Hoppa yfir valmynd
30. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála í

máli nr. 1/2006

 

A

gegn

Bautanum ehf.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 30. júní 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru móttekinni 27. janúar 2006, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Bautinn ehf. hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með uppsögn hennar úr starfi hjá Bautanum ehf. þann 27. október 2005.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Bautanum ehf. með bréfi, dags. 27. febrúar 2006. Umsögn Bautans ehf. barst með bréfi, dags. 6. apríl 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 3. maí 2006. Voru síðastnefndar athugasemdir sendar Bautanum ehf. til kynningar með bréfi, dags. 8. maí 2006. Athugasemdir Bautans ehf. bárust með bréfi, dags. 19. júní sl. Hafa þær verið kynntar kæranda. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 28. júní sl., og hafa þær verið kynntar kærða.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að kærandi starfaði hjá Bautanum ehf. sem matreiðslumaður um fimm ára skeið frá árinu 2000. Henni var sagt upp störfum með bréfi, dags. 27. október 2005. Í kjölfarið tók karlmaður við stöðu sem matreiðslumaður á öðrum tveggja veitingastaða í eigu Bautans ehf. Af hálfu kæranda er til þess vísað uppsögnin hafi farið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en hún telur sig ekki síður hafa hæfa til að gegna starfinu en sá sem við starfi hennar tók, sem hafi verið karlmaður. Af hálfu atvinnurekanda er því hafnað að uppsögnin hafi farið gegn tilvísuðum ákvæðum jafnréttislaga.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að fyrirvaralaus uppsögn hennar hafi verið í þeim tilgangi að koma karlmanni, sem einnig væri sonur annars eigandans, í hennar stöðu, og að slíkt hafi brotið í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Ástæður uppsagnarinnar hafi verið tilgreindar sem smávægilegar breytingar og að karlmanni sem taka ætti við starfi kæranda yrðu falin ný verkefni í kjölfar breytinganna, þ.m.t. matseðlagerð. Kærandi tekur fram að hún hafi aldrei verið beðin um að gera eða koma með tillögu að breytingum á matseðli. Hún hafi að vísu unnið að samsetningu kvöldverðartilboða á veitingastaðnum la Vita e Bella og sagt yfirmönnum sínum frá því, en það hafi ekki verið talið nægilegt.

Kærandi hafi einnig spurst fyrir um ástæður uppsagnarinnar þar sem hún hefði unnið í fimm ár hjá fyrirtækinu og stundað vinnu sína vel, meðal annars verið stundvís. Hún hafi fengið þau svör að matreiðslumenn stoppuðu sjaldan svo lengi hjá fyrirtækinu. Að mati kæranda ætti það frekar að vera talið henni til tekna að hafa starfað svo lengi hjá fyrirtækinu.

Kærandi segir sig ekki hafa fengið neinar ábendingar um matseðlagerð eða önnur verkefni, en hún telji sig geta sinnt þeim verkefnum jafn vel og sá karlmaður sem tekið hafi við stöðu hennar.

Kærandi áréttar að henni hafi verið sagt upp störfum þrátt fyrir að hafa verið eina konan með réttindi og hafa starfað mun lengur en tilvísaðir karlmenn á veitingastaðnum. Tilfæring hennar á veitingahúsið la Vita e Bella hafi stafað af því að þar hafi starfað matreiðslunemi sem hafi farið suður í skóla til að ljúka námi sínu. Aldrei hafi verið fundið að störfum hennar og þegar hún hafi fundað með yfirmönnum sínum hafi ekki verið nefnt með nokkrum hætti að til stæði að segja henni upp störfum. Ráðning karlmanns þess er fékk stöðu hennar hafi greinilega verið ákveðin í flýti þar sem hún viti til þess að fyrrgreindur karlmaður hafi sóst eftir starfi á öðrum veitingastað og hafi nánast verið búinn að fá það starf.

Kærandi tekur auk þess fram að meðmæli hennar frá Bautanum ehf., og dagsett eru í janúar 2006, séu góð og að þau séu engan veginn í samræmi við fullyrðingar Bautans ehf. í máli þessu. Að öðru leyti andmælir kærandi alfarið framkomnum sjónarmiðum og skýringum Bautans ehf. sem kærandi telur að ekki séu á rökum reistar.

 

IV.

Sjónarmið Bautans ehf.

Af hálfu Bautans ehf. er kærunni harðlega mótmælt sem rangri. Rétt sé að kærandi hafi starfað sem matreiðslumaður hjá Bautanum í fimm ár. Í fyrstu hafi hún verið mjög metnaðarfull, jákvæð og áhugasöm í starfi en það hafi síðar breyst verulega til hins verra. Kærandi hafi haft lítinn metnað í starfi og verið mjög neikvæð í vinnunni, kvartað mikið undan álagi og hafi haft allt á hornum sér gagnvart öðrum starfsmönnum, yfirmönnum og viðskiptavinum. Þessi framkoma kæranda hafi valdið verulegum samstarfsörðugleikum á vinnustaðnum og álagi á aðra starfsmenn og fyrirtækisins.

Eigandi Bautans ehf. og yfirmaður starfsmanna hafi rætt þó nokkrum sinnum við kæranda um þennan vanda en lítið hafi breyst. Í framhaldi af því hafi verið reynt að leysa vandann með því að flytja kæranda í starf matreiðslumanns hjá la Vita e Bella. Yfirmenn hennar hafi vonast til þess að breytingin yrði til þess að hún yrði áhugasamari og metnaðarfyllri og að samskiptin við aðra starfsmenn myndu batna. Því miður hafi þessar breytingar ekki orðið til þess að áhugi og framkoma kæranda breyttust. Af þessum sökum hafi hún verið boðuð á fund í júlí 2005 þar sem farið hafi verið ítarlega yfir þá erfiðleika sem í gangi voru og henni gerð grein fyrir því að ef hegðun hennar myndi ekki breytast faglega og samskiptalega ætti Bautinn ehf. ekki annarra kosta völ en að segja henni upp störfum. Hún hafi einnig verið hvött til þess að verða áhugasamari, til dæmis með því að koma með hugmyndir að nýjum réttum til að setja á matseðil sem algengt sé að áhugasamir matreiðslumenn geri á veitingahúsum þar sem sífellt sé verið að þróa og uppfæra matseðla. Kærandi hafi tekið þessum ábendingum vel og hafi fyrst um sinn sýnt greinilegan vilja til að bæta sig faglega og samskiptalega og sinna starfi sínu af meiri áhuga, en fljótlega hafi allt farið í sama farið og þá hafi fyrirsvarsmenn Bautans ehf. kærða ekki átt annarra kosta völ en að segja henni upp störfum, sem hafi verið gert skriflega 27. október 2005. Kærandi hafi unnið út uppsagnarfrest sinn eða til 1. febrúar 2006.

Það sé rangt er fram komi í kæru að kæranda hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust og að hún hafi ekki vitað hver ástæðan væri, enda hafi þurft töluvert til þess að yfirmenn tækju þá erfiðu ákvörðun að segja upp starfsmanni sem starfað hefði hjá fyrirtækinu í fimm ár. Það sé því algjörlega tilhæfulaust að kæranda hafi verið sagt upp störfum til þess að Bautinn ehf. gæti ráðið son eins eiganda Bautans ehf. sem matreiðslumann.

Bautinn ehf. sé stór vinnustaður, með um 40 stöðugildi, og ef allt hefði verið með felldu hefði ekki verið neitt vandamál að bæta þeim karlmanni, er áður var nefndur, í starfsmannahóp Bautans ehf. án þess að þörf væri á uppsögnum.

Það hafi hins vegar verið rétt að fyrirsvarsmenn Bautans ehf. hafi gjarnan viljað fá fyrrgreindan karlmann til starfa enda hafi hann mikla og góða reynslu sem matreiðslumaður frá því að hann lauk námi 1999, auk þess sem ítölsk matargerðarlist sé sérstakt áhugamál hans. Hann hafi auk þess verið fyrirsvarsmönnum innan handar við að móta nýja rétti og matseðla, auk þess sem hann hafi verið yfirmatreiðslumaður hjá la Vita e Bella frá árinu 2000 til ársins 2002. Fyrirsvarsmenn Bautans ehf. höfðu því mjög góða reynslu af hans störfum og þótti eftirsóknarvert að fá hans sérþekkingu á ítalskri matargerð en veitingahúsið la Vita e Bella byggir á ítalskri matargerð.

Athygli sé jafnframt vakin á því að erfitt sé að manna störf matreiðslumanna þannig að kynjahlutföll séu jöfn, karlmenn séu um 80% menntaðra matreiðslumanna og konur um 20%. Bautinn ehf. hafi ávallt metið færni og dugnað starfsmanna óháð kyni. Kynferði kæranda hafi ekki haft nein áhrif á það að nauðsynlegt hafi verið að segja henni upp starfi hjá Bautanum ehf. Sú ákvörðun hafi verið nauðsynleg eftir að búið hafði verið að áminna kæranda og gera henni grein fyrir því að ef hún myndi ekki bæta sig faglega og samskiptalega ætti Bautinn ehf. ekki annarra kosta völ en að segja henni upp störfum.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Sama gildir um stöðuhækkanir, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við uppsögn skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar henni var sagt upp störfum sem matreiðslumaður hjá Bautanum ehf. í október 2005, en kærandi mun hafa látið af störfum að loknum uppsagnarfresti eða hinn 1. febrúar 2006.

Fyrir liggur í máli þessu að kæranda, sem er kona, var sagt upp störfum sem matreiðslumanni á veitingahúsi Bautans ehf., Akureyri, eftir fimm ára starf. Af hálfu kæranda er á því byggt að uppsögnin hafi tengst ráðningu karlmanns til starfa en kærandi telur að ráðning hans í sinn stað hafi farið gegn ákvæðum jafnréttislaga, enda hafi kærandi eins vel getað gegnt viðkomandi starfi og sá sem ráðinn var, en sá hafi að auki verið sonur eigandans. Í þessu sambandi vísar kærandi einnig til þess að fleiri karlmenn hafi gegnt störfum faglærðra starfsmanna hjá fyrirtækinu en konur.

Af hálfu Bautans ehf. er á því byggt að uppsögn kæranda hafi ekki byggst á kynferði hennar heldur hafi ástæður uppsagnarinnar tengst störfum hennar. Athugasemdir hafi verið gerðar við störf hennar, einkum lítinn metnað og neikvæðni, en framkoma kæranda hafi valdið samstarfsörðugleikum á vinnustað.

Fyrir liggur í máli þessu að kæranda voru ekki veittar formlegar áminningar í starfi og ekki voru ávirðingar í hennar garð tilgreindar skriflega. Meðmælabréf það sem kæranda var látið í té í tengslum við starfslok felur í sér ummæli um kæranda sem eru á annan veg en tilgreind hafa verið sem ástæður uppsagnar hennar hér fyrir nefndinni. Af framanröktu verður ekki ráðið með afgerandi hætti hvað hafi ráðið ákvörðun Bautans ehf. um uppsögn kæranda og fer ekki fram frekari sönnunarfærsla um það atriði fyrir kærunefnd jafnréttismála.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að uppsögn ráðningarsamnings hennar hafi farið gegn ákvæðum jafnréttislaga þar sem karlmaður hafi verið ráðinn til starfa í hennar stað, en kærandi telur sig hafa getað sinnt því starfi jafn vel og sá sem ráðinn var.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að atvinnurekendum verði játað frelsi til að taka ákvarðanir á eigin forsendum varðandi ráðningar og uppsagnir starfsmanna, en slíkar ákvarðanir lúta þó takmörkunum sem meðal annars verða leiddar af tilvísuðum ákvæðum jafnréttislaga. Af þessu leiðir að uppsagnir starfsmanna verða ekki taldar fara gegn ákvæðum jafnréttislaga nema að líkur séu taldar á að kynferði viðkomandi starfsmanns hafi verið ástæða þess að gripið sé til uppsagnarinnar. Komi fram aðrar skýringar á uppsögninni, sem teljast málefnalegar og í samræmi við gögn máls eða fyrirliggjandi upplýsingar, leiðir það að jafnaði til þess að viðkomandi uppsögn telst ekki fara gegn ákvæðum jafnréttislaga sérstaklega.

Sá sem ráðinn var til starfa hjá Bautanum ehf. í stað kæranda var matreiðslumaður sem hafði starfað um árabil í greininni, m.a. á öðru af þeim veitingahúsum sem rekin eru af Bautanum ehf. Í umsögn Bautans ehf. er talið að sú ráðning hafi fallið vel að hagsmunum fyrirtækisins.

Þegar litið hefur verið til þess sem fram er komið varðandi ráðningu karlmanns í starf matreiðslumanns hjá fyrirtækinu, m.a. með tilliti til menntunar hans og starfsferils, og til aðstæðna fyrirtækisins að öðru leyti, verður að telja að skýringar Bautans ehf. að þessu leyti til geti talist vera málefnalegar og eiga sér viðeigandi stoð í gögnum málsins.

Þó svo að tildrög uppsagnar kæranda séu, svo sem að framan er rakið, nokkuð á huldu, verður þannig engu að síður að telja að ekki hafi verið leiddar líkur að því að uppsögn kæranda hafi tengst kynferði hennar sérstaklega. Er þá einnig litið til framkominna skýringa Bautans ehf. varðandi væntingar vegna ráðningar viðkomandi karlmanns til starfa.

Með vísan til framangreinds er það álit kærunefndar jafnréttismála að Bautinn ehf. hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása ÓlafsdóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira