Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2008 Forsætisráðuneytið

Fréttatilkynning um aðgerðir í þágu heimilanna

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd ýmsum aðgerðum til að koma til móts við fjölskyldur og heimili í landinu í kjölfar fjármálakreppunnar sem riðið hefur yfir heiminn.

Lækkun gengis og aukin verðbólga sem leiddi þar af, hafa þegar haft alvarleg áhrif á hag heimila og fyrirtækja vegna þess að stór hluti skulda þeirra er gengisbundinn eða vísitölutryggður. Samdráttur í atvinnulífinu og uppsagnir starfsfólks hafa líka orðið til þess að margir sjá fram á verulega skertar tekjur og er aðgerðunum einkum ætlað að hjálpa almenningi að standa við skuldbindingar sínar við erfiðar aðstæður.

Hér eru kynntar fyrstu aðgerðir í víðtækri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Síðar verða kynntar aðgerðir sem tengjast fyrirtækjunum í landinu, vinnumarkaði og menntamálum auk frekari aðgerða í þágu heimilanna.

Í þessum tilgangi hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðast í eftirfarandi aðgerðir.

1. Grípa til víðtækra aðgerða í húsnæðismálum þar á meðal:

a. Létta með lagasetningu greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán með því að beita greiðslujöfnunarvísitölu, þ.e. launavísitölu sem vegin er með atvinnustigi.

b. Efla og fjölga úrræðum Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við almenning í greiðsluvanda, svo sem með lengingu og skuldbreytingu lána, auknum sveigjanleika og rýmri heimildum gagnvart innheimtu.

c. Veita Íbúðalánasjóði lagaheimildir til að leigja húsnæði í eigu sjóðsins til að fjölga úrræðum fyrir einstaklinga í greiðsluvanda. Heimilt verði að leita eftir samstarfi við sveitarfélög eða aðra rekstraraðila með samningi.

d. Gerðar verði nauðsynlegar breytingar til bráðabirgða á lögum eða reglugerðum svo fella megi niður ýmis gjöld vegna skilmálabreytinga sem nú torvelda skuldbreytingar og uppgreiðslu lána, svo sem stimpilgjöld og þinglýsingargjöld.

2. Fella úr gildi tímabundið heimild til að skuldajafna barnabótum á móti opinberum gjöldum.

3. Fella úr gildi heimild til að skuldajafna vaxtabótum á móti afborgunum lána hjá Íbúðalánasjóði.

4. Barnabætur verði greiddar út mánaðarlega en ekki á þriggja mánaða fresti eins og nú er.

5. Opinberum innheimtuaðilum verði tímabundið veittar frekari heimildir til sveigjanleika í samningum um gjaldfallnar kröfur er taki mið af mismunandi aðstæðum einstaklinga.

6. Lögfesta tímabundnar heimildir til innheimtumanna ríkissjóðs um mögulega niðurfellingu dráttarvaxta, kostnaðar og gjalda í sérstökum skýrt afmörkuðum tilfellum.

7. Bera fram tilmæli til allra ráðuneyta og stofnana ríkisins um að milda sem kostur er innheimtuaðgerðir gagnvart einstaklingum, þar með talið að takmarkað verði sem kostur er það hlutfall launa sem ríkið getur nýtt til skuldajöfnunar.

8. Lög um dráttarvexti verði endurskoðuð með það að markmiði að dráttarvextir lækki.

9. Nýtt verði heimild í 12. gr. laga nr. 95/2008 til að setja reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.

10. Lagt verður fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að endurgreiða skuli vörugjöld og VSK af notuðum ökutækjum sem varanlega eru flutt úr landi. Endurgreiðslan byggir á þeim gjöldum sem greidd voru við innflutning viðkomandi ökutækis. Þau gjöld eru síðan fyrnd eftir ákveðnum fyrningarreglum, með tilliti til aldurs ökutækisins og sú upphæð endurgreidd eiganda viðkomandi ökutækis.

Reykjavík, 14. nóvember 2008

Nánari upplýsingar gefur Kristján Kristjánsson, [email protected] – sími 899 9352.Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum