Hoppa yfir valmynd
29. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mat á þjónustu við geðfatlað fólk og átak í ráðgjöf og fræðslu

Þjónustusamningur undirritaður við AE starfsendurhæfingu.
Þjónustusamningur undirritaður við AE starfsendurhæfingu.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra undirritaði í félagsmálaráðuneytinu í dag þjónustusamning við AE starfsendurhæfingu um að gera úttekt á þjónustu við geðfatlaða og semja og miðla fræðsluefni.

„Með samningnum er stuðlað að því að geðfatlaðir fái notið sín sem fullgildir borgarar samfélagsins samkvæmt stefnumótun og framkvæmdaáætlun 2006-2010 - átak ráðuneytisins í þjónustu við geðfatlaða,“ segir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra. „Eftir því sem þekking okkar er meiri á því hvernig notendur meta þjónustuna sem veitt er þeim mun betri árangri getum við vænst þess að ná.“

AE starfsendurhæfing sérhæfir sig í starfs- og atvinnuendurhæfingu öryrkja, einkum með áherslu á úrbætur fyrir þá sem búa við geðröskun.

Samningurinn tekur til áranna 2007 og 2008 og felur meðal annars í sér að AE starfsendurhæfing tekur að sér gerð fræðsluefnis um þjónustu við geðfatlaða og miðlun á efninu til starfsmanna svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra. Á fyrri hluta samningstímans verður lögð sérstök áhersla á fjögur svæði úti á landi þar sem þjónusta við geðfatlaða er veitt á vegum ráðuneytisins. Svæðin tengjast Ísafirði, Egilsstöðum, Húsavík og Akureyri. Fræðsluefnið verður byggt á valdeflingu og notendarannsóknum/batarannsóknum, erlendum sem innlendum.

Í úttekt sinni á þjónustu sem veitt er geðfötluðum nýtir AE starfsendurhæfing svokallaða NsN aðferð (Notandi spyr Notanda). Markmið NsN aðferðarinnar er að fá fram hvað það er í þjónustunni sem nýtist notendum vel og hvað síður.

„Þetta eru spennandi tímar vegna þess að nú er í alvörunni verið að gefa geðfötluðum tækifæri á að hafa áhrif bæði á þjónustuna og eins að miðla reynslu sinni,“ segir Elín Ebba Ásmundsdóttir iðjuþjálfi sem undirritaði samninginn ásamt Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa fyrir hönd AE starfsendurhæfingar. „Þetta er framhald á tilraun sem gerð var sumarið 2004, sem Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti og heilbrigðisráðuneytið, þar sem teknar voru út þrjár geðdeildir á Landspítalanum. Þessi tilraun gafst vel og nú er okkur gert kleift að taka út þjónustu sem félagsmálaráðuneytið styrkir út frá sjónarhóli þeirra sem þjónustunnar njóta.“

F.v. Auður Axelsdóttir, Elín Ebba Ásmundsdóttir, Magnús Stefánsson og Dagný Jónsdóttir.Safnað verður upplýsingum um aðstöðu til endurhæfingar og stuðningsþjónustu, framboð á þjónustu, framboð á tækifærum til menntunar og/eða atvinnuþátttöku svo dæmi séu nefnd. Við úttektina mun einnig verða til fræðsluefni sem nýtt verður á námskeiðum fyrir starfsfólk og notendur. Notendur sem vinna við úttektina munu starfa í svonefndu Hlutverkasetri undir handleiðslu sérfræðinga á vegum AE starfsendurhæfingar.

Hlutverkasetur er vinnustaður fagfólks og starfsfólks með reynslu af geðsjúkdómum sem vinnur að starfsendurhæfingu. Auk þess verða stundaðar rannsóknir, framkvæmt gæðaeftirlit á heilbrigðisþjónustu og námskeiðahaldi sinnt auk tengla- og ráðgjafarstarfa, haldnir fyrirlestrar og boðið upp á fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Meginmarkmið Hlutverkaseturs er að efla virkni fólks með geðröskun og skapa því tækifæri til áframhaldandi starfa á almennum vinnumarkaði með eftirfylgd. Þannig eflist sjálfstæði geðfatlaðs fólks, lífsgæði aukast en um leið er aukin verðmætasköpun í samfélaginu og komið í veg fyrir að þetta fólk verði varanlega á örorkubótum.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira