Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ríkisstjórn samþykkir frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð

Í Skaftafelli
Í Skaftafelli

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi í morgun tillögu Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra að stjórnarfrumvarpi um Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu og mun hafa mikla sérstöðu í náttúrufarslegu tilliti í heiminum. Vatnajökulsþjóðgarður mun þekja um 15.000 km² sem samsvarar um15% af yfirborði Íslands og nær til lands sem varðar stjórnsýslu átta sveitarfélaga.

Samráð við landeigendur

Samkvæmt frumvarpinu mun þjóðgarðurinn í fyrstu ná til alls jökulsins og helstu áhrifasvæða hans, þ.m.t. Jökulsá á Fjöllum. Nákvæm mörk þjóðgarðsins munu þó ráðast endanlega af samningum við landeigendur og handhafa nytjaréttar. Fyrir liggur að töluverður hluti af því landssvæði sem áhugavert er að falli innan Vatnajökulsþjóðgarðs vegna náttúrufars og tengingar við Vatnajökul eru í einkaeign og verða ekki hluti þjóðgarðsins nema til komi samkomulag við landeigendur. Fram hafa farið viðræður við landeigendur þess lands sem áhugavert er talið að verði hluti þjóðgarðsins og verður þeim viðræðum haldið áfram með það fyrir augum að ljúka samningum jafnskjótt og lög um Vatnajökulsþjóðgarð verða að veruleika. Þess er vænst að hægt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð seint á árinu 2007 eða snemma árs 2008.

Lagt er til í frumvarpinu að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs taki mið af alþjóðlegum viðmiðum um þjóðgarða og friðlýst svæði og að verndarstig einstakra svæða þjóðgarðsins miðist við að hefðbundnar nytjar, svo sem beit og veiðar á fuglum, dýrum og vatnafiskum geti farið fram með viðlíka hætti innan þjóðgarðsins og verið hefur.

Skipulag

Vatnajökulsþjóðgarður verður ríkisstofnun sem lýtur sérstakri sjö manna stjórn sem umhverfisráðherra skipar. Þjóðgarðinum verður skipt í fjögur rekstrarsvæði undir stjórn þjóðgarðsvarða sem bera ábyrgð á daglegum rekstri svæðanna. Á hverju svæði verður starfandi sérstakt svæðisráð skipað fulltrúum sveitarfélaga, ferðamálasamtaka og umhverfissamtaka. Verkefni svæðisráðanna verða m.a. að gera tillögu að verndaráætlun og rekstraráætlun fyrir viðkomandi svæði til stjórnar og vera þjóðgarðsverði til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á svæðinu. Fulltrúar heimamanna verða formenn svæðisráðanna og taka sömuleiðis sæti í stjórn þjóðgarðsins.

Net upplýsinga- og þjónustustaða verður byggt upp í þjóðgarðinum. Þjónustunetið mun byggjast á þremur einingum, þ.e. gestastofum sem verða meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins, starfsstöðvum landvarða og upplýsingastöðvum. Nú er gestastofa í Skaftafelli auk þess sem unnið er að byggingu gestastofu í Ásbyrgi stem stefnt er að opna vorið 2007. Lagt er til að fjórar nýjar gestastofur verði reistar til viðbótar, þ.e. ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Landvarsla innan marka þjóðgarðsins er nú á fjórum stöðum en lagt er til að staðirnir verði 11 við stofnun hans.

Áætlað er að uppbyggingin muni kosta 1.150 milljónir króna og er áætlað að sú uppbygging eigi sér stað á fyrstu fimm árum eftir stofnun þjóðgarðsins. Þannig verði þjónustunet þjóðgarðsins fullgert árið 2012. Fyrir liggur að fyrirtæki og félagasmtök eru tilbúin að leggja fram umtalsvert fjármagn til að styrkja uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs á fyrstu árum hans og er lagt til að stofnuð verði sérstök Hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs sem taki við framlögum til þjóðgarðsins.

Fjölgun ferðamanna og efling byggðar

Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur hefur lagt mat á áhrif þjóðgarðsins og þeirra tillagna sem fyrir liggja um uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann telur að þjóðgarðurinn geti fjölgað ferðamönnum til Íslands um 5-7% árið 2012, umfram það sem annars hefði verið, eða um 30-42 þúsund manns og gistinóttum þeirra um 300-400 þúsund. Miðað við það er áætlað að þjóðgarðurinn muni skila 3-4 milljörðum króna í viðbótar gjaldeyristekjur árið 2012 (á núvirði), 70% af því vegna útgjalda ferðamanna innanlands en 30% vegna fargjalda. Árið 2020 telur Rögnvaldur að Vatnajökulsþjóðgarður muni geta skilað a.m.k. 11 milljörðum í auknum gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum. Líkur eru taldar á að tilkoma Vatnajökulsþjóðgarðs muni auka atvinnu- og þjónustutekjur á nærsvæðum þjóðgarðsins um 1,5 milljarða króna á núvirði á árinu 2012.

Ætla má að árið 2005 hafi um 200 þúsund innlendir og erlendir ferðamenn komið á svæðið innan væntanlegra marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Flestir komu í Skaftafell og að Jökulsárlóni en síðan að Dettifossi og Ásbyrgi.

Vandaður undirbúningur og pólitísk samstaða

Undirbúningur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Vorið 1999 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þar sem umhverfisráðherra var falið að kanna möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Í kjölfarið skipaði umhverfisráðherra starfshópa og nefndir sem undirbjuggu stofnun þjóðgarðsins, þar á meðal nefnd sem í sátu fulltrúar þingflokka á Alþingi, þau Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Sú nefnd skilaði ákliti vorið 2004.  Það var síðan í ársbyrjun 2005 sem ríkisstjórnin samþykkti að fela umhverfisráðherra að vinna áfram að undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, m.a. á grundvelli tillagna frá þingmannanefndinni. Var honum falið að vinna þennan undirbúning í nánu samráði við heimamenn og aðra hagsmunaaðila og vinna heildstæðar tillögur fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sem taki til jökulhettunnar og aðliggjandi jaðarsvæða, bæði norðan og sunnan Vatnajökuls.

Sigríður Anna Þórðardóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skipaði nefnd sem í sátu fulltrúar sveitarfélaga sem fara með stjórnsýslu á svæði Vatnajökulsþjóðgarðs og fulltrúi umhverfisverndarsamtaka undir stjórn Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins. Nefndin skilaði tillögum sínum til umhverfisráðherra í síðustu viku.

Á grundvelli þessa undirbúningsstarfs fer málið nú til umfjöllunar á Alþingi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum