Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dagur umhverfisins 25. apríl

Samkoma umhverfisráðuneytisins á Kjarvalsstöðum hefst klukkan 12:00 með ávarpi Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra. Þá verða veittar viðurkenningar í verkefnasamkeppni grunnskólanna, Varðliðar umhverfisins. Keppnin er samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur. Tilgangur keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði. Þá mun umhverfisráðherra veita viðtöku fyrsta eintaki fræðsluritsins Skref fyrir skref. Ritið er samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins og Landverndar. Ritinu er ætlað að vera leiðarvísir að því sem hvert og eitt okkar getur gert til að skapa vistvænni heim og heilsusamlegra umhverfi. Umhverfisráðherra mun einnig opna umhverfisvefinn Natturan.is, en á honum verður að finna ítarlegar upplýsingar um umhverfisvottuð fyrirtæki, vörur og þjónustu. Að lokum mun umhverfisráðherra veita Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, því fyrirtæki sem er talið hafa staðið sig vel á sviði umhverfismála á liðnu ári.

Umhverfisráðuneytinu hefur verið tilkynnt um fleiri viðburði í tilefni dagsins. Þeir eru:

 • Hrafnaþing Náttúrufræðistofnunar kl. 12:15 í sal Möguleikhússins á Hlemmi.
 • Félag umhverfisfræðinga með framboðsfund í Öskju kl. 16:30.
 • Umhverfisvefurinn Natturan.is með kynningu í Kringlunni frá kl. 14:00.
 • Fræðslufundur í Sesseljuhúsi kl. 17:30.
 • Umhverfisnefnd Borgarbyggðar og félagsmiðstöðin Óðal bjóða í bíó á myndina ,,An inconvenient truth" kl. 17:30.
 • Umhverfisnefnd Eyjafjarðar efnir til fræðslufundar um umhverfismál kl. 20:00.
 • Stofnfundur Landgræðslufélags Framsveitar fer fram í Grundafirði kl. 20:00.
 • Opið hús í Samkomuhúsinu í Grundafirði frá kl. 16:00 til 20:00. Kynning á ýmsu er tengist umhverfismálum.
 • Orkusetur opnar nýjan loftslagsvef.
 • Gámaþjónusta Vestfjarða og Sorpbrennslustöðin Funi bjóða krökkum frá Ísafirði og Bolungarvík í heimsókn.
 • Ferðaþjónusta bænda, Landgræðsla ríkisins og Skógræktarfélag Íslands hefja samstarfsverkefni í gróðursetningu og uppgræðslu.
 • Námsgagnastofnun hefur tekið saman efni um orku- og loftslagsmál og sett á vef stofnunarinnar.
 • Hekla hf. mun afhenda Sorpu sjö nýja Volkswagon Caddy metanbíla.

  Frekari upplýsingar um þessa viðburði má nálgast hér.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira