Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2009 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2009

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

  

A

gegn

Securitas hf.

 

Uppsögn úr starfi. Tilgreining ástæðu fyrir uppsögn. Samstarfsörðugleikar. Málskostnaður.

 

Kærandi starfaði hjá Securitas hf. sem öryggisvörður frá 1. mars 2005 og sem vaktstjóri frá 1. júlí 2007. Henni var sagt upp störfum með bréfi hinn 22. október 2008. Af hálfu kæranda er til þess vísað að uppsögnin hafi farið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en hún telur sig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. fengið óhagstæðari meðferð en einstaklingar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður. Af hálfu Securitas hf. er því hafnað að uppsögnin hafi farið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Uppsögnin hafi upphaflega eingöngu verið sögð rakin til skipulagsbreytinga í fyrirtækinu, en fyrir kærunefnd jafnréttismála vísaði Securitas hf. jafnframt til þess að ágreiningur kæranda við yfirmann og samstarfsörðugleikar á vinnustað hefðu verið ástæða uppsagnar kæranda. Nokkuð af gögnum var lagt fram af hálfu málsaðila varðandi meinta samstarfsörðugleika og aðfinnslur í garð kæranda. Talið var að þegar svo háttaði til þætti ekki sýnt að uppsögn kæranda hefði verið rakin til kynferðis hennar sérstaklega, heldur verði hún rakin til framangreindra samstarfsörðugleika en ekki var talin ástæða til að greina ástæður þeirra sérstaklega, eins og hér stóð á.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 3. apríl 2009 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 26. janúar 2009 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Securitas hf. hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með uppsögn hennar úr starfi hjá fyrirtækinu þann 22. október 2008. Jafnframt krafðist kærandi þess að Securitas hf. yrði gert að greiða kæranda kostnað við að halda fram kærunni fyrir kærunefndinni, yrði niðurstaða nefndarinnar kæranda í hag.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Securitas hf. með bréfi dagsettu 6. febrúar 2009. Með tölvupósti frá B hrl., f.h. Securitas hf., dagsettum 17. febrúar 2009, var óskað eftir viðbótarfresti til að koma á framfæri umsögn og var veittur frestur til 2. mars 2009. Umsögn B hrl., f.h. Securitas hf., um kæruna barst með bréfi dagsettu 2. mars 2009 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 6. mars 2009.

Athugasemdir kæranda við umsögn Securitas hf. bárust með bréfi dagsettu 16. mars 2009. Þá bárust viðbótargögn með bréfi lögmanns kæranda, dagsettu 17. mars 2009.

Athugasemdir lögmanns kæranda voru sendar lögmanni Securitas hf. með bréfi dagsettu 19. mars 2009 og var honum gefinn frestur til að koma á framfæri athugasemdum. Þær athugasemdir bárust með bréfi dagsettu 31. mars 2009 og voru sendar lögmanni kæranda með bréfi og símbréfi 1. apríl 2009.  Sama dag barst tölvupóstur frá lögmanni kæranda og var hann jafnframt sendur lögmanni Securitas hf. til kynningar.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að Securitas hf. hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er henni var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Kærandi telur sig þannig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. óhagstæðari meðferð en aðrir einstaklingar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.

Greint er frá því í rökstuðningi með kæru að kærandi hóf störf hjá Securitas hf. þann 1. mars 2005 eftir að hafa ráðið sig til félagsins skömmu áður. Þá hafi hún starfað í svokölluðu R-verkefni og sinnt öryggisgæslu fyrir Securitas hf., að eigin sögn við mjög gott orðspor. Kærandi hafi þá starfað sem öryggisvörður. Undir lok starfstíma hafi hún verið farin að sinna mun víðtækari störfum, að mörgu leyti sambærilegum við störf vaktstjóra. Yfirmaður kæranda á þessum tíma var C og áttu þau ávallt í mjög góðum samskiptum.

Haustið 2006 hafi kæranda boðist starf hjá félaginu S sem hún ákvað að taka, auk þess sem hún hugði á fjarnám frá Englandi, tengt vinnuvernd. Hún hafi því sagt upp störfum hjá Securitas hf. og samkomulag orðið um það milli hennar og þáverandi yfirmanns hennar að hún hætti störfum strax og færi í orlof á uppsagnarfresti. Þetta var í októbermánuði 2006 en kærandi hóf störf hjá S 1. nóvember sama ár.

Sumarið 2007 hafi henni boðist tvö störf, hjá Securitas hf. og T, en kærandi hafi ákveðið að snúa aftur til starfa sem vaktstjóri hjá Securitas hf. og byrjaði þar 1. júlí 2007. Yfirmaður kæranda frá þessum tíma var D þjónustustjóri. Samstarf þeirra hafi gengið ágætlega í upphafi. Síðar hafi komið upp á milli þeirra einhver ágreiningur. Kærandi hafi viljað sinna starfi sínu 100% og lagt mikinn metnað í það, meðal annars vegna menntunar og reynslu, en störf Securitas hf. fyrir X sf. munu þar að auki vera mjög sérhæfð á vinnuverndarsviðinu. Kærandi taldi sig þess vegna hafa unnið gríðarlega gott starf í þágu Securitas hf. og um það geti samstarfsmenn hennar, þ. á m. aðrir vaktstjórar, vottað. Telur kærandi að hennar nákvæmni í vinnubrögðum og sú staðreynd að hún var kvenkyns hafi orsakað ákveðna óvild yfirmanns hennar í hennar garð sem hafi þá ef til vill átt erfiðara en ella með að hlusta á hugmyndir hennar. Einnig hafi þá verið verulega vikið frá starfslýsingu hennar.

Þann 23. október 2008 hafi kærandi verið í vaktafríi og uppgötvað að hún komst ekki inn í tölvupóst sinn, en taldi það vera vegna bilana í tölvukerfi. Síðar sama dag hafi hún fengið ábyrgðarbréf í pósti og verið tilkynnt að henni hefði verið sagt upp störfum. Í kjölfarið hafi kærandi hringt í trúnaðarmann starfsmanna, E. Þá hafi hann upplýst að D hafi þá þegar sagt honum frá uppsögninni og sagt að hann byggist við að kærandi „yrði með vesen“. Kærandi hafi leitað daginn eftir til stéttarfélags síns, U sem ritaði Securitas hf. bréf og óskaði meðal annars eftir fundi. Þann 18. nóvember 2008 hafi kærandi loks fengið fund með F, framkvæmdastjóra gæslusviðs Securitas hf., D og E. Auk þess hafi framkvæmdastjóri U, G, setið fundinn. Á fundinum hafi komið fram að uppsögn kæranda væri vegna endurskipulagningar. Kærandi hafi óskað eftir faglegum rökum en F hafi sagt að hann vissi ekki hver þau væru. Kærandi telur sig hafa upplýsingar um það núna að til standi í nánustu framtíð að stækka og efla Securitas hf. á Austurlandi og jafnvel gera að séreiningu. Ekki hafi komið fram að neitt ámælisvert hefði verið við störf kæranda og því verið hafnað á fundinum að um samstarfsörðugleika hefði verið að ræða milli kæranda og yfirmanns hennar. Á fundinum hafi því einnig verið hafnað að uppsögnin yrði dregin til baka og því lofað að skrifleg skýring á henni yrði afhent. Það hafi aldrei verið gert. Milli aðila hafa síðan gengið nokkur bréf og að sögn Securitas hf. hafi uppsögn kæranda verið að rekja til skipulagsbreytinga og við hana hafi verið litið til starfsaldurs.

Bendir kærandi á að þegar hún hætti störfum hafi 16 manns starfað hjá Securitas hf. á Austurlandi og þar af 12 við öryggisgæslu, þ.m.t. kærandi sjálf. Af þeim síðarnefndu voru níu karlar og þrjár konur. Af þessum 12 starfsmönnum við öryggisgæslu voru fjórir vaktstjórar, þrír karlar og ein kona, þ.e. kærandi. Aðrir starfsmenn við öryggisgæslu voru óbreyttir öryggisverðir, sex karlar og tvær konur. Þjónustustjóri Securitas hf. á Austurlandi hafi verið karlmaður. Auk þess starfi á Austurlandi tveir tæknimenn, báðir karlar, og einn móttökuritari, kona, en þessir fjórir síðastnefndu starfsmenn hafi ekki komið beint að öryggisgæslu.

Þá bendir kærandi á að sé litið til upplýsinga á heimasíðu Securitas hf. virðist ljóst að verulegur misbrestur sé á að allir vaktstjórar séu þar skráðir. Sem dæmi megi nefna að á lista yfir starfsmenn vanti alla vaktstjóra á Austurlandi og marga aðra starfsmenn. Á heimasíðunni séu aðeins skráðir tveir vaktstjórar hjá félaginu, báðir karlkyns, en kærandi viti um mun fleiri slíka. Á móti viti hún ekki um nokkurn kvenkyns vaktstjóra hjá Securitas hf. en hafi þó engin skrifleg gögn þar um. Þess sé því krafist með vísan til 3. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008 að kærunefndin krefji Securitas hf. um nánari gögn um fjölda starfsmanna sem gegna stöðu vaktstjóra hjá félaginu og um leið um fjölda kvenkyns vaktstjóra, séu þeir yfir höfuð einhverjir. Samkvæmt heimasíðu Securitas hf. starfi hjá félaginu 14 þjónustustjórar og þeir séu allir karlar. Vaktstjórar starfi undir þjónustustjórum við öryggisgæslu en yfir þjónustustjórum séu síðan ýmsir framkvæmdastjórar. Vegna þess hve lítið virðist á upplýsingum á heimasíðu Securitas hf. byggjandi fer kærandi fram á að nefndin krefji Securitas hf. einnig um sambærilegar tölfræðilegar upplýsingar um þjónustustjóra sem starfa hjá félaginu, eins og krafist sé um vaktstjóra og þá einkum upplýsinga er sýni kynjahlutföll. Að lokum óskar kærandi eftir því að fá gögn um skipulagsbreytingar og upplýsingum um það af hverju þurfti að segja kæranda upp vegna þeirra.

Hvað varðar framkvæmdastjóra virðist þeir af heimasíðu vera átta, þar af sex karlar og tvær konur. Konurnar virðist sinna starfsmanna- og fjármálum, en ekki öryggismálum. Forstjóri Securitas hf. sé þar fyrir utan karlmaður. Af 18 öðrum starfsmönnum sem titlaðir séu á heimasíðu sem einhvers konar stjórar (fyrir utan vakt-, þjónustu- eða framkvæmdastjóra) séu 15 karlar og þrjár konur. Mun fleiri karlar starfi hjá félaginu í öðrum störfum.

Þá megi nefna að af þeim fjórum vaktstjórum sem hafi starfað á Austurlandi þegar uppsögn kæranda átti sér stað hafi hún haft næstmestu starfsreynslu hjá Securitas hf. sem vaktstjóri og þriðja hæsta starfsaldurinn almennt. Hún hafi þar fyrir utan starfað mun lengur í verkefninu á Austurlandi en hinir vaktstjórarnir, en eins og áður sagði er það mjög sérhæft. Þetta ættu gögn frá Securitas hf. að geta staðfest. Kærandi hafi verið með sambærilega menntun og aðrir vaktstjórar. Þannig hafi H verið lærður fatahönnuður, I ekki með stúdentspróf og J úr iðnskólanum en þó ekki með sveinspróf. Kærandi hafi sjálf lokið u.þ.b. 50–60 einingum úr framhaldsskóla auk þess sem hún hafi lokið tveimur af þremur prófum í vinnuverndarnáminu sem hún stundaði í fjarnámi. Telur hún sig hafa haft langmestu reynslu úr vinnuverndarumhverfi en I hafi áður unnið í farandgæslu hjá Securitas hf., J í staðbundinni gæslu en henni sé ekki kunnugt um hvað H starfaði en haldi að það hafi tengst núverandi starfi.

Kærandi telur fyrir hið fyrsta að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, en þar sé lögð víðtæk skylda á atvinnurekendur og stéttarfélög til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skuli vinna að þessu markmiði innan síns fyrirtækis og þá sérstaklega stuðla að því að störf, og þá einkum stjórnunarstörf, flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, til dæmis þannig að stjórnunarstörf og störf við öryggisgæslu hjá öryggisgæslufyrirtæki verði ekki einkum karlastörf. Að því er varði seinni málsgreinar 18. gr. laganna viti stefnandi ekki til þess að þær hafi verið uppfylltar hjá Securitas hf.

Kærandi telur einnig að við uppsögn hennar hafi verið brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laganna er bannar hvers kyns mismunun á grundvelli kyns og 1. mgr. 26. gr. sem bannar mismunun á grundvelli kyns, til dæmis við uppsagnir. Vegna þess hve mun færri konur séu í vaktstjóra- og þjónustustjórastöðum en karlar hjá Securitas hf. hafi verið sérstök ástæða til þess að mati kæranda að gæta þess sérstaklega að segja henni ekki upp, enda eina konan starfandi sem vaktstjóri hjá Securitas hf. á Austurlandi og jafnvel sú eina eða ein af fáum á landinu. Þetta eigi ekki síður við vegna menntunar og reynslu kæranda. Securitas hf. hafi með engu rökstutt hvaða skipulagsbreyting það hafi verið sem gerði uppsögn kæranda nauðsynlega og af hverju hún þurfti að bitna á kæranda sem kvenmanni við framangreindar aðstæður en ekki þeim karlmönnum sem hafi starfað samhliða henni. Þar fyrir utan virðist nú liggja fyrir að ekki standi til að fækka störfum á Austurlandi og að mati kæranda sé nauðsynlegt að kærunefndin kanni það atriði betur. Vegna alls þessa telur kærandi að með vísan til 4. mgr. 26. gr. beri Securitas hf. að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hennar hafi ráðið ákvörðun um uppsögn hennar. Með vísan til 5. mgr. sömu lagagreinar skal við mat á því líta til menntunar, starfsreynslu, sérþekkingar og annarra sérstakra hæfileika sem krafa er gerð um í starfinu.

Með vísan til áðurnefndrar 4. mgr. 26. gr. laganna og þeirra sjónarmiða sem meðal annars birtust í dómi Hæstaréttar nr. 134/1996 telur kærandi þó að Securitas hf. muni að ákveðnu marki bera að sýna fram á að uppsögn kæranda hafi ekki falið í sér kynjamismunun. Félagið þurfi því að leggja fram gögn er sýni fram á forskot annarra starfsmanna í svipaðri stöðu hvað varðar menntun og aðra hæfni, en sú byrði hvíli ekki eingöngu á kæranda.

Að því er varðar framkomnar athugasemdir Securitas hf. harmar kærandi að Securitas hf. hafi ákveðið að blanda kvörtun K, f.h. X sf., varðandi tiltekna vanrækslu í starfi, í málið. Upplýst hafi verið að vakt kæranda hafi ekki frétt af umræddu verkefni, sbr. meðal annars tölvupóst J frá 1. október 2008. Þessum ávirðingum, sem einar snúi að því að kærandi hafi ekki staðið sig í starfi, sé haldið fram beinlínis gegn betri vitund Securitas hf. sem meðal annars vitnar til framburðar J. Við starfslok sín hafi kærandi óskað eindregið eftir því að þessar ávirðingar yrðu leiðréttar við X sf. og nafn hennar hreinsað, en framlögð gögn sýni að það hafi ekki verið gert.

Þá veki það sérstaka athygli kæranda að í umsögn Securitas hf. sé í engu svarað staðhæfingum kæranda um það hversu verulega hafi hallað á konur við öryggisgæslu og þá einkum í yfirmannsstöðum hjá fyrirtækinu. Á Securitas hf. hvíli þó sú ábyrgð að leggja fram gögn, ætli fyrirtækið sér að mótmæla staðhæfingunum.

Hvað varði störf kæranda og það ástand sem hún hafi búið við á vinnustað sínum sé meðal annars vísað til yfirlýsingar L, samstarfsmanns hennar. Tekið sé fram að hann starfi enn fyrir Securitas hf. en setji engu að síður fram yfirlýsingu og segi meðal annars orðrétt: „Ég tók fljótlega eftir óvild D í garð A og hvernig framkoma hans var allt öðruvísi við hana en okkur strákana. Það skal tekið fram að annar kvenkyns starfsmaður Securitas/X hefur ljáð því máls (sic) í návist minni og annarra að henni finnist framkoma D einkennast af karlrembu í sinn garð.“

Kærandi byggir málstað sinn á því að samstarfsörðugleika hennar og síðar meir uppsögn hennar, þrátt fyrir reynslu og metnað, hafi mátt rekja til sérstakrar óvildar í garð kæranda vegna kynferðis hennar. Tilraun Securitas hf. til að leggja fram gögn til stuðnings því að uppsögnin hafi aðeins verið vegna samstarfsörðugleika sem alfarið hafi verið að rekja til kæranda styðji þetta enn frekar, enda virðist vera um að ræða léttvægar ávirðingar, ef ávirðingar skyldi kalla yfir höfuð. Sjaldgæft sé að strax komi til uppsagnar á grundvelli kynferðis, en almennt sé undanfari hennar einhver óvild í garð starfsmanns af sömu ástæðu.

Bendir kærandi á að hún hafi frá upphafi sagt að samstarf þeirra D hafi verið stirt og kærandi hafi margoft reynt að bæta þau samskipti með því til dæmis að vera hressilegri og reyna að leiða hjá sér framkomu hans gagnvart sér. Því miður hafi það ekkert haft að segja. Á fundinum 18. nóvember 2008 hafi G spurt D sérstaklega um þann ágreining sem milli þeirra hafi verið og þá hafi D ekki kannast við neinn ágreining. Þá kannist kærandi ekki við að D hafi ítrekað þurft að vanda um fyrir henni. Í fyrravor hafi D rætt við kæranda vegna ábendinga frá þremur starfsmönnum X sf., að kæranda minnir, um að kærandi þyrfti að vera glaðlegri þar sem hún virki stundum þurr á manninn. Samkvæmt því sem kærandi best muni hafi þetta verið eina skiptið.

Þá myndi kærandi vilja frekari skýringar frá D varðandi það hvaða tölvuvinnu hún hafi ekki sinnt að kenna samstarfsfólki sínu. Öryggisvörðum á vakt kæranda hafi verið kennt að fylla út helstu skjölin sem voru notuð og einnig á símakerfið. Kærandi hafi beðið um að M kenndi öryggisverðinum, sem hafi síðast verið hjá kæranda, á símakerfið þar sem hún hafi þekkt það best. Einnig tekur kærandi fram að öll tölvuvinnsla sé á ábyrgð vaktstjóra á hverjum tíma og hafi kærandi sinnt því að mestu sjálf.

Spjallrásin sem Securitas hf. hafi bent á sé læst einkaspjallrás einungis fyrir starfsmenn Securitas hf. í þessu verkefni. Þar hafi hlutir sjaldnast verið ræddir á mjög alvörugefinn hátt og málfars hafi ekki endilega verið gætt. Kærandi telur sig ekki hafa verið með ítrekaðar ávirðingar á viðskiptavini þar og enn síður á samstarfsmenn sína sem einnig hafi verið á þessari rás.

Kærandi minnist þess ekki að hafa sent neinn póst um D á yfirmann öryggismála hjá X sf. og skorar því á hann að leggja þennan tilgreinda póst fram. Þess skuli getið að yfirmaður öryggismála hjá X sf. sé C, tengdasonur D og fyrrverandi yfirmaður kæranda hjá Securitas hf.

Kærandi kveður sig hafa átt ágætis samskipti við alla samstarfsmenn sína utan einn. Þá telur kærandi það styðja mál sitt og sýna fram á veika vörn Securitas hf. að yfirlýsingar K og M skuli vera settar fram. Sé þess óskað geti kærandi vandkvæðalaust óskað eftir meðmælum um störf sín frá fólki sem hún hafi verið í samskiptum við í álverinu, þótt þau komi þessu máli í raun ekki við. Kvörtun K frá 26. september 2008 eigi ekki við rök að styðjast og bendir kærandi á tölvupóst frá J máli sínu til stuðnings. Kærandi hafi óskað eftir því við D að hann leiðrétti málið við K áður en kæranda var sagt upp, en hann hafi neitað því. G hafi einnig farið fram á það á fundinum 18. nóvember 2008 að nafn kæranda yrði hreinsað af þessari kvörtun hjá X sf., en D neitað því. Hvað varði yfirlýsingu M þá finnist kæranda hún varla svara verð þar sem þar standi varla sannleikskorn. Til að skýra samskipti þeirra M betur megi það koma fram að hún svo gott sem lagði kæranda í einelti síðustu tæpa þrjá mánuðina áður en kæranda var sagt upp. Kærandi hafi verið orðin með mikil streitueinkenni, þ.e. svefnleysi, aukna tíðni mígrenikasta og brjóstsviða, og kviðið því mjög að mæta á dagvaktir. Að fenginni reynslu hafi kærandi ekki getað leitað til D vegna þessa máls. Það virðist vera að M hafi farið í „fýlu“ við kæranda eftir smámál í fyrra haust. Upp frá því hafi hún ekki yrt á kæranda og sýnt sér bæði dónaskap og virðingarleysi í návist starfsmanna og gesta. Fljótt hafi kærandi gefist upp á að bjóða henni góðan dag þar sem henni hafi ekki verið svarað. Andrúmsloftið hafi verið mjög þvingað og kæranda liðið ákaflega illa í vinnunni upp frá þessu. Þess skal getið að á sama tíma hafi J kvartað við D fyrir hönd tveggja starfsmanna undan hegðun og framkomu M og núna nýverið kvartaði svo einn vaktstjórinn undan einelti af hennar hálfu. Kærandi telur því yfirlýsingu hennar falla um sjálfa sig.

 

III.

Sjónarmið Securitas hf.

Securitas hf. mótmælir því einarðlega að fyrirtækið hafi í nokkru hallað á rétt kæranda eða brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við uppsögn á vinnusamningi við kæranda hinn 22. október 2008. Samkvæmt ráðningarsamningi kæranda og Securitas hf., dagsettum 11. júlí 2007, hafi verið umsamið með aðilum að ráðningartími væri ótímabundinn en um uppsagnarfrest færi samkvæmt kjarasamningi. Óumdeilt sé að þar sé átt við kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Austurlands er gildir frá 1. febrúar 2008 til 30. nóvember 2010. Samkvæmt 12. kafla samningsins og almennum meginreglum íslensks vinnuréttar sé atvinnurekanda heimilt að segja upp ótímabundnum ráðningarsamningi án þess að sérstakar ástæður liggi þar að baki. Hins vegar verði atvinnurekandi, fyrir kærunefnd jafnréttismála, að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans um uppsögn, ef leiddar eru líkur að því að við uppsögnina hafi einstaklingi verið mismunað á þeim grundvelli.

Securitas hf. byggir framar öllu á því að kærandi hafi engar líkur leitt að því að fyrirtækið hafi sagt upp vinnusamningnum við kæranda vegna kynferðis hennar og því beri Securitas hf. ekki að lögum að afsanna fullyrðingar kæranda í því efni. Að mati Securitas hf. séu þær fullyrðingar ekki studdar neinum þeim gögnum, málsástæðum eða öðrum haldbærum rökum sem veitt geti hina minnstu vísbendingu um að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis. Allt að einu telur Securitas hf. nú nauðsynlegt vegna þess að mál þetta hefur verið lagt fyrir kærunefndina að gera ítarlega grein fyrir þeim ástæðum sem lágu að baki ákvörðun fyrirtækisins um að segja upp vinnusamningi við kæranda og er á því byggt að þær ástæður hafi verið málefnalegar og hafi ekki strítt gegn ákvæðum laga nr. 10/2008.

Bendir Securitas hf. á að í öllum fyrirtækjarekstri sé stöðugt leitað leiða til að spara rekstrarkostnað og sé liður í því að greina og þætta einstaka hluta starfseminnar. Sumarið 2008 ákvað Securitas hf. að hætta að veita tiltekna þjónustu í starfsemi sinni á Austurlandi er laut að því að hafa mannaða bifreið til taks á næturtíma alla daga ársins en útreikningar fyrirtækisins höfðu sýnt að verulegt tap var á þeirri þjónustu. Viðskiptavinum Securitas hf. hafi verið kynnt þessi ákvörðun með bréfum, dagsettum 30. maí 2008, með samningsbundnum þriggja mánaða fyrirvara. Vegna þessara skipulagsbreytinga hafi Securitas hf. sagt upp tveimur starfsmönnum sem aðallega höfðu sinnt störfum við þessa þjónustu, en til viðbótar hafi skapast svigrúm til þess að D, forstöðumaður Securitas hf. á Austurlandi, gæti bætt við sig gæslustörfum hjá einum viðskiptavina Securitas hf., X sf., þar sem hann hafi ekki lengur þurft að sinna störfum sem tengdust hinni aflögðu þjónustu. Þetta hafi leitt til þess að Securitas hf. sagði upp vinnusamningi við kæranda þar sem fyrirtækið taldi sig ekki lengur þurfa á vinnuframlagi hennar að halda. Þessar ástæður hafi verið kynntar fyrir kæranda á fundi með F, framkvæmdastjóra gæslusviðs Securitas hf., sem haldinn var 18. nóvember 2008, að viðstöddum G, framkvæmdastjóra stéttarfélags kæranda, í samræmi við 3. mgr. greinar 12.3.2 kjarasamningsins. Ekki hafi því af hálfu Securitas hf. verið brotið gegn þeim rétti kæranda sem tilgreindur sé í 1. mgr. greinarinnar að fá viðtal um starfslok sín og ástæður uppsagnar.

Með því að kærandi kaus að fara með mál þetta fyrir kærunefnd jafnréttismála og halda því fram að ákvörðun Securitas hf. um að segja upp vinnusamningnum af framangreindum ástæðum frekar en vinnusamningi við einhvern annan ótilgreindan starfsmann sinn, hafi átt rót sína að rekja til kynferðislegrar mismununar, sé nauðsynlegt að greina frá því við hvaða sjónarmið Securitas hf. miðaði og lagði til grundvallar við þá ákvörðun.

Viðurkennt sé af kæranda að samstarf hennar og D, yfirmanns hennar, er hún gegndi störfum fyrir Securitas hf., hafi ekki gengið vel og því sé lýst þannig í kæru að „einhver ágreiningur“ hafi komið upp milli þeirra og að hann hafi „e.t.v. átt erfiðara en ella að hlusta á hugmyndir hennar“ vegna „nákvæmni [hennar] í vinnubrögðum“ og þeirrar staðreyndar að hún væri kona. Hugleiðingum kæranda hvað hin síðarnefndu tvö atriði áhrærir er algerlega mótmælt en hitt sé rétt að ágreiningur hafi komið upp með D og kæranda er laut að aðfinnslum D við framkomu kæranda gagnvart samstarfsfólki sínu, starfsmönnum X sf. og gestum félagsins. Kvartanir þessar hafi til dæmis lotið að því að kærandi hefði ekki góða framkomu. Suma samstarfsmenn sína hafi hún ekki yrt á og sinnti enn fremur ekki með góðu móti að kenna samstarfsmönnum tölvuvinnu svo sem henni hafi borið að gera. D hafi talið sig ítrekað þurfa að vanda um við kæranda og beina fyrirmælum til hennar um að gæta eðlilegra samskiptahátta við samferðafólk sitt á vinnustað en það hafi verið árangurslaust. Þá hafi D fengið vitneskju um að kærandi hefði sent yfirmanni öryggisgæslu X sf. tölvupóst þar sem hún hafi lýst því yfir að Securitas hf. væri ekki að sinna störfum sínum fyrir félagið sem skyldi. Auk þess hafi D haft vitneskju um að kærandi hafði ítrekað í frammi ávirðingar á spjallrás á netinu í garð samstarfsfólks síns og viðskiptavina. Loks hafi K, starfsmaður viðskiptavinar Securitas hf., komið formlegri kvörtun á framfæri við D vegna aðgerðarleysis kæranda við umbeðið verk aðfaranótt mánudagsins 22. september 2008. Öll þessi atriði hafi leitt til þess að Securitas hf. ákvað að segja upp vinnusamningi við kæranda fremur en vinnusamningi við einhvern annan starfsmann. Ákvörðunin hafi því verið byggð á samstarfsörðugleikum. Um þetta hafi Securitas hf. haft frjálst val enda byggðist sú ákvörðun ekki á kynferði kæranda heldur öðrum þáttum í hennar fari sem Securitas hf. hafi talið vega þyngst við ákvörðunina. Þá hafi Securitas hf. haft sérstaklega í huga að vaktstjórastarfið væri þjónustustarf þar sem nauðsynlegt sé að gætt sé þjónustulipurðar og fyllstu kurteisi.

Þegar þessi afstaða sé virt komi ekki til greina að telja að Securitas hf. hafi borið að taka sérstaklega til mats starfsreynslu og eða menntun kæranda andspænis sömu þáttum varðandi aðra starfsmenn þegar fyrirtækið hafi tekið ákvörðun um að segja upp vinnusamningi við kæranda. Engar slíkar kröfur séu gerðar til atvinnurekenda, hvorki í lögum né kjarasamningum, varðandi uppsögn vinnusamninga. Allt öðru máli kunni að gegna við ráðningu í starf en þá reyni að sjálfsögðu nær eingöngu á hlutlægt mat atvinnurekanda sem ekki þekki til viðkomandi aðila. Persónulegir hagir starfsmanns, eins og hér sé lýst, geti þannig vegið þungt við ákvörðun atvinnurekanda um uppsögn og sé lögmætt að grundvalla ákvörðun á þeim svo fremi sem þeir lúta ekki að kynferði. Securitas hf. telur að slík aðstaða og heimild atvinnurekanda gagnvart einstökum starfsmanni gangi framar þeirri almennu skyldu sem lögð sé á atvinnurekendur og lýst í 1. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Þá vísar Securitas hf. til fyrri álita kærunefndar jafnréttismála máli sínu til stuðnings, einkum mála nr. 9/2003, 9/2004, 1/2005 og 1/2006, en í þeim öllum hafi verið byggt á því að fram hafi komið að meginástæða eða ástæður uppsagna verði raktar til tiltekinnar aðstöðu eða atvika sem ekki hafi lotið að kynferði kæranda. Á því sé byggt að skýra verði þessar niðurstöður kærunefndarinnar þannig að ekki séu gerðar ríkar sönnunarkröfur til atvinnurekanda um að sýna fram á að kynferði kærenda hafi ekki ráðið ákvörðun um brottvikningu. Nægilegt sé að benda á að lögmætar ástæður hafi legið til grundvallar, svipaðar þeim ástæðum sem raktar hafi verið og voru uppi í máli þessu enda samrýmist það best samspili 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og meginreglu vinnuréttar um frjálsan gagnkvæman uppsagnarrétt aðila í vinnuréttarsambandi.

Að lokum vísar Securitas hf. til gagna sem lögð voru fram til stuðnings málsástæðum fyrirtækisins, en þau sýni fram á að yfirmaður kæranda hafi staðið frammi fyrir verulegum samstarfsörðugleikum við kæranda.

 

IV.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Sama gildir um stöðuhækkanir, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, meðal annars við uppsögn, skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.

Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þegar kæranda var sagt upp stöðu sinni sem vaktstjóra hjá Securitas hf. í lok október 2008. Kærandi telur sig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. hlotið óhagstæðari meðferð við ákvörðun um uppsögn en einstaklingar af gagnstæðu kyni. Í því sambandi bendir kærandi einnig á að færri konur hafi starfað hjá Securitas hf. á Austurlandi, hvort sem litið væri til vaktstjórnar eða almennrar öryggisgæslu. Auk þess vísar kærandi til þess að hún telji sig hafa haft meiri reynslu af umræddum störfum en þeir karlkyns starfsmenn sem hún ber sig saman við og að hún hafi ekki haft minni menntun en þeir.

Af hálfu kæranda er nánar tiltekið litið svo á að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 18. gr. laganna sem leggi víðtækar skyldur á vinnuveitendur og stéttarfélög að jafna stöðu á vinnumarkaði, auk þess sem brotið hafi verið gegn 1. mgr. 24. gr. laganna sem banni mismunun vegna kynferðis við uppsagnir. Vegna þess að færri konur en karlar séu í vaktstjóra- og þjónustustörfum hjá Securitas hf. hafi sérstök ástæða verið til þess að mati kæranda að gæta þess sérstaklega að segja henni ekki upp, enda hafi kærandi verið eini kvenkyns vaktstjórinn hjá Securitas hf. á Austurlandi. Securitas hf. hafi ekki getað skýrt hvaða skipulagsbreytingar það hafi verið sem gert hafi uppsögn hennar nauðsynlega frekar en þeirra karlmanna sem störfuðu henni við hlið. Hafi Securitas hf., með vísan til 4. mgr. 26. gr., ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hennar hafi ráðið ákvörðun um uppsögn hennar, sbr. til hliðsjónar 5. mgr. 26. gr. laganna.

Í kjölfar uppsagnarinnar var leitað skýringar hjá Securitas hf. á ástæðum uppsagnarinnar og mun hafa komið fram á fundi málsaðila, sem haldinn var af því tilefni, að uppsögn kæranda væri að rekja til skipulagsbreytinga hjá fyrirtækinu, sbr. og bréf Samtaka atvinnulífsins, dagsett 5. janúar 2008 (á að vera 2009), og að höfð hafi verið hliðsjón af starfsaldri kæranda hjá fyrirtækinu við uppsögnina.

Í skriflegum athugasemdum Securitas hf. til nefndarinnar kemur fram að sumarið 2008 hafi verið gerðar breytingar á starfsemi fyrirtækisins á Austurlandi og að í kjölfar þess hafi tveimur starfsmönnum verið sagt upp sem aðallega höfðu sinnt þeirri þjónustu sem skipulagsbreytingar lutu að. Í athugasemdunum er jafnframt gerð grein fyrir ástæðum þess að kæranda var sagt upp störfum, en þær skýringar komu hvorki fram á fundi sem haldinn var með kæranda né í tilvísuðu bréfi Samtaka atvinnulífsins. Í athugasemdum Securitas hf. kemur fram að ástæða uppsagnar kæranda hafi verið samstarfsörðugleikar kæranda og yfirmanns hennar. Er því lýst svo að samstarf kæranda og yfirmannsins hafi ekki gengið vel og að ágreiningur hafi verið milli þeirra og er í því sambandi vísað til orðalags í kæru til nefndarinnar. Af hálfu Securitas hf. er á því byggt að ágreiningur aðila hafi lotið að aðfinnslum yfirmannsins vegna framkomu kæranda gagnvart samstarfsfólki sínu, starfsmönnum tiltekins fyrirtækis og gestum þess. Kærandi hafi ekki sýnt góða framkomu og verið mislynd. Yfirmaður kæranda hafi vandað um við kæranda án árangurs. Eru meintir samstarfsörðugleikar nánar raktir í skriflegum athugasemdum Securitas hf. til nefndarinnar og hafi þeir leitt til uppsagnarinnar. Kynferði kæranda hafi ekki haft neitt með uppsögnina að gera.

Svo sem að framan er rakið telur kærandi að þær fullyrðingar Securitas hf., að ástæður uppsagnarinnar hafi verið framangreind atvik, eigi ekki við rök að styðjast. Kærandi kannast þó við, sbr. kæru hennar til nefndarinnar, að ágreiningur hafi komið upp milli sín og yfirmanns sem megi meðal annars rekja til nákvæmni hennar í vinnubrögðum, en að sú staðreynd að hún var kona hafi skapað henni ákveðna óvild þar sem yfirmaðurinn hafi e.t.v. átt erfiðara með að hlusta á hugmyndir hennar en ella. Jafnframt gerir kærandi í síðari athugasemdum sínum til nefndarinnar nokkra grein fyrir öðrum atriðum sem Securitas hf. taldi aðfinnsluverð í hegðun hennar, en kærandi taldi nokkur þeirra atriða kunna að eiga sér viðeigandi skýringar.

Nokkuð af gögnum hefur verið lagt fram af hálfu málsaðila varðandi meinta samstarfsörðugleika og aðfinnslur í garð kæranda. Ljóst er að þau gögn eru að nokkru misvísandi en staðfesta engu að síður að ágreiningur var allnokkur milli umræddra aðila og samstarfsörðugleikar. Þá verður að telja að nægilega sé fram komið að sá viðskiptavinur sem kærandi annaðist störf hjá hafi talið ástæðu til að kvarta yfir störfum kæranda og framkomu við starfsmenn sína, en gögn þar að lútandi voru lögð fyrir kærunefnd.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja nægilega fram komið að ástæða þess að Securitas hf. ákvað að segja kæranda upp störfum hafi átt rætur að rekja til ágreinings og samstarfsörðugleika við yfirmann kæranda, svo og til aðfinnslna sem fram höfðu komið varðandi störf og framkomu kæranda á vinnustað. Kærandi kannast við að slíku hafi verið til að dreifa í einhverjum mæli en fellst ekki á að bera þar sök og telur að ástæður aðfinnslna eigi sér viðeigandi skýringar, svo sem rakið er hér að framan.

Þegar svo háttar til sem hér greinir þykir ekki sýnt að uppsögn kæranda verði rakin til kynferðis hennar sérstaklega, heldur verði hún rakin til framangreindra samstarfsörðugleika milli kæranda og yfirmanns hennar. Af hálfu kærunefndar verður ekki fallist á að framangreindur ágreiningur og aðfinnslur í garð kæranda, þegar þær eru virtar í heild, teljist léttvægar, en eins og hér stendur á þykir ekki þörf á að greina frekar ástæður þeirra örðugleika sem uppi voru eða leggja frekar mat á orsakir þeirra.  

Það er því niðurstaða nefndarinnar að með uppsögn kæranda úr starfi, sbr. bréf hinn 22. október 2008, hafi Securitas hf. ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Af því leiðir jafnframt að hafnað er kröfu kæranda um að Securitas hf. greiði kæranda kostnað vegna kæru þessarar.


Ú r s k u r ð a r o r ð

Uppsögn kæranda, A, úr starfi hjá Securitas hf. braut ekki gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

Kröfu um greiðslu kostnaðar við að hafa kæruna uppi er hafnað.

 

Andri Árnason

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. Þórðardóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum