Hoppa yfir valmynd
24. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Dagur barnsins 25. maí

Vítt um land munu börn og foreldrar gera sér glaðan dag saman á degi barnsins, sunnudaginn 25. maí. Í Ráðhúsi Reykjavíkur hefst skemmtidagskrá kl. 14.00.

Ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að árlega skuli haldinn sérstakur dagur barnsins hefur verið vel tekið. Vítt um land hafa sveitarfélög skipulagt ýmis konar dagskrá og viðburði til að gera daginn sem ánægjulegastan og efna til ánægjulegra samverustunda barna, foreldra og allra annarra sem vilja gleðjast með börnunum í tilefni dagsins.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur staðið að undirbúningi dagsins og fengið til liðs við sig auk sveitarfélaganna Umboðsmann barna og Biskupsstofu auk ýmissa félaga og samtaka.

Á heimasíðunni www.dagurbarnsins.is eru upplýsingar um fjölmarga viðburði sem efnt verður til um allt land sunnudaginn 25. maí og þar er meðal annars hægt að skoða tillögur barna um einkennismerki dagsins og einnig tillögur um auðkennisstef dagsins en efnt var til samkeppni um hvoru tveggja.

Verðlaun fyrir fallegasta merkið og skemmtilegasta stefið verða veitt í Ráðhúsi Reykjavíkur á degi barnsins kl. 14.00. Dorrit Moussaieff forsetafrú sem er verndari dagsins mun afhenda verðlaunin. Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpar gesti og sitthvað verður til gamans gert. Flutt verður atriði úr Skilaboðaskjóðunni, Barnakór Kársnesskóla syngur og krakkar úr Lúðrasveit Seltjarnarness spila nokkur lög.

Setjum börnin í forgang og njótum gleði og samveru á þessum degi barnsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum