Hoppa yfir valmynd
6. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Allt að 4 þúsund ársverk í atvinnusköpun

Ríkisstjórnin fjallaði á ríkisstjórnarfundi sínum í morgun um tillögur Stýrihóps ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í atvinnumálum til þess að sporna gegn atvinnuleysi. Samþykkt var að vinna að framgangi ellefu tillagna sem gætu skapað ríflega 4000 ársverka á næstu misserum. Þegar einnig er litið til stöðu fimm verkefna sem tengjast virkjun Búðarháls og orkutengdum iðnaði, öðrum en fyrirhuguðu álveri í Helguvík, þá gæti verið um að ræða 6000 ársverk í heildina.

Hér er um að ræða störf í byggingariðnaði, framkvæmdir við snjóflóðavarnir, gróðursetningu, grisjun og stígagerð, orkuviðhald og orkusparnað, minni útflutning óunnins fiskjar, hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar, þróunarverkefni í ferðaþjónustu, frumkvöðlasetur í Reykjavík, sérfræðinga af atvinnuleysisskrá til nýsköpunarfyrirtækja, bætta samkeppnisstöðu nýusköpunarfyrirtækja og fjölgun þeirra sem njóta listamannalauna.

Stærstu póstarnir eru 1700 ársverk í byggingariðnaði, 1000 ársverk í bættri samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja, 800 ársverk á byggingatíma Búðarhálsvirkjunar, 300 ársverk í bættri nýtingu sjávarfangs og 300 ársverk vegna endurbyggingar í Straumsvík.

Í stýrihópi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í atvinnumálum, sem iðnaðarráðherra er í forsvari fyrir, eru landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, viðskiptaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, samgönguráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og umhverfisráðuneytið.

Iðnaðarráðherra lagði fram ofangreind mál, nema hvað menntmálaráðherra lagði fram frumvarp um listamannalaun sem fjölga mun um þriðjung þeim listamönnum sem slík laun þiggja. Iðnaðarráðherra kynnti að auki frumvarp um Bjargráðasjóð, fjármálaráðherra lagði fram lokafjárlög fyrir árið 2007 og viðskiptaráðherra kynnti þrjú frumvörp sem hann hyggst leggja fram, meðal annars um óréttmæta viðskiptahætti, um fjármálafyrirtæki og frumvarp um breytingu á lögum um vörumerki.

Nánar má sjá skiptingu ársverkanna hér (PDF-skjal)

Reykjavík 6. mars 2009Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum