Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2007 Forsætisráðuneytið

Skýrsla nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum

Að tillögu dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra skipaði forsætisráðherra nefnd um viðurlög við efnahagsbrotum 27. október 2004. Skyldi nefndin fjalla um stjórnvaldssektir og önnur viðurlög við efnahagsbrotum og ennfremur hlutverk eftirlitsaðila og verkaskiptingu þeirra á milli. Nefndin lauk störfum 12. október 2006 og hefur skilað skýrslu til forsætisráðherra.

Nefndin leitaðist við að móta ný viðmið um beitingu viðurlaga við efnahagsbrotum, þ.e. hvenær rétt sé að beita stjórnvaldssektum annars vegar og annars konar viðurlögum hins vegar. Þá er í umfjöllun nefndarinnar lagðar fram tillögur um hlutverk og verkaskiptingu eftirlitsaðila, sérstaklega hvað varðar skil á milli þeirra sem beitt geta stjórnvaldssektum og lögreglu og ákæruvalds. Beindist umfjöllun nefndarinnar um hlutverk og verkaskiptingu eftirlitsaðila einkum að Samkeppniseftirlitinu og Fjármálaeftirlitinu og verkaskiptingu þeirra stofnana gagnvart lögreglu og ákæruvaldi.

Tillögum nefndarinnar má skipta í þrennt. Snúa þær í fyrsta lagi almennt að stjórnsýsluviðurlögum og refsingum. Í öðru lagi að viðurlögum við brotum á fjármálamarkaði og í þriðja lagi að viðurlögum við brotum á samkeppnislögum.

Í mörgum tilvikum gerir nefndin tillögur að lagabreytingum og fylgja skýrslu hennar drög að tveimur frumvörpum, annars vegar frumvarpi til laga um breytingar á samkeppnislögum og hins vegar frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði.

Bogi Nilsson skrifaði undir skýrsluna með fyrirvara og skilaði séráliti. Sérálit hans lýtur að efni 7. og 8. kafla skýrslunnar og að nokkru leyti að efni 9. kafla. Jafnframt snertir það 1. kafla skýrslunnar þar sem er að finna almenna umfjöllun um efni í öðrum köflum skýrslunnar.

Skýrsla nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum (pdf)

 

Reykjavík 3. janúar 2007



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta