Hoppa yfir valmynd
29. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Ávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra á hátíðarsamkomu Samtakanna 78

Góðir hátíðargestir,

Dagurinn í dag er merkisdagur í baráttu samkynhneigðra fyrir viðurkenningu á réttindum sínum. Fyrir réttum tíu árum tóku gildi lög um staðfesta samvist sem mörkuðu tímamót að þessu leyti. Nú stígum við Íslendingar annað stórt skref til að jafna rétt allra án tillits til kynhneigðar því í dag ganga í gildi lög nr. 65/2006 um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra.

Aðdraganda lagasetningarinnar má rekja til samþykktar þingsályktunar vorið 2003 sem flutt var af fulltrúum allra þingflokka. Forsætisráðherra skipaði í kjölfarið nefnd til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks. Nefndin skilaði af sér ítarlegri skýrslu sem var lögð fyrir Alþingi. Ekki var samkomulag í nefndinni varðandi nokkur meginálitamál er vörðuðu tæknifrjóvgun og rétt til ættleiðingar. Ég ætla ekki að rekja þau sjónarmið sem þar tókust á enda þekkið þið þau manna best. Eftir að málið hafði verið skoðað og mismunandi rök vegin og metin taldi ríkisstjórnin að krafan um jafnrétti vægi í öllum tilfellum þyngra. Skiptir í því sambandi vissulega máli sú hugarfarsbreyting sem orðið hefur í þjóðfélaginu undanfarin ár, en hana má rekja til þess meðal annars hvernig samtök ykkar hafa rekið sína baráttu með málefnalegum hætti án þess þó að slaka á kröfunni um fyllstu mannréttindi homma og lesbía, mannréttindi fullorðins fólks sem á sjálft að geta valið sér lífsform, ákveðið að stofna fjölskyldu og axla þá ábyrgð að eignast börn án þess að ríkisvaldið sé að hafa vit fyrir því. Ekkert bendir heldur til þess að börnum reiði verr af þótt þau alist upp hjá tveimur pöbbum eða tveimur mömmum. Það sem mestu skiptir er að barni sé sýnd ástúð og umhyggja og um það erum við öll jafnfær.

Ég vil í örstuttu máli að rifja upp þrjú meginefni nýju löggjafarinnar:

  • Tekið er af skarið um að jafnt samkynhneigð pör sem gagnkynhneigð geta fengið sambúð skráða í þjóðskrá. Hingað til hefur það ekki verið viðurkennt í lögum að samkynhneigðir geti verið í óvígðri sambúð. Þessari breytingu fylgja lagfæringar á ýmsum lögum þar sem réttindi sambúðarfólks koma við sögu.
  • Heimild samkynhneigðra para til að ættleiða börn verður sú sama og gagnkynhneigðra para. Á það hefur verið bent að þau ríki, sem Íslendingar hafa helst ættleitt börn frá heimili ekki ættleiðingar til samkynhneigðra. Það kann að vera rétt, en eru samt ekki nægileg rök til að viðhalda mismunun í löggjöf hér á landi.
  • Kona í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist með annarri konu öðlast heimild til að gangast undir tæknifrjóvgun líkt og á við um gagnkynhneigð pör. Með þessum hætti er viðurkenndur jafn réttur allra kvenna óháð kynhneigð til að eignast börn með hjálp tæknifrjóvgunar.


Góðir áheyrendur,

Löggjöf er eitt en viðhorf í samfélaginu eru annað. Þótt ríkisstjórnin og Alþingi hafi nú lagt sitt af mörkum til að stuðla að umburðarlyndi og viðurkenna fjölbreytni mannlífsins er því miður ekki þar með sagt að öll mismunun í garð samkynhneigðra verði sjálfkrafa úr sögunni. Sú hugarfarsbreyting sem ég nefndi staðfestir þó að fordómar gagnvart samkynhneigðum eru minni en áður hér á landi. Möguleikar til ættleiðingar barna verða þó líklega ekki að fullu virkir fyrr en afstaða breytist hjá mun fleiri þjóðum. Það er von mín að með löggjöf þessari stuðlum við Íslendingar að því að þróun verði áfram í átt til aukinnar viðurkenningar á réttindum samkynhneigðra á alþjóðavettvangi.

Ágætu gestir,

Pólitískar skoðanir fara ekki eftir kynhneigð fólks. Og kynhneigð fólks fer ekki eftir pólitískum skoðunum. Ég nefni þessi augljósu sannindi vegna þess að um þær réttarbætur sem nú taka gildi hefur verið góð samstaða milli og innan stjórnmálaflokkana.

Samtök ykkar hafa með skeleggri en málefnalegri framgöngu skilað þeim árangri sem nú er verið að fagna. Viðhorfin hafa breyst, ekki síst fyrir ykkar tilstilli. Stundum þarf kjark til að horfast í augu við sjálfan sig. En það getur líka þurft kjark til að standa með sjálfum sér og leita hamingjunnar á eigin forsendum.

Til hamingju með daginn !Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum