Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi náttúruverndarnefnda sveitarfélaganna 2006

 

Ágætu sveitarstjórnarmenn og aðrir gestir

Ég vil byrja á því að þakka kærlega það boð að fá að vera með ykkur og ávarpa árlegan fund Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaganna. Hér eru ýmsir reyndir nefndarmenn en aðrir sem eru að sitja sinn fyrsta samstarfsfund eftir sveitarstjórnakosningarnar í vor.

Í náttúruverndarlögunum nr 44/1999 er kveðið á um hlutverk náttúruverndarnefnda í 11. gr. þeirra. Gert er ráð fyrir að á vegum sveitarfélaga sé starfandi náttúruverndarnefnd sem sé sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Árni Bragason mun fjalla hér á eftir betur um hlutverk náttúruverndarnefnda. En ég vil draga sérstaklega fram hvað eftirlits- og ráðgjafarhlutverk nefndanna skiptir miklu máli, bæði gagnvart íbúum og einnig fyrir sveitarstjórnir og Umhverfisstofnun. Starf náttúruverndarnefnda er að mínu mati afar mikilvægur hlekkur í framkvæmd náttúruverndar hér á landi ekki síður fyrir okkur í umhverfisráðuneytinu sem teljum áríðandi að fá hugmyndir um það hvar þurfi að taka til hendinni og hvernig framkvæmd náttúruverndar gangi víðs vegar um landið.

Í umhverfisráðuneytinu er nú í samstarfi við Umhverfisstofnun verið að vinna að allmörgum málum..

Fyrst ætla ég að nefna undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem er vel á veg kominn og geri ég ráði fyrir að geta fljótlega lagt fram á Alþingi, vonandi á næstu dögum, frumvarp til laga um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Eins og kunnugt er hefur frá upphafi verið unnið þannig að undirbúningi þessa máls að töluverður hluti lands í einkaeign verði innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Hafa á vegum ráðuneytisins farið fram viðræður við landeigendur á þeim svæðum sem áhugaverð eru fyrir þjóðgarðinn og er reiknað með að gengið verði til samninga við þessa aðila þegar frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð verður orðið að lögum.

Á vegum ráðuneytisins hefur starfað ráðgjafarnefnd sem í sitja fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem fara með stjórnsýslu á því svæði sem gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður taki til og fulltrúi umhverfisverndarsamtaka. Ráðgjafarnefndin skilaði til mín tillögum sl. föstudag 3. nóvember. Nefndin lagið til að Vatnajökulsþjóðgarður nái í upphafi til um 13.400 km2 svæðis þ.e. alls Vatnajökuls auk íslausra svæða umhverfis jökulinn allt til strandar í Öxarfirði. Meðal verkefna nefndarinnar var einnig að gera tillögu um nauðsynlega uppbyggingu þjóðgarðsins og þjónustunet. Þannig er gert ráð fyrir að byggðar verði fjórar nýjar megin-starfsstöðvar þjóðgarðsins, byggingar sem munu verða nokkurs konar kennileiti þjóðgarðsins. Nefndin fjallaði m.a. um hentuga staðsetningu þessara starfsstöðva þjóðgarðsins og lagði til að þær verði staðsettar við Mývatn, Skriðuklaustur, Hornafjörð og Kirkjubæjarklaustur.

Ég geri mér vonir um að Alþingi afgreiði málið á þessu þingi og að hægt verði að hefja undirbúning að stofnun þjóðgarðsins og uppbyggingu hans þegar á næsta ári, en reiknað er með að uppbygging hans taki fimm ár.

Alþingi samþykkti fyrir rúmlega tveimur árum náttúruverndaráætlun 2004-2008. Hún er nú til framkvæmdar hjá Umhverfisstofnun og ráðuneytinu. Eitt þeirra fjórtán svæða sem á áætluninni er fjaran við Álftanes og Skerjafjörð. Hún er einkum mikilvæg sem búsvæði fyrir ýmsar fuglategundir, en einnig grunnsævið svo og tjarnasvæði ofan fjörunnar. Skerjafjörður ásamt vogum og víkum gegnir veigamiklu hlutverki vor og haust sem viðkomustaður farfugla. Fuglalífið er fjölbreytt þarna árið um kring og skiptir það miklu máli fyrir fæðuöflun fjölmargra tegunda og sumra í þúsunda tali. Talið er að allt að 2.500 margæsir nýti svæðið árlega og um 3.000 rauðbrystingar auk 3.200 para æðarfugla og hundruða sendlinga, tildra, tjalda, stelka og lóuþræla.Viðræður hafa verið í gangi milli Umhverfisstofnunar, ráðuneytisins og sveitarfélaganna á svæðinu en þau eru Garðabær, Álftanes, Kópavogur, Reykjavík og Seltjarnarnes.

Ég tel mikilvægt að sveitarfélögin sjálf taki ákveðið frumkvæði varðandi afstöðu sína til friðunar Skerjafjarðar. Ná þarf samkomulagi allra sveitarfélaganna og umhverfisyfirvalda, eigi þessi metnaðarfullu fyrirheit að komast í höfn.

Á vegum ráðuneytisins er unnið að því að móta stefnu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni fram til ársins 2010. Höfuðmarkmiðið er að ekki verði gengið á eða dregið úr líffræðilegri fjölbreytni hér á landi með aðgerðum eða landnýtingu. Hluti aðgerða til verndunar líffræðilegri fjölbreytni er friðun svæða, aukin vöktun með tegundum og vistkerfum, eftirlit og varúð við innflutning og dreifingu erlendra tegunda. Stefnumörkunin sem er nær fullbúinn mun ná til alls lífríkis landsins bæði á þurru landi og í hafinu. Forsenda þess að við náum árangri á þessu svið er að við eflum rannsóknir og vöktun lífríkisins og beitum viðeigandi ráðstöfunum til þess að varðveita erfðaefni, tegundir og vistkerfi landsins.

Að síðustu ætla ég að nefna mál sem verið hefur mér hugleikið síðustu mánuðina og verið fyrirferðarmikið í umhverfis- og náttúruverndarumræðu í mörg ár, en þar á ég við friðlandið í Þjórsárverum. Nú er svo komið að fátt er því til fyrirstöðu að friðlandið verði stækkað. Þjórsárver eru meðal helstu náttúrugersema á Íslandi og hafa jafnframt mikið alþjóðlegt verndargildi. Þekking okkar á verndargildi Þjórsárvera hefur vaxið frá þeim tíma sem friðlýsingin var ákveðin 1979 og frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á viðhorfum til náttúruverndar. Framkvæmdir við jaðra friðlandsins síðasta aldarfjórðunginn hafa vakið upp spurningar um æskilegar breytingar á mörkum friðlandsins og einstökum atriðum friðlýsingarinnar.

Í næstu viku mun ég skipa starfshóp sem verður falið að fara yfir málefni Þjórsárvera og gera tillögur um stækkun friðlandsins svo og hugsanlegar breytingar aðrar á mörkum friðlandsins.

Þrátt fyrir vont veður og hávaða úti fyrir vona ég að þessi samráðsfundur ykkar hér í dag verði kyrrlátur og auðvitað gagnlegur og árangursríkur í alla staði.Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum