Hoppa yfir valmynd
12. júní 2009 Forsætisráðuneytið

100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar - 21 verkefni af 48 afgreidd á fyrstu 33 dögunum

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs setti sér metnaðarfull markmið í 100 daga áætlun sinni sem birt var um leið og ríkisstjórnin tók til starfa. Áætlunin tekur til allra þeirra verka sem verður að ljúka fljótt til að takast megi að endurreisa íslenskan efnahag og byggja upp samfélagið á ný eftir áfallið síðastliðið haust.

Á þeim 33 dögum sem liðnir eru frá því að ríkisstjórnin tók við hefur hún lokið við 21 af 48 verkefnum sem skilgreind voru í 100 daga áætluninni. Hægt er að fylgjast með uppfærslu áætlunarinnar á www.island.is og þar má einnig finna ítarlegan stjórnarsáttmála stjórnarinnar og fréttir af störfum hennar.

Á þessu tíma hefur ríkisstjórnin:

 1. Samið um Icesave við Breta og Hollendinga til að greiða fyrir alþjóðlegu samstarfi og endurreisn efnahagslífsins.
 2. Lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi sem gerir ráð fyrir því að þingið feli ríkisstjórn að sækja um aðild að Evrópusambandinu
 3. Hafið vinnu við mótun sóknaráætlunar fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og bættra lífskjara.
 4. Jafnframt sóknaráætluninni hefur hafist vinna við mótun atvinnustefnu til framtíðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins.og fleiri.
 5. Stóraukið samráð við hagsmunasamtök á vinnumarkaði þar sem skipst hefur verið á skoðunum um ríkisfjármál, atvinnumál og stöðugleikasáttmála.  
 6. Hafið vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélaginu til að skilgreina vanda samtímans og framtíðarvalkosti í mikilvægum málaflokkum. 
 7. Hafið samráð við lífeyrissjóði og innlenda fjárfesta um öfluga uppbyggingu á næstu árum til að efla atvinnulífið og berjast gegn atvinnuleysi. 
 8. Lagt fram á Alþingi frumvarp um eignaumsýslufélag á vegum ríkisins sem vista á þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem eiga í vandræðum.
 9. Lagt fram frumvarp til eyða óvissu um framtíð sparisjóða, félagsform þeirra og réttindi stofnfjáreigenda og fleira sem varðar rekstrargrundvöll þeirra. 
 10. Lagt fram á Alþingi frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem afnemur skilyrði um ábyrgðarmenn.
 11. Lagt fram á Alþingi frumvarp sem varðar breytingu á fiskveiðistjórnun og þar með taldar heimildir til handfæraveiða yfir sumartímann.
 12. Lagt fram veglegan styrk til efla Nýsköpunarsjóð námsmanna til til að fjölga sumarstörfum og nýjum atvinnutækifærum fyrir ungt fólk.
 13. Lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á stjórnarráði Íslands sem meðal annars fela í sér fækkun ráðuneyta og skilvirkari og öflugri stjórnsýslu.
 14. Skipað starfshóp til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með þátttöku allra stjórnmálaflokka á Alþingi og fjölmargra hagsmunasamtaka.
 15. Lagt fram náttúruverndaráætlun til ársins 2013 til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd á Íslandi.
 16. Hafið endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka fyrr en áætlað var til að svara þeim spurningum sem nýlega hafa vaknað um þau.
 17. Hafið vinnu við endurskoðun upplýsingalaga til að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að opinberum upplýsingum.
 18. Hafið vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.
 19. Lagt fram og samþykkt i ríkisstjórn frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur til þess að tryggja þjóðinni síðasta orðið í meiriháttar málum. 
 20. Lagafrumvarp samþykkt í ríkisstjórn sem felur kjararáði að lækka hæstu laun hjá ríkinu og félögum á þess vegum, þannig að enginn verði með hærri laun en forsætisráðherra.
 21. Tekið ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna í ríkisstjórn.


Á næstu dögum og vikum mun ríkisstjórnin afgreiða mörg af stærstu málum 100 daga áætlunarinnar, þar með talin mál er snúa að endurfjármögnun bankakerfisins og áætlanir um áherslur í ríkisfjármálum til skemmri og lengri tíma.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira