Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Alþjóðlegi votlendisdagurinn

Þjórsárver
Þjórsárver

Alþjóðlegi votlendisdagurinn er í dag, 2. febrúar. Ramsarsamningurinn um votlendi var undirritaður þennan dag árið 1971 í írönsku borginni Ramsar. Nú eru 158 ríki aðilar að samningnum og 1.717 votlendissvæði eruð friðuð samkvæmt honum. Ísland gerðist aðili að samningnum árið 1977 og nú eru þrjú Ramsarsvæði hér á landi; Þjórsárver, Grunnafjörður og Mývatn og Laxá.

Heimasíða Ramsarsamningsins.

Ramsarsvæði

Votlendi er samheiti yfir fjölda vistgerða eða búsvæða sem eru á mörkum lands og vatns. Margar skilgreiningar finnast á votlendi en vanalega eru vötn og grunnsævi, mýrar og ár flokkuð sem votlendi á Íslandi. Vatn er grunnforsenda fyrir lífi og gerir manninum mögulegt að nýta landið. Votlendi er einnig mikilvæg náttúruauðlind og forsenda fyrir ríkulegu og fjölbreyttu gróðurfari og dýralífi. Votlendi er meðal þeirra vistkerfa á jörðinni þar sem framleiðni er mest og það er jafnframt uppvaxtarsvæði fyrir fjölda tegunda, þar á meðal tegunda sem hafa efnahagslega þýðingu.

Ramsarsamningurinn er fyrsti alþjóðasamningur sinnar tegundar sem fjallar um vernd og nýtingu ákveðinna búsvæða eða vistkerfa. Ástæður þess að samningurinn var gerður voru áhyggjur af fækkun í mörgum fuglastofnum anda og gæsa og annarra votlendisfugla og að stöðugt var gengið á búsvæði þeirra. Aðaláherslan, í vinnu Ramsarskrifstofunnar, hefur verið að vernda þau votlendissvæði sem eftir eru í heiminum. En samtímis hefur mönnum orðið ljóst hversu mikla þýðingu votlendi hefur fyrir afkomu manna. Meiri áhersla hefur því í seinni tíð verið lögð á fræðslu um hvernig hægt er að nýta votlendissvæði án þess að raska þeim. Verndun og skynsamleg nýting er því lykilhugtök í Ramsarsamningnum.

Eitt af skilyrðum Ramsarsamningsins er að löndin tilnefni og verndi votlendi sem hafa alþjóðlegt mikilvægi. Svæðin eru valin eftir ákveðnum viðmiðum. Meðal þess sem er skoðað er hvort ákveðin gerð af votlendi er sjaldgæf á tilteknu svæði og hvort þar eru sjaldgæfar plöntur eða dýr. Einnig þarf votlendið að vera búsvæði fyrir minnst 20.000 votlendisfugla eða vera búsvæði fyrir meira en eitt prósent af ákveðnum fuglastofni en þá telst það vera mikilvægt á alþjóðavísu. Á síðustu árum hafa einnig verið lögð fram viðmið í samningnum sem skilgreina votlendissvæði sem alþjóðlega mikilvæg með tilliti til fiskistofna.

Íslensk Ramsarsvæði

Þrjú Ramsarsvæði eru á Íslandi. Mývatn og Laxá voru vernduð með sérlögum árið 1974 og samþykkt sem Ramsarsvæði þremur árum seinna árið 1977. Mývatn og Laxá er frjósamasta ferskvatnskerfi alls landsins. Samtals er Ramsarsvæðið um 200 km2. Mývatn og Laxá samanstanda af frekar grunnu vatni með mörgum eyjum og hólmum, vatns og árbökkum, mýrum og flæðiengjum. Fuglalíf er þar mjög fjölbreytt. Mývatnssveit er einnig þekkt fyrir einstakar jarðfræðiminjar.

Þjórsárver voru gerð að friðlandi árið 1981 og samþykkt sem Ramsarsvæði 1990. Friðlandið er alls um 365 km2 og gróðurlendi um 93 km2 en þar af er votlendi um helmingur. Í Þjórsárverum

er að finna fjölbreyttasta rústasvæði landsins sem er sjaldgæft landslagsfyrirbæri sem verður til þegar ískjarni myndar stórar þúfur, rústir, í mýrlendi. Þjórsárver eru tegundaauðugasta hálendisvin landsins sem þekkt er og þar eru flestir hópar lífvera, s.s. um 180 tegundir háplantna, um 225 tegundir mosa, um 145 fléttutegundir og tegundafjöldi skordýra, köngulóa og langfætlna er um 290. Refastofninn í Þjórsárverum er ekki stór en refur sést þar allt árið. Þjórsárver eru mjög mikilvæg fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Grunnafjörður var gerður að friðlandi árið 1994 og samþykktur sem Ramsarsvæði 1996, alls 14,7 km2. Er fjörðurinn eina Ramsarsvæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Víðlendar leirur eru í Grunnafirði og má segja að fjörðurinn sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður. Leirur eru gjarnan auðugar af burstaormum svo sem sandmaðki og leiruskera og fer það eftir seltumagni hvaða tegund er ríkjandi. Nokkuð er um krækling og sandskel, fjöruflær og lónafló eru algengar. Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur, byggja tilveru sýna á lífríki leiranna. Í firðinum halda til margir æðarfuglar. Margæs hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna vor og haust en fjörðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir ýmsa fargesti auk margæsar, t.d. rauðbrysting. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Um ósinn synda laxar á leið í Laxá í Leirársveit.

Þrátt fyrir að aðeins séu þrjú Ramsarsvæði á Íslandi eru mörg svæði sem mundu uppfylla viðmið sem alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði samkvæmt Ramsarsamningnum. En meðal þeirra viðmiða sem litið er til er votlendisgerðin, tegundir dýra og plantna, fjöldi votlendisfugla og fjöldi fugla af ákveðinni tegund. Í náttúruverndaráætlun 2004-2008 sem lögð var fram á Alþingi sem þingsályktunartillaga er m.a. lagt til að vernda 7 búsvæði fugla en þar af eru 5 votlendissvæði. Við Álftanes-Akra og Löngufjörur á Vesturlandi eru mikilvæg búsvæði margæsar, hafarnar og rauðbrystings og fjölda annarra fuglategunda. Álftanes og Skerjafjörður á Suðvestur horni landsins eru einnig einn helsti viðkomustaður margæsar. Í Austara-Eylendinu í Skagafirði og í Öxarfirði eru mikil flórgoðavörp og í Guðlaugstungum er mikið heiðagæsavarp. Um öll svæðin gildir að þau eru mikilvægi búsvæði fyrir fjölda annarra tegunda dýra og plantna. Rætt hefur verið um að næstu Ramsarsvæði á Íslandi verði Eyjabakkar og Guðlaugstungur.

Hér má nálgast bækling um Ramsarsamninginn og votlendissvæði á Norðurlöndum sem Umhverfisstofnun og Norræna ráðherranefndin gaf út.  

Endurheimt votlendis

Á síðustu öld jókst þörfin fyrir landbúnaðarvörur mikið á Íslandi. Allt frá 1923 í kjölfar nýrra jarðræktarlaga og með tilkomu stórvirkra vinnuvéla á fimmta áratug síðustu aldar urðu miklar breytingar á nýtingu mýrlendis. Mikil framræsla mýrlendis hófst á þessu tímabili og var hún styrkt úr opinberum sjóðum. Frjósamar láglendismýrar voru ræstar fram til túngerðar en víða voru mýrar ræstar fram til að auka beitiland. Í sumum landshlutum svo sem á Suðurlandi milli Markarfljóts og Þjórsár eru aðeins um 3 % mýrlendis óraskað. Vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu gefst nú tækifæri til að endurheimta eitthvað af því votlendi sem hefur tapast.

Endurheimt votlendis er liður í almennri náttúru- og landslagsvernd. Með endurheimt votlendis er leitast við að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir fjölbreyttara gróður og dýralíf sem áður ríkti. Ýmsar framkvæmdir, s.s. vegagerð og sorpurðunarstaðir, hafa raskað  votlendissvæðum. Reynt hefur verið að bæta fyrir þá röskun með endurheimt votlendis í samvinnu við framkvæmdaraðila. Fjöldi einstaklinga hefur einnig lagt til land til að endurheimta votlendi. Endurheimt votlendis getur aukið útivistargildi svæða. Þau verða áhugaverðari til fuglaskoðunar og skilyrði geta skapast til veiða á fugli og fiski.

Hér má nálgast skýrslu Votlendisnefndar um endurheimt votlendis 1996-2006. Landbúnaðarráðuneytið gaf út. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum