Hoppa yfir valmynd
20. október 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Viljayfirlýsing Íslands og Bandaríkjanna um heilbrigðismál

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Michael O. Leawitt, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, endurnýjuðu viljayfirlýsingu um samstarf þjóðanna á heilbrigðissviði á dögunum.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Michael O. Leawitt, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, hittust í ferð fjármálaráðherra til Bandaríkjanna á dögunum og endurnýjuðu þessa viljayfirlýsingu um víðtækt samstarf á heilbrigðissviði, en yfirlýsingin byggist á viljayfirlýsingu sem gerð var við heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum. Árni M. Mathiesen undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem átti ekki heimangengt. Viðstaddir undirritunina voru auk ráðherranna, Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Washington, og Davíð Á. Gunnarsson, sérstakur sendifulltrúi utanríkisráðuneytisins á heilbrigðissviði.

Með endurnýjun viljayfirlýsingarinnar er ekki aðeins gert ráð fyrir samstarfi þjóðanna á grundvelli samstarfs við National Institute of Health (NIH) heldur nær rammsamningurinn til allra vísindastofnana sem heyra undir bandaríska heilbrigðisráðuneytið (Department of Health and Human Services).

Meðal þess sem rætt hefur verið um er að Íslendingar og Bandaríkjamenn efli samstarf sitt í rannsóknum á áhrifum ofnotkunar áfengis og annarra vímuefna, í rannsóknum á gæðum í heilbrigðisþjónustunni, í rannsóknum á heilsufari kvenna og þá hefur verið rætt um að beita sér fyrir rannsóknum á heilsufari manna á norðurslóð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum