Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2008 Forsætisráðuneytið

Áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika

Í kjölfar hamfaranna á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði stendur þjóðarbúskapur Íslendinga frammi fyrir svo alvarlegri fjármálakreppu að slíks eru fá dæmi. Þjóðarbúskapurinn er nú á leið inn í tímabil mikils samdráttar, stóraukins fjárlagahalla og mikillar aukningar opinberra skulda – um 80% af vergri landsframleiðslu. Hugsanlegt er að mikið fjármagnsflæði úr landi leiði til verulegrar viðbótarlækkunar á gengi krónunnar. Þar sem hagkerfið er mjög skuldsett, gæti slíkt valdið stórskaða á efnahag þjóðarinnar allrar og miklum samdrætti í efnahagslífinu. Fyrsta verkefnið er því að koma aftur á starfhæfu bankakerfi og tryggja stöðugleika krónunnar. Til lengri tíma litið er verkefnið að lækka hinar miklu skuldir hins opinbera með viðvarandi aðhaldi í ríkisfjármálum.

Endurskipulagning bankakerfisins og endurskoðun gjaldþrotalaga

Íslensk stjórnvöld munu koma á traustu og gagnsæju ferli í samskiptum við innlánshafa og lánveitendur hinna yfirteknu banka. Unnið er skipulega að sambærilegu samkomulagi við alla þá erlendu aðila sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi í samræmi við lagaramma EES. Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar. Ennfremur er viðurkennt að það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum. Komið hefur verið upp gagnsæju ferli þar sem tvö teymi sjálfstæðra endurskoðenda sjá um að meta sannvirði eigna. Almennt verður tryggt að meðferð á innstæðueigendum og lánardrottnum sé sanngjörn, jöfn og án mismununar og í samræmi við gildandi lög.

Regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits verður endurskoðuð til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni. Hafi fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í yfirteknu bönkunum gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga þeir ekki að gegna sambærilegu hlutverki næstu þrjú árin.

Farið verður yfir lagarammann um gjald- og greiðsluþrot þannig að taka megi á niðurfærslu skulda og heimtu eigna í bönkum, fyrirtækjum og hjá heimilum á skilvirkan hátt.

Opinber fjármál

Áætlað er að brúttókostnaður ríkisins vegna innstæðutrygginga og endurfjármögnunar bæði viðskiptabankanna og Seðlabankans geti numið um 80% af landsframleiðslu og að halli hins opinbera árið 2009 verði 13,5% af landsframleiðslu. Í heild má gera ráð fyrir að vergar skuldir hins opinbera aukist úr 29% af landsframleiðslu í lok árs 2007 í 109% af landsframleiðslu í árslok 2009. Hreinn kostnaður verður eitthvað lægri að því gefnu að fjármunir endurheimtist með sölu á eignum gömlu bankanna.

Til að auka ekki frekar á samdrátt í þjóðarbúskapnum verður fjárlagahalla árið 2009 leyft að aukast í takt við aukin útgjöld og lægri tekjur vegna hagsveiflunnar. En vegna mikillar þarfar ríkissjóðs fyrir fjármagn og stóraukinnar skuldsetningar hans er fyrirhugað að draga verulega úr fyrri áformum um slaka í ríkisfjármálum á árinu 2009.

Áformað er að minnka halla á undirliggjandi halla ríkissjóðs fyrir vaxtagreiðslur (sk. hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði) um 2-3% af landsframleiðslu á ári yfir áætlunartímabilið með það að markmiði að hann verði orðinn jákvæður árið 2011 og jákvæður um 3,5-4% árið 2012. Farið verður yfir núverandi umgjörð ríkisfjármála þegar litið er til lengri tíma og lagðar fram tillögur þar að lútandi sem einnig munu ná til þess hvernig fjármál sveitarfélaga verði betur samræmd áformum í ríkisfjármálum.

Stefnan í peninga- og gengismálum

Brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands er að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Hætt er við að gengi krónunnar verði fyrir skammtímaþrýstingi þegar búið verður að koma á eðlilegum gjaldeyrismarkaði. Þess vegna þarf að grípa til sértækra aðgerða til að mæta þessari skammtímaáhættu og koma í veg fyrir fjármagnsútflæði í miklum mæli.
Til mjög skamms tíma er ætlunin að beita eftirfarandi blöndu af hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum:

  • Að hækka stýrivexti í 18%. Seðlabankinn er reiðubúinn til að hækka stýrivextina enn frekar, en óvíst er að hækkun stýrivaxta nægi ein og sér til að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði.
  • Beitt verður miklu aðhaldi í aðgangi bankanna að lánum frá Seðlabankanum til að koma í veg fyrir að dregið verði um of á mikið lausafé eftir þessum farvegi.
  • Seðlabankinn er reiðubúinn til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar.
  • Ennfremur er Seðlabankinn reiðubúinn til að beita tímabundnum gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti. Slík höft hafa talsverð neikvæð áhrif og ætlunin er að afnema þau svo fljótt sem auðið er.

Afturhvarf til eðlilegs ástands og lækkunar verðbólgu og vaxta getur hafist um leið og krónan verður stöðugri á gjaldeyrismarkaðnum, gjaldeyrismarkaður mætir þörf fyrir alla eftirspurn eftir gjaldeyri vegna viðskipta við útlönd og ekki er lengur nauðsynlegt að styðja við markaðinn með því að draga á gjaldeyrisforðann. Reiknað er með að í kjölfar þeirra aðgerða sem lýst er að framan styrkist krónan fljótt og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% við lok ársins 2009. Gert er ráð fyrir að krónan styrkist enn frekar og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010. Þetta mun gera okkur kleift að slaka á hömlum á lánveitingum Seðlabankans og smám saman reiða okkur aftur á stýrivexti sem aðalstjórntæki peningamála innan ramma sveigjanlegrar gengisstefnu.

Stefna í kjaramálum

Mikilvægt er að ná þjóðarsátt sem er samrýmanleg við þjóðhagsleg áform áætlunarinnar. Sagan sýnir að stefnan í kjaramálum hér á landi hefur verið mjög skilvirk. Fyrri kjarasamningar hafa stutt þjóðhagslega aðlögun þegar þess hefur verið þörf. Aðilar vinnumarkaðarins hafa viðurkennt nauðsyn þess að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi.

Þingleg meðferð og birting

Áætlunin var þann 3. nóvember sl. send Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, undirrituð af fjármála¬ráð¬herra og formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Stjórn sjóðsins mun taka málið fyrir á fundi sínum miðvikudaginn 19. nóvember. Þá verður einnig birt skýrsla starfsmanna sjóðsins sem er hluti af þeim gögnum sem stjórn sjóðsins tekur afstöðu til.

Í dag, 17. nóvember, var áætlunin lögð fram sem þingsályktunartillaga fyrir Alþingi og verður rædd þar á næstu dögum.

Opnaður hefur verið upplýsingavefur um áætlunina á heimasíðu forsætisráðuneytisins: Áætlun um efnahagsstöðuleika. Þar er viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda á íslensku og ensku og skýringar við einstakar greinar hennar auk annars upplýsingaefnis sem tengist áætluninni.

 

Reykjavík, 17. nóvember 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum