Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2009 Utanríkisráðuneytið

Afhending greinargerðar Íslands til landgrunnsnefndar S.þ. um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna

Landgrunn Íslands
Landgrunn_Islands

Í gær var afhent í New York greinargerð Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna. Greinargerðin nær annars vegar til Ægisdjúps í suðurhluta Síldarsmugunnar fyrir norðaustan land en haustið 2006 náðist samkomulag milli Íslands, Noregs og Danmerkur f.h. Færeyja um skiptingu landgrunnsins þar. Hins vegar tekur greinargerðin til landgrunns á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar suðvestur af landinu sem Ísland gerir eitt ríkja tilkall til. Ytri mörk landgrunns á Reykjaneshrygg hafa verið endurskoðuð og útvíkkuð í ljósi aukins skilnings á ákvæðum hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um neðansjávarhæðir og -hryggi og þróunar í túlkun á þeim á undanförnum áratugum.

Greinargerðin nær að svo stöddu ekki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis í suðri, sem er hluti af íslenska landgrunninu en Bretland, Írland og Danmörk f.h. Færeyja gera einnig kröfu til, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að enginn tímafrestur gildir um greinargerðir um ytri mörk landgrunns á umdeildum hafsvæðum sem fleiri en eitt ríki gera tilkall til og hefur landgrunnsnefndin ekki vald til að fjalla um slíkar greinargerðir nema með samþykki allra deiluaðila.

Samkvæmt hafréttarsamningnum eiga strandríki sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum sem eru jafnframt ytri mörk efnahagslögsögunnar. Mörg ríki, þ.á m. Ísland, eiga hins vegar sökum náttúrulegra aðstæðna víðáttumeiri hafsbotnsréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins. Viðkomandi ríki skulu senda landgrunnsnefndinni ítarlega greinargerð um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um landgrunnsmörkin. Á grundvelli tillagna nefndarinnar getur strandríkið síðan ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.

Gert er ráð fyrir að mörk landgrunns strandríkja utan 200 sjómílna verði til lykta leidd í eitt skipti fyrir öll á komandi árum á grundvelli ákvæða hafréttarsamningsins. Lögð hefur verið áhersla á að Íslendingar öðlist yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum enda er ljóst að réttindi yfir landgrunninu munu fá aukna þýðingu í framtíðinni. Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna, þ.e. Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton Rockall-svæðið, eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands.

Þær náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, t.d. jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan sem telst úthaf og ná ekki til fiskistofna né annarra auðlinda þess.

Undirbúningur greinargerðarinnar sem afhent var í dag hófst árið 2000 en hann fólst m.a. í umfangsmiklum mælingum og rannsóknum á landgrunninu. Greinargerðin var unnin af starfshópi undir forystu utanríkisráðuneytisins en tæknilegur undirbúningur hennar var fyrst og fremst í höndum Íslenskra orkurannsókna. Greinargerðin samanstendur af: 1) stuttri samantekt („Executive Summary") sem er hinn opinberi hluti greinargerðarinnar, 2) hinni eiginlegu greinargerð sem er afar ítarleg og 3) rafrænu fylgiskjalasafni.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum