Hoppa yfir valmynd
25. september 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tímamóta samkomulag um losun ósoneyðandi efna

Ósonlagið yfir Suðurskautinu
Ósonlagið yfir Suðurskautinu

Fulltrúar 191 ríkis hafa náð samkomulagi um að hætta notkun ósoneyðandi efna fyrr en áður var áætlað. Samkomulag þess efnis var gert á ráðstefnu í Montreal í tilefni tuttugu ára afmælis Montreal-bókunarinnar um ósoneyðandi efni, sem lauk um helgina.

Upphaf þessa máls má rekja til þess að sex ríkjahópar lögðu fram tillögur að breytingum á Montrealbókuninni, um að frestur til að hætta notkun vetnisklórflúorkolefna, svonefndra HCFC efna, yrði styttur um tíu ár. Ísland, Noregur og Sviss skipuðu einn þessara sex ríkjahópa.

Ástæða þess að bókunin var lögð fram er sú að síðustu fimm ár hefur framleiðsla þessara efna margfaldast í þróunarlöndunum og séð var fram á að endurmyndun ósonlagsins myndi tefjast ennfrekar vegna þess.

HCFC efni eru notuð til loftkælingar og í kælitæki og eru ósoneyðandi auk þess sem þau eru mjög virk gróðurhúsalofttegund. Samkomulagið er þannig líka liður í því að draga úr loftslagsbreytingum af manna völdum.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar á fundinum studdu tillöguna og hvöttu til þessarar niðurstöðu. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) segir samþykkt hennar sögulega. Samkvæmt samkomulaginu hafa iðnríkin nú frest til 2020 til að hætta notkun þessara efna en ekki 2030 eins og áður og þróunarríki hafa frest til 2030 en ekki 2040.

Frétt Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna um samkomulagið.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum