Hoppa yfir valmynd
2. október 2008 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða forsætisráðherra á Alþingi 2008

Ensk þýðing - english translation

Herra forseti, góðir Íslendingar.

Í upphafi ræðu minnar vil ég senda hæstvirtum utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, bestu kveðjur þar sem hún dvelur á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum eftir læknisaðgerð. Frá því að við Ingibjörg Sólrún mynduðum ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á Þingvöllum í fyrravor hefur samstarf okkar verið með miklum ágætum og persónulegur trúnaður og traust á milli okkar dýpkað. Ég mæli fyrir hönd þingheims alls þegar ég óska þess að utanríkisráðherra nái sem fyrst fullum bata og snúi aftur til starfa.

Góðir Íslendingar.

Samkvæmt þingsköpum Alþingis var stefnuræðu minni dreift til þingmanna með nokkrum fyrirvara. Hefð er fyrir því að í stefnuræðu forsætisráðherra sé að finna heildstætt yfirlit um störf og áherslur ríkisstjórnarinnar til að um þær geti farið fram málefnalegar og gagnlegar umræður hér á Alþingi. Ég vona að mér leyfist, herra forseti, að víkja nokkuð frá þeim skrifaða texta sem dreift var til þingmanna. Ég veit að þingheimur hefur skilning á því í ljósi þeirra sviptinga orðið hafi í efnahagslífi landsmanna á síðustu dögum.

Staða efnahagsmála hér á landi hefur á skömmum tíma breyst mjög til hins verra og fullyrða má að íslensk stjórnvöld, íslensk fyrirtæki og heimilin, fólkið, í landinu hafi sjaldan staðið frammi fyrir jafn miklum erfiðleikum og nú blasa við. Eftir blómlega uppgangstíma er skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skellur nú Íslandsströndum af miklu afli. Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.

Við horfum fram á að íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu. Þurrausnar lánalindir gera íslenskum fyrirtækjum afar erfitt fyrir og þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni og uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg. Hagnaður íslenskra fyrirtækja hefur verið ævintýri líkastur og hafa hluthafar notið góðs af. Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.

Það sem mest svíður er þó hin óhjákvæmilega lífskjaraskerðing sem almenningur í landinu stendur frammi fyrir. Á undanförnum árum höfum við Íslendingar notið þess að búa við bestu lífskjör sem fyrirfinnast í heiminum. Við gerum öll kröfu um það besta og þannig á það að vera. En íslenska þjóðin er ekki samansafn af óhófslýð sem heldur að verðmæti og góð lífskjör falli af himnum ofan. Íslenska þjóðin veit að leiðin til velmegunar er vörðuð erfiðum hindrunum og íslenska þjóðin er það sem hún er í dag vegna þess að hún hefur tekist á við erfiða tíma og sigrast á þeim.

Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú. Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stórsjó sem þjóðarskútan siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu.

Góðir áheyrendur.

Íslensku bankarnir hafa ekki farið varhluta af þeim hamförum sem nú geisa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Rótgrónir og traustir bankar víða um lönd hafa horfið af sjónarsviðinu, þar á meðal ýmsir af stærstu bönkum heims. Erlendir og innlendir bankar halda að sér höndum og fyrirtæki fá takmarkað lánsfé. Þótt enn sé fullsnemmt að kveða upp endanlegan dóm virðist öflug viðspyrna stjórnvalda víða um heim og kröftugt inngrip á fjármálamörkuðum, vonandi nú einnig í Bandaríkjunum, hafa forðað heiminum frá algjöru hruni. Hins vegar er ljóst að það mun taka alþjóðlega fjármálastarfsemi og heimsbúskapinn langan tíma að jafna sig og allt bendir til að ástandið eigi eftir að versna áður en við sjáum til lands.

Fyrr í þessari viku var g ert samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og helstu eigenda Glitnis banka hf., að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, um að ríkissjóður legði bankanum til nýtt hlutafé. Þetta var gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Í þessu felst að ríkissjóður leggur Glitni til hlutafjárframlag að jafnvirði 600 milljóna evra, eða um 84 milljarða íslenskra króna, þegar samkomulagið var gert, og verður með því eigandi að 75% hlut í Glitni.

Þessi ráðstöfun er ekkert einsdæmi, enda hafa ríkisstjórnir, jafnt vestan hafs sem austan, gripið til hliðstæðra aðgerða nú á síðustu vikum og mánuðum til að koma í veg fyrir ringulreið á fjármálamörkuðum. Tilgangurinn með samkomulaginu um Glitni er að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda og viðskiptavina bankans en ekki síður að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu með því að styrkja áframhaldandi rekstur bankans. Við höfðum hagsmuni almennings að leiðarljósi við þessa ákvörðun og fólk þarf ekki að óttast um innstæður sínar í Glitni frekar en öðrum bönkum hér á landi. Ríkissjóður stefnir ekki að því að eiga hlut í Glitni til langframa og mun selja hann þegar aðstæður leyfa. Frumkvæðið í þessu máli kom frá forsvarsmönnum Glitnis og því fer fjarri að ríkið hafi yfirtekið Glitni með valdboði eða sóst sérstaklega eftir því að eignast hlut í bankanum.

En aðkoma ríkisins að Glitni markar vitaskuld ekki neinn endapunkt í þeim hremmingum sem steðja að bankakerfinu hér á landi. Íslenskir bankar, eins allir aðrir bankar í heiminum, heyja nú mikla varnarbaráttu með liðsinni stjórnvalda og opinberra aðila. Ég fullyrði hér að ríkisstjórnin mín mun hvergi slá af í þeirri stefnu sinni að tryggja með öllum tiltækum ráðum stöðugleika fjármálakerfisins og færa þær fórnir sem nauðsynlegar kunna að verða. Í því verkefni verður sem fyrr gengið fram með hagsmuni almennings að leiðarljósi og búið svo um hnútana að hagsmunir fólksins í landinu séu sem best tryggðir.
 
 
Herra forseti.
 
Eins og ég hef að framan rakið blasir við okkur Íslendingum dökk mynd og í huga margra er útlitið svart. En eins og ágætur maður sagði eitt sinn, þá er orðið vonleysi ekki góð íslenska, og þó svo að útlitið sé svart núna þegar við siglum í miðjum storminum, þá er hughreystandi að vita til þess að allar undirstöður samfélagsins eru traustar.
 
Það er til marks um þetta að nýjar tölur um hagvöxt og vöruskiptajöfnuð sýna fram á meiri þrótt í íslenskum þjóðarbúskap en búist var við. Hagvöxtur er meiri sem skýrist fyrst og fremst af auknum útflutningi. Þar kemur bæði til meiri álframleiðsla og jákvæð áhrif af gengislækkun krónunnar á margs konar útflutning. Tölur Hagstofunnar sýna svo ekki verður um villst að það dregur úr neyslu og fjárfestingu. Þetta tvennt bendir til  jákvæðrar þróunar: Hagvöxtur er nú borinn uppi af útflutningi en ekki eyðslu og þenslan í hagkerfinu er að minnka til muna. Þjóðarbúið er því byrjað að leita jafnvægis á nýjan leik. Og af hverju er þetta mikilvægt? Jú, vegna þess aukinn útflutningur og verðmætasköpun er beitt og öflugt vopn í þeirri erfiðu baráttu sem við heyjum nú við verðbólguna. Hin háa verðbólga, sem við upplifum um þessar mundir og er helsti efnahagsóvinur heimila og fyrirtækja, mun ekki hverfa af sjálfri sér en það er svo sannarlega undir okkur komið að ráðast gegn henni með aukinni verðmætasköpun. Tölurnar gefa einnig vísbendingu um að atvinnuleysi verði minna en spáð hafði verið.
 
Ríkisstjórnin mun láta einskis ófreistað til að jafnvægi myndist sem fyrst á ný í þjóðarbúinu, þannig að verðbólga og vextir lækki. Að sama skapi vill hún forðast það að atvinnuleysi aukist og verði að þjóðarböli. Ríkisstjórnin ræður ekki við erfiðar ytri aðstæður sem hafa rýrt lífskjör þjóðarinnar en hún hefur síður en svo setið með hendur í skauti, eins og sumir hafa haldið fram. Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður enn frekar. Stimpilgjald við fyrstu íbúðarkaup hefur verið afnumið. Aðgangur banka og sparisjóða að lausafé í Seðlabankanum hefur verið rýmkaður. Íbúðalánasjóður hefur endurfjármagnað íbúðalán banka og sparisjóða og frekari skref í þá átt hafa verið boðuð. Ríkissjóður hefur gefið út skuldabréf í miklum mæli til að liðka fyrir á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði. Gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar hefur verið fimmfaldaður á tveimur árum, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður á erlendum lánamörkuðum. Og enginn skyldi láta sér detta í hug að við ætlum að láta þar við sitja.
 
Ráðist hefur verið í auknar opinberar framkvæmdir en með þeim má koma í veg fyrir að efnahagslífið hægi um of á sér og styrkja það enn frekar til framtíðarsóknar. Þó verður að gæta þess að ganga ekki svo langt að þensla grafi um sig áður en tekist hefur að ná niður verðbólgu og vöxtum. Ég tel að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé þræddur hinn gullni meðalvegur í þessum efnum.
 

Virðulegi forseti.
 
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir meðal annars að hún sé frjálslynd umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og aukna samkeppnishæfni atvinnulífsins. Verkefnaáherslur einstakra ráðuneyta taka mjög mið af þessu leiðarljósi eins og ég mun nú víkja lítillega að.
 
Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur verið lögð sérstök áhersla á málefni barna og aldraðra. Þjónusta hefur verið stórbætt á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og til stendur að efla forvarnir til að koma í veg fyrir að börn og unglingar ánetjist vímuefnum. Þegar hefur verið kynnt ítarleg stefnumótun í málefnum aldraðra og hafin er öflug uppbygging á nýjum hjúkrunarrýmum og útrýming fjölbýla á hjúkrunarheimilum. Loks nefni ég heildarendurskoðun á löggjöf um almannatryggingar þar sem meðal annars verður hugað að samspili almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum.
 
Á undanförnum mánuðum hefur orðið viðsnúningur í rekstri Landspítalans til hins betra á sama tíma og aðgerðum fjölgar verulega. Biðlistar hafa víða styst, til dæmis eftir hjartaþræðingum og þjónustu sérgreina, eins og barna- og unglingageðdeildar. Þá hafa verkefni verið flutt frá Landspítala í heimabyggð stofnana á Suður- og Suðvesturlandi og framundan er stórátak í heilsutengdri heimaþjónustu við einstaklinga í samvinnu við sveitarfélög.
 
Á lyfjamarkaði hefur verið lögð áhersla á að láta samkeppni taka við af fákeppni. Sjúkratryggingastofnun, sem Alþingi ákvað að setja á fót eftir vandlegar umræður, er rökrétt framhald af nýjum heilbrigðisþjónustulögum. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að tryggja hagkvæman rekstur heilbrigðisþjónustunnar og skapa svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu. Þetta er ein af forsendum þess að við getum til framtíðar tryggt að allir hafi að aðgang að þjónustunni, óháð efnahag.
 
Í viðskiptaráðuneytinu er unnið að heildarstefnumótun um neytendamál. Ráðgert er að frumvörp og aðrar aðgerðir á grundvelli hennar líti dagsins ljós á næstu mánuðum og misserum, m.a. lögfesting úrræða um greiðsluaðlögun.
 
Ríkisstjórninni er kappsmál að hlúa að menntun og þekkingaröflun í gegnum menntakerfið, vísindi og rannsóknir. Engin önnur aðildarþjóð OECD ver jafnháu hlutfalli til menntunar og við Íslendingar og hvergi innan OECD er jafnhátt hlutfall þjóðar á öllum æviskeiðum skráð í formlegt nám, eða rúmlega 30%. Á síðastliðnu þingi voru samþykkt lög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, opinbera háskóla og menntun og ráðningu kennara. Hinn nýi lagarammi myndar grunninn að menntastefnu er opnar óteljandi tækifæri fyrir íslenskt skólakerfi. Þá verður nýtt frumvarp um fullorðinsfræðslu lagt fram á haustþingi og með því má segja að menntakerfið í heild hafi verið endurskoðað á tveimur árum.
 
Margs konar menningarstarfsemi stendur í blóma og íslenskir listamenn og aðrir andans menn bera hróður landsins víða. Mörg glæsileg íþróttaafrek hafa verið unnin og á sviði fræða og vísinda ríkir óbilandi vilji til að sækja fram og ná í fremstu röð. Það gladdi mig persónulega mikið þegar gamall japanskur skólafélagi minn kom hingað til lands færandi hendi fyrir fáum vikum þeirra erinda að setja á laggirnar myndarlegan sjóð við Háskóla Íslands til að efla samskipti Íslands og Japans. Sá rausnarskapur er vitnisburður um vináttu og framsýni sem margt ungt fólk á vonandi eftir að njóta góðs af um langa framtíð.
 

Herra forseti.
 
Mikil vakning hefur orðið á sviði umhverfismála um heim allan á síðustu árum eftir því sem afleiðingar loftslagsbreytinga koma betur í ljós. Íslendingar eru ekki meðal þeirra þjóða sem stendur mest ógn af loftslagsbreytingum. Engu að síður þurfum við að laga okkur að breyttu náttúrufari og skilyrðum til lands og sjávar og leggja okkar af mörkum eins og allar aðrar þjóðir. Umhverfisráðuneytið og fjármálaráðuneytið hafa innleitt umhverfissjónarmið við opinber innkaup. Þá hefur verið ákveðið að breyta skattaumhverfi ökutækja þannig að hvatt verði til jákvæðra umhverfisáhrifa. Opinberir aðilar hafa ákveðið að fjölga vistvænum farartækjum á sínum snærum og sýna þannig gott fordæmi. Í iðnaðarráðuneytinu er nú unnið að því í samvinnu við sveitarfélög og olíufélög að reistar verði fjölorkustöðvar við hringveginn og þannig ýtt undir notkun farartækja sem nota óhefðbundið eldsneyti.
 
Unnið er að umfangsmiklum samgönguframkvæmdum um land allt og aldrei hefur jafnmiklu fé verið varið til málaflokksins og ráðgert er næstu þrjú ár. Verið er að lyfta grettistaki í útbreiðslu farsímasambands, senn hefst uppbygging á háhraðanetþjónustu á svæðum þar sem markaðsaðstæður eru með þeim hætti að einkaaðilar halda að sér höndum. Lagning á nýjum sæstreng milli Íslands og Danmerkur er hafin.
 
Í iðnaðarráðuneytinu eru orkumálin í brennidepli, enda hefur áhugi erlendra fjárfesta á margs konar orkufrekum iðnaði farið vaxandi. Skattaumhverfi fyrirtækja hér á landi er hagstætt, auk þess sem fyrirtæki vilja í vaxandi mæli nýta raforku frá endurnýjanlegum orkulindum. Ríkisstjórnin hefur verið sökuð um að einblína á áliðnað sem stórnotanda raforku í stað þess að ýta undir uppbyggingu annars konar orkufrekrar starfsemi. Það er ekki rétt. Á Akureyri er að rísa álþynnuverksmiðja, senn verður hafist handa við að uppbyggingu gagnavers í Reykjanesbæ og tvö sólarkísilfyrirtæki hafa sýnt áhuga á að hefja starfsemi hér á landi. Allt eru þetta dæmi um orkufreka starfsemi sem sækist mjög eftir „grænni“ raforku.
 
Styrkur sjávarútvegsins hefur komið glöggt í ljós með hæfni sjávarútvegsfyrirtækja til að laga sig að þriðjungs niðurskurði á þorskveiðiheimildum á síðasta fiskveiðiári. Hærra afurðaverð erlendis og gengislækkun krónunnar hafa vissulega auðveldað þessa aðlögun. Þrátt fyrir það og ýmsar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar er ljóst að þessi aflasamdráttur reynist sjávarbyggðum og þeim sem starfa í atvinnugreininni erfiður. Það er höfuðmál að hvika ekki frá markaðri fiskveiðistefnu því aðeins þannig mun okkur takast að styrkja þorskstofninn svo unnt verði á næstu árum að auka aflaheimildir á ný.
 
Innleiðing nýrrar matvælalöggjafar Evrópusambandsins er mikilvæg ef við ætlum að halda stöðu okkar á innri markaði sambandsins fyrir sjávarafurðir og jafnframt að styrkja möguleika til að flytja út landbúnaðarafurðir. Frumvarp þess efnis verður endurflutt með nokkrum breytingum nú í haust. Breytingarnar miða allar að því að treysta heimildir okkar til að tryggja heilnæmi afurða og að gera eftirlitskerfið ekki þyngra en nauðsynlegt er. Það er og verður stefna ríkisstjórnarinnar að standa vörð um öflugan landbúnað og matvælaframleiðslu í landinu og nýta þau sóknarfæri sem fást með samræmdri matvælalöggjöf.
 

Herra forseti, góðir áheyrendur.

Við Íslendingar megum ekki láta hugfallast í því umróti sem nú gengur yfir því að framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar eru bjartar. Ég er sannfærður um að ef við höldum ótrauð áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið á síðustu árum þá muni okkur áfram farnast vel og við skara fram úr í samfélagi þjóðanna. Ég nefni fimm atriði: 

  • Þjóðin býr að auðlindum sem sífellt verða verðmætari í heimi þar sem ásókn í matvæli og orku eykst ár frá ári. Fiskimiðin okkar, jarðvarminn, fallorkan í jökulvötnunum, hreina lindarvatnið, ægifögur náttúra og víðerni eru náttúru­auðlindir sem aðrar þjóðir öfunda okkur af. Það á að vera okkur keppikefli að nýta þessar auðlindir á sjálfbæran hátt eftir því sem hægt er. 
  •  Með markvissum skattalækkunum á einstaklinga og fyrirtæki hefur verið ýtt undir frumkvæði og þor sem hefur leitt til stórkostlegra framfara á flestöllum sviðum íslensks þjóðfélags. 
  •  Hið opinbera hefur dregið sig út úr margs konar atvinnurekstri sem hefur aukið svigrúm einkaframtaksins til hagsbóta fyrir heildina. 
  • Þjóðin er samstíga um að hér á landi eigi að vera öflugt velferðarkerfi sem styður við einstaklingana þegar á bjátar. 

Þjóðin sjálf er þó mesta auðlindin. Eiginleikar hennar hafa skilað okkur í fremstu röð. Og með sívaxandi menntun mun þjóðin geta áorkað enn meiru.
 
Herra forseti, góðir Íslendingar.
 
Langbrýnasta verkefni næstu mánaða er að ná verðbólgunni niður. Hún er sá skaðvaldur sem mestum búsifjum veldur á heimilum almennings og í rekstri fyrirtækja. Um leið og árangur næst í þeirri baráttu munu vextir taka að lækka. Og með auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum mun gengi íslensku krónunnar styrkjast á ný, enda alltof lágt um þessar mundir að mati flestra.
 
Þjóðin veit að í aldanna rás hefur það ævinlega orðið okkur Íslendingum til hjálpar þegar bjátað hefur á að æðrast ekki, heldur bíta á jaxlinn. Við höfum lært af langri búsetu í harðbýlu landi að orðskrúð og innantómar upphrópanir færa ekki björg í bú. Við viljum að verkin tali. Og þannig munum við sigrast á yfirstandandi erfiðleikum. Við þurfum öll að leggjast á eitt, beita margs konar úrræðum og það mun taka tíma – en að lokum munum við sem þjóð og sem einstaklingar á þessu landi sem er okkur svo kært standa af okkur fárviðrið og hefja nýja sókn á öllum sviðum.
 
Góðar stundir!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira