Hoppa yfir valmynd
22. september 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ósonlagið - tilefni til bjartsýni í umhverfismálum

Innflutningur á ósoneyðandi efnum 1990-2004
Innflutningur á ósoneyðandi efnum 1990-2004. Heimild: Tölulegar vísbendingar 2005.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hélt fyrir skömmu upp á alþjóðlegan dag tileinkuðum verndun ósonlagsins. Af því tilefni gefst tækifæri til að rifja upp hvaða árangri alþjóðlegt samstarf á þessum vettvangi hefur skilað.

Ósonlagið tók að þynnast jafnt og þétt uppúr 1970 í kjölfar aukinnar notkunar á ósoneyðandi efnum í iðnaði. Af þeim völdum tók að gæta á jörðu niðri aukins styrks útfjólublárra geisla sólar sem geta meðal annars veikt ónæmiskerfi manna og dýra og dregið úr vexti plantna á landi og þörunga í sjó.

Vatnaskil urðu í umræðunni um ósonlagið árið 1984 þegar vísindamenn komust að því að stórt gat var komið á ósonlagið yfir Suðurskautslandinu og í kjölfarið hljóp aukinn kraftur í alþjóðlegar viðræður á vegum Sameinuðu þjóðanna um hvernig bregðast ætti við vandanum. Tímamóta árangur náðist með undirritun Vínarsamningsins árið 1985 og Montreal-bókunarinnar árið 1987 um takmörkun á notkun og losun ósoneyðandi efna. Þetta samstarf hefur skilað góðum árangri og verulega hefur dregið úr notkun ósoneyðandi efna undanfarin ár. Afraksturinn hefur heldur ekki látið á sér standa og flest bendir til að styrkur slíkra efna í andrúmsloftinu hafi náð hámarki og taki að minnka á næstu árum. Nýjustu rannsóknir vísindamanna benda til þess að ósonlagið hafi hætt að þynnast á svæðum utan heimskautanna árið 1997 og standi ríki heims við skuldbindingar sínar muni ósonlagið um miðja þessa öld ná sama styrk og það hafði árið 1980.

Íslensk stjórnvöld hafa tekið þátt í verndun ósonlagsins, m.a. með þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna. Fyrsta íslenska reglugerðin á þessu sviði var sett árið 1989 og bannaði notkun ósoneyðandi efni í úðabrúsum og innflutningur og sala annarra ósoneyðandi efna var ýmist bönnuð á árunum 1995 til 1996 eða sett ákvæði um aðrar takmarkanir. Á vissum sviðum hafa Íslendingar dregið meira úr notkun ósoneyðandi efna en ákvæði Montreal-bókunarinnar og reglugerðir Evrópusambandsins kveða á um. Þetta hefur leitt til þess að á árunum 1994 til 2002 minnkaði notkun ósoneyðandi efna hér á landi um 98%.

Árangurinn sem náðst hefur við verndun ósonlagsins sýnir að Montreal-bókunin er góð fyrirmynd árangursríks alþjóðlegs samstarfs í umhverfismálum og hann eykur bjartsýni á að önnur brýn mál verði leyst á farsælan hátt á þeim vettvangi.

Frekari upplýsingar um ástand ósonlagsins má finna á vef Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Einnig má finna upplýsingar í Tölulegum vísbendingum 2005, riti umhverfisráðuneytisins um sjálbæra þróun í íslensku samfélagi, og í upplýsingariti Umhverfisstofnunar Útfjólublá geislun sólar og þynning ósonlagsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum