Hoppa yfir valmynd
4. desember 2008 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Viðmið um skipulag hjúkrunarheimila

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur sett viðmið um skipulag hjúkrunarheimila. Lagt er til grundvallar að hjúkrunarheimilum sé ætlað að vera heimili fólks sem heilsu sinnar vegna er ekki lengur fært um að búa á eigin vegum með viðeigandi stuðningi og þurfi á umönnun og hjúkrun að halda. Því þurfi hjúkrunarheimili að líkjast eins og kostur er húsnæði, skipulagi og aðstæðum á venjulegum einkaheimilum fólks en mæta engu að síður þörfum þeirra sem hafa skerta getu til athafna daglegs lífs.

Í viðmiðunum eru settar fram helstu kröfur sem húsnæði þarf að uppfylla til að mæta þessum áherslum í samræmi við þarfir fólks á hjúkrunarheimilum en þjónusta hjúkrunarheimila byggist á ákvæðum laga um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um mat á þörf fyrir fjölda hjúkrunarrýma þar sem áformað er að setja á fót ný hjúkrunarheimili, hlutfall hvíldarrýma á hjúkrunarheimilum og mat á þörf fyrir sérstaka aðstöðu fyrir heilabilaða.

Áhersla er lögð á litlar hjúkrunareiningar í stað stórra stofnana með fjölmennum hjúkrunardeildum. Þar skal vera rúmgott einkarými fyrir hvern og einn en jafnframt sameiginlegt rými fyrir íbúa og starfsfólk hverrar einingar með eldunaraðstöðu, borðstofu og dagstofu. Fjallað er um heildarskipulag, ytra umhverfi, innra skipulag og stærðir rýma, aðgengismál og nauðsynlegan búnað.

Viðmið félags- og tryggingamálaráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila gilda einnig þegar ráðist er í breytingar og endurbætur á hjúkrunarheimilum eftir því sem unnt er að koma því við.

Skjal fyrir Acrobat ReaderInnra skipulag hjúkrunarheimila (PDF, 47KB)Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira