Hoppa yfir valmynd
1. janúar 2008 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp forsætisráðherra 2007

Gott kvöld, góðir Íslendingar, og gleðilega hátíð.

Í kvöld líður árið 2007 í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, eins og segir í sálmi sr. Valdimars Briem, sem við raulum flest á þessu kvöldi, annað hvort í kirkju eða heima í stofu. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár í stjórnmálum og efnahagsmálum en á heildina litið gott ár og gjöfult. Yfir því getum við glaðst á þessum tímamótum.

Áramót eru mikilvæg áfangaskipti. Okkur er tamast að hugsa í árum og mannsævin er það tímaskeið sem við hvert og eitt náum að fanga með skynjun okkar. En það er á hinn bóginn athyglisvert hvernig manninum hefur tekist að tengja tímabil mismunandi kynslóða saman og gera úr samfellda sögu með munnlegri geymd, frásögnum sem hinir ungu hafa numið af hinum eldri.

Mér kom þetta í hug við lestur minningaþátta Ásgeirs Péturssonar fyrrverandi sýslumanns, sem út komu í fyrra. Ásgeir segir m.a. frá því þegar hann dvaldi í Odda á Rangárvöllum veturinn 1934 - 5. Á bænum bjó móðir prestsins, Jakobína Jóhannsdóttir, sem var fædd 1849, vel ern þótt hálfníræð væri. Hún sagði heimilismönnum frá hörmungum móðuharðindanna 1783 - 5 sem hún hafði eftir ömmu sinni er lifði þá tíma. Það er ótrúlegt að nú í upphafi 21. aldar sé enn á meðal okkar fólk, eins og Ásgeir, sem getur sagt frá atburðum fyrir meira en 220 árum í gegnum aðeins einn ættlið.

Það er nefnilega svo að við Íslendingar erum ekki aðeins rík af veraldlegum auði heldur er saga okkar mikill fjársjóður sem endalaust má ganga í og ausa af til þess að næra andann. Hið sögulega minni þjóðarinnar hefur ætíð verið henni hjartfólgið og þarf að varðveita því þjóð án sögu er snauð þjóð.

Önnur gersemi okkar, landið og náttúra þess, er mörgum hugleikin um þessar mundir og er það vel. Fyrri kynslóðum var þó tamara að tala um hve óblíð hún gat verið, og vissulega er svo enn, en okkar kynslóð er þó fegurð íslenskrar náttúru nærtækust. En fegurðin er ekki hið eina sem íslensk náttúra veitir okkur. Hún er jafnframt undirstaða og lífsgrundvöllur okkar, uppspretta auðs og framfara. En eins og um allt annað gildir hér að vel sé með farið. Lykilorð okkar tíma er sjálfbærni, sjálfbær þróun og nýting, og á jafnt við um auðlindir sjávar sem aðrar. Það felur í sér að taka ekki meira en undirstaðan þolir, eða eins og oft var sagt áður, skerða ekki höfuðstólinn. Við Íslendingar erum gæfuþjóð að þessu leyti. Okkur hefur auðnast að byggja á þessari gullvægu reglu með nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það eru ekki margir áratugir síðan dökkur kolareykurinn grúfði yfir byggðum landsins og engin var hitaveitan. Víða er litið til Íslands um fyrirmyndir til að byggja upp heillavænlega nýtingu auðlinda. Þeir sem hafa ferðast um stór þróunarlönd, t.d. í Asíu eða Afríku, hafa séð hvað orðið "mengun" raunverulega merkir - hvílíkan óraveg margar slíkar þjóðir eiga því miður ófarinn til að komast nærri okkur í náttúruvernd og mengunarvörnum. Nauðsynlegt er að gæta að þessari heildarmynd þegar um þessi mál er rætt.

Ný skýrsla vísindamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna staðfestir að hitaaukning í heiminum frá miðri síðustu öld sé að mestu leyti af mannavöldum. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí nú í desember náðist samkomulag um að hefja samningaviðræður um mótun nýs samnings sem taka á við af Kýótó-bókuninni árið 2012. Öll ríki heims verða að leggja sitt af mörkum. Það munum við einnig gera.

Íslendingum er metnaðarmál að standa sig vel í alþjóðlegum samanburði og vilja vera í fararbroddi sem víðast. Nýlega var birtur nýr "lífskjaralisti" Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem á eru 177 þjóðir. Lífskjaravísitalan á að vera mælikvarði á lífsgæði í hverju landi og byggist á þremur meginstoðum: meðalaldri, menntun og landsframleiðslu á mann, stoðum sem að sjálfsögðu eru settar saman úr ótal þáttum hver fyrir sig. Og á þessum lista er Ísland nú í 1. sæti. Þetta er sannarlega góð einkunnagjöf um þá stefnu sem við höfum fylgt undanfarna áratugi. Slíkur árangur næst ekki á skömmum tíma, hann er samspil og afrakstur langrar en markvissrar þróunar.

Niðurstöður svokallaðrar PISA-rannsóknar, sem birtir alþjóðlegan samanburð á frammistöðu grunnskólanemenda, voru okkur ekki eins hagstæðar. Þá niðurstöðu ber að líta á sem áskorun um að gera betur. Menntamálaráðherra hefur þegar lagt fyrir Alþingi frumvörp sem móta nýja menntastefnu allt frá leikskóla að háskóla. Kapp verður lagt á að efla menntakerfið íslenska samhliða því sem enn meiri áhersla verður lögð á efla vísinda, rannsóknir og tækniþróun.

Efnahagur okkar Íslendinga stendur traustum fótum. Við höfum fulla ástæðu til að trúa því að svo verði áfram. Við höfum búið í haginn með margvíslegu móti, t.d. í hinum geysiöflugu lífeyrissjóðum landsmanna, sem eru öðrum þjóðum fyrirmynd. Ég bendi einnig á margra tuga milljarða afgang á ríkissjóði ár eftir ár og fleira mætti nefna. Undirstaða þjóðarbúsins hefur verið treyst þannig á undanförnum árum að hagur okkar á ekki að skekjast á þeim grunni að neinu verulegu marki ef fram er haldið með fyrirhyggju og ráðdeild.

Framundan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði og þar með mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum Íslendinga. Reynsla undanfarinna ára vekur sannarlega vonir um framhald farsællar stefnu. Í forystusveit launamanna og vinnuveitenda er ábyrgt fólk sem hefur lært það af reynslunni að hóflegir kjarasamningar sem byggja á traustu atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum leiða til mestra kjarabóta. Allar mælistikur sem hægt er að nota sýna okkur það og sanna. Með ábyrgri stefnu má framlengja það framfaraskeið sem við höfum verið á. Ríkisstjórnin er fús til að koma að því borði eftir því sem nauðsyn krefur.

Kæru landsmenn.

Á næsta ári verða liðin 100 ár frá fæðingu Bjarna Benediktssonar fyrrverandi forsætisráðherra. Hann var í hópi allra fremstu stjórnmálaforingja Íslendinga á síðustu öld en féll frá með sviplegum hætti á hátindi ferils síns. Bjarni var í senn fræðimaður, framkvæmdamaður og stjórnmálamaður - þjóðarleiðtogi. Það er sannarlega ástæða til að minnast Bjarna Benediktssonar, ævi hans og afreka, á þessum tímamótum. Stefnufesta hans á viðsjálum tímum er mikilvægur lærdómur fyrir yngri kynslóðir sem og sú trú hans að landsstjórnin verði að byggjast á sátt og sanngjarnri málamiðlun.

Á liðnu hausti átti ég þess kost, ásamt konu minni, að heimsækja páfagarð. Það varð okkur ákaflega minnisstæð ferð. Ekki það eitt að eiga fund með páfanum, þeim sem nú fer með embættisstaf sjálfs Péturs postula og er trúarleiðtogi um þúsund milljóna manna, heldur líka að ganga um gáttir þess veraldarundurs sem Vatikanið og hallir þess eru. Þar snertir maður söguna við hvert fótmál. Kaþólska kirkjan er tæplega 2000 ára gömul stofnun og oft hefur um hana blásið. En henni hefur líka fylgt mikil blessun, hún er sterk og á djúpar rætur. Margir landar okkar eru kaþólskir og hafa hér öflugan söfnuð, sem margt gott hefur látið af sér leiða. Við heilsum nýjum kaþólskum biskupi, sem vígður var fyrr í þessum mánuði, og óskum honum heilla í starfi.

Ef einhver einn samtímamaður hér á landi verðskuldar að kallast trúarleiðtogi þjóðarinnar, þá er það herra Sigurbjörn Einarsson biskup, sem nú er hátt á tíræðisaldri og guð hefur gefið svo úthaldsgóðan andlegan þrótt að furðu sætir. Það var vel ráðið að veita honum verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Orðkynngi Sigurbjörns í ræðu og riti er löngu þekkt. Þar fer saman trúarvissa og kjarngott íslenskt mál. Í orðum sínum við verðlaunaveitinguna bar hann fram sem sterkasta vopn gegn upplausn og firringu nútímans þau heilbrigðu viðhorf sem íslenskt alþýðufólk hafði á uppvaxtarárum hans í Meðallandinu. Og svo bætti gamli biskupinn við: "Mín trú bannar mér að vera bölsýnn og hamlar gegn því á allan hátt". Þessara orða mættu sem flestir minnast og kannski ekki síst þeir sem um þessar mundir vilja gert sem minnst úr áhrifum kristninnar í samfélagi okkar. Kristin trú hefur ævinlega verið þjóðinni kær, eins og alltaf kemur glöggt í ljós á þessum árstíma, og þannig verður það áfram.

Sem betur fer er það einnig svo að íslensk tunga stendur styrkum fótum meðal okkar. Hún nærist af mörgu, en eitt hið mikilvægasta er framlag skálda og rithöfunda. Þeir viðhalda frjómagni hennar, þroska hana, dýpka og þróa. Það er vissulega gleðilegt hve margt ungt fólk kýs að tjá hugsun sína og tilfinningar í ljóðum og lausu máli. Þar er ekkert lát á. Sumir fylgja gömlum siðum, aðrir feta nýja slóð og enn öðrum tekst að tengja saman gamalt og nýtt. Á aðventunni fara skáldin á kreik og senda okkur nýjustu verkin sín.

Bók Þórarins Eldjárns, Fjöllin verða að duga, er athyglisverð og skemmtileg, eins og hans er von og vísa. Hann bindur saman gamlar hefðir og nýjar og leikur á margræðni málsins. Ég tek hér upp kvæðið "Sól heima" sem ort var til vina okkar að Sólheimum í Grímsnesi og hljóðar svo:

Þar sem sólin á heima

vaxa regnbogar

í rekjunni

Litrófið allt

dafnar og vex

óskir

spretta

og þroskast

í skjóli.

Í griðastað

eru smíðuð

sóknarfæri.

Hér á sólin heima.

Sólin er heima.

Þetta stutta ljóð er okkur áminning um nauðsyn þess að búa öllum tækifæri við hæfi - því allir skipta máli í okkar litla samfélagi.

Góðir Íslendingar.

Sérhver þjóð á sér merki og tákn um stöðu sína og samheldni. Fáninn er eitt þeirra en annað er þjóðsöngurinn. Hann hefur reynst mörgum þungur í skauti í söng og segja má að það hafi spillt nokkuð fyrir almennri notkun hans. Af þeim sökum beitti forsætisráðuneytið sér fyrir því, í samvinnu við fagmenn, að koma á framfæri nýrri og meðfærilegri útgáfu þjóðsöngsins til hliðar við hina eldri. Ég vona að vel hafi til tekist og að hið volduga og fagra lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar heyrist sungið við fleiri tækifæri en áður.

Þjóðsöngurinn okkar, lofsöngur sr. Matthíasar til Guðs vors lands og íslensku þjóðarinnar, er sjaldan sunginn allur, en hann hittir sannarlega þann streng í brjóstum okkar sem slíkur söngur á að snerta:

"Íslands þúsund ár,

verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,

sem þroskast á guðsríkis braut."

"Íslands þúsund ár,

voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,

sem hitna við skínandi sól."

Með þessum brotum úr þriðja og öðru erindinu í sálmi Matthíasar Jochumssonar óska ég öllum landsmönnum gleðilegs árs og friðar. Megi öll tár hitna við skínandi sól að morgni nýs árs.

Góðar stundir.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira