hafi hann unnið um tveggja ára skeið hjá Banönum ehf. og hafi hann því búið yfir sjö ára reynslu af starfi á ávaxta- og grænmetislager, auk þess sem hann hafði annast innkaup á innlendum vörum í starfi sínu Banönum ehf. Hann hafi að auki búið yfir afar verðmætri þekkingu á bananaþroskun og var það í verkahring hans að hafa yfirumsjón með banönum á lager, inntöku þeirra á lager og þroskun þeirra, auk þess að annast allt almennt gæðaeftirlit á vörum á lager félagsins. Hafi starfsmaðurinn því komið inn með mikla og verðmæta starfsreynslu í félagið og til þess að fá hann til starfa hafi fyrirtækið þurft að greiða honum til samræmis við það.

Laun hans hafi verið ákvörðuð miðað við 9 klst. dagvinnuskyldu og vinnuskyldu þriðju hverja helgi. Að auki hafi hann iðulega unnið 10 klst. dagvinnu, án þess að hann hafi fengið greidda yfirvinnu á árunum 2003 og 2004. Þá hafi starfssvið hans einnig breyst og hafi hann fljótlega tekið að sér að annast öll innlend innkaup, auk þess sem hann hélt áfram störfum við bananaþroskun.

Þá er því mótmælt að kærandi hafi leyst yfirmann sinn af í fjarveru hans. Hins vegar hafi hún fengið afnot af skrifstofu yfirmannsins þegar hann var fjarverandi. Þá hafi kærandi ekki séð um gæðamál á lager, það starf hafi verið á verksviði karlmannsins og lagerstjóra félagsins. Þá hafi karlmaðurinn gengið í öll störf kæranda í fjarveru hennar, önnur en erlend innkaup á pokasalati. Þá hafi deildarstjórinn annast öll önnur erlend innkaup deildarinnar á pokasalati í fjarveru kæranda.

Samkvæmt framansögðu hafi störf kæranda og karlmannsins sem kærandi hefur borið kjör sín saman við hjá félaginu hvorki verið sambærileg né jafnverðmæt, hvort sem miðað sé við ráðningartíma eða síðar.

Búr ehf. byggir jafnframt á því að framkomu kæranda í starfi hafi þótt vera ábótavant. Hafi hún af þeim sökum tvisvar sinnum fengið alvarlegt tiltal, í janúar 2004 og í júní 2004, vegna ítrekaðra kvartana frá viðskiptavinum og einnig frá lagerstarfsmönnum. Þessar aðfinnslur hafi hins vegar ekki leitt til varanlegra breytinga á hegðun hennar. Þannig hafi ástæða uppsagnar kæranda verið sú að hún þótti ekki, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli, hafa sýnt viðskiptavinum nægjanlega kurteisi. Að auki sé uppsögnina að rekja til samstarfsörðugleika innan fyrirtækisins. Uppsögn kæranda hafi því á engan hátt tengst því að hún hafði lýst óánægju með að laun hennar væru lægri en karlmannsins eða tengst kynferði hennar á annan hátt. Búr ehf. hafi talið vera lögmætar skýringar á þeim launamun sem kærandi taldi vera á milli þeirra tveggja. Þeim sjónarmiðum hafi félagið komið á framfæri við kæranda og hafði enga ástæðu til þess að láta kæranda gjalda fyrir það samtal.

 

V

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Þá er atvinnurekendum óheimilt að segja starfsmanni upp störfum sökum þess að hann hefur krafist leiðréttingar á grundvelli laganna, skv. 1. mgr. 25. gr. Ef leiddar eru líkur að því að gengið hafi verið gegn fyrrgreindu ákvæði skal atvinnurekandi sýna fram á að uppsögn grundvallist ekki á leiðréttingarkröfu starfsmanns, sbr. 3. mgr. 25. gr. laganna.

Í máli þessu er um það deilt hvort kæranda hafi verið mismunað í launum í starfi sínu hjá Búri ehf. á tímabilinu frá september 2002 til starfsloka í ágúst 2004, en á því er byggt af hálfu kæranda að karlmaður sem gegnt hafi sambærilegu og jafnverðmætu starfi á framangreindu tímabili hafi notið hærri launa en hún, án þess að slíkt væri réttlætt með tilliti til ákvæða jafnréttislaga. Þá er einnig deilt um það hvort Búr ehf. hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga með uppsögn kæranda, þar sem hún hafi stuttu áður farið fram á leiðréttingu launa, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 96/2000.

Af hálfu Búrs ehf. hefur sjónarmiðum kæranda varðandi launamismunun og uppsögn verið andmælt. Varðandi launamun byggir Búr ehf. á því að umrædd störf sem kærandi vísar til hafi ekki verið sambærileg og jafnverðmæt, meðal annars með tilliti til reynslu, sérfræðiþekkingar, starfssviða og vinnutíma.

Kærandi var ráðin til Búrs ehf. í júní 2002 sem innkaupastjóri í ávaxta- og grænmetisdeild. Í gögnum málsins kemur fram að starfssvið hennar breyttist að nokkru leyti í júní 2003 og starfaði hún eftir það sem sölumaður í sömu deild. Í september 2002 tók karlmaður til starfa hjá Búri ehf. og var hans starf að hluta til sambærilegt við starf kæranda, þ.e. innkaupastjórn. Samkvæmt framlögðum ráðningarsamningum og launaseðlum hafði hann hærri mánaðarlaun en kærandi á umræddu tímabili.

Í skriflegum athugasemdum Búrs ehf. til nefndarinnar, sem og í athugasemdum kæranda, kemur fram að umræddur karlkyns starfsmaður hafði sérþekkingu á banönum og var sú þekking, að sögn Búrs ehf., forsenda þess að hann var ráðinn til félagsins. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið, þykir verða að fallast á að umræddur karlkyns starfsmaður hafi haft aðrar starfsskyldur heldur en kærandi. Þannig var starfsmanninum falin yfirumsjón með þroskun banana á lager sem Búr ehf. hefur lýst sem mikilsverðum þætti í starfi viðkomandi.

Jafnframt hefur verið á því byggt af hálfu Búrs ehf. að karlmaður sá sem kærandi ber sig saman við hafi haft aðra og viðameiri vinnuskyldu en kærandi utan hefðbundins vinnutíma. Af gögnum málsins má ráða að kærandi fékk í nokkrum tilfellum greidda yfirvinnu sérstaklega en samkvæmt upplýsingum Búrs ehf. fólu laun þess karlmanns sem kærandi ber sig saman við í sér heildargreiðslu, þar með talið fyrir yfirvinnu og umsamda vinnu um helgar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir ekki sýnt að starf það sem kærandi vísar til og hefur borið starf sitt saman við teljist hafa verið jafnverðmætt og sambærilegt í skilningi 14. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 96/2000. Þá þykir nægjanlega liggja fyrir að mismunur hafi verið á yfirvinnuframlagi kæranda og þess sem hún ber sig saman við.

Í máli þessu liggur fyrir að kæranda var sagt upp störfum af hálfu Búrs ehf. með bréfi dags. 31. ágúst 2004. Af hálfu kæranda er á því byggt að Búr ehf. hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga með uppsögn hennar, þar sem hún hafi stuttu áður farið fram á leiðréttingu launa, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 96/2000.

Búr ehf. hefur í athugasemdum sínum til nefndarinnar gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar ákvörðunar um uppsögn kæranda, en ástæðu uppsagnarinnar var ekki getið í uppsagnarbréfi. Á því er byggt af hálfu Búrs ehf. að ástæða uppsagnarinnar hafi annars vegar verið að framkomu kæranda gagnvart viðskiptavinum hafi verið ábótavant, og hins vegar vegna samstarfsörðugleika við starfsmenn á lager. Af þessum ástæðum hafi kæranda verið veitt tiltal í a.m.k. tvö skipti, janúar og júní 2004.

Kærandi telur að fullyrðingar Búrs ehf. þess efnis að ástæður uppsagnarinnar hafi verið framangreindar, eigi ekki við rök að styðjast. Kærandi kannast þó við að hafa verið veitt tiltal í eitt skipti vegna kvörtunar frá viðskiptavini. Mótmælir kærandi hins vegar því að um ítrekaðar kvartanir hafi verið að ræða. Þá hafnar kærandi þeim fullyrðingum að samstarfsmenn hennar hafi kvartað undan henni en kannast þó við eitt tilvik, sem hún telur hugsanlegt að Búr ehf. vísi til. Telur kærandi þó ljóst að uppsögnin hafi ekki grundvallast á framangreindum ástæðum heldur á kröfu hennar um leiðréttingu launa.

Ljóst er að ágreiningur er milli málsaðila um framangreind atvik og aðdraganda uppsagnarinnar, svo sem að framan er rakið. Þó virðist sem fullyrðingar Búrs ehf. um framkomna kvörtun viðskiptavinar, sem og um samstarfsörðugleika, eigi við einhver rök að styðjast enda hefur kærandi sjálf fallist á að þær fullyrðingar kunni að eiga sér nokkra stoð.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið um ástæður Búrs ehf. fyrir uppsögn kæranda þann 31. ágúst 2004, og með hliðsjón af því að kærandi hefur að einhverju leyti fallist á þær fullyrðingar, þykir Búr ehf. hafa leitt nægilegar líkur að því að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um uppsögn kæranda. 

Það er því niðurstaða nefndarinnar að með uppsögn kæranda úr starfi hafi Búr ehf. ekki brotið gegn 1. mgr. 25. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Samkvæmt framansögðu er það álit kærunefndar jafnréttismála að Búr ehf. hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 í máli þessu.

  

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum