Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2007 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samþykkt ríkisstjórnarinnar á nýrri yfirlitskrá yfir framtíðartilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO og skipan nýrrar heimsminjanefndar Íslands

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu menntamálaráðherra og umhverfisráðherra að nýrri yfirlitsskrá yfir fyrirhugaðar tilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu menntamálaráðherra og umhverfisráðherra að nýrri yfirlitsskrá yfir fyrirhugaðar tilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO. Eftirtaldir staðir eru nú á yfirlitsskrá Íslands:

Náttúru- og menningarminjar: Breiðafjörður

Náttúruminjar: Þingvallasvæðið; Vatnajökulsþjóðgarður; Mývatn; Atlantshafshryggurinn - (alþjóðleg raðtilnefning þar sem Ísland yrði hugsanlega í forsvari í samstarfi m.a. við England, Portúgal, Noreg, Spán og fleiri lönd).

Menningarminjar: Íslenskar torfbyggingar ásamt tengdu búsetulandslagi - (raðtilnefning); Víkingaminjar (alþjóðleg raðtilnefning þar sem Ísland verður í forsvari í samstarfi við m.a. Danmörku, Svíþjóð, Þýskaland (Slésvík-Holstein), Kanada og fleiri lönd).

Sérhverju aðildarríki UNESCO samningsins um verndun menningar- og náttúruminja heims ber, skv. 11. gr. samningsins, að leggja fyrir Nefnd um arfleifð þjóða heims yfirlitsskrá yfir menningar- og náttúruminjar sem viðkomandi ríki telur einstakar á heimsvísu. Tilnefningar á heimsminjaskrána eru gerðar á grundvelli yfirlitsskránna og skulu þær endurskoðaðar á nokkurra ára fresti.

Heimsminjanefnd Íslands, sem menntamálaráðherra skipaði 3. febrúar 2005, vann að endurskoðun yfirlitsskrárinnar, m.a. með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur af þeim tveim tilnefningum, sem Ísland hefur lagt fyrir heimsminjanefnd UNESCO. Enn fremur hefur við endurskoðunina verið horft til Búdapest yfirlýsingar heimsminjasamningsins frá árinu 2002, þar sem fjallað er um nauðsyn þess að efla trúverðugleika heimsminjalistans með því að auka jafnvægið innan hans, tryggja verndun heimsminjastaða, efla þekkingu og færni þeirra sem vinna með samninginn og auka meðvitund og stuðning almennings við verndun heimsminja.

Á undanförnum árum hefur áhersla verið lögð á raðtilnefningar staða sem ná yfir fleiri en eitt ríki, fjölgun náttúruminjastaða og að þjóðir þriðja heimsins fái fleiri staði á heimsminjalistann, auk þess sem áhersla er lögð á tilnefningar færri og stærri staða.

Heimsminjanefnd Íslands, sem menntamálaráðherra skipaði 12. maí 2007, fjallaði um drög að nýrri yfirlitsskrá á fyrsta fundi sínum 31. júlí sl. og samþykkti þau fyrir sitt leyti

Í hinni nýju heimsminjanefnd Íslands sitja Sæunn Stefánsdóttir viðskiptafræðingur, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sem jafnframt er formaður.

Hlutverk nefndarinnar er að vera vettvangur stjórnvalda um framfylgd samnings UNESCO frá árinu 1972 um menningar- og náttúruarfleifð heimsins, sem staðfestur var af Íslands hálfu árið 1995. Helsta verkefni nefndarinnar, sem starfar í umboði og á ábyrgð menntamálaráðherra, er undirbúningur að tilnefningu íslenskra staða á heimsminjaskrá og að gera tillögu til menntamálaráðherra um framtíðarskipan verkefna á sviði heimsminjamála. Í störfum sínum skal heimsminjanefnd hafa samráð við ráðuneyti, stofnanir og aðra þá sem að heimsminjamálum koma.

Hin nýja nefnd kemur í stað fjögurra manna heimsminjanefndar Íslands sem starfaði sem samráðshópur ráðuneyta og stofnana þeirra. Starfsmaður heimsminjanefndar verður Ragnheiður H. Þórarinsdóttir sérfræðingur menntamálaráðuneytis í menningararfsmálum. Skipunartími nefndarinnar er til tveggja ára.

Þingvellir eru eini staðurinn á Íslandi sem er á heimsminjaskrá UNESCO enn sem komið er. Umsókn Íslands um Surtsey á heimsminjaskrá verður tekin fyrir af UNESCO á næsta ári.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira