Hoppa yfir valmynd
13. maí 2009 Dómsmálaráðuneytið

Lög um um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði taka gildi 15. maí

Lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði taka gildi 15. maí nk. Með lögunum getur eigandi íbúðarhúsnæðis leitað eftir greiðsluaðlögun vegna skulda sem tryggðar eru með veði í húsnæði hans, ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um einhvern tíma ófær um að standa í fullum skilum á greiðslum. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur tekið að sér að annast upplýsingagjöf um úrræðið.

Áður en einstaklingur óskar eftir tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna verður hann að hafa leitað annarra tiltækra greiðsluerfiðleikaúrræða sem í boði eru hjá lánastofnunum og sýna fram á að þau úrræði hafi reynst ófullnægjandi. Sé svo getur hann óskað eftir greiðsluaðlöguninni með því að senda skriflega beiðni til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem hann á lögheimili. Taki héraðsdómari beiðnina til greina skal hann skipa umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni. Viðkomandi greiðir þá aðeins þær greiðslur af lánum sem talið er að hann geti staðið straum af. Frestað er greiðslu þess hluta skuldbindinga sem eftir eru svo lengi sem greiðsluaðlögun stendur, sem getur verið í allt að fimm ár.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur samið við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna um að annast upplýsingagjöf um úrræðið. Hægt er að hafa samband þangað símleiðis, sími 551-4485, en á vef hennar, www.rad.is, er einnig að finna greinargóðar upplýsingar.

Nánari upplýsingar um greiðsluaðlögun er að finna hér á vef ráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta