Hoppa yfir valmynd
9. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Lýðræðisumbætur - Vald til fólksins

Í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar eru gefin fyrirheit um margvísleg framfaraskref í lýðræðismálum. Slíkar umbætur eru afar mikilvægar, ekki síst í ljósi þeirrar kröftugu umræðu um framtíðarskipan samfélagsins sem við höfum orðið vitni að undanfarnar vikur og mánuði. Þennan kraft verðum við að virkja og skapa farveg fyrir hann í stjórnkerfi okkar til framtíðar.

Víðtækt samráð frá fyrsta degi

Strax á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar hófst markviss vinna á vettvangi forsætisráðuneytisins við að undirbúa boðaðar lýðræðisumbætur. Ráðgjafarhópur undir forystu Bjargar Thorarensen, prófessors, hófst handa við undirbúning stjórnarskrárbreytinga, m.a. um stjórnlagaþing. Annar hópur undir forystu Þorkels Helgasonar, stærðfræðings, vann að útfærslu reglna um persónukjör. Á grundvelli samráðs, m.a. við alla stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi, hafa lagafrumvörp byggð á þessari vinnu verið lögð fram á Alþingi. Bæði frumvörpin eru borin fram af forystumönnum allra flokka, nema Sjálfstæðisflokksins.

Samkvæmt verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar skyldi stefnt að eftirtöldum breytingum á stjórnarskránni. Í fyrsta lagi skyldi sett í stjórnarskrá ákvæði um auðlindir í þjóðareign, í öðru lagi skyldi leggja fram ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, í þriðja lagi skyldi breytt aðferðinni við að breyta stjórnarskrá og loks í fjórða lagi skyldi hefja undirbúning lagasetningar um stjórnlagaþing. Ráðgjafarhópnum var falið að móta tillögur um þetta og varðandi fyrstu atriðin þrjú skyldi einkum tekið mið af því víðtæka samráði sem fór fram á vettvangi stjórnarskrárnefndar árin 2005-2007. Öll þessi atriði er að finna í stjórnarskrárfrumvarpi því sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Aukið lýðræði í stjórnarskrá

Í fyrirliggjandi stjórnarskrárfrumvarpi er gert ráð fyrir að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfismál. Því er slegið föstu að ríkið megi ekki afsala með varanlegum hætti náttúruauðlindum í þjóðareign og fjallað er um auðlindir í víðu samhengi sem þátt í umhverfismálum. Mikilvægt er að árétta að stjórnarskrárákvæðið um náttúruauðlindir í þjóðareign mun ekki skerða réttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í kvótakerfinu eða svipta þá kvótanum. Þau réttindi munu eftir sem áður njóta verndar sem atvinnuréttindi þeirra sem stunda útgerð, eða með öðrum orðum sem óbein eignarréttindi. Með hinu nýja stjórnarskrárákvæði verður hins vegar staðfest að útgerðarmenn eða aðrir sem njóta slíkra heimilda munu aldrei öðlast beinan og varanlegan eignarrétt á fiskveiðiauðlindinni, enda girðir ákvæðið fyrir varanlegt afsal þjóðareignar. Rétthafar veiðiheimilda verða að sæta því að almennar og hlutlægar takmarkanir á þeim afnotarétti af auðlindinni sem þeir njóta nú verði lögbundnar, þó eftir atvikum í þrepum. Stjórnarskrárákvæðið staðfestir að löggjafinn getur, í krafti þess að hann fer með forsjá auðlindanna í nafni þjóðarinnar, breytt skipulagi fiskveiðistjórnunarkerfisins. Reyndar ber löggjafanum skylda til að gera svo, telji hann aðrar leiðir betri til að tryggja þjóðinni og komandi kynslóðum hagsæld til langrar framtíðar.

Breytingar á stjórnarskrá auðveldaðar

Einnig er gert ráð fyrir nýju ákvæði sem auðveldi breytingar á stjórnarskránni og tryggi áhrif almennings á þær. Kjarni þessa ákvæðis er sá að samþykkja þurfi breytingar á stjórnarskránni sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu, í stað þess að þing sé rofið í kjölfar þess að stjórnarskrárbreyting sé samþykkt, almennar þingkosningar fari fram og frumvarpið samþykkt að nýju án breytinga. Með þessu gefst þjóðinni kostur á að taka beina afstöðu til stjórnarskrárbreytinga, sem er sjálfsögð og eðlileg skipan í lýðræðisþjóðfélagi.

Þá er í frumvarpinu stigið enn eitt merkt spor í lýðræðisátt, en gert er ráð fyrir ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að skylt sé að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni ef 15 af hundraði kjósenda á kjörskrá krefjast þess. Heimild til slíks verður þannig bundin í stjórnarskránni í almennu ákvæði en stefnt er að nánari útfærslu í lögum svo sem í hvaða búning eigi að setja slíka kröfu, hvernig standa eigi að því að safna undirskriftum kjósenda, hvernig mál skuli borin upp og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Stjórnlagaþing verður að veruleika

Loks er gert ráð fyrir því að ákvæði um stjórnlagaþing bætist í stjórnarskrána. Slíkt ákvæði verður stjórnskipuleg heimild eða grundvöllur fyrir því að efna til stjórnlagaþings, en nánari útfærsla á störfum og skipulagi þingsins verður sett með almennum lögum. Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að frumvarpi um stjórnlagaþing sem eru fylgiskjal með stjórnarskrárfrumvarpinu er stefnt að því að kosningar til stjórnlagaþings fari fram í haust, þingfulltrúar verði 41 og kosnir persónukjöri. Þeir mega ekki vera þingmenn eða varaþingmenn og skulu bjóða sig fram í eigin nafni. Hugmyndin um stjórnlagaþing hér á landi er ekki ný af nálinni en árið 1995 lagði ég m.a. fram hliðstætt frumvarp þar sem gert var ráð fyrir 41 þjóðkjörnum fulltrúa og yrði þinginu falið að semja nýja stjórnarskrá. Útfærslan sem nú er lögð fram af fulltrúuum fjögurra flokka er í meginatriðum áþekk þeirri sem fram kom í því frumvarpi og einnig frumvarpi Framsóknarflokksins sem nú liggur fyrir Alþingi. Ég vil leggja áherslu á að gert er ráð fyrir nánu samráði milli stjórnlagaþingsins og Alþingis um gerð frumvarps til nýrrar stjórnarskrár ekki síst til að tryggja eins og framast er kostur vandaða meðferð málsins. Þegar og ef stjórnlagaþing hefur samþykkt nýja stjórnarskrá skal hún borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem a.m.k. 25% kjósenda á kjörskrá verða að samþykkja hana svo hún taki gildi.

Persónukjör stax í næstu kosningum

Í vikunni var einnig mælt fyrir á Alþingi frumvarpi til laga um breytingu á kosningalögum sem ætlað er að innleiða persónukjör. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að einstök framboð geti valið hvort þau stilli upp röðuðum lista líkt og tíðkast hefur eða bjóði fram óraðaðan lista. Velji framboðin óraðaða lista yrði endanleg röð frambjóðenda í höndum kjósenda listanna sem myndu í kjörklefanum raða þeim upp, hver með sínu nefi. Verði frumvarp þetta að lögum verður persónukjör í komandi kosningum. Í ljósi þess að fulltrúar allra þingflokka á Alþingi nema Sjálfstæðisflokksins, bera málið fram er full ástæða til að vonast til þess að það nái fram að ganga.

Hlýtt á raddir fólksins.

Þau nýmæli sem ég hef hér rakið byggja á þeirri grundvallarhugsun að allar stofnanir í lýðræðisþjóðfélagi eigi að endurspegla raddir fólksins, raddir almennings. Okkur, sem erum lýðræðislega kjörnir fulltrúar fólksins, ber að hlýða á sjálfsagðar kröfur fólksins í landinu er varða umbætur á kerfi sem á að þjóna samfélaginu öllu. Það þarf kjark og þor til þess að ráðast í breytingar af þessu tagi en yfir þeim kjarki og því þori býr núverandi ríkisstjórn. Ég treysti svo almenningi fullkomlega til þess að nýta þau tæki sem felast í þjóðaratkvæðgreiðslu og stjórnalagþingi og ég tel að þau muni styrkja samfélag okkar til frambúðar. Ég er fullviss um að með fyrrnefndum umbótum í lýðræðisátt munum við eignast betra og öflugra samfélag sem byggist á jafnræði í reynd.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum