Hoppa yfir valmynd
11. september 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisstefna umhverfisráðuneytisins

Við undirritun umhverfisstefnu ráðuneytisins.
Undirritun umhverfisstefnu

Umhverfisráðuneytið hefur sett sér umhverfisstefnu og stefnir að því að verða í fararbroddi í vistvænum rekstri. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri undirrituðu stefnuna í dag.

Samkvæmt umhverfisstefnunni mun ráðuneytið meðal annars halda grænt bókhald og gefa út ársskýrslur um stöðu umhverfismála í ráðuneytinu. Sérstakt umhverfisteymi mun fylgjast með framkvæmd stefnunnar og eftir atvikum koma með ábendingar um endurskoðun hennar. 

 

UMHVERFISSTEFNA UMHVERFISRÁÐUNEYTISINS

 

Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi ráðuneytisins til að auka gæði og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi. Umhverfisráðuneytið verði í fararbroddi í vistvænum rekstri. 

Ráðuneytisstjóri er ábyrgur fyrir framkvæmd umhverfisstefnunnar.  Stefnan er stöðugt í endurskoðun og framfylgt í samráði við starfsmenn.  Umhverfisteymi starfar í ráðuneytinu og er teymið tengiliður varðandi framkvæmd stefnunnar. Teymið skal fylgjast með framkvæmd stefnunnar og eftir atvikum koma með ábendingar um endurskoðun hennar.

Sérhver  starfsmaður ráðuneytisins framfylgir umhverfisstefnunni og hefur hana að leiðarljósi í öllu starfi sínu. Hver og einn stafsmaður sýnir gott fordæmi og leggur sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar.

Leiðarljós við framkvæmd umhverfisstefnu ráðuneytisins:

 • Ráðuneytið uppfyllir lög og reglugerðir sem eiga við um starfsemi þess.
 • Ráðuneytið veitir almenningi upplýsingar um umhverfismál og starfsemi ráðuneytisins.
 • Upplýsingar um framkvæmd umhverfisstefnunnar eru birtar og stefnan er sýnileg og er öðrum hvatning til þess að leggja sitt af mörkum til að vernda umhverfið.
 • Haldið er grænt bókhald og gefin út skýrsla árlega um stöðu umhverfismála í ráðuneytinu.
 • Starfsmenn fá reglulega fræðslu um umhverfismál.
 • Starfsmönnum eru tryggð heilsusamleg og örugg starfsskilyrði.
 • Stöðugt er unnið að því að bæta nýtingu hvers kyns aðfanga sem notuð eru í starfsemi ráðuneytisins.
 • Notaðar eru umhverfismerktar vörur.
 • Stöðugt er unnið að því að draga úr myndun úrgangs og stuðlað að endurnýtingu og endurvinnslu hans. Jafnframt er öðrum úrgangi fargað á viðeigandi hátt.
 • Orkunotkun er haldið í lágmarki og leitast við að draga úr mengun í starfsemi ráðuneytisins.
 • Einnota borðbúnaður er ekki notaður.
 • Unnið er að því að koma á vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi og stefnt er að vottun eigi síðar en í mars 2011.
 • Umhverfisstefnan er í stöðugri þróun og endurskoðuð a.m.k. á þriggja ára fresti.   


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira